Tengt Siglufirði
Mbl.is 14. júní 2019 | Minningargreinar | 1189 orð | 1 mynd
Jakobína Stefánsdóttir fæddist 4. ágúst 1923 að Borgargerði í Flókadal, Fljótum í Skagafirði. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri 27. maí 2019.
Foreldrar Jakobínu voru
Stefán Aðalsteinsson og Kristín Margrét Jósefsdóttir.
Þau reistu sér fyrst bú á Minni-Reykjum í Flókadal, en lengst bjuggu þau í Sigríðarstaðakoti
og á Sigríðarstöðum.
Þau fluttu til Siglufjarðar 1946. Börn Stefáns og Kristínar voru 14. Elstur var
Jakobína giftist Haraldi Ringsted 8. janúar 1950 Þau eignuðust þrjú börn.
Elst er
Yngstur var
Samtals eru afkomendur Jakobínu og Haraldar 51.
Haraldur lést 23. janúar 2014, þegar þau hjón voru nýflutt á Dvalarheimilið Hlíð og þar bjó Bína eftir það.
Útför Jakobínu fór fram í kyrrþey 5. júní 2019.
(Hannes Pétursson)
---------------------------------------------------------------
„Amma Bína“ var einstök kona. Eins og eilíft sumar, svo mikil var hjartahlýjan. Persónan var umlykjandi hvar sem hún fór. Fyrir vikið á ég óteljandi minningar um hana ömmu Bínu. Þess vegna kemur margt upp í huga minn þegar ég hugsa til ömmu minnar, þannig að erfitt er að velja. Eitt stendur þó upp úr öllu öðru. Það var sú einstaka velvild, hlýja og væntumþykja sem ég fann fyrir þegar ég hitti ömmu Bínu. Sama hvar og hvenær, hún tók alltaf á móti mér með hlýju brosi og nauðsynlegum skammti af hreinskilni.
Ég fór stundum sem krakki með vinunum að dorga niðri á Nökkvabryggju. Þá entust spúnarnir og önglarnir oft ansi stutt. Það varð til þess að ég hljóp oft í Aðalstrætið til ömmu og afa sem alltaf gáfu mér einhverja varahluti og fyrir veiðifélagana líka! Afi hikaði þó stundum þegar við vorum mættir aftur klukkutíma seinna.
Einhvers staðar á lífsleiðinni áttaði ég mig á því að svamptertan hennar ömmu, með sultu á milli, var ótrúlega góð. Þessu tók amma eftir og bakaði þar af leiðandi eina svona tertu hver einustu jól. Ekki nóg með það heldur pakkaði hún henni inn í gjafapappír og setti undir jólatréð okkar. Þetta gerði hún alveg þar til ég komst á fullorðinsár.
Þessa tertu kláraði ég oft samviskulaust á einni nóttu, og bauð engum með mér. Hún var jú ætluð mér. Mér fannst það þó algjör óþarfi af ömmu Bínu að benda mér reglulega á það að ég væri nú farinn að bæta á mig og að það færi mér ekkert sérstaklega vel! Hún gerði það þó með bros á vör, eins og flest annað.
En þannig var amma, hreinskilin og yndisleg. Hún ólst upp við fátækt á íslenskum torfbæ, en bar sig alltaf eins og hefðarmær. Hún var glæsileg til hinstu stundar; hlý, bleik og stolt af sínu fólki. Þannig ömmu er ekki hægt að gleyma. Bína amma að eilífu.
Þinn Gísli Hróar.
------------------------------------
–Gísli minn, nú þarf ég að spyrja þig mikilvægrar spurningar og þú verður að segja mér satt, því það svara allir út og suður, sem ég spyr. Þannig hófst samtal mitt við tengdamóður mína, hana Bínu skvísu úr Fljótunum, þegar við hjónakornin heimsóttum hana í „bleika herbergið“ hennar í Beykilundi á dögunum. Hún hafði verið slök undanfarna daga. Þess vegna var hjúkrunarfólk deildarinnar við rúmstokkinn hjá henni, en allt í einu vorum við Bína ein. Hjúkrunarfólkið og dóttirin, konan mín, voru farin á „krísufund“. Ég settist því við rúmstokkinn hjá Bínu og reyndi að bera mig mannalega.
–Já, Bína mín, ég skal reyna að svara þér samviskulega, en ég hef nú aldrei þótt neinn sérstakur vísdómsbrunnur, gæskan.
–Svona, láttu ekki svona, þú ert ágætur. En viltu ekki fá þér einn koníak áður en við byrjum? Þú veist hvar það er, sagði Bína kankvís.
–Sjaldan hefur maður nú sopanum neitað, en þú verður þá að skála við mig, svaraði ég og gaut augum að barskápnum góða hjá tengdó. Hann var alltaf fullur af guðaveigum þegar ég kom til hennar, en stundum var komið borð á veigarnar þegar ég fór!
–Nei, Gísli minn, ég held það sé ekki hyggilegt að fá sér koníak ofan í öll lyfin sem þau hafa verið að gefa mér.
–Sennilega rétt hjá þér, Bína mín, en hver var spurningin?
–Já, Gísli minn, segðu mér nú eins og er, alveg eins og er; er ég að fara? Mér brá við spurninguna, en reyndi að láta ekki á neinu bera og svaraði gömlu konunni hiklaust án þess að hafa ígrundað hvað ég ætlaði að segja.
–Bína mín, þessu getur enginn svarað nema himnafaðirinn, sem öllu ræður. Það má vel vera að þú sért komin í ferðafötin, en það getur allt eins verið að ég sofni svefninum langa hér við rúmstokkinn hjá þér. Það veit enginn hver er næstur. Þú hefur verið mikið veik undanfarna daga, en þú ert búin að hrista af þér lungnabólgu og fleiri kvilla, þannig að ástæða er til að ætla að þú vinnir þessa orrustu, eins og allar hinar. Hins vegar hefur þú þegar lifað ríflega fimm ár yfir nírætt og ýmislegt er farið að gefa sig. Svo hef ég grun um að Halli Ring sé farinn að bíða með bátinn.
–Já, hann Halli minn. Mig dreymdi hann áðan. Við vorum að gera bátinn kláran.
–Var Halli að reka á eftir?
–Nei, nei, það var ég, ég vildi komast á sjóinn í einum grænum hvelli. En ég vaknaði áður en við náðum að ýta úr vör.
Já, tengdaföður minn heitinn, Halla Ring, vantaði skipstjóra á bát í sumarlandinu, samkvæmt draumi Bínu. Þar hafði hann róið í nokkur ár, líkt og þau hjónakornin gerðu á Pollinum í eina tíð, en Halli hafði lítið aflað, hélt tengdamamma. Það var nefnilega Bína sem stjórnaði þótt Halli stýrði.
–Það er best að ég komi mér, Bína mín, svo þú getir klárað drauminn með Halla.
–Já, já, það verður gaman og ég ætla að taka bleikjuna, sagði Fljótamærin glettin um leið og hún þakkaði spjallið, bauð góða nótt og var sofnuð með það sama. Hún vaknaði ekki aftur til viðræðna. Nú róa þau hjónakornin aftur á sama báti. Ég bið þess að þau fái góðan byr – og mikið af bleikju.
Gísli Sigurgeirsson.