Ingvi Brynjar Jakobsson lögregluvarðstjóri

mbl.is 24. apríl 2007 | Minningargreinar

Ingvi Jakobsson, fv. lögregluvarðstjóri á Keflavíkurflugvelli, fæddist 9. apríl 1927. Hann lést 17. apríl 2007.

Foreldrar Ingva Brynjars voru Jakob Einarsson húsgagnabólstrari, frá Finnsstöðum á Látraströnd, f. 25.6. 1894, d. 4.6. 1979, og Þórunn Elísabet Sveinsdóttir frá Þingeyri, leikkona og húsmóðir, f. 22.9. 1901, d. 10. 8.1983.

Þau bjuggu á Akureyri, Siglufirði, í Keflavík og Reykjavík.
Alsystkini Ingva Brynjars eru

 • Hólmfríður Sigurrós Jakobsdóttir, húsmóðir í Reykjavík , f. 20.11. 1929, og
  Sveinn Hermann Jakobsson húsasmiður, f. 20.6. 1931, Reykjanesbæ.
  Fóstursystir var
  Þórdís Baldvinsdóttir, látin.
Ingvi Jakobsson - ókunnur ljósmyndari

Ingvi Jakobsson - ókunnur ljósmyndari

Ingvi Brynjar kvæntist 5. apríl 1947 Ragnheiði Elínu Jónsdóttur, húsmóður, f. 9.12. 1927. Foreldrar hennar voru Eva Sæmundsóttir, f. 22.8. 1908, d. 16.12. 1993, og Jón Hjaltason, f. 29.3. 1898, d. 7.12. 1972.

Börn Ingva og Ragnheiðar eru

 1. Eva Bryndís Ingvadóttir, f. 5.8. 1947, fyrrverandi eiginmaður hennar er Sveinn Hannesson.
  Þau eiga fjögur börn.
 • Þórunn Ingvadóttir, f. 21.10. 1948, tónlistarkennari í Grímsnesi. Maður hennar er Guðmundur Pálmi Kragh. Þeirra börn eru fjögur.
 • Eyrún Jóna f. 28.11. 1949, hennar maður er Denis Robertson og eiga þau þrjú börn.
 • Aðalheiður, f. 13.10. 1951, húsmóðir. Fyrrverandi eiginmaður hennar er Ívar Erlendsson og eiga þau tvö börn.
 • Anna, f. 13.7. 1953, fyrrverandi maður hennar er Colm Boorman. Þau eiga eitt barn.
 • 2) Erla, f. 24.10. 1957, hennar maður er Ágúst Karlsson og eiga þau þrjú börn.

 • 3) Brynjar Ragnar, f. 6.9. 1959, kona hans er Sebastiana Maria Dandas.

Ingvi Brynjar fæddist á Akureyri og ólst upp í fæðingarbæ sínum fyrstu sex árin en eftir það í Hafnarfirði í fjögur ár og síðan á Siglufirði. Árið 1950 flutti hann til Keflavíkur og bjó þar til dauðadags. Hann stundaði nám í barnaskóla, gagnfræðaskóla, lögregluskóla og tónlistarskóla og sótti starfsnámskeið og mótornámskeið. Starfaði sem vélvirki á Siglufirði og í Keflavík 1946-1953 og við öryggisgæslu hjá Hamilton & Beck 1953-1955.

Hann var lögreglumaður á Keflavíkurflugvelli frá 1955–1997, varðstjóri og síðar rannsóknarlögreglumaður. Eftir það vann hann við sérverkefni í tvö ár sem ritstjóri afmælisritsins Framsókn 1937–1997, ásamt öðrum. Hann var formaður Iðnsveinafélags Keflavíkur 1952, í umhverfis- og hitaveitunefnd Keflavíkur og formaður klúbbsins Öruggur akstur í Keflavík um skeið.

Útför Ingva Brynjars fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.
--------------------------------------------------

Elsku pabbi, nú er kveðjustundin komin.

Við erum innilega þakklátar fyrir að hafa fengið að njóta þín eins og við þekktum þig best öll þessi ár. Sem einstaks ljúfmennis með létta lund, frábæra kímnigáfu og frásagnarhæfileika. Þar sem sitjum og minningarnar streyma að þá kemur efst í huga okkar vandvirkni þín í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur. T.d. þegar þú vast lopann, þá var það eins og vélgert. Þú varst ágætur hagyrðingur og margar vísurnar sem þú kastaðir fram og sú síðasta var kveðin í tilefni 80 ára afmælis þíns, þar sem þið mamma fögnuðuð 60 ára brúðkaupsafmæli ykkar. Vísan er svona.

 • Löngum var ég svifaseinn,
 • en sæmilegur nemi.
 • En dætur sex og drengur einn,
 • er dágóð framtaksemi.

Þú varst alltaf til staðar ef eitthvað bjátaði á og ákaflega úrræðagóður. Margar eru minningarnar um tjaldferðir, bústaðaferðir þar sem var prjónað, spilað bridge, sagðar sögur og leikið á létta strengi.

Þakka þér fyrir að vera pabbi okkar og þakka þér fyrir hana mömmu okkar sem þú elskaðir og áttir í rúm sextíu ár og nú syrgir þig sárt. Þið voruð sérlega samhent í öllu sem þið tókuð ykkur fyrir hendur og er það eitt og sér okkur frábær arfur.

Elsku pabbi, hvíl þú í friði og Guð blessi þig. Eyrún og Erla
--------------------------------------------------------------------

 • Ég sendi þér kæra kveðju,
 • nú komin er lífsins nótt.
 • Þig umvefji blessun og bænir,
 • ég bið að þú sofir rótt.

 • Þó svíði sorg mitt hjarta
 • þá sælt er að vita að því
 • þú laus ert úr veikinda viðjum,
 • þín veröld er björt á ný.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Elsku hjartans pabbi.

Heimilið ykkar mömmu var alltaf öllum opið og þið mamma stóðuð eins og klettar við hliðina á börnunum ykkar í gegnum gleði og sorgir. Margar áttum við ánægjustundir og ósjaldan var spilað bridge hvenær sem tækifæri gafst og oft fram undir morgun. Þín frábæra kímnigáfa kom öllum í gott skap og aldrei heyrðum við þig segja styggðaryrði um nokkurn mann. Elsku pabbi. Sokkarnir þínir sem þú prjónaðir á okkur öll eiga eftir að ylja okkur um ókomna tíð. Við kveðjum þig, elsku pabbi, við þökkum þér samleiðina í þessu lífi og hlökkum til endurfundar við þig.

Aðalheiður og Anna.
--------------------------------------------------

Hann afi minn var afskaplega skemmtilegur og yndislegur maður. Ég var mjög tengd honum enda bjuggum við mamma hjá ömmu og afa fyrsta aldursárið mitt og ég svo aftur síðar. Ég man aldrei til þess að hann hafi orðið reiður við mig, var alltaf hress og það var unun að hlusta á sögur hans af liðinni tíð. Við sátum oft saman og horfðum á sjónvarpið og hann var duglegur að útskýra fyrir mér hvað fyrir augu bar.

Alltaf fannst mér það jafn skondið þegar hann átti það til að borða frá mér snúða sem höfðu verið keyptir en hurfu þegar afi fór á næturbrölt. Rúsínan í pylsuendanum var þegar hann mætti í verslun með seðlaveskið sitt útatað í smjöri þar sem hann hafði smurt veskið nóttina áður, haldandi að það væri rúgbrauð. Það var yndislegt að hlusta á hann spila á flygilinn og orgelið og það að mig hefur alltaf langað til að læra á píanó er án efa afa að þakka. Vonandi að það verði einhvern tímann að veruleika.

Elsku afi minn, það er endalaust hægt að segja skemmtilegar sögur af þér og eflaust kunna margir fleiri sögur en ég en ég vil þakka þér fyrir allar þær yndislegu stundir sem við höfum átt saman um ævina. Ég hefði viljað að þær yrðu miklu fleiri núna þegar ég er flutt aftur á suðvesturhornið og að börnin mín hefðu fengið tækifæri til að kynnast þér betur. Mikið var gaman að við náðum að halda svona vel upp á áttræðsafmæli þitt og 60 ára brúðkaupsafmæli ykkar ömmu. Þú endaðir þetta svo sannarlega með stæl. Þín verður sárt saknað og það er skrítið að fá ekki aftur að heyra þegar maður kemur í heimsókn "Nei sæl elskan, ertu komin, gaman að sjá þig!" Hafðu ekki áhyggjur af ömmu, þú veist að við fjölskyldan eigum eftir að sinna henni vel. Hvíl þú friði, elsku afi minn, þú verður alltaf í hjarta mínu.

Þín  Berglind.
----------------------------------------

Það er lán að eiga góða foreldra, og það er enn meira lán að eiga góða foreldra og tengdaforeldra. Ég hef verið svo heppinn að hafa átt hvorttveggja. Nú hefur borið svo við að það hefur verið höggvið skarð í þennan hóp sómafólks. Ingvi tengdapabbi er látinn, nýorðinn áttræður. Ég ætla ekki að fara að telja upp alla hans mannkosti en þeir voru margir, heldur vil ég þakka Ingva tengdapabba fyrir samfylgdina í þau 25 ár sem ég hef þekkt hann. Ingvi Brynjar Jakobsson var góður tengdapabbi, takk fyrir það. Ég bið um styrk fyrir okkur öll sem söknum hans sárt og þá sérstaklega fyrir Ragnheiði eiginkonu hans.

Hvíl í friði, Ingvi Brynjar Jakobsson, þín verður sárt saknað.

Ágúst Karlsson
-------------------------------------------

Ég get ekki fylgt Ingva Brynjari Jakobssyni, fyrrv. lögreglufulltrúa, til grafar, þar sem ég á ekki heimangengt, en þess í stað ætla ég að skrifa nokkur orð.

Ég hitti Ingva Brynjar Jakobsson aðalvarðstjóra fyrst vorið 1972 er ég hóf störf í ríkislögreglunni á Keflavíkurflugvelli en hann var þá að hefja störf sem lögreglufulltrúi við rannsóknardeild embættisins.

Ingvi Brynjar var góður penni. Hann hafði bæði góða rithönd og svo var hann frábær íslenskumaður. Fáir við embættið höfðu eins gott vald á enskri tungu og Ingvi Brynjar, því var ósjaldan leitað í smiðju til hans þegar skrifa þurfti enskan texta.

Ingvi Brynjar var afburða námsmaður og góður á bókina, eins og sagt var, en hann var líka góður íþróttamaður. Hann keppti í frjálsum íþróttum og var einn fremsti spjótkastari landsins á sínum tíma.

Ingvi Brynjar var drengur góður og maður sátta og samlyndis. Hann átti mjög gott með að vinna með fólki og fyrir fólkið. Þessir eiginleikar komu að góðum notum í lögreglustarfinu.

Ingvi vildi láta rita nafnið Brynjar með punkti fyrir aftan Br og var hann því kallaður Ingvi punktur meðal vina og kunningja.

Þetta eru fátækleg skrif um góðan dreng sem nú er fallinn frá, en eftir stendur minningin um skemmtilegar stundir í leik og starfi.

Við Helga sendum frá Belgíu okkar innilegustu samúðarkveðjur til Rögnu og fjölskyldu.

Óskar Þórmundsson yfirlögregluþjónn.
----------------------------------------------------- 

2. maí 2007 | Minningargrein

Ingvi Brynjar Jakobsson fæddist 9. apríl 1927. Hann lést 17. apríl síðastliðinn og var útför hans gerð frá Keflavíkurkirkju 24. apríl.

Elsku langafi eða "Gullafi" eins og við kölluðum þig. Minningarnar okkar um þig eru margar og góðar, bæði þegar við komum til Íslands og þegar þú og Gullamma komuð til Danmerkur. Við munum sakna þín sárt. Guð geymi þig

 • Nú finn ég vorsins heiði í hjarta.
 • Horfin, dáin nóttin svarta.
 • Ótal drauma blíða, bjarta
 • barstu, vorsól, inn til mín.
 • Það er engin þörf að kvarta,
 • þegar blessuð sólin skín.

(Stefán frá Hvítadal)

Eva Mjöll, Breki Sveinn og Viktor Darri
------------------------------------------------------

Ekki óraði okkur fyrir að Ingvi frændi yrði allur aðeins 10 dögum eftir að við fögnuðum 80 ára afmæli hans og 60 ára hjúskaparafmæli þeirra Rögnu. Við vorum búin að hittast 3 helgar í röð, í veislum. Hann var svo hress og virtist alls ekki vera á förum. Þegar við kvöddum þau hjónin síðast göntuðumst við með það að við yrðum að halda áfram að hittast svona oft, það væri svo gaman, en áttum ekki von á að það yrði næst við jarðarför hans.

Ingvi var móðurbróðir okkar. Við þekktum hann ekki mikið í uppvextinum þar sem við bjuggum fyrir norðan en þau hjónin í Keflavík.

Það var viss ævintýraljómi yfir þessum frænda í hugum okkar barnanna enda var hann lögreglumaður og vann á Vellinum þar sem hermennirnir voru. Það var næstum því eins og hann byggi í útlöndum, fannst okkur.

Það var alltaf tilhlökkunarefni að fá jólapakka frá Rögnu og Ingva. Okkur fannst það afar spennandi því það var ekki oft sem maður fékk senda pakka.

Við kynntumst Ingva svo þegar við urðum eldri, fluttum suður og fórum að hafa meira samband við þau hjón. Okkur leist afar vel á þennan frænda okkar. Hann var þéttur á velli, handtakið hlýtt og hafði áhuga á okkur frá fyrstu stundu. Okkur þótti það afar merkilegt að hann tæki okkur nánast sem sínum eigin börnum og gæfi sér alltaf tíma til að tala við okkur. Við fundum aldrei fyrir kynslóðabili og hann hafði mikinn áhuga á að vita hvað við værum að gera.

Ingvi hafði gaman af að við kæmum í heimsókn til þeirra hjóna og var þá mikið spjallað og hlegið. Ingvi var mjög ánægður með hvað börn þeirra Rögnu og við systkinin náðum vel saman og hafði orð á því hvað honum fyndist það gott enda ekki sjálfgefið.

Ingvi var vel máli farinn, hafði góðan húmor og var tónelskur með afbrigðum. Hann byrjaði að læra á lítið stofuorgel barn að aldri en seinna varð svo hljóðfærið píanó og lauk hann 7. stigi sem hefur ekki verið auðvelt í fullu starfi og með stóra fjölskyldu. Hann spilaði sér og öðrum til ánægju til hinsta dags. Hann var mikill íþróttamaður á sínum yngri árum og vann til verðlauna á landsvísu.

Eftir að þau hjón fóru á eftirlaun höfðu þau nóg að gera. Aðspurður hvernig honum liði með að vera hættur að vinna, svaraði hann því til að hann hefði miklu meira að gera eftir að hann hefði farið eftirlaun. Það væri meira en full vinna að taka þátt í starfi eldri borgara. Var oft erfitt að hitta á þau hjón heima fyrir.

Kletturinn í lífi Ingva var konan hans Ragna sem stóð við hlið hans í meira en 60 ár.

Þau áttu miklu barnaláni að fagna, eignuðust 7 börn, sem öll lifa föður sinn. Mesti fjársjóður hans í lífinu sagði hann að væru konan hans, börnin og afkomendur þeirra.

Við systkinin kveðjum nú kæran frænda og þökkum honum samfylgdina. Við sendum Rögnu, börnum þeirra og afkomendum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Minningin um góðan dreng mun lifa í hjörtum okkar um ókomin ár.

Fyrir hönd okkar systkinanna. Bergþóra Þorsteinsdóttir.
------------------------------------------------------------------

Fallinn er frá öðlingur, kær vinur og afmælisbróðir, snöggt og óvænt. Liðin eru nærri 40 ár síðan ég hafði fyrstu kynni af Ingva og Rögnu – en þá var ég farinn að stíga verulega í vænginn við eina af dætrum þeirra. Ingvi kom mér strax fyrir sjónir sem yfirlætislaust prúðmenni með þægilega nærveru og ríka útgeislun. Fróður af flestu, en einkum ýmsu er varðaði tónlist og hafði greinilega ást á henni.

Það kom að því að Ingvi og Ragna urðu tengdaforeldrar mínir skamma hríð. Allar götur síðan hafa þau tekið mér sem týnda syninum er við höfum hist og sýnt af sér gestrisni, alúð og kærleika. Það er gott að kynnast og minnast við slíkt fólk. Elsku Ragna mín. Með hryggð í hjarta votta ég þér, börnunum þínum og fjölskyldum þeirra mína dýpstu samúð vegna fráfalls Ingva Brynjars Jakobssonar, því öðlingur er fallinn.

Grétar Þ. Hjaltason.
------------------------------------------------------------

 • Stundin líður tíminn tekur
 • toll af öllu hér
 • sviplegt brotthvarf söknuð vekur
 • sorg í hjarta mér.

 • Þú veitir yl í veröld kaldri
 • vermir ætíð mig
 • að hafa þó á unga aldri
 • eignast vin sem þig.

 • Þú varst ljós á villuvegi
 • viti á minni leið
 • þú varst skin á dökkum degi
 • dagleið þín var greið.

 • þú barst tryggð í traustri hendi
 • tárin straukst af kinn
 • þér ég mínar þakkir sendi
 • þú varst afi minn.

(Hákon Aðalsteinsson)

Elsku afi.

Þegar við hugsum til þín þá eigum við margar góðar minningar en efst í huga er sumarbústaðarferð við Sogið en þá vorum við 11 og 12 ára. Við vorum úti á vatni í árabát og amma sendi þig á öðrum bát til að taka myndir af okkur, og þú stóðst í bátnum og þóttist vera að detta og við hlógum mikið að því. En svo kom að því að þú dast aftur yfir þig og varst næstum farinn í vatnið.

Þegar myndirnar voru framkallaðar kom í ljós að þú hafðir tekið nokkrar myndir af skýjunum þegar þú varst að detta og þær eru ennþá til. Það voru engin jól eins frábær og jólin heima hjá ykkur ömmu því að þar var gengið í kringum jólatréð og sungin jólalög og stundum var það skemmtilegra en að opna pakkana. Elsku afi. Þú ert loksins búinn að fá hvíldina löngu og við þökkum þér fyrir allar góðu minningarnar og gleðistundirnar sem við áttum saman. Guð blessi þig.

Eva Rún og Guðlaug.
---------------------------------------------------

Þá hefur hann kvatt, blessaður. – Orð sem oft hafa hljómað og við gerum nú að okkar. Sú tilfinning ríkir að við höfum eins og þagnað – í miðri setningu í samtali sem ekki var lokið. Nýliðin afmælishátíð ykkar mömmu svo fersk í minni og þörfin fyrir að fá að vera þar enn um stund svo sterk. Nú lýsir leið gleðin yfir því að við náðum þó að vera þarna öll systkinin með ykkur þennan merkisdag.

Þá er að þakka fóstrið. Kunnum við að vera án þín? Þú sem alltaf varst? Fyrir hugskotssjónum líða myndir og þær eru margar: af þrautseiga völundinum vandvirka, magnaða bridgespilaranum, glaðsinna öðlingnum, hjálparhellunni. Þú varst maðurinn sem hugsaðir í lausnum. Já, og minningarnar um kvöldin mörgu þar sem við svifum inn í svefninn við píanóundirleik. Og ekki má gleyma skopskyninu og frásagnargáfunni – já, þú áttir auðvelt með að kitla hláturtaugarnar og það var notalegt að vera nærri þér.

En hugleiðingarnar um þig, karlinn minn, nú þar sem við sitjum og rifjum upp farinn veg, færa okkur heim sanninn um það að við höfum ekki misst. Við höfum eignast og átt. Maður missir ekki föður sinn. Hann er. Og nú þegar við vitum að við munum ekki sitja við hljóðfærið saman, prjóna, spila bridge né eiga orðastað um málefni sem okkur eru kær, huggum við okkur við orð æskuvinar þíns sem sögð voru nú á dögunum: að dauðinn sé í raun það að við förum að heiman og heim til Guðs, í ljós kærleikans. Far í friði.

Eva og Þórunn, Ingvadætur.
------------------------------------------------------

Elsku afi okkar. Við kveðjum þig með miklum söknuði. Við erum þakklát fyrir þau forréttindi að hafa átt þig að. Það var yndislegt hvað þú þekktir okkur hvert og eitt vel, og hafðir mikinn áhuga á öllu sem var að gerast í okkar lífi.

Við eigum ótalmargar góðar minningar um afa og má þar nefna allar sumarbústaðaferðirnar sem við fórum með honum þar sem farið var í útileiki og þau afi og amma tóku fullan þátt, spræk og síung.

Það er varla hægt að nefna hann afa án þess að minnast á sögurnar hans, sem voru af ýmsu tagi, lifandi, fullar af glettni og húmor – við elskuðum þær.

Afi var alltaf með eitthvað á prjónunum og það í bókstaflegri merkingu. Þegar við hittumst við hin ýmsu tækifæri var ekki óalgengt að hann væri með málband til að mæla fætur okkar svo við fengjum ullarsokka í réttri stærð. Í hugum okkar eru þetta sannkallaðir kærleikssokkar þar sem alúð og umhyggja var í hverri lykju.

Ferðirnar suður í Kefló til afa og ömmu í árlegu jólaboðin eru í huganum ómetanlegar, þar voru þau bæði hrókur alls fagnaðar, þar sem afi lék á flygilinn, sungið var og gengið í kringum jólatréð.

Oftar en ekki var komið við á heimili afa og ömmu á leið út á flugvöll. Alltaf var manni tekið jafn fagnandi, og skipti þá ekki máli hvort heldur var að nóttu eða degi.

Með gleði og þakklæti minnumst við þeirrar dýrmætu stundar sem við áttum með þér elsku afi, á afmælisdegi þínum fyrir rúmum 2 vikum.

 • Kallið er komið,
 • Komin er nú stundin,
 • Vinaskilnaðar viðkvæm stund.
 • Vinirnir kveðja

 • Vininn sinn látna,
 • Er sefur hér hinn síðasta blund.
 • Margs er að minnast,
 • Margt er hér að þakka.

 • Guði sé lof fyrir liðna tíð.
 • Margs er að minnast,
 • Margs er að sakna.
 • Guð þerri tregatárin stríð.

(Valdimar Briem)

Elsku afi okkar, Guð varðveiti þig að eilífu. Ástar- og saknaðarkveðjur

Ragnheiður Brynja, Hannes, Harpa og Ingvi Brynjar, Sveinsbörn.