Hulda Steinsdóttir

Mbl.is 12. janúar 2019 | Minningargreinar 

Hulda Steinsdóttir fæddist á Hring í Stíflu í Skagafirði 4. febrúar 1927. Hún lést á Skjóli 13. desember 2018.

Foreldrar hennar voru hjónin Elínbjörg Hjálmarsdóttir og Steinn Jónsson, sem bæði eru látin.
Systkini Huldu eru

 • Regína Steinsdóttir,
  Jóhann Steinsson 
  Sigrún Steinsdóttir,  
  Ingólfur Steinsson,
  Jón Ssteinsson,
  Fanney Steinsdóttir,
  Sigurjón Steinsson (Ninni)
  Hreinn Steinddon
Hulda Steinsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Hulda Steinsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Eiginmaður Huldu var Hilmar Steinólfsson bifreiðastjóri frá Fáskrúðsfirði, sem lést í ársbyrjun 2008. Hann var sonur hjónanna Sigurborgar Jónsdóttur og Steinólfs Benediktssonar.

Hilmar og Hulda stofnuðu heimili á Siglufirði og áttu þar heima uns þau fluttust til Reykjavíkur árið 1983.

Börn Huldu og Hilmars eru:

1) Sigurður Gunnar Hilmarsson, f. 1951, kona hans er Jónína S. Gunnarsdóttir.
Börn þeirra eru
 • Hulda Hrönn,
 • Þórður Már,
 • Grétar Ingi,
 • Gunnar Rafn og
 • Hilmar Smári.

2) Sigurborg Jóna Hilmarsdóttir, f. 1955, í sambúð með Ara Má Torfasyni.
Synir hennar eru
 • Hilmar, sem lést 2010, og
 • Árni Þór.

3) Elínborg Hilmarsdóttir, f. 1958, maður hennar er Magnús Pétursson.
Börn þeirra eru
 • Valur Ingvi,
 • Sigríður Selma,
 • Brynjar Helgi og
 • Arnar Bjarki.

4) Iðunn Ása Hilmarsdóttir, f. 1961
Börn hennar eru
.
 • Ásta Huld,
 • Hjördís Gígja og
 • Hreinn Orri. 

Barnabörn Huldu og Hilmars eru 14 talsins, barnabarnabörnin 21 og eitt barnabarnabarnabarn.

Hulda fór níu ára gömul í fóstur til hjónanna Sigríðar Pálsdóttur og Gunnars Ásgrímssonar á Siglufirði en þau átti Hulda að alla tíð meðan þau lifðu. Hulda fór ung að vinna fyrir sér, saltaði síld og vann við skrifstofustörf í Kaupfélaginu á Siglufirði. Hún stundaði nám við Barna- og gagnfræðaskólann á kirkjuloftinu á Siglufirði, fór í Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði en henni var létt um nám og hefði vel sómt sér á langskólabekk. Eftir að hún flutti til Reykjavíkur lagði hún fyrir sig tungumálanám við Menntaskólann við Hamrahlíð.

Hulda veiktist í nóvember 1955 af lömunarveiki sem setti mark sitt á hana æ síðan. Hún vann úti eftir sem áður, sinnti börnum, heimili og tengdamóður sinni, Sigurborgu, sem alla tíð bjó á heimili Huldu og Hilmars. Hulda lagði drjúgan skerf af mörkum til félagsmála. Hún var ein af stofnendum Sjálfsbjargar árið 1958.

Hulda ferðaðist mikið og sótti fundi og ráðstefnur á vegum Sjálfsbjargar. Eftir Huldu eru fjölda blaðagreina og skrif um félagasamtök fatlaðra og heilbrigðismál. Á Siglufirði starfaði hún um árabil á skrifstofu Sjúkrahússins og rak sjúkrasamlagið þar í bæ um langt skeið. Þau hjónin stofnuðu flutningafyrirtæki, Vöruflutninga Hilmars Steinólfssonar hf., árið 1957 og ráku það um áratuga skeið uns þau fluttu suður.

Útför Huldu fór fram 21. desember 2018.

 • Þú ert gull og gersemi
 • góða besta mamma mín.
 • Dyggðir þínar dásami
 • eilíflega dóttir þín.
 • Vandvirkni og vinnusemi
 • væntumþykja úr augum skín
 • Hugrekki og hugulsemi
 • og huggun þegar hún er brýn.
 • Þrautseigja og þolinmæði
 • – kostir sem að prýða þig.
 • Bjölluhlátur, birtuljómi,
 • barlóm lætur eiga sig.
 • Trygglynd, trú, já algjört æði.
 • Takk fyrir að eiga mig.

(Höf. Anna Þóra)

Þín dóttir, Jóna.
----------------------------------------------

Margs ber að minnast og margt ber að þakka. Hulda var frænkan með stóru f-i. Fyrir litla stelpu á Siglufirði var það eins og að vera í ævintýri að vera á Suðurgötunni heima hjá Huldu og Hilmari.

Þau ráku stórt flutningafyrirtæki og alltaf margt fólk og eitthvað nýtt að gerast.

Að vera með Huldu í bílnum að rukka fyrir flutningana var alveg toppurinn fannst mér, að flækjast inn og út úr bílnum um allan bæ.

„Útilegurnar“ sem mín fjölskylda fór í með Huldu og krökkunum hennar á rauða Willys-jeppanum inn í Stíflu, en þaðan voru pabbi minn og Hulda, gleymast seint. Farið var snemma að morgni með tjald og nesti; eggjabrauð, kakó og kaffi.

Tjaldinu var slegið upp á Nefstaðatúninu og yfirleitt var farið yfir í Hringslandið og þá var keyrt yfir ána sem Hulda gerði eins og hún hefði aldrei gert annað.

Fljótaferðirnar enduðu svo á að farið var í heimsókn á Nýrækt.

Ekki má gleyma ferðalögunum sem ég fór með henni í, til Akureyrar, Húsavíkur, í Mývatnsveit og Grímsey svo eitthvað sé nefnt, að ógleymdri ferðinni til Noregs með Sjálfsbjörg. Þarna var gaman hjá okkur frænkunum.

Svo fluttu Hulda og Hilmar suður og þá fækkaði samverustundunum í bili. Þegar ég fór til Reykjavíkur í skóla 1985 var það auðvitað frænka sem reddaði mér húsaskjóli þann veturinn.

Þegar ég var sjálf komin með heimili hér fyrir sunnan lá leiðin oft í Álandið, Hraunbæinn og nú síðast á Skjól sem hún var til heimilis síðustu fjögur árin.

Elsku frænka, takk fyrir hvað þú varst alltaf yndislega góð við mig og nenntir að leyfa mér að skottast með þér. Hvíldu í friði.

 • Hér við íshaf byggð var borin
 • bærinn okkar Siglufjörður.
 • Inn í fjöllin skarpt var skorinn
 • Skaparinn af höndum gjörður.

 • Til að veita skjól frá skaða
 • skipunum á norðurslóðum.
 • Sem að báru guma glaða
 • gull er fundu í hafsins sjóðum.

 • Hér er skjól og hér er ylur
 • hvarf þó ís að ströndum renni.
 • Þó að hamist hörku bylur
 • hlýju samt hið innra kenni.

 • Fólkið sem að byggir bæinn
 • bestu lofgjörð honum syngur.
 • Um að bæti öllum haginn
 • eitt að vera Siglfirðingur.

(Bjarki Árnason)

Þín Elínbjörg.

------------------------------------ 

Hulda Steinsdóttir fæddist 4. febrúar 1927. Hún lést 13. desember 2018.

Útför Huldu fór fram 21. desember 2018.

Hulda Steinsdóttir er látin, rúmlega níræð að aldri. Hulda sá um rekstur flutningafyrirtækis Hilla frænda, Hilmars Steinólfssonar, og ók út vörum í verslanir í Willy's-jeppa sínum, rauðum og hvítum. Við bræður aðstoðuðum við útkeyrsluna um leið og við gátum orðið að einhverju liði.

Hulda fékk lömunarveiki um þrítugt og átti upp frá því ekki auðvelt með gang en viljastyrkurinn var slíkur að okkur fannst hún aldrei í raun eiga við neina fötlun að stríða.

Við vorum eiginlega meira á Suðurgötunni hjá Huldu og Hilmari en hjá ömmu og foreldrum okkar á Hvanneyrarbrautinni þegar við komum norður. Það var alltaf svo mikið líf í kringum fyrirtækið og heimilislífið; eitt sumarið var heimalningur á tröppunum sem þurfti sífellt að fá sitt, í stofunni var grammófónn á stöðugum þönum og við sungum látlaust heima eða við útkeyrsluna.

Þess á milli var farið í veiði inn í Fljót, en þangað átti Hulda rætur að rekja, eða í berjamó inn á Hólsdal – fram á fjörð eins og það var kallað eða inn í Leyning þar sem amma ólst upp. Einu sinni fórum við bræður með mömmu að veiða í Hólsánni og þurftum að stytta okkur leið yfir hálffulla skurði. Mamma tók sér stöðu klofvega yfir einn pyttinn og ætlaði að handlanga okkur yfir. Þá tókst ekki betur til en svo að hún féll aftur fyrir sig á bólakaf ofan í mórauða mýrardrulluna.

Hún saup hveljur en tókst að krafla sig upp á bakkann. Þá kom sér vel að Hulda bjó syðst í bænum. Hún tók fagnandi á móti okkur, færði mömmu í hrein föt af sér og Bogga og tengdamamma hennar, systir Gunnsteins afa, gaf okkur dýrindis bakkelsi eftir allt volkið.

Hulda stofnaði á Siglufirði ásamt þrettán öðrum fyrsta Sjálfsbjargarfélagið á Íslandi árið 1958 og var kjörin fyrsti gjaldkeri félagsins. Hún lét sig málefni fatlaðra miklu skipta og barðist fyrir kjörum þeirra. Dag nokkurn kom Hulda þar sem starfsmenn bæjarins voru að lagfæra gangstétt. Henni fannst kanturinn of hár, svo hún spurði verkstjórann hvort hann héldi að eldra fólk eða fatlað gæti stigið upp á svona stétt.

Hann sagði að þeir sem ekki gætu nýtt sér stéttina ættu bara að vera heima hjá sér. Sem betur fer eru slíkir fordómar að mestu horfnir. Sjálfsbjörg setti á fót vinnustofu fyrir fatlaða þar sem framleiddir voru vinnuvettlingar, stóð fyrir spilakvöldum og árlegri sumarferð og svo mætti lengi telja.

Árið 1983 fluttu Hulda og Hilmar suður til Reykjavíkur. Hulda hóf störf í Samvinnubankanum en Hilmar gerðist bílstjóri hjá ÁTVR. Eflaust hefur henni verið lífið léttara í snjóleysinu syðra, auk þess sem það var henni til hægðarauka að flytja úr tvílyftu húsi sem stóð í nokkrum bratta í íbúð á jarðhæð.

Hulda lét oft í ljós þá ósk að mega njóta leiðsagnar minnar um Svartaskóg þar sem ég stundaði nám. Aldrei varð af því en hún ferðaðist engu að síður víða, bæði um Evrópu og um Íslendingabyggðir vestanhafs; tók hjólastólinn með og brunaði á vit ævintýranna.

Hulda og Hilmar voru einstaklega samrýnd hjón og alltaf var gaman að heimsækja þau. Afkomendum þeirra sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Gunnsteinn Ólafsson. 
--------------------------------------

mbl.is  6. febrúar 2019 | Minningargreinar  

Hulda Steinsdóttir fæddist 4. febrúar 1927. Hún lést 13. desember 2018.

Útför Huldu fór fram 21. desember 2018.

„Mamma“. Þetta eina orð er stórt og sterkt í huga mínum núna þegar mamma mín hefur kvatt okkur en hún lést 13. desember síðastliðinn. Mamma hefði orðið 92 ára í dag. Hún var mikið afmælisbarn og gladdist alltaf þegar fólk mundi eftir afmælinu hennar, sló á þráðinn eða sendi kort. Við mamma vorum samferða í lífinu í rúm 60 ár.

Við vorum alltaf nánar, þó sérstaklega á mínum yngri árum. Mamma fékk lömunarveikina 1955 svo ég virðist ung hafa tekið að mér það hlutverk að hjálpa henni að komast þangað sem hún þurfti. Mamma lét fötlunina ekki stoppa sig, hún fór flest það sem hana langaði til, hvort sem það voru ferðalög utanlands eða innan. Þegar kemur að kveðjustund fara ýmsar minningar að láta á sér kræla.

Hugurinn reikar og ég stoppa við svo margt, brosi og rifja upp. Þegar farið var með „hersinguna“ í berjamó. Þá var það regla að við fylltum berjaílátið og fengjum svo heitt kakó og kleinu en eitt sinn gerðist ég sek um að setja slatta af lambaspörðum í fötuna og svo stór aðalbláber efst.

Ég reyndi þetta bara einu sinni! Að þessu uppátæki mínu var oft hlegið síðar meir. Eða ferðirnar inn í Haganesvík að sækja slátur fyrir hálfan bæinn því mamma var bóngóð kona. Þær eru svo margar, margar fleiri eftirminnilegar. Mamma var óhemju dugleg kona, féll nánast aldrei verk úr hendi. Hún t.d. gat gert fleira en eitt í einu meðan hún skoðaði sjónvarpið eða lagði okkur lífsreglurnar; um leið prjónaði hún sokka, vettlinga eða peysur á sama tíma. Ég man hve vel var tekið eftir okkur systkinunum þegar við spókuðum okkur í útprjónuðum peysunum um götur Siglufjarðar.

Mamma vildi allt fyrir okkur systkinin gera og oft létti hún undir eða hjálpaði okkur með heimaverkefnin í skólanum. Vinnubækurnar voru verðlaunaðar fyrir fallegan frágang, ekki það að við legðum svona mikla vinnu í þær heldur var það mamma sem sá til þess að vel væri gengið frá þeim.

Mamma byrjaði að vissu leyti nýtt líf þegar þau pabbi fluttu til Reykjavíkur; hún þurfti ekki lengur að setja í öll drif á Willy's-jeppanum til að komast að húsinu okkar eins og á Siglufirði heldur keyrði hún beint inn í upphitaðan bílskúr í Álandinu og gekk svo þaðan sem var innangengt í íbúðina. Mamma hafði alltaf sterkar taugar til Siglufjarðar, þar var hennar „heima“ og núna síðustu mánuðina sem hún lifði talaði hún um að sig langaði að skreppa norður einu sinni enn.

Nú ertu farin, mamma mín, en við sem eftir erum kveikjum á kerti og minnumst þín á afmælisdaginn. Ég sakna þín, elsku mamma mín, Guð geymi þig. Ég bið að heilsa pabba, ömmunum, öfunum, Hilmari okkar og bara öllum sem eru hjá þér.

 • Þú miðlaðir okkur mild og hlý
 • af móðurkærleikans gnótt.
 • Heim þú fæddir okkur í
 • og annaðist dag og nótt.

 • Sofðu nú róleg, mamma mín.
 • Við munum að hafa hljótt.
 • Þau breiða on'á þig börnin þín
 • og bjóða þér góða nótt.

(Kristján Árnason)

Þín dóttir Elínborg Hilmarsdóttir.