Jenný Stefánsdóttir

Morgunblaðið - 07. maí 1987

Jenný Stefánsdóttir – Fædd 7. Janúar 1901 Dáin 20. apríl 1987

Jenný var kjördóttir Stefáns bónda á Stóra Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd Jónssonar og konu hans, Guðrúnar Einarsdóttur, en ættuð úr Grindavík.

Árið 1929 giftist Jenný Alfonsi Jónssyni lögfræðingi. Hann hafði sest að á Siglufirði og þar bjuggu þau hjón uns Alfons féll frá 1952.

Þau áttu tvö börn:

  • Guðrún Alfonsdóttir bankastarfsmaður, hún var gift Einari Þ. Guðjohnsen framkvæmdastjóra og eiga þau tvo syni;

  • Jón Alfonsson flugumferðarstjóri, kona hans er Eyrún Eyjólfsdóttir. Þeirra börn eru þrjú. 
Jenný Stefánsdóttir - Ljósmynd Kristfinnur

Jenný Stefánsdóttir - Ljósmynd Kristfinnur

Alfons Jónsson hafði mikil umsvif á Siglufirði. En síldin kemur og síldin fer. Um miðja þessa öld hvarf hún með öllu.

Siglufjörður beið slíkt afhroð að til landauðnar horfði. Þegar verst gegndi féll Alfons frá. Hinar miklu eignir dánarbús hans seldust við smánarverði. Andvirðið fór til lúkningar áhvílandi skuldum. Allir fengu sitt en afgangur varð enginn. Þótt Jenný flyttist ásamt börnum sínum suður slypp og snauð, lagði hún ekki árar í bát. Ung hafði hún lært hattasaum.

Af engum efnum en því meira áræði setti hún á stofn verslun með kvenhatta og rak hana lengi við gott gengi. Hún hafði traust sambönd við erlendar verksmiðjur og sigldi öðru hverju til vörukaupa sem hún bar gott skyn á. Elli lék Jennýju hart. Vegna slyss varð að aflima annan fót hennar. Hin síðari ár var hún því bundin hjólastól.

Engu að síður átti hún eigið heimili til æviloka. Skamma stund háði hún sitt dauðastríð í sjúkrahúsi. Tápmikil kona er fallin í val. Með æðruleysi mætti hún örlögum sínum. Hún bugaðist aldrei þótt á bátinn gæfi.

Fyrir hönd konu minnar látinnar þakka ég Jennýju Stefánsdóttur órofa tryggð og fölskvalausa vináttu allt frá æskudögum beggja til hinstu stunda.

Jón Á. Gissurarson