Tengt Siglufirði
✝ Þór Jóhannsson var fæddur 31. janúar
1925 á Siglufirði.
Hann lést 3. maí 2010.
Þór var sonur hjónanna Jóhanns Garibaldasonar verkstjóra hjá Síldarverksmiðjum ríkisins
og Önnu Gunnlaugsdóttur húsmóður.
Þór var elstur þriggja systkina, en hann lifa systkinin
Á kvenréttindadaginn 19. júní 1949 kvæntist hann Elínu Rannveigu Eyfells, dóttur Ingibjargar Eyfells hannyrðakennara sem rak verslunina Baldursbrá um árabil og Eyjólfs J. Eyfells listmálara.
Þau eignuðust fimm börn og eru fjögur á lífi.
Þór lærði húsgagnabólstrun hjá Jóhanni Stefánssyni meistara í húsgagnabólstrun, sem gárungarnir kölluðu Jóa dívana, og vann um árabil við bólstrun hjá Gamla kompaníinu í Reykjavík og hjá Guðmundi Halldórssyni.
Þegar tækifæri bauðst starfaði hann fyrir Síldarverksmiðjur ríkisins víðsvegar um landið. Þór starfaði í áraraðir við húsbyggingar hjá Jóni Samúelssyni múrarameistara og varð eftirsóttur járnabindingamaður. Síðar tóku við verslunarstörf fyrst hjá G. Þorsteinsson og Jónsson og hjá Íselco, þar sem hann starfaði þar til hann fór á eftirlaun. Þór hafði mikinn áhuga á ferðalögum jafnt innanlands sem utan og var lengi félagi í Ferðafélagi Íslands og um skeið formaður ferðafélagsins Útivistar.
Þær voru ófáar vinnuferðirnar sem farnar voru í Þórsmörk til byggingar skála félaganna þar. Þór verður jarðsunginn frá Áskirkju í dag, 10. maí 2010, og hefst athöfnin kl. 13. Það var líf og fjör í Sundunum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Holóttar malargötur, skurðir, uppgröftur, hálfbyggð hús, flutt inn á málaðan steininn. Krakkar um allar götur, mömmur heima, pabbar alltaf að vinna. Kassabílar, sto og stórfiskaleikur, kartöflugarðar, Vatnagarðar, Kleppsströndin, Bítlarnir að öðlast frægð.
Malt og appelsín hátíðardrykkir, kjúklingur og svínasteik dýr og sjaldséður veislumatur, spaghetti bolognese framandi og spennandi og forréttindi að þekkja einhvern sem ferðaðist til útlanda því útlenskt nammi var fjársjóður. Þór og Elín voru meðal þeirra sem byggðu sér hús í Efstasundi á þessum árum. Keypt var gamalt hús á góðri lóð og nýtt byggt. Þá var ekki borið fé á fólk, knékrjúpa þurfti fyrir bankastjórum til að fá lán og unnið var myrkranna á milli við húsbyggingar auk fullrar dagvinnu.
Þór, eins og margir ungir menn þess tíma, var harðduglegur, í fastri vinnu, en sótti aukavinnu út um landið þegar færi gafst til að sjá fyrir stóru heimili sem Elín rak af miklum myndarskap. Þegar leikskólagöngu minni lauk við 6 ára aldur fór ég í dagfóstur til frænku minnar Elínar og þar sem móðir mín kenndi í Vogaskóla þótti eðlilegast að ég hæfi skólagöngu í Langholtsskóla. Var ég því heimagangur hjá Elínu og Þór í Efstasundi í fjögur ár um miðjan sjöunda áratuginn.
Þór var þúsundþjalasmiður eins og þeirra er getið í ævintýrunum. Hann var ákaflega vandvirkur og dverghagur, við bólstrun, húsasmíði, trésmíði, flísalögn, dúklögn eða aðra iðn. Hann var listhneigður og hafði gaman af því á sínum yngri árum að dýfa pensli í lit. Þór var af gamla skólanum og fór vel með bæði muni og fé. Engu var kastað á glæ og alltaf mátti laga bilað húsgagn, leikfang eða verkfæri. Hann hafði unun af því að dunda í bílskúrnum og kom sér þar upp verkstæðisaðstöðu.
Matjurtagarðinn ræktuðu þau alla tíð og eru ófáar kartöflurnar, næpurnar og rófurnar sem komið hafa upp úr þeim reit. Þau Elín ráku sitt heimili af myndarskap, Elín hjartað og sálin, alla umvefjandi með umhyggju og kærleika. Sérstaklega hafa barna- og barnabarnabörnin notið þess að eiga þar notalegt athvarf. Þess hefur dóttir mín einnig notið, því Elín og Þór hafa verið í afa- og ömmu-hlutverkinu vegna ótímabærs fráfalls foreldra minna fyrir rúmum tuttugu árum.
Á seinni árum þegar börnin voru flutt að heiman og vinnuálagið minnkaði hafði hann unun af því að ferðast bæði í raun og í huganum og fóru þau Elín víða í tengslum við heimsóknir til dætranna og fjölskyldna þeirra. Þau voru í hópi þeirra Íslendinga sem hófu að ferðast til Spánar snemma á sjöunda áratugnum með Guðna í Sunnu og Ingólfi í Útsýn. Þetta fólk færði ferska straum aftur til Íslands, m.a. með suðrænni matarmenningu.
Þór
átti við langvinn veikindi að stríða síðustu æviárin, en hugurinn var kvikur og ferskur fram á síðasta dag. Mjög hlýtt var á milli þeirra hjóna og stóð
Elín eins og klettur við hlið hans alla tíð. Að leiðarlokum þakka ég umhyggju, hlýju og stuðning í gegn um árin og bið Elínu og öllum aðstandendum blessunar.
Dóra.