Jónína Jóhannsdóttir

Dagblaðið Vísir - DV - 21. maí 2010

80 ÁRA Á HVÍTASUNNUDAG Jónína Jóhannsdóttir FYRRV. STARFSMAÐUR VIÐ LANDAKOTSSPÍTALA

Jónína Jóhannsdóttir fæddist á Siglufirði og ólst þar upp, auk þess sem hún dvaldi sumarlangt að Hraunum í Fljótum á bernskuárunum.

Hún stundaði nám við Gagnfræðaskóla Siglufjarðar, lauk þaðan gagnfræðaprófi 1945 og stundaði síðan verslunarstörf á Siglufirði.

Þá var hún talsímakona hjá Pósti og síma, fyrst á Siglufirði en síðar í Reykjavík.

Jónína hóf skrifstofustörf við Landakotsspítala árið 1970 og starfaði þar fram yfir aldamót eða þar til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir.
Fjölskylda: Maður Jónínu er Sigurþór Þorgilsson, f. 30.3. 1928, kennari og fyrrv. framkvæmdastjóri, sonur Katrínar Sigurðardóttur sem ættuð var úr Skaftártungum og Þorgils Guðmundssonar frá Bolungarvík.

Jónína Jóhannsdóttir - Ljósmynd Kristfinnur

Jónína Jóhannsdóttir - Ljósmynd Kristfinnur

Börn Jónínu og Sigurþórs eru

  • Þorgils, f. 21.4. 1950, vélsmiður á Akranesi, kvæntur Eygló Tómasdóttur frá Akranesi og eiga þau þrjú börn;

  • Anna, f. 2.8. 1951, sálfræðingur í Skamby á Fjóni, gift Anders Rosager tannsmið og eiga þau tvær dætur; 

  • Þóra, f. 25.5. 1954, húsmóðir og listamaður í Reykjavík, gift Helga Snorrasyni verslunarmanni og eiga þau fjögur börn;

  • Ársæll, f. 1.2. 1957, fiskeldisfræðingur í Grindavík, kvæntur Þórhildi Eggertsdóttur fulltrúa og eiga þau eina dóttur; Jóhann, f. 22.2. 1965, rafiðnfræðingur í Reykjavík, en unnusta hans er Bylgja Valtýsdóttir sálfræðingur og eiga þau tvö börn.

Bræður Jónínu:

  • Þór Jóhannsson, f. 31.1. 1925, d. 3.5. 2010, húsgagnabólstrari og verslunarmaður í Reykjavík, var kvæntur Elínu Eyfells og eru börn þeirra fjögur á lífi;
  • Margeir Pétur Jóhannsson, f. 2.8. 1932, fyrrv. forstjóri, kvæntur Lilly Samúelsdóttur og eiga þau tvö börn.

Foreldrar Jónínu voru Jóhann Garibaldason, f. 23.12. 1895, d. 10.9. 1971, verkstjóri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði, og k.h., Anna Gunnlaugsdóttir, f. 29.3. 1898, d. 4.4. 1964, húsmóðir.

Ætt: Jóhann missti móður sína, tvær systur, bróður og mág í snjóflóðinu sem féll á Engidal í apríl 1919 en í því snjóflóði fórst allt heimilisfólkið í Engidal, sjö manns.
Meðal bræðra Jóhanns voru
Óskar, verkalýðsleiðtogi og bæjarfulltrúi á Siglufirði og
Hallur, faðir Jóns, bankastjóra Alþýðubankans.
Jóhann var sonur Garibalda, b. í Sléttuhlíð og síðar í Engidal, bróður Halls, föður Eyþórs, útgerðarmanns á Siglufirði og Kristjáns, kaupfélagsstjóra í Stykkishólmi.

Garibaldi var sonur Einars, b. á Arnarstöðum í Sléttuhlíð Ásgrímssonar, b. á Vatnsenda á Höfðaströnd Hallssonar, bróður Jóns, prófasts í Glaumbæ, afa Jóns Sigurðssonar alþingismaður á Reynistað. Annar bróðir Ásgríms var Ólafur, afi Gunnars Jóhannssonar, alþingismaður og langafa Gunnars Sigurðssonar, byggingafulltrúa í Reykjavík.

Móðir Garibalda var Kristbjörg, systir Jónasar á Látrum og dóttir Jóns, B. á Látrum Jónssonar og Jóhönnu Jóakimsdóttur. Móðir Jóhanns verkstjóra var Margrét Pétursdóttir, b. á Daðastöðum á Reykjaströnd Guðmundssonar, b. í Ystu-Grund í Blönduhlíð Einarssonar. Móðir Margrétar var Elísabet, systir Elínar, móður Jónasar í Hliði á Álftanesi, föðurafa Stefáns Harðar Grímssonar skálds. Elísabet var dóttir Semings, b. í Hamrakoti á Ásum Semingssonar, bróður Marsibil, móður Bólu Hjálmars.

Anna, móðir Jónínu var dóttir Gunnlaugs, b. á Máná og síðar á Siglufirði, bróður Jóns á Arnarstöðum, föður Kristínar sem rak lengi verslunina Baldursbrá á Skólavörðustíg í Reykjavík. Gunnlaugur var sonur Þorfinns, b. í Hjaltastaðakoti Þorfinnssonar, b. á Hóli Jónssonar. Móðir Þorfinns í Hjaltastaðakoti var Sæunn Þorsteinsdóttir. Móðir Gunnlaugs var Anna Guðmundsdóttir, b. á Húnstöðum í Stíflu Sveinssonar, og Þóru Símonardóttur. Móðir Önnu Gunnlaugsdóttur var Þóra, dóttir Helga Jónssonar, b. á Laugalandi, og Önnu Jónsdóttur.