Vigfús Gunnlaugsson verkamaður

 Fæddur 12. des. 1907 *- Dáinn 14. marz 1960
MINNINGARORÐ

Alltaf eru vinir okkar að hverfa úr hópnum, kallaðir yfir landamæri lífs og dauða, yfir á annað tilverustig. Jafnt ungir sem gamlir verða að hlýða því kalli, þegar þeim er ákveðinn hinn mikli háttatími. —

Sú er reynsla eldra fólksins. Þetta er sem sé ófrávíkjanlegt lögmál lífsins. Nýlega var kippt burt úr samferðamannahópnum velmetnum og góðum dreng, svo að segja á miðjum starfstíma, Vigfúsi Gunnlaugssyni. Hann lézt á sjúkrahúsinu hér í bæ 14. marz  1960 eftir alllanga legu og miklar þrautir.

Vigfús var fæddur að Búðarhól í Ólafsfirði 12. des. 1907.

Voru foreldrar hans Stefanía, dóttir Ólafs Guðmundssonar bónda á Reykjum í Ólafsfirði og síðar í Skútu hér í Siglufirði, og konu hans, Ólafar Eiríksdóttur.

Börn þeirra merku hjóna voru 12 að tölu og fluttust flest öll hingað til Siglufjarðar og reyndust hér mætir borgarar, myndarlegt, manndómsríkt og mikið drengskaparfólk.

Má í því sambandi minnast móður vinar vors Vigfúsar, hins mæta manns Sigfúsar í Hlíð, gæðakvennanna Marsibil og Ólínu, og margir Siglfirðingar munu minnast hins dugmikla húsasmiðs Jóns, er var á sínum tíma öllum harmdauði.

Af þessum mannvænlega systkinahóp eru ein þrjú á lífi,

  • Sigfús í Hlíð,
  • Ólína, búsett hér, og
  • Þórey, búsett í Ólafsfirði.

Öll eiga þessi systkini afkomendur hér í bæ, er sverja sig að manndómi og myndarskap í ættina.

Faðir Vigfúsar hét Gunnlaugur Arinbjarnarson. Hann var alinn upp á Hellu á Árskógsströnd hjá Vigfúsi bónda þar. Bendir nafnið Gunnlaugur og það, að hann var tekinn í fóstur af Hellnafólki, að hann hafi verið af hinni merku Krossaætt, því af þeirri ætt var Hellnafólkið komið. Má því segja, að Vigfús sálugi hafi verið af góðu og traustu bændafólki kominn í báðar ættir.

Hjónin Stefanía og Gunnlaugur eignuðust tvö börn, Ólöfu, er giftist Pétri Stefánssyni frá Nöf, en lézt fyrir allmörgum árum, og Vigfús, sem hér er getið. Ungur að árum missti Vigfús föður sinn. Kom þá strax fram í honum dugnaðurinn og hugulseminn við móður sína, þegar hann, lítill drengur, leitaði sér eftir ýmsri vinnu til að afla heimilinu tekna. Var oft til þess tekið, hve vinnugleðin og starfsþráin var mikil hjá honum.

Um skeið bjó ekkjan með börnum sínum í Ólafsfirði, en flutti með þau til Siglufjarðar árið 1925. Um það leyti giftist Ólöf Pétri Stefánssyni, eins og fyrr er getið, og stofnuðu sitt eigið heimili en þau eignuðust eina dóttur, Ólöfu að nafni. Eftir það var Vigfús með móður sinni, unz hún lézt.
Þau mæðgin tóku til fósturs Ólöfu litlu, er móðir hennar dó, og var hún, eins og nærri má geta, eftirlætisgoðið á heimilinu. Hún er nú gift kona búsett í Keflavík og líkist ættfólki sínu að myndarskap og vænleik.

Þegar móðir Vigfúsar andaðist, tók hann til sín unnustu sína, Sigfúsína Stefánsdóttir, ágæta konu.

Foreldar hennar eru Stefán Jónsson og Soffía Jónsdóttir, sem allir Siglfirðingar kannast við að góðu einu.
Árið 1950, 3. jan., giftust þau Sigfúsína og Vigfús.
Þau eignuðust eitt sveinbarn, Gunnlaugur Vigfússon, laglegan hnokka. Samvistir þeirra  voru styttri en óskað var eftir, en það var ánægjulegur samverutími.

Vigfús var vænn maður, hörkuduglegur til allra verka, og aldrei féll honum verk úr hendi. Hann var með afbrigðum greiðvikinn og hjálpsamur; setti sig aldrei úr færi, ef með þyrfti, að rétta meðbræðrum sínum hjálparhönd. Hann var einn af stærri fjáreigendum hér í bæ, var fjárglöggur svo af bar og markglöggur.

Hann var dýravinur mikil, fór vel með kindur sínar og sýndi þar óviðjafnanlega natni og hugulsemi við málleysingjana. Vigfús var trölltryggur maður, einlægur vinur vina sinna, traustur maður og ábyggilegur, er vildi ekki í neinu vamm sitt vita. Hann var einn af stofnendum Stúfarafélagsins, sem síðar nefndist Losunar- og lestarfélagið, og starfaði í því meðan heilsan entist.

Vigfús var þrekmaður mikill og þó hann síðastliðin 12 ár væri ekki heill heilsu, var hann alltaf sístarf andi og gegndi sínum skyldustörfum, þar til sjúkdómurinn jókst svo, að þrek hans var niðurbrotið. Það er mikil eftirsjá fyrir bæjarfélag að missa frá starfi jafn góða og heilsteypta verkamenn og Vigfús var, og það í miðjum starfstíma. En enginn má sköpum renna. Þungur harmur og sár er ákveðinn að eiginkonu hans og öðrum ástvinum, en það er alltaf huggunin að eiga ljúfar minningar um góðan eiginmann, tryggan vin, vinsælan og vanmetinn samferðamann.

Við sem fylgdust með þessum mikla eljumanni, sívakandi í sínum störfum, hefðum látið okkur til hugar koma, að hann ætti eftir að starfa mikið og margt meðal okkar, en þessu hefur verið ráðstafað á annan veg og mun vera vel ráðið — eftir aðstæðum, en —

  • Flýt þér, vinur, í fegri heim.
  • Krjúptu að fótum friðarboðans
  • og fljúgðu á vængjum morgunroðans,
  •  meira að starf a guðs um geim.

Blessuð sé minning þessa góða drengs. P. E.
------------------------------------------------------

Neisti 13 maí 1960

VIGFÚS GUNNLAUGSSON Hann lézt í Sjúkrahúsi Siglufjarðar 14. marz sl., eftir erfiða legu. Vigfús var fæddur á Búðarhóli í Ólafsfirði 12. des. 1907. Árið 1925 fluttist hann með móður sinni, Stefaníu Ólafsdóttur, og systur, hingað til Siglufjarðar. Vigfús Gunnlaugsson er einn af þeim alþýðumönnum, sem gott og hugljúft er að minnast. Hann vann öll störf sín af dugnaði og elju. Trúmennska og skyldurækni var honum í blóð borin.

Hann var elskulegur við alla og blíðlyndur, og þess vegna allra hugljúfi. I hópi vinnufélaga var hann kátur og glaðlyndur, enda voru allir Siglfirðingar kunningjar hans og vinir. Hina erfiðu sjúkdómsdaga naut hann sérstakrar umönnunar eftirlifandi konu sinnar, Sigfúsínu Stefánsdóttur. f. 16. júní 1921  - 99 ára 2020

Með Vigfúsi Gunnlaugssyni er til foldar hniginn góður drengur.