Tengt Siglufirði
Hjónaminning: Sigríður Gísladóttir og Jóhann Guðmundsson Þann 13. þ.m. andaðist í Sjúkrahúsinu í Siglufirði Jóhann Guðmundsson, fyrrverandi bóndi á Þrasastöðum í Stíflu í Fljótum, áttatíu og fimm ára að aldri.
Rúmum fimm árum áður, 4. desember 1977, andaðist kona hans, frú Sigríður Gísladóttir, einnig í Sjúkrahúsi Siglufjarðar. Hún var fædd að Ljótsstöðum í Hofshreppi 8. júlí 1896.
Mig langar nú á útfarardegi Jóhanns Guðmundssonar að minnast með nokkrum orðum þessara ágætu hjóna, en hjá þeim á Þrasastöðum dvaldi ég hluta úr nokkrum sumrum á árunum 1926—1930. Þar naut ég einstakrar góðvildar þeirra og umhyggju. Hef ég því ríka ástæðu til að færa þeim að leiðarlokum þökk mína og virðingu.
Sigríður var eins og fyrr segir fædd að Ljótsstöðum. Hún var dóttir Gísla P. Sigmundssonar bónda þar, sem fæddur var 23. júlí 1851 að Ljótsstöðum, hann dó 31. mars 1927. Móðir Sigríðar var Friðrikka Guðrún Friðriksdóttir, fædd 12. janúar 1854 að Miklabæ í Óslandshlíð, dáin 25. maí 1939. Hún var áður gift Páli bróður Gísla, en hann lést 2. júní 1884.
Friðrikka Guðrún og Gísli giftu sig 3. desember 1889. Hálfsysturnar Pálína og Sigríður ólust upp við mikið ástríki foreldra sinna — heimilisbragur allur var til fyrirmyndar, efnin þokkaleg og Ljótsstaðahjónin nutu virðingar nágranna sinna. „Forfeðurnir höfðu gjört garðinn frægan a.m.k. héraðskunnan," segir Björn í Bæ í fallegri minningargrein í Morgunblaðinu þann 9. desember 1977, um frú Sigríði og um föður hennar segir hann: „Gísli P. Sigmundsson var lærður trésmiður frá Danmörku, hann fann upp taðkvörnina sem þótti á sínum tíma mikil uppfinning vegna landbúnaðarstarfa.
Var hann talinn á undan sinni samtíð á mörgum sviðum. Ljótsstaðaheimilið var einnig talið að nokkru hálfgerður kvennaskóli fyrir verðandi húsmæður sem þangað var komið." Systurnar á Ljótsstöðum nutu góðs uppeldis á heimaslóð og voru mjög samrýmdar alla tíð. Oft heyrði ég Sigríði tala um Ljótsstaði og lífið þar af sérstakri ánægju og þakklæti og virtist rödd hennar þá fá annan hreim. Hún aflaði sér menntunar eftir því sem tök voru á fyrir ungar stúlkur á öðrum tug þessarar aldar. „Heim að Hólum" hélt hún rúmlega tvítug, þó ekki til náms, heldur til starfa við skólabúið. Skólastjóri var þá Páll Zopaníasson.
Á Hólum kynntist hún ungum myndarlegum bóndasyni, Jóhanni Guðmundssyni frá Þrasastöðum. Þau felldu hugi saman og giftu sig 1923 og hófu búskap það ár á Þrastastöðum, í félagi við föður Jóhannes, en stuttu síðar tóku þau ein við búskapnum.
Jóhann Guðmundsson er i dag kvaddur frá Siglufjarðarkirkju. Hann var fæddur að Þrasastöðum 29. maí 1898. Foreldrar hans voru hjónin sem þar bjuggu, Guðmundur Bergsson, fæddur 11. janúar 1871 að Mjóafelli, Jónssonar, en hann andaðist 7. apríl 1961 og Guðný, fædd 8. desember 1876, dáin 22. mars 1917, Jóhannsdóttir bónda á Sléttu Magnússonar. Guðný og Guðmundur Bergsson tóku við búsforráðum árið 1898 er Bergur og kona hans, Katrín Þorfinnsdóttir, létu af búskap.
Dvöldu þau hjá syni sínum og tengdadóttur til dauðadags. Guðný og Guðmundur eignuðust tólf börn, fjögur þeirra misstu þau í æsku, en þessi komust til fullorðinsára auk Jóhanns:
Guðmundur og Guðný voru eins og flestir þeir er hófu búskap um aldamótin, efnalítil en full af bjartsýni og dugnaði. Þau juku bústofn sinn ár frá ári svo afkoman varð sæmileg, þrátt fyrir mikla ómegð. Jafnframt búskapnum stundaði Guðmundur sjósókn á vertíð. Fór hann á vorin, en að sjálfsögðu var það oft erfiðleikum bundið að fara frá heimilinu hvernig sem á stóð. Jóhann Guðmundsson var eins og fyrr segir elstur systkina sinna. Hann var hvorki hár í loftinu né gamall, þegar hann fór að hjálpa til við búskapinn.
Guðmundur sá vel hvað í syni sínum bjó og sótti því sjóinn fastar er Jóhann komst á legg. Jóhann fann ungur til þeirrar ábyrgðar sem á honum hvíldi í fjarveru föður síns og höfðu þau styrk hvort af öðru, mæðginin Jóhann og Guðný, en hún var mikilhæf eiginkona og móðir, er stjórnaði heimilinu með dugnaði, forsjá og festu. Hún féll frá 1917 og var það mikið áfall fyrir Guðmund og börnin hans átta, en það yngsta var þá aðeins 3ja ára gamalt.
Jóhann naut þeirrar barnafræðslu sem í boði var í sveitinni. Hann fór síðar í Hólaskóla þegar aldur og efni leyfðu. Stóð hann sig þar með prýði enda vel gefinn og ákveðinn að nota vel tímann til náms. Eins og getið er um hér að framan var það á Hólum sem þau kynntust,
Sigríður Gísladóttir og Jóhann GUðmundsson, og 1923 giftu þau sig og hófu búskap á Þrasastöðum eins og áður sagði.
Það mun ekki ofmælt þó fullyrt sé, að það hafi verið draumur flestra kaupstaðabarna á fyrri hluta þessarar aldar og er e.t.v. enn, að „komast í sveit". Þannig var því háttað með mig, oft bað ég foreldra mína um að „koma mér í sveit" eins og það var orðað.
Á endanum hafðist það. Þrasastaðahjónin höfðu fallist á að hýsa þennan Siglufjarðargutta „eins og í mánuð eða svo" svo notuð séu orð Sigríðar, en hún og móðir mín voru góðar vinkonur. Ég man vel mína fyrstu ferð í Fljótin, frá henni verður þó ekki sagt hér í þessari minningargrein um Þrasastaðahjónin, en án velvilja þeirra hefði hún ekki verið farin.
Móttökunum á Þrasastöðum gleymi ég aldrei — það var komin nótt er þangað kom — júnínótt, björt og litrík — örþreyttum snáða var hjálpað af hestbaki, loksins var hægt að sleppa hnakknefinu. Sigga á Þrasastöðum — eins og móðir mín kallaði hana — tók mig í fang sér og bauð mig velkominn, það var lítill, syfjaður lúinn karl sem staulaðist inn í bæinn. Góðgæti beið ferðalanganna og eftir að hafa notið þess, var ferðalangurinn litli hvíldinni feginn. Þessar fyrstu móttökur á Þrasastöðum eru mér ógleymanlegar og hafa fylgt mér í tæp sextíu ár.
Á heimili Jóhanns og Sigríðar ríkti einstakur þrifnaður og reisn var yfir öllum heimilisbrag — þar var oft mannmargt, margir komu „til að hringja", því þar var eina símstöð hreppsins. Stíflubændur, sem áttu erindi á símstöðinni og Ólafsfirðingar, sem fóru yfir Lágheiði á leið út í Siglufjörð eða vestur í Skagafjörðinn, komu jafnan við, þótt ekki ættu þeir erindi, og þágu veitingar. Það var því alltaf eitthvað um að vera á Þrasastöðum og það átti vel við sumardvalardrenginn.
Aldursforsetarnir á heimilinu voru Guðrún, móðir Sigríðar, og Guðmundur, faðir Jóhanns, þau eru mér minnisstæð sakir góðvildar og mannkosta, þau voru á Þrasastöðum þann tíma sem ég dvaldi þar og áður er að vikið. Um þau gæti ég ritað langt mál — þó ekki verði það gert hér — slíkur „sjarmi" var yfir þeim þó ólík væru, enda óskyld. Það var stormasamt í íslenskum stjórnmálum þann tíma sem ég var á Þrasastöðum.
Á heimilinu var hvorki talað um erfiðleika
nágrannanna né annarra hagi yfirleitt, en þeim mun meira um stjórnmál. Jóhann Guðmundsson var mikill félagsmálamaður, oddviti hreppsins og átti sæti í ýmsum nefndum,
það fór ekki milli mála að hann var framsóknarmaður. Hvort sem lesendum þessara lína líkar það betur eða verr, var svo komið 1930, að framsóknarfólk var á
hverjum einasta bæ í Stíflu, að einum undanteknum, ég er ekki frá því að áhrifa Jóhanns á hugi nágrannanna og afskipti hans af félagsmálum sveitarinnar hafi valdið
þar nokkru um. Hjónaband Sigríðar og Jóhanns var hið besta.
Þau eignuðust á Þrasastöðum fjögur börn, eru þau talin hér í aldursröð:
Til
Siglufjarðar fluttu þau Sigríður og Jóhann árið 1935 eins og áður segir. Þar fæddist þeim árið 1939 sonurinn Einar, hann var vélstjóri en lést ókvæntur
7. apríl 1974.
Sonarmissirinn var þeim reiðarslag og það sár greri aldrei, þó þau bæru harm sinn í hljóði. 1935 fluttu þau hjón eins og fyrr segir frá
Þrasastöðum til Siglufjarðar, þar sem Jóhann hóf verslunarstörf hjá Kjötbúð Siglufjarðar.
Án efa hefur það verið erfitt fyrir Sigríði og Jóhann að taka ákvörðun um að hætta búskap og flytja af föðurleifð Jóhanns, en þar höfðu forfeður hans búið frá 1760. Það sem mestu réði um þessa ákvörðun var, að Jóhann hafði ofnæmi fyrir heyverkun og heygjöf, svo og það að hann fýsti og þau hjón bæði að afla börnum sínum menntunar. Létti það viðskilnaðinn við Þrasastaði að vitað var að þeir myndu áfram haldast í ættinni.
Hartmann bróðir hans og kona hans hófu þar búskap er Jóhann flutti þaðan með fjölskyldu sína. Þegar Jóhann lét af störfum í Kjötbúð Siglufjarðar eftir nokkur ára störf þar, hóf hann störf við Síldarverksmiðjur ríkisins, vann hann þar meðan heilsan leyfði. Nú þegar ég lít til baka og minnist Jóhanns frá Þrasastöðum, minnist ég þess hversu ríka áherslu hann lagði á það að vinna öll störf þannig af hendi að sómi væri að fyrir þann er vann.
Hann forðaðist skuldir og gætti þess ætíð að sjá vel fyrir fjölskyldu sinni. Minningin um Þrasastaðahjónin, Sigríði Gísladóttur og Jóhann Guðmundsson, er mér kær, ég þakka þeim áratuga hugulsemi og vináttu. Fjölskylda mín og ég sendum dætrum þeirra, mökum og börnum og öðrum ástvinum þeirra samúðarkveðjur. Blessuð sé minning þeirra.
Jón Kjartansson.