Kristján Tómasson

Morgunblaðið - 11. maí 1960  

Kristján Tómasson Siglufirði. Fæddur 17. september 1877 - Dáinn 28. mars 1960 - 83 ára

ÉG mun ekki vera einn um það, að staldra við og rifja upp liðinn tíma, þegar andlátsfregn manna eða kvenna berst að eyra, sem settu svip sinn á það umhverfi, sem við æskufólkið ólumst upp við. Því er það, að mig langar til að skrifa nokkrar línur um þennan heiðursmann, af vanefnum þó. Einhverjum kann að finnast að um Kristján Tómasson þyrfti ekki að skrifa langa minningargrein, enda skal það ekki gert.

Það fólk, sem hann umgekkst mun greina persónu hans í hugskoti sínu — eins og hann var, hugljúfur, glettinn og góður, hvort sem var á heimili eða á vinnustað. Þegar ég var í æsku, renna mér í hug vetrarkvöldin, þegar Kristján kom á heimili foreldra minna til að „slá í slag" eða gera eitthvað annað til skemmtunar, enda var þar í milli gróin og góð vinátta. Kristján Tómasson var alltaf aufúsugestur.

Fljótamennirnir héldu saman, þegar straumurinn úr AusturSkagafirði lagði til Siglufjarðar úr harðræði og slysförum heima-» byggðarinnar. Kristján Tómasson var sonur prestshjónanna síra Tómasar Bjarnarsonar og Ingibjargar Jafetsdóttur. Faðir Kristjáns, var vígður til Hvanneyrarprestakalls í Siglufirði, en flutti í júní 1877 að Barði í Fljótum, Skagafirði, sem þá var að allra dómi betra brauð en Hvanneyri.

Kristján Tómasson - Ljósmynd Kristfinnur

Kristján Tómasson - Ljósmynd Kristfinnur

Kristján var alinn upp í föðurgarði í stórum systkinahóp og fluttist með foreldrum sínum til Siglufjarðar árið 1902, er faðir hans sagði af sér prestsskap aldurs vegna. Kristján kvæntist góðri konu — Guðbjörgu Jónsdóttur, systur Ólafs Jónssonar bónda í Haganesi og var þeim eins barns auðið, er þau misstu um aldur fram.

Konu sína missti hann einnig eftir skamma sambúð. Ef litið er um öxl, sjáum við hvílíkt áfall þetta hefur verið góðum dreng með miklar framtíðarvonir. Síra Tómas og börn hans byggðu sér reisulegt íbúðarhús á Siglufirði, sem var kallað „prestshúsið“. Þar bjó svo Kristján ásamt systkinum sínum, Aðalheiði, Sigurlaugu og Einari.

Þeir, sem til þekkja, vita að öll voru þau samhent um að búa foreldrum sínum gott og fallegt heimili, og eftir lát prestshjónanna bjuggu systkinin saman í „gamla prestshúsinu". Nú er Kristján Tómasson dáinn, og gamla prestshúsið er að láta lit. Þetta er gamla sagan, er heyrir fortíðinni til, en hana ber að varðveita. Hinn sterki stofn séra Tómasar er þó ekki allur. Tvær systur Kristjáns lifa bróður sinn.

Jóníná ekkja Kjartans Jónssonar trésmíðameistara, sem nýtur umönnunar hjá Jóni syni sínum og Þórnýju konu hans í Reykjavík og Ragnheiður ekkja Páls Árnasonar óðalsbónda á Syðstamói í Fljótum, sem ellimædd nýtur umönnunar Ingibjargar dóttur sinnar á Siglufirði, sem hefur hlúð að móður sinni með slíkri nærgætni að mín orð fá því ekki lýst. Kristján Tómasson er nú lagstur til hvíldar. Minningin um hann mun lifa hjá þeim sem þekktu hann, sú minning er góð og fögur.

Björn Dúason.
---------------------------------------------------------------------------------- 

Neisti 13 maí 1960

Kristján Tómasson var fæddur á Hvanneyri í Siglufirði 17 sept. 1877, sonur merkishjónanna séra Tómasar Bjarnasonar og Ingibjargar Jafetsdóttur.

Hann ólst upp á Barði í Fljótum hjá foreldrum sínum. Hingað til Siglufjarðar fluttist Kristján 1902, og sama ár kvæntist hann Guðbjörgu Jónsdóttur, ættaðri úr Kjósarsýslu, en missti hana eftir tveggja ára sambúð. —

Kristján Tómasson var hógvær og lítillátur maður, er vann sín störf í kyrrþey og hávaðalaust. Grandvar maður og stilltur, er aldrei heyrðist mæla illt til nokkurs manns. Slíkur, mannkosta maður var Kristján Tómasson. Hann var starfsmaður hjá Síldarverksmiðjum ríkisins frá því að þær hófu rekstur sinn, og þótti af burða verkamaður. Kristján átti marga vini, er harma burtför hins aldna heiðursmanns. Það mun ávallt vera bjart yfir minningu hans. Siglfirzkir jafnaðarmenn þakka honum tryggð hans við hugsjónir jafnaðarstefnunnar.