Jóhanna María Sveinsdóttir

Morgunblaðið - 06. júlí 2001

Jóhanna Sveinsdóttir fæddist í Siglufirði 9. ágúst 1959.
Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 25. júní síðastliðinn.

Foreldrar hennar eru Berta Jóhannsdóttir, f. 21. september 1937, og Sveinn Þorsteinsson, f. 22. júní 1945, búsett á Siglufirði.

Foreldrar Bertu eru María Jensdóttir, f. 5. apríl 1911, d. 14. maí 1970, og Jóhann Ísaksson, f. 24. október 1910, d. 2. janúar 1979.

Foreldrar Sveins eru Sigríður Pétursdóttir, f. 30. apríl 1915, d. 18. nóvember 1991, og Þorsteinn Sveinsson, f. 6. febrúar 1906, d. 20. apríl 1965.

Jóhanna Sveinsdóttir og Björn Gunnar Pálsson - ókunnur ljósmyndari

Jóhanna Sveinsdóttir og Björn Gunnar Pálsson - ókunnur ljósmyndari

Sveinn á tvær systur,

 • Jóhönna Steinunn Þorsteinsdóttir , f. 10. desember 1941, og
 • Fanney Jóna Þorsteinsdóttir, f. 15. maí 1953.

Jóhanna María giftist 11. september 1982, Birni Gunnari Pálssyni, Siglufirði f. 11. september 1959.

Foreldrar hans eru Páll Gísli Jónsson, f. 12. október 1917, d. 26. mars 1988, og Eivor Jónsson, f. 24. maí 1927, búsett á Akureyri.

Börn Jóhönnu Maríu og Björns Gunnars eru

 • Lísa Rut, f. 21. mars 1982, unnusti hennar er Jón Vilberg Georgsson, f. 30. september 1979, og
 • Erik Helgi, f. 22. október 1983.

Systkini Jóhönnu Maríu Sveinsdóttur eru:

 • 1) Hannes Jónsson, f. 3. maí 1964, eiginkona hans er Guðlaug Jónsdóttir, f. 19. nóvember 1968, og eiga þau þrjú börn, þau eru búsett í Reykjavík.

 • 2) Þorsteinn Sveinsson, f. 7. febrúar 1966, eiginkona hans er Fanney Birkisdóttir, f. 9. apríl 1970, og eiga þau tvö börn, þau eru búsett á Siglufirði.

 • 3) Jóhann Sveinsson, f. 11. október 1969, sambýliskona hans er Kristín Andrea Friðriksdóttir, f. 31. október 1966, og eiga þau tvo syni, þau eru búsett á Ólafsfirði.

 • 4) Rúnar Sveinsson, f. 1. ágúst 1973, námsmaður í Reykjavík, hann á einn son.

 • 5) Rakel Sveinsdóttir, f. 26. maí 1978, sambýlismaður hennar er Sævaldur Bjarnason, f. 27. október 1979, og eiga þau eina dóttur, þau eru búsett í Reykjavík.

 • Raunfaðir Jóhönnu Maríu var Óskar Konráðsson og átti hún þar frá þrjú hálfsystkini,
 • Sonju,
 • Erlu Konny og
 • Pál Óskar.

Jóhanna ólst upp á Siglufirði og starfaði að mestu leyti við fiskvinnslustörf hjá Þormóði ramma hf. og við afgreiðslustörf í Leifsbakaríi, þar til hún flutti til Akraness á árinu 1991, en eftir það starfaði hún við fiskvinnslustörf hjá Haraldi Böðvarssyni hf.

Útför Jóhönnu verður gerð frá Akraneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.
-------------------------------------------------------

Elsku Hanna mín, mig langar til að kveðja þig með örfáum orðum. Ég var svo lánsamur að eignast þig og móður þína þegar þú varst aðeins fimm ára, þá varst þú orðin mótuð af umhyggju og ást móður þinnar, Maju ömmu og Jóa afa. Elsku Hanna,

þú tókst mér strax svo vel, fljótlega mátti bara ég svæfa þig á kvöldin með því að lesa fyrir þig sögukorn og frá okkar fyrstu kynnum vildir þú kalla mig pabba og svo þegar þú varðst eldri vildir þú bera nafn mitt. Þú varðst strax mjög sterkur persónuleiki sem vissir hvað þú vildir og þú stefndir þolinmóð að settu marki í hverju sem þú tókst þér fyrir hendur og þú og þínir hafa svo fengið að njóta afraksturs verka þinna.

Svo þegar fjölgaði í systkinahópnum var stóra systir tilbúin til að gæta þeirra þegar þurfti og þú varst alltaf svo stolt af þeim. Stundum vorum við ekki sammála um hlutina en það var nú ekki nema eðlilegt þegar táningur og faðir ræða um hvað best sé hverju sinni, en einu sinni komst þú mér upp á veginn aftur þegar ég hafði lent út af á lífsbrautinni, með vel völdum orðum sem ekki var hægt að misskilja.

Áhugamál okkar lágu oft saman, en þó sérlega að einu leyti og það var í matreiðslunni, þar sem þínir hæfileikar voru svo miklir og þú varst óhrædd við að prufa eitthvað nýtt og oftar en einu sinni leiðbeindir þú mér símleiðis. Þann tíma sem ég bjó á Akranesi naut ég aðstoðar þinnar í svo mörgu og þú hefðir líka litið til með litlu systur sem ráðgerir nú að flytja á Skagann og saknar þess nú sárt að þú verður ekki til staðar.

Elsku Hanna, ég og móðir þín erum þess þó fullviss að amma þín og afi gæta þín núna á nýjum vegum þar sem við öll mætumst að lokum og við yljum okkur við góðar minningar um ástríka dóttur sem við söknum svo sárt. Elsku Böddi, Erik, Lísa og Jónsi, við biðjum algóðan Guð að styrkja ykkur í sorginni og megi minningin um umhyggjusama og elskandi eiginkonu, móður og tengdamóður verða ykkur léttir á komandi tíma á lífsins vegum. Pabbi.

Einstakur er orð sem notað er, þegar lýsa á því sem engu öðru er líkt, faðmlagi eða sólarlagi eða manni sem veitir ástúð með brosi eða vinsemd.

 • Einstakur lýsir fólki sem stjórnast
 • af rödd síns hjarta og hefur í huga
 • hjörtu annarra.
 • Einstakur á við þá sem eru dáðir
 • og dýrmætir og hverra skarð
 • verður aldrei fyllt.
 • Einstakur er orð sem best lýsir þér.

(Terri Fernandez.)

Elsku Hanna Maja mín, mig langar til þess að kveðja þig með örfáum orðum.

Ég trúi því varla ennþá að þú sért farin frá okkur. Það er svo stutt síðan við komum að heimsækja þig á Skagann. Fyrst bara við Sæbi og þá sátum við hjá ykkur langt fram á kvöld og var mikið hlegið, enda lékuð þið Böddi á alls oddi eins og alltaf. Svo komum við aftur með Kötlu Dögg með okkur og þér fannst svo gaman að sjá hana. Þú sagðir stundum í gríni að þú værir eins og aukaamma fyrir hana, enda hefði það svo  sem alveg getað verið miðað aldurinn. En þó að þú værir þetta mörgum árum eldri en ég þá náðum við vel saman.

Sérstaklega eftir að ég kom á Skagann í skóla og við fórum að hittast oftar. Þá var gott að eiga stóru systur að og geta leitað til þín ef ég þurfti á að halda. Það var alltaf svo gott að koma til þín. Þú varst dugleg við að bjóða mér í mat og stundum fékk einhver vinkonan að fljóta með. Þær kynntust þér líka og fannst svo gaman að koma með mér til þín. Þú varst alltaf svo kát og hress og þannig minnist ég þín, hlæjandi og spaugandi.

Elsku Hanna, ég vona að þér líði vel þar sem þú ert núna. Ég varðveiti allar góðu minningarnar og trúi því að við eigum eftir að hittast aftur. Elsku Böddi, Erik, Lísa og Jónsi, megi Guð gefa ykkur styrk í sorginni. Rakel, Sævaldur og Katla Dögg. Enginn lifir að eilífu. Það er eitt sem við öll vitum. En þegar okkur var sagt að þú, Hanna systir, hefðir kvatt fannst okkur að þetta væri bara vondur draumur, eins og krakkarnir sögðu.

Margar góðar minningar eigum við, og ekki síst fyrir nokkru er við sátum heima í stofu hjá ykkur Bödda með góðum vini okkar og sungum, sögðum brandara og rifjuðum upp gamla tíma. Þú ert og verður alltaf til í hjörtum okkar, megi góður Guð geyma þig. Elsku Böddi, Lísa Rut og Erik Helgi, við vottum ykkur okkar einlægustu samúð.

Þorsteinn, Fanney og Birkir Már.
------------------------------------------------------------

Ég vil með nokkrum orðum minnast mágkonu minnar, Jóhönnu Maríu Sveinsdóttur, og kveðja hana. Hún lést eftir aðeins örfárra daga veikindi, langt um aldur fram, rúmlega 40 ára. Lífið getur verið óskiljanlegt og ótrúlega erfitt stundum. Hvernig getur nokkur maður skilið tilganginn þegar ungt fólk er hrifið fyrirvaralaust á brott?

En við eigum minningar, góðar minningar, og þess óska ég af alhug að bróðir minn, Björn Gunnar, og börnin þeirra, Lísa og Erik, geti yljað sér við þær þegar mesta sorgin dofnar. Jóhönnu var margt til lista lagt og hún var ótrúleg hannyrðakona. Það var sama hvað hún tók sér fyrir hendur, allt lék í höndunum á henni og úr urðu margar ótrúlegar flíkur og hlutir hver öðrum fallegri og betur gerðir. Þolinmæðin og nostursemin var einstök og má þar sérstaklega nefna jólakökubaksturinn.

Smákökurnar hennar Hönnu Mæju voru ekki eins og hjá öðrum, heldur voru þær allar litlar, jafnar og yndislega góðar. Hanna Mæja var ein af þessum konum sem vann verkin sín í kyrrþey og hugsaði fyrst og fremst um börnin sín og manninn sinn. Henni tókst vel upp með allt sem hún gerði og var hamingjusöm og ánægð með sitt og sína. Hún var hin eina sanna hvunndagshetja! Guð blessi minningu hennar. Maj Britt Pálsdóttir. Ef ég ímynda mér þig í huga mínum, þá vil ég helst gráta alla tíð.

Og síðan sá ég í augum þínum, hvað þú varst mér svo kær og blíð. Ég veit að einhvern tímann mun ég deyja þá getur þú talað við mig. En það var eitt sem ég átti eftir að segja, það er að mér þykir vænt um þig. (Birgitta Þorsteinsdóttir.) Elsku Hanna, þetta ljóð samdi ég til þín. Þín frænka, Birgitta. Hún Hanna Maja er dáin, það getur ekki verið! Ég loka augunum og sé hana fyrir mér, hressa og glaða og frá henni kemur einhver hnittin athugasemd með heimatilbúnum orðum.

En þetta er rétt, hún er farin og ekkert fær því breytt. Hanna Maja var fimm ára þegar hún kom fyrst inn á heimilið okkar á Laugarveginum á Siglufirði. Þar var á ferð feimin stelpa sem óx og dafnaði í frábæra unga konu sem allt lék í höndunum á. Þá var sama hvort heldur um var að ræða einhvers konar handavinnu eða það sem hún galdraði fram í eldhúsinu. Hún bjó fjölskyldu sinni fallegt heimili þar sem gaman var að koma, njóta og spjalla. Handavinna, föndur, jólin og jólaundirbúningur voru sameiginleg áhugamál hjá okkur og gátum við rætt það áhugamál fram og aftur og skipst á hugmyndum.

Jólin voru rædd á hvaða árstíma sem var enda mikið tilhlökkunarefni hjá okkur jólakerlingunum. Í haust ætluðum við saman á brúðunámskeið og ekki efast ég um að þar hefði orðið til falleg brúða, gerð af mikilli þolinmæði, alúð og natni. Þegar ég hitti Hönnu Maju daginn sem hún dó brosti hún og sagði: „Þetta er ég, fer alltaf lengri leiðina.“ Þó svo að hennar leið hafi ekki verið löng skilur hún margt eftir sig og skarðið er stórt.

Það er svo að gleðin er aldrei ein á ferð. Hún leiðir sorgina sér við hlið og eins og við höfum heyrt verður sorgin að teljast náðargjöf því einn sá getur syrgt, sem elskað hefur og sá einn hefur mikið misst, sem mikið hefur átt.

 • Er sárast sorg okkar mætir
 • og söknuður hug okkar grætir,
 • þá líður sem leiftur af skýjum
 •  ljósgeisli af minningum hlýjum.

(Hallgr. J. Hallgr.)

Í dag þegar við göngum síðustu skrefin með Hönnu Maju þökkum við fyrir þær stundir sem við áttum með henni og ég trúi að söknuðurinn víki um síðir fyrir birtu minninganna. Elsku Böddi, Lísa Rut, Erik Helgi, Berta, Sveinn og aðrir aðstandendur, ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Blessuð sé minning Hönnu Maju. Fanney Þorsteinsdóttir. Síðustu dagana í júní tengja líklega fæstir við dauðann. Sólar nýtur lengur við, gróðurinn hefur tekið vel við sér eftir vetrardvala og sumarleyfistíminn að hefjast.

Fólk vakir gjarnan lengur, nýtur birtunnar og hins milda veðurs. Fylgist með fuglaforeldrunum bera mat til svangra unganna í hreiðrunum og hlúir að gróðrinum sem tekið hefur svo vel við sér eftir vetrardvalann og svo framvegis. Jónsmessan er sem sagt á flestan hátt tími upphafs lífsins. Dauðinn er fjarlægur. Raunveruleikinn segir hins vegar annað. Jóhanna María Sveinsdóttir, Hanna Mæja, hafði ákveðið gangast undir aðgerð á sjúkrahúsi, aðgerð sem í langflestum tilvikum er talin smávægileg.

Þessi unga kona, móðir tveggja barna og eiginkona, sneri ekki til baka. Það dró því fyrir sólu hjá fjölskyldunni og aðstandendum. Bjartir sumardagar breyttust í langa myrkvaða daga. Gróðurinn sýndist ekki lengur iðagrænn. Hanna Mæja og Björn Gunnar höfðu búið sér og börnum sínum fallegt og afskaplega hlýlegt heimili á Akranesi. Hreiðurgerðin heppnast þar vel, líkt og fyrra heimili þeirra á Siglufirði. Eins og hjá fuglunum á Jónsmessunni eru börnin, Lísa Rut og Erik Helgi, bráðum að verða svo gömul að þau geta séð um sig sjálf.

Flogið úr hreiðrinu. Og víst er að vel hefur verið vandað til alls undirbúnings. Hanna Mæja var greinilega vinsæl og vinkonurnar völdu eldhúsið hennar sem samastað góðra og notalegra stunda. Í návist hennar var hægt að hugsa upphátt án þess að sjá eftir því síðar. Samband fjölskyldna okkar var með ágætum. Þrátt fyrir að landshlutar skildu fjölskyldurnar að síðustu árin, var reglulega talast við í síma.

Stundirnar sem við áttum saman voru hins vegar of fáar. Það veit sá sem allt veit að okkur þykir fráfall Hönnu Mæju eins óréttlátt og hægt er að hugsa sér. Lífið rétt um það bil hálfnað, miðað við lífslíkur hér á Íslandi. Minningin um Hönnu Mæju mun lifa um ókomin ár. Þegar fram líða stundir mun Jónsmessutíminn minna okkur á vin sem nýtur sólarinnar og gróandans á öðrum og betri stað.

Við sendum Birni Gunnari, Lísu Rut og Erik Helga samúðarkveðjur og öllum öðrum sem sárt eiga um að binda.
Guð blessi sómakonuna Jóhönnu Maríu Sveinsdóttur.

 • Sem eitt sinn litin yndis-sjón
 • í ástarhug fær geymst,
 • sem indælt sönglag eitt sinn heyrt
 •  fær aldrei síðan gleymst,
 • svo varstu mér, hið væna sprund,
 • mín vera greip við þér, og göfug,
 • fögur, góð og blíð þú gleymdist aldrei mér.

 • Og því var það, mér brá í brún,
 • er barst sú fregnin þung
 • sem þytur lofts úr þrungnum geim,
 • að þú varst dáin ung,
 • því einnig ég fann tregans til,
 • þó tungan mælti fátt.
 • Ég syrgði þig af hjarta og hug
 • sem hefði ég geð þitt átt.

(Steingrímur Thorsteinsson.)

Jóhanna Hlín Ragnarsdóttir, Karl Eskil Pálsson og börn.
----------------------------------------------------------

Þegar okkur barst sú frétt að góð vinkona okkar, Hanna Mæja, væri látin, trúðum við því alls ekki. Fréttina þurfti að segja okkur oftar en einu sinni. Okkur fannst við vera fastar í óskiljanlegri martröð. Fljótlega rann þó upp fyrir okkur að þetta var staðreynd. Minningarnar streymdu fljótlega fram og hugurinn leitaði til bernsku okkar vinkvennanna á Sigló. Við vorum jafngamlar, alltaf í sama bekk í barnaskólanum og gagnfræðaskólanum. Við vorum nánast óaðskiljanlegar á þessum árum.

Ævintýrin sem hægt er að rifja upp frá uppvaxtarárunum eru því mörg og ekki síður prakkarastrikin. Enda gátum við líka hlegið mikið og innilega þegar fundum okkar bar saman á fullorðinsárunum. Hanna Mæja var alltaf til í tuskið þegar átti að gera eitthvað. En eitt þvertók hún fyrir að gera með okkur. Hún spilaði alls ekki á spil. Eins og okkur fannst gaman að spila vist. Hanna Mæja lét sig ekki heldur prjónaði eða föndraði eitthvað á meðan. Prjónaskapinn og föndrið þróaði Hanna Mæja með sér og heimili hennar á Skaganum bar þess svo sannarlega vitni. Sömuleiðis heimilið þeirra á Sigló.

Alls staðar voru hlutir sem hún hafði sjálf búið til. Það var mikið gæfuspor þegar Hanna Mæja giftist Birni Gunnari. En hvílíkar raunir sem þau áttu eftir að upplifa saman. Bæði börnin þeirra, Lísa Rut og Erik Helgi, fæddust eftir aðeins 24 og 26 vikna meðgöngu. Lísa Rut vó innan við tvær merkur og Erik Helgi rétt liðlega tvær merkur. Skilja þurfti börnin eftir á spítala fyrir sunnan í margar vikur en styrkur hjónakornanna var í bæði skiptin ótrúlegur. Þá reyndi sjálfsagt á sambandið sem styrktist frekar en hitt. Árin eftir fæðingu barnanna voru annasöm, skiljanlega.

Nú, hátt í tveimur áratugum síðar, blasir framtíðin björt við hraustum og heilbrigðum unglingum. Hvílíkt lán, hvílík gæfa. Leiðir okkar vinkvennanna skildi fyrir nokkrum árum. Hanna Mæja flutti búferlum til Akraness, Anna til Akureyrar en Stína passar fyrir okkur æskustöðvarnar, Siglufjörð. Sambandið slitnaði en þegar við hittumst vorum við sammála um að sambandið væri síður en svo á enda. Enda við stelpurnar á besta aldri. Við ætluðum sko sannarlega að bralla ýmislegt saman í ellinni. Enda vanar ýmsum uppátækjum frá því í æsku! Ekki málið! Sá tími mun hins vegar aldrei renna upp í þessu lífi. Okkur sem eftir sitjum er það nú loks ljóst. Hanna Mæja er farin.

Martröðin er raunveruleg. Hanna Mæja sem átti svo sannarlega skilið að njóta þess að sjá á eftir börnunum sínum út í lífið eftir allt sem á undan hafði gengið. Og svo auðvitað að prjóna á allt liðið! Við þökkum góðri vinkonu fyrir allar þær samverustundir sem við áttum saman. Við varðveitum þær í huganum, uns við hittumst á nýjum stað. Þá verður hægt að taka upp þráðinn að nýju. Með þessum orðum kveðjum við Jóhönnu Maríu Sveinsdóttur, Hönnu Mæju. Við sendum innilegustu samúðarkveðjur til Björns Gunnars, Lísu Rutar, Eriks Helga, Bertu, Sveins, Eivorar og annarra aðstandenda.

Anna Júlíusdóttir og Kristín Bogadóttir.  
----------------------------------------------------------

Mbl.is - 7. júlí 2001 | Minningargreinar  

Jóhanna María Sveinsdóttir fæddist í Siglufirði 9. ágúst 1959. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 25. júní síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Akraneskirkju 6. júlí.

Skrifuð á blað verður hún væmin bænin sem ég bið þér. En geymd í hugskoti slípast hún eins og perla í skel - við hverja hugsun sem hvarflar til þín. (Hrafn A. Harðarson.)

Elsku Hanna mín.

Um daginn fékk ég hringingu frá Íslandi um að þú værir farin frá okkur. Mig langar bara að segja að þú ert alveg yndisleg kona sem mér þykir svo mikið vænt um. Það má eiginlega segja að ég hafi alltaf litið á þig sem plattengdamömmu mína. Enda höfum við Erik verið bestu vinir alveg frá því að ég var stærri en hann. Þú varst alltaf mjög góð við mig og ég vil bara að þú vitir að ég mun hugsa um Erik enda er hann mér sem bróðir. Megi guð og englarnir vaka yfir þér, elsku Hanna mín. Innilegar samúðarkveðjur til Bödda, Lísu, Eriks Helga, fjölskyldu og vina.

Sara Karlsdóttir.
------------------------------------------

Brosið hennar, hláturinn, svo kitlandi og smitandi, hve auðveldlega hún sá skemmtilegar hliðar á lífinu og tilverunni, hversu mjög hún lífgaði upp á alla í kringum sig. Allt þetta og svo miklu meira höfum við til að minnast, sem þekktum Hönnu Mæju.

Það er gott að eiga góðar minningar að dvelja við á erfiðum tímum. Það er líka gott til þess að vita að Hanna Mæja átti gott og hamingjuríkt líf. Hún átti yndislega fjölskyldu, fallegt heimili, sem er prýtt mörgum fallegum hlutum eftir hana, því hún hafði ríka sköpunarþörf. Okkar kynni voru góð og fyrir það viljum við þakka af heilum hug.

Guð líkni og styrki fjölskyldu Hönnu Mæju. Elsku Böddi, Lísa og Erik, hugur okkar er hjá ykkur.

Brynja Jóhannsdóttir og Magnús Ebenesarson.
--------------------------------------------------------

Það fyrsta sem kemur upp í hugann er ég hugsa til fjölskyldunnar sem býr á móti okkur er samrýmd hjón og samhent fjölskylda. Allir jafnir þar sem gagnkvæm virðing er borin fyrir hvert öðru, foreldrarnir fyrir börnunum og öfugt, allir bestu vinir og félagar þannig að maður dáist að. Það var nánast sama hvað var ákveðið eða planað, allt var gert með þarfir fjölskyldunnar efst í huga. Því er maður eðlilega sleginn þegar svo skyndilega er höggvið svo stórt skarð í líf þessarar samhentu fjölskyldu.

Eiginkonan, móðirin og besti vinur er hrifinn svo skyndilega á brott á svo óskiljanlegan hátt að allir eru harmi slegnir. Hún Hanna Maja minnti mig alltaf á litla fjöruga stelpu, svo áköf og svo jákvæð í hugsun. Að hlusta á hana segja frá hvort sem það voru börnin, ferðalög, eitthvað sem þau langaði að kaupa eða gera eða einhverjar aðrar væntingar var ákafinn svo mikill að maður hreifst með. Alltaf gat hún laumað einhverju jákvæðu að manni þannig að manni fannst maður betri fyrir vikið, og hver vildi ekki vera þeim kostum búinn? Það er erfitt að hugsa sér Bödda án Hönnu Maju.

Við á þessu heimili nefndum þau nánast ekki á nafn nema bæði í einu, svo samrýnd komu þau okkur fyrir sjónir.

Elsku fjölskylda, Böddi, Lísa Rut og Erik Helgi, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð og megi minningin um yndislega eiginkonu, móður og vin ylja ykkur á erfiðum tímum. Guð veri með ykkur.

Hrafnhildur, Jóhann og fjölskylda.
-----------------------------------------------------

 • Svo örstutt er bil milli blíðu og éls,
 • og brugðist getur lánið frá morgni til kvelds.

(M. Joch.)

Ekki óraði mig fyrir því að ég myndi setjast niður með blað og penna til þess að skrifa stutt minningarorð um vinkonu mína og "fóstursystur". En það er staðreynd, þótt bitur sé, að fallin er frá kona í blóma lífsins, án efa kölluð til æðri starfa. Hver tilgangurinn er veit líklegast enginn, fyrr en að okkar tíma kemur.

Hönnu Mæju kynntist ég fyrir alvöru þegar ég stundaði nám á vorönn 1997 við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Þá leigði ég herbergi hjá pabba hennar og systur sem einnig er ein af mínum bestu vinkonum. Það var þá sem hún fór að kalla mig "fóstursystur" sína, meira í gamni en alvöru. Samt var eins og að baki byggi dýpri meining. Svo eftir að pabbi þeirra flutti aftur norður á Sigló var alltaf hægt að leita til Hönnu Mæju ef eitthvað bjátaði á.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar minningabankinn er opnaður er bjarta brosið, jákvæðið og handavinnan. Hanna Maja var alltaf að dútla við eitthvað þegar maður leit inn í heimsókn. Ef það voru ekki prjónarnir sem léku í höndunum á henni voru það aggalitlar perlur sem hún þræddi saman og bjó til alls kyns litla skrautmuni. "Perlusaum" kallaði hún það og reyndi af einstakri þolinmæði að útskýra fyrir mér aðferðina.

Þó svo að ekki sé langur tími liðinn frá því að kynni okkar hófust er minningabankinn fullur af góðum minningum sem munu varðveitast um ókomna tíð.

Elsku Böddi, Lísa, Erik, Berta, Sveinn, systkini og aðrir ættingjar og vinir, missir ykkar er mikill en megi algóður Guð styðja ykkur á þessum erfiðu tímum. Ég og fjölskylda mín vottum ykkur okkar dýpstu samúð, hugur okkar er hjá ykkur.

 • Skrifuð á blað
 • verður hún væmin
 • bænin
 • sem ég bið þér.
 • En geymd
 • í hugskoti
 • slípast hún
 • eins og perla í skel
 • - við hverja hugsun
 • sem hvarflar til þín.

(Hrafn A. Harðarson.)

Elsku Hanna Maja, þakka þér fyrir yndisleg kynni. Þín "fóstursystir",

Inga Rut, Laugarbakka.
-------------------------------------------

Það er erfitt að trúa því að kær vinkona sé farin frá okkur á besta aldri. Ég vil þakka henni þeirri vináttu sem varað hefur síðan ég kom fyrst til Siglufjarðar. Ég var svo lánsöm að kynnast henni og urðum við góðar vinkonur margs er að minnast og margt ber að þakka og áttum við oft góðar stundir saman.

Elsku Hanna Maja, með þessum fátæklegu orðum sendum ég og fjölskylda mín okkar hlýjustu kveðjur og vottum fjölskyldu þinni innilegar samúðarkveðjur og biðjum algóðan Guð að styrkja þau í þessari miklu sorg.

Edda og fjölskylda.
---------------------------------------------------

Þriðjudagsmorguninn 26. júní, fengum við þær hörmulegu fréttir að Hanna Maja vinkona okkar hefði látist kvöldið áður. Við stóðum sem lömuð og hugur okkar neitaði að meðtaka þetta. Ekki Hanna Maja sem alltaf var svo hress og kát. Hvernig stendur á því að kona í blóma lífsins er hrifin á brott, frá elskandi eiginmanni og börnum? Litlu kraftaverkin þeirra, þau Lísa og Erik, vaxin úr grasi, þannig að áhyggjum sem fylgja barnauppeldi var lokið, og tími Hönnu Maju og Bödda var kominn. Þau voru svo yndislega ástfangin og samrýnd og við áttum öll eftir að gera svo mikið saman og bara njóta þess sem lífið hefur uppá að bjóða.

Við kynntumst Hönnu Maju og fjölskyldu fyrir réttum áratug. Síðan þá hefur þróast sönn og einlæg vinátta með fjölskyldum okkar. Minningarnar um þessi 10 ár ryðjast fram í hugann og líða hjá eins og í bíómynd. Allar útilegurnar, sumarbústaðaferðirnar, matarboðin og samverustundirnar sem við áttum með Hönnu Maju, Bödda og börnunum, allt eru þetta yndislegar minningar sem við getum yljað okkur við og verða ekki teknar frá okkur. Hanna Maja var listamaður í höndunum og eru þær ófáar flíkurnar sem hún hefur prjónað eða þá allt föndrið sem prýðir fallega heimilið á Höfðabrautinni. Við þökkum þér, elsku Hanna Maja, fyrir samfylgdina sl. 10 ár. Blessuð sé minning þín.

Elsku Böddi, Lísa og Erik, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð og biðjum algóðan Guð að vaka yfir ykkur.

Sigríður, Ásgeir og börn. Sara Karlsdóttir.
------------------------------------------------------- 

mbl.is 15. júlí 2001 | Minningargreinar

Jóhanna María Sveinsdóttir fæddist í Siglufirði 9. ágúst 1959. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 25. júní síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Akraneskirkju 6. júlí.

Búðu þig undir slæmar fréttir, sagði móðir mín þegar hún hringdi í mig frá Íslandi þriðjudaginn 26. júní. Hver er dáinn? svaraði ég. Hún Hanna Maja, vinkona þín. Þvílíkt áfall. Ég neitaði að trúa þessu. Mikið ofboðslega fannst mér ég vera langt í burtu frá landinu mínu, vinum og fjölskyldu.

Minningarnar hellast yfir mann á stundu sem þessari. Við Hanna Maja kynntumst þegar við vorum aðeins 5 ára. Þá var Hanna Maja í heimsókn hjá ömmu Diddu á Laugarveginum. Við urðum strax perluvinkonur og aðaláhugamál okkar þá var að búa til dúska úr garnafgöngum. Það voru ófáir dúskarnir sem við vöfðum og stoltar sýndum við öllum sem sjá vildu dúskana okkar. Þeir fylltu marga poka og voru í öllum regnbogans litum. Þegar skólaganga okkar hófst vorum við ekki í sama bekk í byrjun. Það kom ekki í veg fyrir vinskap okkar.

Þegar þú og fjölskylda þín fluttuð suður um tíma átti ég erfitt, ég saknaði þín mikið. Mikið var gleði mín stór þegar þið svo fluttuð til baka og þú komst í bekkinn minn, svo að auði stóllinn við hliðina á mér varð fylltur.

Fjarlægðin á milli heimila okkar gat næstum ekki verið meiri, þið bjugguð á Hvanneyrarbrautinni og við á Laugarveginum. Þessi fjarlægð á milli heimila okkar kom samt ekki í veg fyrir að við eyddum öllum stundum saman, við hittumst bara á "Thorahorninu". Um helgar sváfum við ansi oft heima hjá hvor annarri.

Við vinkonurnar brölluðum ýmislegt saman um ævina en okkur bar báðum saman um að sumarið '74 var mjög skemmtilegur tími í okkar lífi. Þá vorum við báðar að vinna í Frystihúsinu á Dalvík og bjuggum hjá "Tótu systur" eins og við kölluðum hana báðar, þótt hún væri systir mín. Þetta sumar urðum við báðar skotnar í strákum og eignuðumst marga góða vini. Við fórum á hinar ýmsu hátíðir í nágrenni Dalvíkur, s.s. Hólahátíð, ball í Skemmunni á Akureyri, útihátíð í Kjarnaskógi og síðast en ekki síst bindindismót á Hrafnagili um verslunarmannahelgina. Við töluðum oft um þennan tíma með blik í augum.

Þegar ég var á undan þér farin að búa og komin með bæði mann og barn var samband okkar ekki eins náið en það var bara tímabundið. Þú komst alltaf í heimsókn við og við. Þegar þið Böddi voruð að draga ykkur saman man ég eftir okkur á balli á Hótel Höfn (Siglufirði). Þið stóðuð á miðju gólfi og dönsuðuð saman. Vegna hins mikla stærðarmunar sem á ykkur var spurði ég þig hvort þú værir að skoða á honum naflann. Þú brostir bara og bandaðir mér frá þér með hendinni.

Þar sem ég sá smá eftir að vera að stríða þér á svo viðkvæmu augnabliki sótti ég stól handa þér og sagði þér að dansa uppi á honum þú gætir þá að minnsta kosti náð upp til halda um hálsinn á honum Bödda þínum. Þegar kom að því að þið Böddi urðuð foreldrar var ég orðin tveggja barna móðir. Lísa litla kom í heiminn löngu fyrir tímann, minnsta barn sem fæðst hafði og lifað á Íslandi á þeim tíma. Þegar þú varðst síðan send heim frá Reykjavík til Siglufjarðar án litlu dúllunnar þinnar, áttir þú mjög erfitt. Böddi var á sjó á þessum tíma og þið lifðuð í stöðugum ótta um að litla stelpan ykkar myndi ekki lifa. Þrisvar hélstu að Lísa Rut litla væri dáin.

En hún Lísa Rut var ekki á þeim buxunum að gefast upp heldur og dafnaði. Svo kom sú stund að þið fenguð hana heim til Sigló og þá var mikil gleði á Hlíðarvegi 44. Þeir sem hafa upplifað hversu erfitt það er að eignast barn svo löngu fyrir tímann eru flestir sammála um að það er mikið álag og nóg fyrir eina fjölskyldu að ganga í gegnum það einu sinni á ævinni. Þannig var það nú ekki í ykkar fjölskyldu því Erik Helgi fæddist aðeins 19 mánuðum á eftir systir sinni, líka löngu fyrir tímann.

Aftur upplifuðuð þið sama óttann um að missa barnið ykkar og nú með Lísu litlu að hugsa um að auki. Erik Helgi var eins og systir hans, barðist fyrir lífi sínu og sigraði. Þeir erfiðleikar sem þið genguð í gegnum samfara þessu öllu færðu ykkur Bödda sem betur fer nær hvort öðru. Þið Böddi voruð ekki bara hjón heldur líka bestu vinir. Ég hugsaði alltaf um ykkur sem eitt.

Þegar eldri sonur minn tók upp á því að kalla mig "Mömmu Maddý", mér til mikillar gremju, þá hermdi Lísa Rut þetta eftir honum. Þannig var ég oftast kölluð "Mamma Maddý" af ykkar fjölskyldu. Það er nú líka einkennandi fyrir ykkar fjölskyldu að nefna fólk upp á nýtt og ég hafði líka annað nafn sem ég nefni ekki hér.

Þegar þið svo fluttuð á Skagann saknaði ég þín mikið og ég skammaði Bödda oft fyrir að taka þig frá mér. En þegar þið svo fluttuð á Höfðabrautina fór þér að líða vel á Skaganum og þú eignaðist góða vini þar. Það var líka alltaf jafn yndislegt að koma í heimsókn til ykkar. Alltaf var hlegið mikið og alltaf hlakkaði ég mikið til að hitta ykkur öll. Alltaf var það sami myndarskapurinn í þér og ef að það er hægt að segja um einhvern að hann sé dverghagur þá á það svo sannarlega við um þig. Það var alveg sama hvað þú tókst þér fyrir hendur, allt lék í höndunum á þér.

Mér þætti gaman að sjá alla handavinnuna þína komna á einn stað. Sannkölluð hagleiksmanneskja. Ég veit að ég gæti skrifað heila bók um þig, Hanna Maja mín, en það geri ég ekki hér. Ég er búin að skoða hug minn mjög vel og á ég bara fallegar minningar um þig. Hvernig væri annað hægt, þú sem varst alltaf svo glöð og góð. Aldrei varð okkur sundurorða um ævina en þó vorum við alveg óskaplega hreinskilnar hvor við aðra.

Það að eignast slíka vinkonu er ómetanlegt og þó svo að við byggjum í sitthvoru landinu síðustu ár var alltaf eins og við höfðum sést í gær. Þó svo að mér finnist óskaplega erfitt að sætta mig við það að þú sért horfin úr þessu jarðneska lífi verð ég víst að gera það. Það er eitt sem er alveg víst, þér gleymi ég aldrei. Sem betur fer er ekki hægt að taka minningarnar um þig frá mér, þær á ég svo lengi sem ég lifi. Hanna Maja mín, þú munt lifa áfram í hjarta mínu svo lengi sem ég lifi. Þín vinkona,

Margrét St. Þórðardóttir