Jóhannes Jónsson vélsmiður

mbl.is

Jóhannes Jónsson fæddist á Siglufirði 20. júlí 1916. Hann lést á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut 14. desember 2004.

Foreldrar hans voru Jón Jóhannesson fiskmatsmaður, málafærslumaður og fræðimaður, f. 1878, d. 1953 og Guðlaug Gísladóttir húsmóðir, f. 1881, d. 1966.

Systkini Jóhannesar voru níu,

  • Helga, f. 1902, d. 1949,
  • Dóróthea, f. 1904, d. 2001,
  • Klara Valdís, f. 1906, d. 1969,
  • Jóhannes Guðmundur, f. 1908, d. 1914,
  • Anna, f. 1909, d. 1983,
  • Trausti, f. 1912, d. 1932,
  • Bryndís, f. 1914 býr á Siglufirði, Ingibjörg, f. 1918, d. 1973 og
  • Finnbogi, f. 1928, d. 1930.
Jóhannes Jónsson - Ljósmynd Kristfinnur

Jóhannes Jónsson - Ljósmynd Kristfinnur

Eftirlifandi eiginkona Jóhannesar er Unnur Marinós, hárgreiðsludama, f. 1. ágúst 1923.

Foreldrar hennar voru Marinó Sigurðsson bakarameistari, síðast í Borgarnesi, f. 1900, d. 1972 og Guðrún Jónsdóttir húsmóðir, f. 1900, d. 1971.

Jóhannes og Unnur stofnuðu heimili á Siglufirði 1944 og eignuðust fimm dætur.
Þær eru:

1) Erla Nanna Jóhannesdóttir, f. 28.4. 1944. Börn hennar eru
a) Sveinn Viðar, f. 17.8. 1962, kvæntur Marie-Hélene Communay.
Dóttir þeirra er
  • Agathe Agnes, f. 22.10. 2003.
    Fyrir átti Sveinn soninn
  • Snorra Arnar, f. 12.4. 1988.
b) Unnur Björk. Hennar börn eruc) Kristín Elfa, f. 23.9. 1981. Unnusti hennar er Kristján Axelsson.
  • Ívar Örn, f. 9.12. 1983,
  • Daníel Patrik, f. 13.4. 1987 og
  • Sunna Björk, f. 3.10. 2000. 
2) Guðrún Björk, f. 4.11. 1946 gift Vilberg Þorgeirssyni. Börn þeirra eru
a) Erla Dröfn, f. 8.2. 1965 sambýlismaður hennar er Magnús Kristinsson.
Þeirra börn eru
  • Kristófer Arnar, f. 1.9. 1989,
  • Vilberg Andri, f. 28.11. 1993 og
  • Sara Birgitta, f. 4.9. 1995.

b) Helga Jóhanna, f. 14.5. 1969.
Sonur hennar erc) Birgitta María, f. 9.12. 1975. Unnusti hennar er Gunnar Þór Jóhannsson.
  • Sævar Ingi, f. 29.10. 1997.
3) Anna María, f. 31.7. 1956. Sambýlismaður hennar er Björn Ingólfsson.
Dóttir þeirra er
  • Tanja Dögg, f. 30.9. 1988.
    Fyrir átti Anna soninn
  • Jóhannes Örn, f. 22.2. 1976.

4) Hrafnhildur Hulda, f. 28.8. 1958 gift Abdellah Zahid.
Dóttir þeirra er
  • Miriam Björk, f. 5.1. 2003.
    Fyrir átti hún dótturina
  • Alexöndru, f. 12.8. 1989.

5) Hanna Birna, f. 1.12. 1960 gift Inga Þór Jakobssyni.
Synir þeirra eru
  • Davíð Örn, f. 23.9. 1986 og
  • Ísak Örn, f. 7.1. 1998.
    Fyrir átti Ingi
  • Þór dótturina Guðnýju, f. 14.11. 1981.

Jóhannes vann frá unga aldri við ýmis störf tengd síldarútgerð. Frá árinu 1951 var hann fastráðinn hjá Síldarverksmiðjum ríkisins, en í Reykjavík vann hann sem húsvörður og næturvörður frá árinu 1972 uns hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.

Jóhannes og Unnur bjuggu á Siglufirði fram til ársins 1972 er þau fluttu til Reykjavíkur.

Jóhannes verður jarðsunginn frá Fella- og Hólakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.
----------------------------------------------------

Hann pabbi er dáinn.

Í janúar síðastliðnum lagði hann af stað í þetta langa ferðalag. Þá fór hjartað alvarlega að gefa sig og líf okkar pabba fór að snúast um Bráðamóttökuna, Landspítalann, Borgarspítalann og göngudeild hjartabilunar á Landspítala. Við gerðum með okkur samkomulag, ég, yngsta dóttir hans, færi með honum í gegnum veikindin og myndi sjá um allt varðandi veikindi hans.

Við bjuggum okkur út og lögðum í hann. Þetta voru mislöng ferðalög allt frá morgungöngutúrum upp í margra vikna ferðalög. Ferðalögin voru misstrembin. Sum notaleg eins og þegar við fórum í heimsóknir á göngudeild hjartabilunar til Önnu Gunnarsdóttur hjúkrunarfræðings og Axels Sigurðssonar á miðvikudögum. Það voru notalegir túrar, svo jákvæðir og uppbyggilegir. Þvílík heppni að hitta þessa yndislegu ferðafélaga, svo yndislegar manneskjur sem hlúa svo fallega að sjúklingnum en ekki bara sjúkdómnum.

Svo voru önnur ferðalög mun strembnari. Þau tóku verulega á. Þá voru há fjöll klifin og við þurftum oft að hvíla okkur. Þurftum að þiggja hjálp og í einu ferðalaginu þurftum við að þiggja þrjár gagnráðsaðgerðir til að komast upp fjallið. En upp fjallið komumst við í það skiptið. Pabbi hafði eitt mottó í lífinu og það var að gefast aldrei upp. Og áfram héldum við. Stundum þurftum við að þiggja blóðpoka, stundum fleiri en einn. Stundum járnpoka, stundum saltvatnspoka, stundum deyfilyf, hækjur, stafi og aðhlynningu og stundum þáðum við öxl til að hvíla á.

Síðasta ferðalagið var erfiðast, þá var hann pabbi orðinn svo langþreyttur eftir allar fjallgöngurnar en hann ætlaði ekki að gefast upp, nei hann ætlaði bara að þiggja meiri hjálp á leiðinni. Og í hann lögðum við. Hann þáði alla poka sem buðust á leiðinni og skimaði eftirvæntingarfullur eftir hjálparmönnunum. Þeir komu ávallt brosandi og elskulegir og reiddu fram hjálparhönd. Þessi tindur var erfiðari en allir tindar sem við höfðum klifið áður.

Við sáum heppilegan stein sem við settumst á og þar hvíldum við okkur og rifjuðum upp gamla tíma á Siglufirði. Þessi tími okkar á steininum á meðan við biðum er mér svo dýrmætur í dag. Við töluðum um bernsku mína og pabbi sagði mér söguna af því þegar ég fæddist og allt standið í kringum það. Við rifjuðum upp bernskuárin á Siglufirði. Hversu dýrmætt það var að fá að alast upp í efstu götunni uppi í fjallinu og þurfa bara að fara út um útidyrnar og setja á sig skíðin og vera kominn í brekkuna.

Við rifjuðum upp gamlárskvöldin á Siglufirði þegar við stóðum í útidyrunum og horfðum upp í fjallið og sáum ártalið sem var að líða blasa við upplýst og nýtt ártal koma fram. Horfðum svo á skíðamennina í rökkrinu skíða niður fjallið í svigi með eldkyndlana í hendinni. Þetta er minning sem aldrei verður tekin og er svo eftirminnileg. Og svo fengum við stelpurnar kyndla sem pabbi gerði. Við stóðum þarna eins og brúður. Vorum svo stoltar yfir traustinu sem hann og mamma sýndu okkur með því að treysta okkur fyrir þessum flottu kyndlum. Við fórum varlega, hlýddum fyrirmælum og enginn slasaðist.

Við töluðum um eplakassann sem hann og mamma keyptu fyrir jólin og var geymdur í geymslunni. Þvílík dýrðareplalykt. Við hliðina á eplakassanum stóð 7-up-goskassi. Á hverju kvöldi fórum við systurnar í geymsluna og lyktuðum og horfðum á dýrðina. Allt var ósnert alveg fram á aðfangadagskvöld. En þá máttum við borða eins og við vildum og drekka eins og við gátum. Þá var nú kátt í höllinni og nokkrir útblásnir magar.

Svo rifjuðum við upp blístrið hans pabba. Hann blístraði flottast af öllum pöbbunum á svæðinu. Ef við systurnar vorum uppi í fjalli eða bara við leik úti og pabbi þurfti að ná í okkur þá blístraði hann og þá vissum við um leið að þetta var pabbi og fórum fljótt á hans fund. Talið barst að helgarferðunum okkar á Almenningana sem var okkar leynistaður fyrir utan Siglufjörð. En þangað fórum við um næstum um hverja helgi allt sumarið á bílnum okkar Austin 10. Þetta voru dásamleg tjaldferðalög með honum og mömmu, svo mikil nálægð öll saman í einu tjaldi. Ef við vildum einveru þá voru grundirnar ótæmandi í kring og þar gátum við hoppað og skoppað allan daginn.

Svo barst talið að stökkskíðunum mínum sem pabbi smíðaði. Við vorum 3 stelpur sem kepptum og alltaf kom maður heim með verðlaun, annað hvort gull, silfur eða brons þá var gaman. Svo rifjuðum við upp allar keyrsluferðirnar á Austin 10 upp Skarðið. Þá fékk ég aðstoðarbílstjórastöðu og hélt í gírstöngina alla leiðina upp. Þetta var mikið ábyrgðarhlutverk hjá lítilli stúlku og tók ég þetta mjög alvarlega. Svo rifjuðum við upp söguna sem pabbi sagði mér aftur og aftur og aftur. Söguna um fiskinn sem var soðinn í dós. Pabbi sagði að þessi saga hefði læknað öll mein.

Pabbi sagði mér frá því að oft hefði hann þurft að kveðja konurnar í lífi sínu og halda út á land til að vinna þegar enga vinnu var að fá á Siglufirði. Þá var hann mánuðum saman í burtu og sendi mömmu peninga til að halda heimilið. Pabbi vildi vinna og var baráttumaður í hjarta sínu fyrir verkalýðinn. Hann var staðfastur, gáfaður og vel lesinn. Það var hægt að tala um allt við pabba, hann var inni í öllu. Maður kom aldrei að tómum kofunum hjá honum, stjórnmál, gengi, eignamyndun og almenn umræða voru hans hjartans mál allt fram á síðasta dag. Alveg með upp á hár. Við vorum oft ekki sammála en fannst gaman að hittast og skiptast á skoðunum og rökræða. Og ég þakkaði honum fyrir hversu vel hann hafði reynst drengjunum mínu.

Á meðan við rifjuðum upp fortíðina þarna á steininum kom í ljós að lyfin unnu hvort á móti öðru. Þegar pabbi fékk mikinn hjartaverk fékk hann morfínlyf við verknum sem leiddi til hræðilegrar ógleði. Svona vanlíðan á leiðinni á tindinn var óbærileg. Pabbi gat ekki afborið þessa vanlíðan. Að lokum gafst hann upp og leit í augun á mér og sagði: "Hanna Birna mín, ég er að fara, ég er að deyja, þetta gengur ekki lengur, ég get ekki lifað svona, nú verður þú að vera sterk." Þessi tindur gekk of nærri pabba og við systurnar og mamma vöktum yfir honum í tæpar 3 vikur allan sólarhringinn. Að lokum kvaddi hann þetta líf og eftir sátum við konurnar í lífi hans sorgmæddar en sáttar yfir að kvölum hans var lokið.

Hvíl í friði, elsku pabbi minn, þú verður alltaf mín fyrirmynd.

Þín elskandi dóttir Hanna Birna.
------------------------------------------------------------

Elsku besti pabbi minn.

Nú er komið að kveðjustund. Hugurinn leitar heim á fornar slóðir, til Siglufjarðar. Yndislegir sunnudagsmorgnar að sumri, þegar þú vaktir mig eldsnemma og ég fékk að fara með þér niður í Síldarverksmiðjur til að flagga, eða kaldir snjóþungir dagar þegar við fórum að sækja kol niður í verksmiðju. Á heimleiðinni fékk ég að sitja ofan á kolapokanum á sleðanum sem þú dróst, bara við tvö. Þvílík forréttindi, þvílíkur heiður.

Á gamlársdag þegar þú byggðir stærðarinnar snjóhús með sætum og öllu tilheyrandi, upplýst með kertum, kakó drukkið og kökur maulaðar. Stundarinnar var notið en beðið með eftirvæntingu eftir kvöldinu þegar kveikt var í brennunni sem var rétt fyrir ofan húsið okkar. Yndislegar ferðir upp í Hvanneyrarskál, fjallaklifur fyrir litla skrefstutta stelpu. Þar var sest niður, horft með aðdáun yfir fallega fjörðinn. Uppplifður yndislegur ilmur af gróðri og nestið borðað.

Fyrstu skíðin mín voru tunnustafir, algjört æði. Þau gerðir þú fyrir mig, elsku pabbi.

Síðan gömlu tréskíðin sem þú málaðir himinblá. Mér fannst þau flottustu skíðin í öllum heiminum. Sleðarnir sem þú smíðaðir. Sparksleðinn með sætinu og magasleðinn sem notaður var nánast á hverju vetrarkvöldi. Rennt sér niður Þormóðsbrekkuna, margar bunur.

Minnisstæð eru öll skiptin sem ég kom inn ísköld eftir að hafa verið klukkustundum saman að búa til snjógöng. Þú nuddaðir ískalda fætur og hendur þar til líf færðist í með tilheyrandi verkjum. Grátur vegna þess hve sárt var er blóðið fór aftur að streyma. Gott að hafa pabba að hugga sig. Ég kynntist þér enn betur þessar síðustu vikur er ég sat hjá þér á spítalanum. Þar sýndir þú á þér nýjar hliðar. Sýndir enn betur hve vel þú kunnir að meta nærveru fjölskyldunnar og hve mikið þú kunnir að meta allt yndislega starfsfólkið á hjartadeildinni sem vildi allt fyrir þig gera. Þessu yndislega fólki verð ég þakklát til æviloka.

Elsku pabbi ég kveð þig með þakklæti og söknuði.

Hvíl í friði. Takk fyrir allt og allt.

Þín dóttir Anna María.
--------------------------------------------------

Elsku afi minn er látinn. Hann ætlaði að verða að minnsta kosti níræður eins og Binna frænka, en það vantaði tvö ár í það. Já það var ótrúlegt hversu seigur hann var en hann hefði ekki getað þetta einn. Hún amma mín er búin að vera svo sterk þrátt fyrir erfiða tíma og systurnar voru duglegar að vaka yfir pabba sínum, allt til hins síðasta. Það var alltaf skemmtilegt að fara til ömmu og afa í Reykjavík.

Þar gat ég gleymt mér í sögunum sem afi sagði mér af sér sem ungum manni á Siglufirði og iðulega fórum við í gönguferð alla leið í sjoppuna og þar mátti ég velja mér eitthvert góðgæti. Hann var alltaf mjög áhugasamur gagnvart mínu námi og starfi. Það hefur alltaf skipt mig miklu máli. Ég veit að hann var stoltur af mér. Þau amma ferðuðust víða í útlöndum á árum áður og þá iðulega til staða sem ég gat varla borið fram sem barn en það var sko ekki bara Spánn.

Núna er hann á ferðalagi sem hann varð að fara einn í en ég veit að hann er ekki einn. Elsku afi minn. Takk fyrir allar yndislegu stundirnar. Þú barðist hetjulega og fórst með sæmd. Hvíl í friði. Elsku amma, mamma, Hanna Birna, Erla, Anna María, Hrafnhildur. Megi Guð styrkja okkur öll.

Birgitta María.
--------------------------------------------------

  • Svanasöng við
  • og silungsvötnin bláu,
  • þar finn ég frið
  • hjá fjöllunum mínum háu, -
  • þar finn ég frið.

(Páll Ólafsson.)

Mér er það sárt að hafa ekki auðnast að fylgja þér síðasta spölinn, elsku afi minn. En nú er þér ekkert fjötur um fót lengur og þú ert eflaust á leið norður. Léttfætti smaladrengurinn, sem þú sagðir mér svo oft frá, bíður nú vorsins með óþreyju - fjöllin þín og vötnin taka þig nú aftur í faðminn. Ég mun vitja þín þar afi minn.

Sveinn Viðar, Frakklandi.
----------------------------------------------------

mbl.is 23. desember 2004 | Minningargreinar 

Jóhannes Jónsson fæddist á Siglufirði 20. júlí 1916. Hann lést á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut 14. desember síðastliðinn og var jarðsunginn frá Fella- og Hólakirkju 21. desember.

Það var á fallegum hvítum vetrarmorgni sem hann pabbi minn hvarf úr þessum heimi. Þeir voru líka ófáir hvítu vetrarmorgnarnir í hans lífi sem hann hvarf út í norðlensku hríðina og frostið og hraðaði sér til vinnu. Myndir og minningar svífa fyrir hugskotssjónum okkar sem eftir erum.

Fyrstu árin í "silfurhöllinni" og við Guðrún Björk bara tvær þá. Leikföng voru smíðuð af miklum hagleik, svo og rúmin okkar systra. Ég sé hann hlaupa út úr stofunni í þessu húsi með logandi jólatré því eitt kertaljósið nældi í grein. Um næstu jól var komin jólasería úr vasaljósaperum, máluðum öllum regnbogans litum.

Áhugamálin á yngri árum tengdust mest íþróttum og veiðiskap, var mikið á skíðum, og tók þátt í skíðakeppnum. Hann var óþreytandi að segja okkur sögur af veiðiferðunum með sínum góðu vinum frá yngri árum. Einhver þeirra átti bát og þeir veiddu silung og svartfugla og tíndu egg. Frá blautu barnsbeini vöndumst við því fuglakjöti og svartfuglseggjum og það var hátíð þrungin minningum um "svörtu eggin" þegar hann svo löngu síðar keypti svartfuglsegg á vorin.

Hann var tvo vetur í Héraðsskólanum í Reykholti, en hélt ekki áfram á námsbrautinni því áhuginn lá annars staðar, á vélum og tengdum störfum og því sem var í deiglunni á þessum tíma. Á veturna var oft atvinnuleysi á Siglufirði og fremur en þiggja nokkuð af nokkrum fór hann víða um land þar sem vinnu var að fá, annars vann hann á sumrin hjá Síldarverksmiðjum ríkisins, í Paul, SR-30, SRN og SR-46 þar til hann var fastráðinn og var þá á sumrin í SR-46 og á veturna á vélaverkstæðinu.

Oft var bara dagvinnan á veturna sem varla nægði þegar fjölskyldan fór að stækka. Hann tók því alla eftirvinnu sem bauðst og var vaktmaður í togurunum um tíma á meðan þeir voru í landi. Hins vegar var mikil vinna í síldarverksmiðjunum á sumrin. Hann var léttur á fæti þá, þegar hann snaraðist í vinnuna, en svo á reiðhjóli í mörg ár. Og þegar ég söng - Afi minn fór á honum Rauð - fyrir soninn tveggja ára sagði sá stutti: "Nei, afi minn fór á hjóli." Hann var árum saman í brunaliðinu og það var oft ekki góð líðan meðal okkar heima þegar stórbrunar áttu sér stað. Hann kom alltaf heim í hádegismat, þótti vænt um vinnuna sína, og sagði okkur þá ýmislegt þaðan, þó ekki alltaf við mikinn fögnuð yngismeyja, sem ekki höfðu sérstakan áhuga á þurrkurum, skilvindum, gúanói eða síldarmjöli.

Um sumarfrí var ekki að ræða um hábjargræðistímann, en þegar við Guðrún Björk vorum litlar átti pabbi árabát og á sunnudögum fórum við oft yfir um fjörð. Ég man þegar hann hnyklaði vöðvana við róðurinn og ég hélt að pabbi minn væri með stærri og sterkari mönnum, en seinna sá ég að hann var svona rétt meðalmaður á hæð. Þetta var okkar sumarfrí við leik í fjörunni og gönguferðir um Kambaláana og móðir okkar síðar ein af stofnendum Útivistar þarna í essinu sínu.

Heimili foreldra okkar var alltaf fallegt og notalegt. Þar fór saman smekkvísi og röggsemi móður okkar og skilningur pabba á því að eiga hlýlegt heimili. Þau áttu alltaf marga og góða vini og oft var glatt á hjalla og gestkvæmt í gegnum árin. Pabbi hafði hönd í bagga með heimilisstörfunum þegar með þurfti, t.d. þegar fjölgun varð í fjölskyldunni eða af öðrum ástæðum. Móðir okkar rak hárgreiðslustofu í mörg ár, og það kom aldrei niður á heimilinu bæði vegna hennar einstöku skipulagshæfileika og að hann lagði sitt af mörkum. Jólin framundan vekja margar minningar, pabbi að moka snjóskaflana, sjóða hangikjötið, hreinsa sviðin, festa jólatréð á síldartunnu á meðan mamma sér um jólahárgreiðsluna fyrir frúr bæjarins ásamt kökubakstrinum og jólaundirbúningnum.

Síldin hvarf og fjölskyldur fóru að tínast úr bænum. Pabba var það þungbær tilhugsun að fara, en yngstu dæturnar þrjár voru að nálgast framhaldsskólaaldur og erfitt að senda allar í skóla í einu því ekki virtust bjartir tímar framundan. Það varð því úr að fjölskyldan fór suður 1972 og hann gerðist húsvörður í Sólheimum 25. Hann sinnti því af trúmennsku og þótti vænt um fólkið í húsinu, en það var einmannalegt starf og hann saknaði kallanna af verkstæðinu og saknaði Siglufjarðar sárt í fyrstu. Smám saman rjátlaðist það þó af honum og hann fór að kunna prýðilega við sig í Reykjavík og varð alveg sáttur. Árið 1980 gerðist hann næturvörður í Verslunarbankanum þar sem honum líkaði afar vel og talaði alltaf hlýlega um allt og alla þar.

Loksins á miðjum áttunda áratugnum áttaði hann sig svo á að það væri ekki svo vitlaust að fara í sumarfrí og fór næstu árin með sinni frú til margra landa. Þau fóru daglega í langar gönguferðir, hann með hatt sinn og staf og með augu og eyru opin yfir því sem merkast var.

Pabbi fylgdist alla tíð mjög vel með fréttum og fréttatímar voru heilagir, hafði mikinn áhuga á stjórnmálum og fylgdist vel með, las mikið og það var oft ákveðið þema í gangi í bókmenntunum. Hann hafði óbilandi lífsvilja, en var oft lasinn hin síðari ár, lét þó lítið yfir því. Varð svo að fara á sjúkrahús af ýmsum orsökum, oft alvarlegum, og stóð mamma alltaf þétt við hlið hans og vaktaði hann dag og nótt "Pabbi hefur níu líf," sögðum við. Þau voru ekki með bíl síðustu árin, en fóru mikið í bæinn, gjarnan á kaffihús, lásu blöðin og áttu notalegar stundir á meðan hann treysti sér til.

Hann hafði stálminni allt til síðustu stundar hvort sem var um gamla daga eða nútímann. Það voru hans bestu stundir að sitja og tala saman í rólegheitum eins og hann sagði. Við sátum saman stund nánast í viku hverri og umræðuefnin voru Siglufjörður fyrr og nú, uppvaxtarárin hans og það sem var efst á baugi í landinu. Við rifjuðum ýmislegt upp og ég spurði margs um fólkið og fjöllin og varð þess áskynja að ég hafði alls ekki þekkt ýmis fögur og tilkomumikil fjallanöfn. Hann naut þess að segja frá og við vorum bókstaflega fyrir norðan í huganum þessar stundir.

Jonni Jóns var mjög fastur fyrir og þegar hann hafði myndað sér skoðun varð henni ekki haggað nema rök væru óumflýjanleg, stoltur og lét ekki beygja sig á lífsleiðinni á meðan hann taldi réttlætið vera sín megin. Hann var gætinn í fjármálum og greiddi alltaf á gjalddaga, gerði ekki miklar kröfur til lífsins og vildi helst hafa hlutina í föstum skorðum. Hann fylgdist vel með barnabörnunum og barnabarnabörnunum, spurði mikið um þau og var stoltur af þeim öllum, en átta þeirra búa erlendis í þremur löndum og ein dóttir.

Síðustu vikurnar sem móðir okkar og við systur vöktum hjá honum var gott að halda í hlýjan lófa hans og muna eftir örygginu sem hann veitti þegar hann leiddi okkur sem börn og nú vorum við að reyna að veita honum öryggi. Pabbi var þannig að okkur fannst alltaf að allt væri í lagi ef hann var til staðar, t.d. í stórhríðunum fyrir norðan þegar húsið hristist og skókst og sá ekki út úr augum og síðar sýndi hann það á ýmsan hátt í tilveru okkar. Nú þegar hann er farinn er söknuður okkar sár, en að hafa fengið að hafa hann svona lengi hjá okkur er þó þakkarvert.

Við fórum öll með barnabænina okkar við dánarbeð hans:

  • Láttu nú ljósið þitt
  • loga við rúmið mitt.
  • Hafðu þar sess og sæti,
  • signaði Jesús mæti.

(Höf. ók.)

Erla Nanna Jóhannesdóttir.
---------------------------------------------------- 

Jóhannes Jónsson

  • Þú skilur eftir auðlegð þá
  • sem enginn tekið fær.
  • Ást í hjarta, blik á brá,
  • og brosin silfurtær.
  • Mesta auðinn eignast sá
  • er öllum reynist kær.

(G.Ö.)

Elsku afi, takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur bræðurna.

Þínir afastrákar, Davíð Örn og Ísak Örn.