Mbl.is 21. desember 2009 | Minningargreinar  

Hrafn Sæmundsson fæddist á Krakavöllum í Flókadal í Fljótum 12. júní 1933. Hann lést 10. desember sl.

Hann var sonur hjónanna Guðrúnar Valdnýjar Þorláksdóttur húsmóður, f. 1892, d. 1980 og Sæmundar Dúasonar, bónda og síðar kennara í Fljótum, í Grímsey og á Siglufirði, f. 1889, d. 1988.

Systkini Hrafns voru:

 • Magna Sæmundsdóttir, f. 1911,
 • Þorlákur Sæmundsson f. 1913
 • Dúi Sæmundsson fæddir 1913,
 • KarKarl Sæmundsson, f. 1919, og
 • Jón Sæmundsson, f. 1922.
  Uppeldissystir Hrafns var
 • Æsa Karlsdóttir, f. 1927.
  Þau eru öll látin.
Hrafn Sæmundsson - ókunnur ljósmyndari

Hrafn Sæmundsson - ókunnur ljósmyndari

Hinn 1. október 1960 kvæntist Hrafn Ester Huldu Tyrfingsdóttur, f. 13. desember 1932.

Dætur þeirra eru:

1) Agnes Huld sálfræðingur, f. 1961. Eiginmaður Páll Breiðfjörð Pálsson verkfræðingur. Börn þeirra eru
 • Eva María og
 • Páll Elvar, sambýlismaður Evu er Hjalti Kristinsson, dóttir þeirra er
 • Alma Júlía.

2) Hulda María tónlistakona, f. 1962. Eiginmaður Björn Hersteinn Herbertsson vélfræðingur.
Börn þeirra eru
 • Viktor Hrafn,
 • Zophanías og
 • Fjölnir Þór.

3) Berglind Hrönn félagsráðgjafi, f. 1966. Eiginmaður Ólafur Vignir Björnsson verkfræðingur.
Börn þeirra eru
Sindri Freyr, sambýliskona Kristbjörg Helga Sigurbjörnsdóttir,
 • Hrafnhildur og
 • Ester Hulda.

Hrafn starfaði sem prentari hjá Þjóðviljanum og síðar hjá Blaðaprenti. Árið 1982 söðlaði hann um og hóf störf hjá Félagsmálastofnun Kópavogs sem atvinnumálafulltrúi og síðar fulltrúi í málefnum fatlaðra. Hrafn vann ötullega að félagsmálum og áttu málefni aldraðra og fatlaðra hug hans allan. Störf hans náðu langt út fyrir ramma hefðbundinnar vinnu. Hrafn og Ester bjuggu alla tíð í Kópavogi.

Hrafn verður jarðsunginn frá Digraneskirkju í dag, mánudaginn 21. desember og hefst athöfnin kl. 13.

Langferð er lokið og ný tekin við. Eftir sitjum við fátækari. Með pabba er farin persóna sem setti lit sinn á umhverfi sitt. Fólk minnist hans frá hinum ýmsum aðstæðum, gjarnan tengdum starfi hans og baráttu. Málefnin voru mörg og ekkert gefið eftir. Jafn réttur allra var meginmálið og gilti einu hver átti í hlut. Baráttan var háð á vettvangi samfélagsmála og vopnið var penni. Oft komu viðbrögð og úr urðu snarpar umræður, gjarnan á síðum blaðanna. Stundum var beðið fyrir kveðju frá ókunnugu fólki og ósjálfrátt varð maður örlítið reistari af því að eiga svona merkilegan pabba.

Pabbi hafði einstakt lag á að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og notaði þá gjarnan setningu eins og „ég ætla nú ekkert að skipta mér af en...“. Í kjölfarið fylgdi hugmynd, verklýsing og áætlun. Enginn þurrkur var í hugmyndabrunninum og fram á síðustu stundu var hann í vinnuhug. Þar sem ég sit og leyfi minningunum að streyma finn ég þakklæti fyrir að hafa fengið að vera þátttakandi í lífi pabba. Á þann hátt hafa mótast skoðanir og lífsgildi sem vert er að halda í.

Hjá pabba var húmorinn aldrei langt undan enda góð leið til að koma sínu á framfæri. Alvarleiki lífsins var litaður léttari tónum með húmor sem á köflum var dökkur og hárbeittur. Þar var hann sjálfur ekki undanskilinn og gríninu beindi hann gjarnan að sjálfum sér.

Hamingju pabba með fjölskyldu sína voru lítil takmörk sett. Hvatning og hrós til dætra voru með eindæmum og stundum á mörkum þess mögulega. Slíkt veganesti er ómetanlegt. Gleði hans jókst eftir því sem ríkidæmið stækkaði, barnabörnum fjölgaði og brosið varð breitt þegar fyrsta langafabarnið fæddist sl. vor. Minningarnar eru margar og engin leið að fanga þær með fátæklegum orðum. Ég kveð pabba minn með þakklæti og söknuð í huga.

Berglind Hrönn Hrafnsdóttir.
-------------------------------------------------

Hann Krummi afi var frábær maður. Fyrstu minningar sem ég man af honum eru úr Bræðratungunni þar sem hann og Ester amma bjuggu svo lengi. Hann naut þess að vera lengi í vel heitu baði og lyktaði alltaf vel af rakspíra. Hann missti þefskynið þegar hann var lítill og stundum bað hann mig að segja sér hvort hann hefði sett of mikið af rakspíranum. Það var alltaf svo gott að vera í Bræðró hjá ömmu og afa. Þar var bókasafn og aðstaða þar sem afi skrifaði mikið.

Þegar ég var lítil lék ég mér oft að því að leita að myndinni af honum í Mogganum, því hann hefur í gegnum tíðina sent inn óteljandi greinar. Ég er stolt af honum afa mínum fyrir að hafa verið svo hjartahlýr og góður maður. Fjölskyldan var honum alltaf efst í huga og alltaf þegar dætur hans hittust með börnin nefndi hann hversu yndislegt það væri að eiga svona flotta fjölskyldu. Hann var mjög hreykinn af dætrum sínum þremur og öllum barnabörnunum, það fór ekki á milli mála. Önnur sterk minning sem ég á um hann afa minn eru göngurnar sem hann gekk með Hana-nú, það fannst honum gaman enda var hann ofsalega félagslyndur.

Krummi afi söng líka mikið, við sungum stundum saman þegar ég var yngri man ég. Ég söng fyrir hann í 70 ára afmælinu hans, og var það erfitt fyrir mig því ég er svo sviðshrædd, en ég man hvað mig langaði að gera það fyrir hann. Hann vann á Félagsmálastofnun Kópavogs og var þar mikils metinn og man ég eftir öllum styttunum og gripunum sem hann hefur fengið í gegnum tíðina fyrir vel unnin störf og þá sérstaklega í málefnum fatlaðra.

Krummi afi var vinstrisinnaður, skrifaði djarft um samfélagið og málefni líðandi stundar og deildi skoðunum sínum með landsmönnum í Mogganum. Það var svo ofsalega sorglegt þegar afi greindist með Parkinsonsjúkdóminn, hann fór þá að eiga erfitt með skrif. Skrif sem voru honum svo mikilvæg. Ég man að pabbi hjálpaði honum mikið með því að koma upp betri skrifaðstöðu og hann tölvuvæddi afa gamla svo hann gæti haldið áfram að skrifa. Ég veit að honum þótti mjög vænt um það.

Það er þó nokkur tími síðan hann hætti að geta skrifað og sungið en núna er hann kominn á betri stað þar sem hann getur gert þessa hluti á ný. Krummi afi varð langafi í apríl og það lifnaði yfir honum þegar ég kom í heimsókn með litlu dóttur mína hana Ölmu Júlíu. Ég er svo ánægð að hann fékk að kynnast henni. Elsku afi minn ég sakna þín en ég er ánægð að þú sért kominn á stað þar sem þér líður vel og sjúkdómurinn nær þér ekki.

Þín Eva María.
---------------------------------------------------

 • „Og fuglinn stakk höfðinu undir vænginn í
 • ljósaskiptunum því á morgun ætlaði
 • hann að fljúga inn í garðinn og
 • syngja kveðjusönginn“

(Haustið, H.S.)

Krumminn hefur nú sungið kveðjusönginn. Hann var hagmæltur eins og ofangreindar ljóðlínur bera með sér. Nokkur ljóða hans birtust í Mogganum en oftar fengu aðeins nákomnir að rýna í þau. Greinar hans í dagblöðum birtust þó reglulega og yfir langt tímabil. Þær báru vott hugsjón um betra mannlíf og baráttu fyrir jöfnuði og mannréttindum. „Þetta er nú bara Krummi garmurinn, áttu mínútu?“ var viðkvæðið þegar hurðinni á skrifstofu minni var lokið upp árla morguns, svo að segja daglega í næstum áratug.

Krummi hóf störf sem atvinnumálafulltrúi hinn 1. sept. 1982, sama dag og ég tók við starfi félagsmálastjóra Kópavogs. Í endurminningum sínum við starfslok árið 2000 lýsti hann þessum degi sem nýjum fæðingardegi sínum; endurfæðingu eftir að hafa orðið að hverfa frá iðn sinni sökum heilsubrests og við honum blöstu nú tækifærin til að hrinda hugsjónum í framkvæmd. Mínútuna fékk Krumminn ætíð, raunar eins margar og það tók okkur að brjóta málið til mergjar. Þær voru ófáar hugmyndirnar sem hann deildi með mér á morgnana, misgóðar eins og við mátti búast en nokkrar gátu tæplega talist annað en tær snilld.

Krumminn var aldursforsetinn á Félagsmálastofnun en félagsmálastjórinn yngstur lengi vel. Þrátt fyrir aldursmun varð samstarfið fljótt náið, byggt á gagnkvæmri virðingu og hlýju – hugsun og hjörtu slógu í takt. Frumkvöðlastarf í félagsþjónustu var unnið á mörgum sviðum. Nokkur dæmi sem áttu öðru fremur rætur í eldmóði og frjórri hugsun Hrafns Sæmundssonar: Hana-nú hópurinn: hin mjúka lending á elliárin, hæfing fyrir atvinnulaus ungmenni, starfsendurhæfingastöðin Örvi, sambýli fatlaðra í Vallargerði, tilsjónarstarf með fötluðum ungmennum, ferlimál og ferðaþjónusta fatlaðra auk stofnunar Atvinnuþróunarfélags Kópavogs.

Krumminn var ekki einungis fundvís á verðug viðfangsefni í velferðarþjónustu. Ekki síður voru starfsaðferðir hans á undan sinni samtíð. Samstarf við félagasamtök um úrlausnarefnin, Öryrkjabandalagið, Þroskahjálp, Menningar- og fræðslusamband alþýðu, svo dæmi séu nefnd, til að efla virkni og til að tryggja að sjónarmið notenda þjónustunnar fengju að njóta sín. Einstaklingsmiðuð og notendastýrð velferðarþjónusta eru slagorð dagsins í dag, hugsun sem var samofin sýn Krumma á mannréttindi fólks með fötlun fyrir hartnær þremur áratugum, svo langt var hann á undan sinni samtíð. Krummi kunni nefnilega að hlusta á fólk.

Um nokkurra ára skeið vann ég ásamt góðu fólki fyrst við samningu laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og síðar laga um málefni fatlaðra. Krummi fylgdist með framvindu þessarar vinnu af lifandi áhuga og á þeim augnablikum sem þörf var á örvun og leiðbeiningu átti ég Krumma að. Ætíð lagði hann gott til mála, af lítillæti og hógværð sem jafnan einkenndi hann. Það er bjart yfir minningu Hrafns Sæmundssonar. Ég votta fjölskyldu hans og öðrum ástvinum samúð mína.

Bragi Guðbrandsson.
----------------------------------------------------

Ég kynntist Hrafni vini mínum, eða Krumma, eins og við vorum vön að kalla hann, hjá Félagsmálastofnun Kópavogs, 1986 þegar ég hóf starf þar. Á þessum vinnustað kynntist ég litríkum og afar skemmtilegum hópi fólks. Félagsþjónusta í bæjarfélaginu var í örri þróun á þessum tíma og óvenjumikið um ýmiskonar nýbreytni og nýsköpun sem Krummi átti stóran þátt í að móta. Eitt af þeim mörgu verkefnum sem hann stofnaði ásamt Ásdísi Skúladóttur var langt á undan sinni samtíð. Þetta var Hananú en það verkefni endurspeglaði ágætlegu viðhorf hans. Krumma var umhugað um að brjóta niður ósýnilega múra milli kynslóða og milli fatlaðra og ófatlaðra og að fólk tæki sjálft þátt í að móta eigið umhverfi og hafa það skemmtilegt saman.

Það var fátt sem hugsjónamaðurinn Krummi hafði ekki áhuga og skoðanir á. Um það vitnar mikill fjöldi dagblaðsgreina sem hann skrifaði í gegnum árin um hin fjölbreyttustu þjóðarfélagsmál svo sem réttindamál aldraðra og fatlaðra, verndaða vinnustaði, fötluð ungmenni, heilbrigðismál aldraðra, atvinnumál, atvinnuþróun, jafnréttismál, lífeyrissjóðsmál, efnahagsmál og stjórnmál.

Síðustu æviárin dvaldi Krummi á hjúkrunarheimili aldraðra í Sunnuhlíð og tók virkan þátt í félagsstarfinu þar meðan heilsan entist. Hann brá ekki út af venju og átti frumkvæði að því að setja af stað nýjungar. Þannig setti hann upp ljóðasýningu með eigin frumsömdum ljóðum. Hann átti heiðurinn af því að koma á vikulegum samsöng íbúa og aðstandenda þeirra. Krummi var raunar mikill tónlistaráhugamaður og vel að sér í tónlistarfræðum. Ein af ánægjulegustu stundum mínum með Krumma var þegar við fórum á tónleika Gunnars Kvaran þar sem við fengum tækifæri til að upplifa og hugleiða hinar áhrifamiklu sellósvítur Bachs.

Lífsviðhorf Krumma koma vel fram í þeim hugmyndum og verkefnum sem hann mótaði, sem fólst í því að fólk ætti að taka virkan þátt í að móta samfélagið, það ætti að bjóða viðteknum viðhorfum birginn, berjast fyrir hagsmunum þeirra sem ættu undir högg að sækja en jafnframt að njóta tilverunnar. Þessi viðhorf endurspegluðu lífsstarf Krumma. Blessuð sé minning góðs vinar.

Ég færi Ester og dætrum þeirra mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Ómar H. Kristmundsson.
---------------------------------------------------- 

Við „Krummi garmurinn“ eins og Hrafn Sæmundsson kallaði sig stundum unnum mörg ár hjá Félagsþjónustu Kópavogs. Krummi var hugmyndasmiður félagsstarfsins þar sem minn starfsvettvangur var og einnig minn ráðgjafi og styrkur á víðsjálum stundum. Hann var maðurinn sem gat og þorði að segja það sem hann meinti og hræddist ekki gangrýni þó á stundum væri sannleikur hans ærið beittur.

Honum tókst að vekja marga samferðamennina til umhugsunar hvað betur mætti fara í öldrunarmálum og reyndar samfélagsmálum. Hann trúði því og vissi að peningar eru nauðsynlegir en félagsleg heilsa er ekki síður lífsgæði. Kímni hans var við brugðið svo sem tilsvör hans um heilsuna sem var afar léleg til margra ára að hún væri „andstyggilega góð núna“ og í einum af mörgum skrifunum segir hann:

„Staðan er sem sagt: Linnulausar kvalir. Sólarhringsþjónusta og ég get ekki lengur setið við tölvuna nema stutta stund. Ég er samt galfrískur. Vantar bara varahluti!“ Sárþjáður er hugur hans fullur af hugsjónum og hugmyndum hvernig aldraðir megi öðlast virðingu og sjálfstæði. Hann þoldi ekki að það að verða aldraður samkvæmt lögum væri ávísun á útskúfun úr samfélagi manna og þá ættu allir að vera eins.

Hann sá fyrir sér einstaklinga með ólíkar væntingar, hæfileika og tilfinningar á meðan lífneistinn og heilsan væru til staðar.

Þvílíkur frumkvöðull var þessi alþýðuhetja að mótbyrinn sem hann fékk braut hann ekki, heldur herti hans ríku réttlætiskennd og efldi hann til dáða.

Hrafn var, eins og krummi nafni hans, dökkur á brún og brá. Hann var athugull og hans sjóðnæmu gáfur voru á vaktinni við öll tækifæri. Hann var tilfinningavera þótt hann gæti virkað hrjúfur á stundum. Dökk, athugul augu hans voru afar næm á hnökra samfélagsins. Þessi vinur í raun var félagsmálatröll, fastur fyrir og náði árangri með vitsmunalegri yfirvegun og þolinmæði. Krummi var mjög góður penni og hann skilur eftir sig margar athyglisverðar blaðagreinar. Einnig var hann ljóðelskur og eftir hann liggja mörg ljóð. Hann sendi vinum sínum ljóð á jólum og er ég svo heppin að hafa varðveitt mínar jólaóskir frá Krumma. Í ljóðinu Vetrarþokan segir hann:

 • Hún grét.
 • Og hryggð hennar lagðist
 • yfir dalinn.
 • Og þegar vorsólin gægðist
 • yfir fjallsbrúnina voru
 • örlög hennar ráðin.
 • Þá vissu sölt tárin á nýgræðingur
 • að vetrarþokan elskar aðeins
 • einu sinni.

Um þennan hugsuð væri hægt að skrifa heila bók en hér var aðeins hugmyndin að kveðja hann og þakka honum alla hans handleiðslu, uppörvun og styrk sem hann veitti mér á meðan hann gat.

Hrafn Sæmundsson á ríkan þátt í því að félagsstarf aldraðra í Kópavogi veitir þeim er það stunda ríkuleg lífsgæði. Lífsgæði sem verða ekki metin til fjár vegna þess að þau eru ómetanleg.

Ég kveð þennan vin minn með djúpri þökk og virðingu. Ég votta þér Ester mín, dætrum ykkar og fjölskyldum þeirra svo og öðrum syrgjendum mína dýpstu samúð. Góða ferð Krummi minn og ég vona að vistaskiptin verði þér bærileg.

Sigurbjörg Björgvinsdóttir.
--------------------------------------------------

Við kölluðum þig Krumma, samstarfsfélagann og vininn sem með svo ómótstæðilegum og áberandi hætti mótaði vinnuumhverfi okkar, viðhorf og samskipti. Þú varst einn af þeim, sem án þess að hafa nokkuð fyrir því láta manni líða vel, þú gafst manni þessa þægilegu tilfinningu að maður skipti máli, væri jafnvel mjög mikilvægur. Ég kynntist þér árið 1991. Ég var nýr starfsmaður, þú eldri og reyndari. Þú sýndir mér áhuga og ljúfmennsku og virðing þín var sönn. Það var auðvelt að endurgjalda slíka framkomu.

Við urðum góðir vinir þar sem ekkert var svo viðkvæmt að ekki væri hægt að ræða það. Ég fann líka hversu mikilvægt það var fyrir þig að koma fram af hreinskilni. Ef eitthvað lá þér á hjarta, þá léstu vita af því. Hvort sem það var þægilegt eða ekki. Þú varst í eðli þínu rólyndur maður, ég sá þig aldrei skipta skapi. Oft varstu hugsi en þó oftast ræðinn og glettinn, orðheppinn og skemmtilegur. Þú varst eiginlega gallalaus, svona í minningunni. Ímyndin er ljóslifandi. Þú varst alltaf starfandi, komst til vinnu ótrúlega snemma hvern dag, hefðir getað farið upp úr hádegi.

En það var þér víðs fjarri. Starfið var þér svo kært, krafturinn óþrjótandi og hugurinn frjór. Þú komst með óteljandi frábærar hugmyndir sem margar hverjar urðu kveikjan að margbreytilegri starfsemi Félagsþjónustunnar, sem þú sýndir slíkt trygglyndi að eftir var tekið. Sérstaklega var þér annt um starfsemi í þágu fatlaðra einstaklinga og ekki síður þjónustu við aldraða. Þú stofnaðir Hana-nú hópinn, lagðir grunn að hugmyndafræði félagsstarfsins og samdir greinar og ljóð. Í verkum þínum lagðir þú áherslu á nýbreytni og frelsi og hafðir illan bifur á forsjárhyggju.

Þú vildir vinna með fólki, en ekki fyrir það. Þú vildir breyta félagslegri ásýnd ellinnar, hugtakið „áhyggjulaust ævikvöld“ ætti ekki að vera til sagðir þú. Aldraðir ættu að vera virkir og virtir. Þú naust þín í vinnu og samstarf þitt, Sigurbjargar Björgvinsdóttur og Ásdísar Skúladóttur ól af sér endalausar tilraunir sem margar hverjar urðu undirstöður í framgangi félagsstarfs aldraðra og eru enn að mótast.

Síðustu ár þín barðist þú við veikindi sem nú hafa lagt þig að velli. Okkur vinnufélögum þínum leyndist ekki hversu oft þú varst sárþjáður, ekki síst þegar dró að starfslokum þínum árið 2000. En þú kvartaðir ekki, sagðir frekar að þú værir svo „helv. hamingjusamur“ að það hálfa væri nóg. Þú gafst okkur tækifæri til að njóta starfskrafta þinna miklu lengur en hægt var að ætlast til.

Minn ágæti Krummi, ég vil þakka þér samstarfsár okkar, heilræðin og hvatningu og þolinmæðina sem þú sýndir þegar þér fannst málin ekki ganga eins hratt fyrir sig og þú vildir. Ég minnist nú með hlýju þeirrar stundar þegar Félagsþjónustunni gafst tækifæri til að heiðra þig fyrir frábær störf fyrir Kópavogsbæ. Þú hafðir svo sannarlega unnið til þess. Ég vil með þessum orðum kveðja þig fyrir hönd stofnunarinnar.

Ég votta fjölskyldu Hrafns dýpstu samúð.

Aðalsteinn Sigfússon.
----------------------------------------------------

Þá er Krummi garmurinn, eins og hann gjarnan nefndi sig, allur. Eitt af gullkornum hans var: „Að eignast nýjan vinnufélaga er eins og að fá nýja bók í jólagjöf“. Þessu viðhorfi fengum við að kynnast þegar við hófum störf hjá Kópavogsbæ fyrir fleiri árum en við kærum okkur um að muna. Að eigin sögn var það „aldrei neitt sérstakt markmið hjá honum að vera leiðinlegur“ og hann sagði oft stundarhátt, þegar hann kom inn á kaffistofuna „þetta er nú meiri helvítis hamingjan“.

Þetta átti sérstaklega við ef þar voru fyrir nokkrar fóstrur (eins og leikskólakennarar kölluðust þá). Ógleymanlegt var þegar hann sótti um aukaaðild að Fóstruvinafélaginu þar sem hann taldi sig vera þungt haldinn af „negatívri fóstrufóbíu“ og það gæti læknað hann af einkennunum. Krummi var heimspekingur af Guðs náð og mikill mannvinur. Baráttu- og hugsjónamaður og óeigingjarn á tíma í þágu þeirra málefna sem hann tók að sér eða hafði áhuga á. Hann var róttækur og mikill húmoristi.

Maður verður ríkari í andanum og betri manneskja af því að kynnast sumum samferðarmönnum sínum. Hann Krummi garmurinn okkar var einn af þeim. Hann hefur gert lífið blæbrigðaríkara í okkar augum og hann hefur kennt okkur að sjá spaugilegu hliðarnar á því sorglega og sorglegu hliðarnar á því spaugilega. Elsku Krummi, takk fyrir að hafa verið til og verið eins og þú varst.

Anna Karen Ásgeirsdóttir og Sesselja Hauksdóttir.
----------------------------------------------------------------

Niðjatal Guðrúnar Þorláksdóttur f. 11. maí 1892 d. 13. maí. 1980 og Sæmundar Dúasonar f. 10. nóv. 1889 d. 4. feb. 1988 =  http://gopfrettir.net/skrar/SD_nidjatal.pdf