Jón Ágústsson (Jón bratti)

„Karlarnir komust á ball“

Afmælisviðtal við Jón Ágústsson áttræðan

Jón Kristinn Ágústsson frá Siglufirði átti á laugardag áttræðsafmæli.

Nokkru fyrir afmælið heimsótti blaðamaður Alþýðublaðsins Jón á heimili dóttur hans í Ytri-Njarðvík og átti við hann stutt spjall, en Jón og kona hans hafa undanfarna daga dvalist hjá dóttur sinni og tengdasyni. —

Ég er fæddur á Brattavöllum á Árskógsströnd 2. sept. 1887, segir Jón. Ég ólst upp hjá foreldrum mínum, Ágústi Guðmundssyni og Margréti Jónsdóttur.

Við vorum 10 systkinin og komust fimm til fullorðinsára, 3 drengir og 2 stúlkur. Af þeim er nú á lífi auk mín, Jakob Ágústsson, bróðir minn, sem býr á Hauganesi á Árskógsströnd. —

14 ára gamall tók ég að stunda sjómennsku og var þá á hákarlaskipinu Eiríki, en skipstjóri minn þá hét Sigurður Hrólfsson. Ég var alls 30 vertíðir til sjós, bæði á hákarlaveiðum og færafiski, svo ég er nú búinn áð sjá sitt af hverju um dagana, það er ábyggilegt, og ég hef lent í mörgum mannskaðaveðrum.

Það var einhvern veginn þannig, að skipstjórarnir vildu alltaf fá mig á skip sín, það þótti fylgja mér svo mikið lán, að það fór aldrei maður fyrir borð á skipum, sem ég var á. Ég þótti líka fiskinn og var alltaf 1. eða 2. maður um borð. —

Jón Ágústsson

Jón Ágústsson

Geturðu ekki sagt okkur frá minnisstæðu atviki frá sjómennskunni. Lentuð þið ekki oft í hrakningum? —

Árið 1915 var ég á þilskipinu Óla og við vorum á leið frá Akureyri vestur fyrir Ísafjarðardjúp til að fiska á færi. Þegar við komum að Horni, var ísinn svo þéttur, að við komumst ekki fyrir Hornbjarg vegna íss, svo að skip stjórinn sigldi inn í Húnaflóa og ætlaði að taka þar höfn, en þá vildi það óhapp til, að við lentum á skeri.

En af því að við höfðum seglin uppi, þegar við lentum á skerinu, kom vindur í öll seglin og skipið lagðist svo mikið á hliðina, að það rann af skerinu. Þá birti til og við sáum land og var tekin bein stefna til lands, því að sjór var kominn í skipið. Svo vildi nú ekki betur til, en þegar við höfðum siglt dálítinn spöl að landi, að við komum að íshellunni og þar sökk skipið, en við komumst allir upp á ísinn.

Við stukkum svo jaka af jaka, þar til við komum að einni breiðri vök, sem enginn treysti sér til að stökkva yfir nema 18 ára drengur, Tómas Sigurðsson að nafni. Hann sagðist skyldi stökkva yfir. Svo fór hann úr stígvélunum til þess að vera léttari í stökkinu. —

Við höfðum bundið kastlínu um hann, áður en hann fór yfir, og honum tókst að festa hana í jaka hinum megin og fórum við svo allir yfir á línunni, hálfir í kafi og sá síðasti fór nær alveg í kaf.

En allir björguðumst við og komumst alla leið í land. Við komum að landi í Skjaldbjarnarvík og þar voru tveir bæir alveg niðri við sjó. Þar fengum við góða aðhlynningu, en við vorum 17 og var skipt niður á bæina. 

Engum varð meint af volkinu og gistum við einá nótt á bæjunum og fengum svo fylgdarmann til að fylgja okkur yfir heiðarnar niður í Jökulfirði. Við komum svo til Ísafjarðar laugardaginn fyrir páska og gátu þá karlarnir fengið sér ný föt og farið á ball eftir alla hrakninguna. —

Hvenær kvæntist þú, Jón? — Það var haustið 1919 og konan mín heitir Kristjana Jensdóttir. Hún er fædd og uppalin í Flatey á Skjálfanda og voru foreldrar hennar Jens Kristfinn Jónsson, bóndi og Helga Jónsdóttir, en hún stundaði ljósmóðurstörf. —

Við Kristjana eigum eina dóttur,
Margréti Helgu, sem er gift Sveini Jakobssyni, húsgagnasmið og eiga þau fjögur börn.

Fyrstu búskaparárin bjuggum við á Brattavöllum, síðan 8 ár á Hellu á Árskógsströnd, en árið 1929 fluttum við til Siglufjarðar og þar höfum við búið síð an og erum nú á Lindargötu 7B. —"

Stundar þú enn vinnu? — Já, já, já, það væri nú annað hvort. Ég hef unnið síðan 1931 hjá Síldarverksmiðjum ríkisins og vinn þar upp á hvern dag í frystihúsinu 
-----------------------------

Einherji - 1967

AFMÆLI Jón Kristinn Ágústsson, verkamaður, Lindargötu 7 C, Siglufirði, varð áttræður þann 2. sept. s.l. Jón er ern vel og vinnur dag hvern fullan vinnudag hjá frystihúsi S. R. Jón hefur lofað að eiga viðtal við Einherja síðar (jólablaðið). Einherji árnar Jóni allra heilla og þakkar langan og vel unnin vinnudag.
----------------------------------------

Neisti 3 desember 1957

Jón Ágústsson. Þann 20. september 1957 varð Jón Ágústsson verkamaður, Lindargötu 17, sjötugur. Jón hefur alltaf verið röskleika maður, og á sínum yngri árum stundaði hann sjóróðra með handfæri og voru þeir þá fáir, sem drógu á við Jón Ágústsson. Jón hefur ávallt sýnt mikla trúmennsku í starfi og er mjög vinnuglaður. Hann er kátur vinnufélagi og engan mann þekki ég, sem er ekki vel til Jóns. Þrátt fyrir hinn háa aldur er Jón sí ungur og spilar í frístundum sínum allra eldri manna bezt bridge og er þá fyrst í essinu sínu. Jón er stéttvís maður og hefur ætíð fylgt Alþýðuflokknum að málum.
--------------------------------------------------

Neisti 3 desember 1957

Jón Ágústsson. Þann 20. september 1957 varð Jón Ágústsson verkamaður, Lindargötu 17, sjötugur. Jón hefur alltaf verið röskleika maður, og á sínum yngri árum stundaði hann sjóróðra með handfæri og voru þeir þá fáir, sem drógu á við Jón Ágústsson. Jón hefur ávallt sýnt mikla trúmennsku í starfi og er mjög vinnuglaður.

Hann er kátur vinnufélagi og engan mann þekki ég, sem er ekki vel til Jóns. Þrátt fyrir hinn háa aldur er Jón sí ungur og spilar í frístundum sínum allra eldri manna bezt bridge og er þá fyrst í essinu sínu. Jón er stéttvís maður og hefur ætíð fylgt Alþýðuflokknum að málum.