Tengt Siglufirði
Demantsbrúðkaup
Þann 13. þ. M (1946).
áttu hjónin frú Ingibjörg Þorleifsdóttir og Barði Barðason fyrv. skipstjóri
Demantsbrúðkaup.
Eru slíkir merkisdagar í lífi hjóna fátíðir, og munu ekki mörg hjónin hér í Siglufirði hafa lifað svo langan dag". Þessi sæmdarhjón
þekkja flestir Siglfirðingar, að minnsta kosti þeir, sem eldri eru. Barði Barðason er einn hinna fáu siglfirzku hákarlaformanna, sem enn eru á lífi, og settu svip á bæinn, þegar hann
var „upp á sitt hið bezta".
Ekki svo að skilja, að Barði setur enn sinn svip á bæinn, þegar hann, silfurhærður, þráðbeinn í baki, en kominn á níræðisaldur,
gengur eftir götum bæjarins. Hver sem lítur þennan aldna mann heima eða heiman, sér, að þar er enginn meðalmaður á ferð, heldur maður, sem. er einn úr hópi þeirra, sem
mestan hafa átt þáttinn í því að nútíð Íslands nýtur þess í dag sem raun er á.
Frú Ingibjörg er nýlega orðinn áttræð. Þann dag var mannmargt á heimili þeirra og höfðu margir þar margt að þakka. Komu þá glöggt í ljós vinsældir þeirra hjóna. Frú Ingibjörg stóð að vísu aldrei við stýrið hjá bónda sínum á úfnum öldum hafsins — þegar hann var að sækja björg í bú fyrir sig og Siglfirðinga hér fyr á árum, en hún hefur engu að síður haldið um stýrið með honum á þeirra farsæla fleyi. Að félagsmálum hér unnu þau aðallega í Goodtemplarareglunm og eru þau heiðursfélagar stúkunnar Framsókn.
Hafa félagar þeirra í þeim félagsskap og sýnt, að þau eru ekki gleymd og virða brautryðjendastarf þeirra, minnug þess, að öll byrjun er erfið. Hið litla hús Demantsbrúðhjónanna við Lindargötu er gæfulegt og á sína sögu. Er ekki að efa, að á jafn merkum degi og Demantsbrúðkaupsdagurinn er, rifjast margt upp frá liðnum dögum, frá því að Siglufjörður var lítið þorp, og til þess sem hann er í dag — miðstöð síldveiðanna og síldariðnaðar. —
Ég sendi brúðhjónunum beztu kveðju mína. Ég var einn þeirra, er bar að garði á heimili þeirra, er Barði var áttræður, og síðar er frúin
var áttræð. Ég þakka þeim fyrir síðast og árna þeim velfarnaðar og guðsblessunar á ókomnum dögum.
Jón Kjartansson
---------------------------------------------
Siglfirðingur - 28. nóvember 1946
Demantsbrúðkaup Þann 13. nóv. 1886 fór fram hjónavígsla í gömlu kirkjunni á Hvanneyri og voru gefin þar saman ung og myndarleg brúðhjón, þau Ingibjörg Þorleifsdóttir frá Siglunesi og Barði Barðason. Séra Skapti Jónsson, sem þá var prestur á Hvanneyri gaf brúðhjónin saman, og var þetta önnur hjónavígslan, sem framkvæmd var í prestakallinu það árið. íbúar í Hvanneyrarhreppi voru þá ekki fleiri en 319 sálir og fátt, sem til tíðinda bar.
Hjónavígsla þótti þá ekki svo lítill viðburður í fásinninu, og það því fremur, þegar von var á góðri brúðkaupsveizlu, eins og í þetta sinn. Því að hjónavígslunni lokinni var nú haldin fjölmenn veizla heima á Hvanneyri og boðið þangað mörgum gestum, bæði úr firðinum og af Siglunesi, var þar gleðskapur mikill. Var veizlan haldin í gamla bænum á Hvanneyri og litlu timburhúsi, sem var áföst við bæinn, en með gangi á milli.
Í húsi þessu voru margar veizlur haldnar, meðan það stóð á Hvanneyri, en 1895 var það flutt niður á Eyrina, þó að erfiðlega gengi að koma því þangað, og varð síðan um margra ára skeið heimili þeirra Barða og Ingibjargar, og var jafnan nefnt Barðahús og stendur enn við Grundargötu. Þessar minningar og margar fleiri rifjuðust upp, er þau Ingibjörg og Barði minntust 60 ára hjúskaparafmælis síns, þann 13. Nóvember 1946.
Allan sinn aldur hafa þau dvalið hér í Siglufirði og fylgst með þeim stórkostlegu breytingum sem orðið hafa hér á þessum árum og verið vel metin og vinsæl of öllum. Barði var um langt skeið einn af dugmestu og heppnustu hákarla formönnum og sjósóknurum hér um slóðir og jafnan glaður og reifur og lipurmenni hið mesta. Áhuga hans á sjónum og sjómennskuhæfileika hafa synir hans erft í ríkum mæli, eins og kunnugt er.
Frú Ingibjörg
hefur jafnan hugsað um heimili sitt með prýði og staðið við hlið manns síns í blíðu og stríðu. Ef unga fólkið, nú á dögum vill kynnast hjúskapartryggð,
sem þrautreynd er í löngum skóla, þá ætti það að kynnast demantsbrúðhjónunum í litla húsinu uppi á brekkunni. Siglfirðingar þakka þeim Ingibjörgu
og Barða fyrir hina miklu tryggð við átthaga sína og mikið og gott starf, sem þau hafa unnið hér á liðnum árum. Og allir vinir þeirra óska þeim til hamingju með þessi
sjaldgæfu en merku tímamót í lífi þeirra og biðja þess að bjart verði yfir ævikvöldi þeirra, og blessun Guðs megi hvíla yfir heimili þeirra og framtíð.
Ó. J. Þ.