Einar Ásgrímsson verkamaður,

Morgunblaðið - 06. nóvember 1979

Einar Ásgrímsson Siglufirði - Fæddur 6. nóvember 1896. Dáinn 5. október 1979.

Langri lífsgöngu er lokið, hljóðnað er fótatak aldraðs manns, manns af þeirri kynslóð sem nú er óðum að hverfa af sjónarsviðinu. Hann hét Einar Ásgrímsson og var fæddur 6. nóvember 1896 að Nefstöðum í Fljótum, einn af 7 börnum foreldra sinna Margrétar Sigurðardóttur og Ásgríms Guðmundar Ásgrímssonar er þar bjuggu.

Öll eru systkinin nú látin nema yngsti bróðirinn, Helgi sem býr á Siglufirði. Á Nefstöðum var heimili Einars til ársins 1916 er hann fluttist til Siglufjarðar, þar sem hann bjó óslitið til dauðadags.

Einar Ásgrímsson

Einar Ásgrímsson

Þar kynntist hann eftirlifandi konu sinni Dóróthea Jónsdóttir og gengu þau í hjónaband árið 1925.

Þau eignuðust 7 börn sem öll eru á lífi, talin í aldursröð.

Jón Einarsson, búsettur í Garðabæ, kvæntur Guðrúnu H. Valberg;

Ásta Einarsdóttir gift Páli Gunnólfssyni í Reykjavík,

Ásgrímur Einarsson (Bóbó) sem alltaf hefur búið á Siglufirði með foreldrum sínum,

Guðlaug Einarsdóttir i Sandgerði, ekkja Sigurjóns Jóhannessonar er lést 1970,

Sólveig Einarsdóttir, gift Helga Einarssyni í Hafnarfirði,

Brynjar Einarsson, kvæntur Guðrúnu Ólafsdóttur í Vestmannaeyjum, og

Stella Einarsdóttir, gift Páli Gunnlaugssyni, en þau búa á Siglufirði. 

Barnabörnin eru 26 talsins og fjöldi barnabarnabarnanna er kominnátt á annan tug.

Áður en Einar giftist hafði hann eignast soninn

Eystein Óskar Einarsson sem er búsettur í Hafnarfirði.

Auk barnanna stigu sum barnabörnin sín fyrstu spor á heimili afa og ömmu og öll áttu þau visst athvarf þar, hvenær sem var. Geta má því nærri að þar hafi oft verið mannmargt og hjónin þurft að taka til hendinni. Fyrstu ár sín á Siglufirði vann Einar alla algenga vinnu í landi auk þess sem hann stundaði sjóinn.

En þegar síldarævintýrið hófst á staðnum vann hann við síldarverkunina í landi, ýmist sem matsmaður, verkstjóri eða beykir á sumrin, en á veturna vann hann við tunnusmíðar fyrir Tunnuverksmiðjuna, einn fyrstur manna sem það verk vann á Siglufirði. En í þeirri verksmiðju varð síðan vettvangur starfsdags Einars þar til hann hætti störfum þá eitthvað kominn á áttræðisaldur.

Til að drýgja tekjurnar til framfærslu heimilisins höfðu þeir feðgar Einar og síðan Ásgrímur nokkrar kindur, og eina kú hafði fjölskyldan á meðan börnin voru ung og öll heima. Á yngri árum hafði Einar gaman af íþróttum og stundaði m.a. glímu. Hann var líkamlega vel á sig kominn fram á efri ár og það var ekki fyrr en hin allra síðustu ár að heilsu hans fór að hraka að ráði. Þá tóku við mikil veikindi og sjúkrahúslegur sem hann þó alltaf virtist ná sér upp úr. En ekkert varir að eilífu, ævi Einars var öll að morgni 5. október s.l. Dauðinn fór um hann mildum höndum, hann andaðist í svefni á heimili sinu.

Snemma á nýliðnu sumri var Einar staddur hér í Reykjavík til að leita bóta við augnameini sem hafði angrað hann um tíma. Þau 2—3 ár sem liðið höfðu frá því að við hittumst þar áður höfðu síendurtekin veikindi sett óafmáanleg spor sín á hann. Hann var orðinn lotinn og þreytulegur, en andlega hress og viðmótið var jafn hlýtt og fyrr. Eitt sinn sátum við tvö dágóða stund yfir kaffibollum og röbbuðum saman.

Hann lét í Ijós áhyggjur yfir því hvort okkur dóttursyni hans veittist ekki erfitt að sjá fyrir okkar stóra barnahópi, vel minnugur þess hve til slíks þurfti stórt átak þegar hann var i þeim sporum. Hann sagði mér sitthvað frá gamalli tíð, störfum sínum og lífsbaráttu og því hvernig hann og kona hans lögðu ofurkapp á að vera efnalega sjálfstæð og að geta komið þeirra stóra barnahópi vel til manns.

Það hvarflaði að mér þá eins og oft áður hve lærdómsríkt það getur verið þeim yngri að heyra þá sem lífsreynslu hafa segja frá og reyna að gera sér í hugarlund við hvernig aðstæður þá var unnið og lifað. Ég kynntist Einari og Dórótheu fyrst fyrir rúmum 14 árum þegar ég kom í nokkurra daga heimsókn á heimili þeirra, sem væntanleg tengdadóttir elstu dóttur þeirra. Sú heimsókn einkenndist af þeim viðtökum sem ég átti eftir að sjá að voru þeim töm og eðlileg við hvern sem var.

Hvort sem gesti bar að garði óvænt eða áður vitað var þeim tekið af sannri gestrisni og rausn, og voru þau hvert sem annað húsráðendur þar. Sá háttur verður eflaust á hafður áfram á Grundargötu 9 á meðan heilsa Dórótheu endist og nýtur hún þar sem áður stuðnings Ásgríms sonar síns. Stór niðjahópur þessara hjóna hefur alltaf átt hug þeirra allan. Yfir velgengni var glaðst en ef vitað var um erfiðleika einhvers staðar olli það þeim áhyggjum og kvíða.
Stór var foreldrafaðmurinn og opinn öllu þessu fólki.

Ég verð þeim báðum ævinlega þakklát fyrir þá umhyggju sem þau hafa sýnt okkur og þá ekki hvað síst fatlaðri dóttur okkar. Ef Einar hefði lifað hefðu ættmenn hans og vinir í dag samglaðst honum á 83 ára afmælinu, en í þess stað er hans nú minnst ,með virðingu og þökk og honum óskað velfarnaðar á ókunnum stigum. Hvíli hann í friði.
F.K.Þ.
------------------------------------------------------- 

6. nóv. 1896 d. 5. okt. 1979 Einar Ágrímsson var fæddur að Nefstöðum í Fljótum 6. nóvember 1896 og voru foreldrar hans Margrét Sigurðardóttir og Ásgrímur Guðmundsson Ólst hann upp í hópi sjö systkina og er Helgi, fyrrverandi bankamaður góður maður og vel látinn búsettur hér í Siglufirði einn á lífi af þeim dugmikla systkinahópi.

Hingað til Siglufjarðar fluttist Einar tvítugur að aldri og átti hér heima ávallt síðan. Árið 1925 kvæntist Einar eftirlifandi konu sinni Dorotheu Jónsdóttur. Með Einari Ásgrímssyni er til foldar hniginn merkismaður úr alþýðustétt. Maður sem allt sitt líf meðan heilsan entist, vann hörðum höndum fyrir sér og sínum og með hjálp dugmikillar konu sinnar tókst það vel og með sæmd. Fyrst eftir að Einar kom hingað stundaði hann alla almenna launavinnu og einnig sjósókn.

Eftir að síldarsöltunin varð snarasti þátturinn í atvinnulífi Siglfirðinga vann hann sem matsmaður, verkstjóri eða Minning Einar Ásgrímsson beykir. en það þótti mjög vandasamt starf og aðeins fyrir harðduglega menn. Til þessa starfs var Einar eftirsóttur, enda ósérhlífinn og vann sín erfiðu verk með létt ri lund. Einar var einn af forustumönnum um tunnusmíði hér í Siglufirði, og vann marga vetur í Tunnuverksmiðju sem var sameign þeirra, sem þar unnu, og síðar hjá T.R.

Hann var félagslyndur og stéttvís maður og um áratugaskeið tók hann virkan þátt í starfi verkalýðshreyfingarinnar hér og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum á vegum hennar. Nú síðustu árin er veikindin voru farin að þjá Einar var eldmóðurinn samt sá sami og áður, sífellt hvetjandi að verkamenn stæðu saman og létu ekki undan síga, heldur sæktu fram til meiri réttinda og betra þjóðfélags. Slíkur baráttumaður og Einar var um velgengni verkamanna skipaði hann sér snemma undir merki jafnaðarstefnunnar og Alþýðuflokksins og var þar ávallt einn af bestu liðsmönnum ávallt reiðubúinn til starfa fyrir hugsjónir sínar.

Einar Ásgrímsson var vinsæll af öllum sem nokkur samskipti eða kynni höfðu af honum og bar þar margt til. Hann var glaðvær og hjálpsamur reifur heim að sækja, en fyrst og fremst var hann drengur góður og svo gegnvandaður að hann vildi í engu vamm sitt vita. Slíkum manni var gott að kynnast og eiga að kunningja og vini. Þau Einar og Dorothea eignuðust sjö mannvænleg börn, sem öll eru á lífi.

Ástvina hópur Einars er stór og samstilltur og með Dorotheu í fararbroddi léttu þau honum síðustu ævisporin, og því munu hlúa að minningu hans af ást og alúð um leið og þau minnast þess að dauðinn er engin endalok, heldur umbreyting til æðra og betra lífs. Ég kveð Einar Ásgrímsson með einlægri þökk fyrir langa og hugþekka samleið og fyrir ógleymanlega vináttu.
í guðs friði

Jóhann G. Möller
---------------------------------------------------------

Neisti 3 desember 1957

Einar Ásgrímsson. Þann 6. nóv. s.l. átti Einar Ásgrímsson, verkamaður, Grundargötu 9, sextugsafmæli.

Einar er öllum Siglfirðingum kunnur sem mikill dugnaðar- og atorkumaður. Hann hefur verið mjög eftirsóttur við síldarsöltun og hefur langa og staðgóða þekkingu á smíði síldartunna, enda mjög beitt sér fyrir því, að hér væru smíðaðar tunnur í stórum stíl.

Einar hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Verkamannafélagið Þrótt og ávallt leyst þau af hendi af sínum alkunna dugnaði. — Hann hefur skipað sér í raðir siglfirzkra jafnaðarmanna og leyst af hendi margvísleg störf fyrir flokkinn, sem seint verða fullþökkuð.