Tengt Siglufirði
Margrét Jónína Jóhannsdóttir, húsmóðir og verslunarmaður, fæddist á Siglufirði 10. ágúst 1928.
Hún lést á
Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar, Siglufirði, 9. nóvember 2010.
Foreldrar hennar voru Halldóra Bjarnadóttir, f. 18.9. 1900, d. 20.4. 1979, og Jóhann Ásgrímsson, f. 5.7. 1889, d. 24.8.
1968. Þau skildu.
Frá tveggja ára aldri ólst Margrét upp hjá föðursystur sinni, Sólveigu Ásgrímsdóttur, og eiginmanni hennar, Ásgrími Jónssyni, í Ólafsfirði. Systkini Margrétar Jónínu voru:
Bróðir sammæðra:
Fyrri eiginmaður Margrétar Jónínu var Sigmundur Sigurgeirsson, þau skildu.
Árið 1997 giftist Margrét Jónína seinni eiginmanni sínum, Inga Karli Jóhannessyni, dómtúlki og löggiltum skjalaþýðanda, f. 11.9. 1928, d. 25.3. 2001.
Margrét Jónína lauk fullnaðarprófi frá barnaskóla Ólafsfjarðar 1. maí 1941. Hún stundaði nám við Húsmæðraskólann að Laugalandi og útskrifaðist þaðan 24. apríl 1947. Þegar Margrét Jónína var í kringum tvítugt flutti hún frá Ólafsfirði til Reykjavíkur.
Hún starfaði lengst af við verslunarstörf, m.a. í JL-húsinu, Skóversluninni Rímu og síðast hjá Agli Jacobsen.
Margrét Jónína tók virkan þátt í ýmsum félagsstörfum, hún var ævifélagi í Slysavarnafélagi Íslands, Ólafsfirðingafélaginu í Reykjavík og sat í fulltrúaráði í Sjálfstæðisfélaginu í Reykjavík. Eftir andlát eiginmanns síns flutti Margrét Jónína til Akureyrar en vorið 2004 flutti hún til Siglufjarðar og bjó á Dvalarheimilinu Skálarhlíð.
Útför Margrétar Jónínu fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 20. nóvember 2010, og hefst athöfnin kl. 14. Jarðsett verður í Ólafsfjarðarkirkjugarði.
Kæra systir og mágkona, okkur langar til að þakka þér fyrir stundirnar okkar saman og þó sérstaklega nú síðari ár, okkar kynni urðu mun meiri og nánari eftir að þú fluttir hingað til Siglufjarðar og tókst með okkur sérstök og innileg vinátta og erum við sérstaklega þakklát fyrir það.
Það var ávallt gott að heimsækja þig og þitt notalega og fallega heimili. Þín verður sárt saknað þegar fjölskyldan okkar kemur saman en við huggum okkur við það að eiga góðar minningar um þig.
(Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi.)
Einar og Margrét.
--------------------------------------------------
Kær vinkona og fóstursystir hefur kvatt þetta líf, þar fór vönduð kona. 82 ár eru ekki langur tími í eilífðinni en talsvert löng mannsævi.
Lillu kynntist ég árið 1947 þegar Jón Halldórsson, fóstri hennar, og móðir mín, Ástríður Hannesdóttir, giftu sig. Ég tel að það hafi orðið okkur öllum til gæfu og gleði. Lilla var þá í kaupavinnu í Kaupangi í Eyjafirði, nýkomin úr húsmæðraskólanum á Laugalandi, bústin, útitekin, brosmild og ánægð. Samband mömmu og Lillu var einstakt, reyndist hún mömmu kærleiksrík dóttir og er ég henni ævinlega þakklát fyrir það. Börnum mínum og barnabörnum var hún Frænka með stórum staf.
Þegar Lilla kom svo til Reykjavíkur bjó hún að sjálfsögðu hjá okkur á Holtsgötunni. Hún fékk vinnu í KRON enda vön afgreiðslustörfum úr Kaupfélaginu í Ólafsfirði. Síðar starfaði hún í skóversluninni Rínu í JL-húsinu og hjá Jacobsen. Alls staðar vann hún af vandvirkni og samviskusemi, naut trausts samstarfsfólks og vinnuveitenda. Hún var stundvís, reglusöm og skemmtilegur vinnufélagi, kom auga á spaugilegar hliðar varðandi menn og málefni, en talaði aldrei illa um nokkurn mann.
Það var gaman að heyra Lillu segja frá uppvaxtarárunum í Ólafsfirði, allt á kafi í snjó á veturna og gaman að renna sér á sleða eða skíðum. Síðsumars heilluðu brekkurnar fyrir ofan bæinn með sínum ljúffengu aðalbláberjum. Alltaf var gleði og væntumþykja þegar hún minntist á æskuvinina að norðan, hélst vinátta við marga þeirra alla tíð.
Heimili Lillu var mjög fallegt hvar sem hún bjó enda mikill fagurkeri.
Lilla og Ingi Karl Jóhannesson hófu sambúð 1981 og áttu þau saman 20 góð ár. Í veikindum Inga sýndi hún einstakan dugnað og ósérhlífni er hún annaðist hann heima til hinstu stundar.
Það verða margir sem munu sakna þessarar lífsglöðu og bjartsýnu konu, sem aldrei gafst upp í sínum erfiðu veikindum en talaði alltaf um að komast heim af sjúkrahúsinu og fara í Héðinsfjarðargöngin.
Að eiga trausta vini í lífinu er eitt af því mikilvægasta, það finnur maður best þegar aldurinn færist yfir og manni bregður þegar þeir kveðja.
Einari, Maggý og börnum þeirra þakka ég innilega fyrir alla þá ást og umhyggju sem þau sýndu Lillu alla tíð og bið þeim blessunar. Einnig þakka ég starfsfólki Sjúkrahúss Siglufjarðar góða umönnun.
Systkinum Lillu, þeim Rögnu, Einari og fjölskyldum þeirra votta ég samúð.
Hennar tími var kominn. Blessuð sé minning Lillu minnar.
Helga Guðmarsdóttir.
--------------------------------------------------------------
Elsku Lilla frænka.
Takk fyrir hvað þú varst góð við mig og Týru, þú varst alltaf svo góð við alla, alveg sama hver það var.
Takk fyrir litlu bænabókina sem þú gafst mér, ég bið fyrir þér með bænum upp úr henni.
(Hallgrímur Pétursson)
Þín frænka, Franzisca Dóra Úlfsdóttir, Siglufirði.
-----------------------------------------------------
Það er kominn vetur, fjöllin í firðinum okkar klædd í hvíta vetrarkápu, það er kyrrð og friður yfir öllu, einnig yfir þér elsku Lilla frænka. Þannig upplifði ég síðasta augnablikið með þér kvöldið sem þú kvaddir og síðar þetta sama kvöld sáum við, ég og yngri dóttir mín, hún Franzisca Dóra, stjörnuna þína fallegu skína svo skært á himninum og þá vorum við alveg vissar um að núna liði þér örugglega vel, já svo miklu betur en undanfarnar vikur því við vitum að þær voru þér erfiðar þó að þú hafir aldrei nokkurn tíma kvartað yfir veikindum þínum, nei aldrei, enda sagðir þú oft „það lagast ekkert við það að kvarta“.
Þú varst svo sjálfstæð, viljasterk og ótrúlega dugleg manneskja, barst virðingu fyrir sjálfri þér og öðrum, ef þér leið eitthvað illa þá settirðu góða músík í spilarann þinn, lokaðir augunum og hlustaðir, enda mikil músíkmanneskja, ef maður spurði hvernig þú hefðir það þá var viðkvæðið alltaf þetta „það er ekkert að mér“ eða „þetta lagast allt saman“.
Lífsgæði þín voru orðin ansi takmörkuð og þér hafði hrakað mikið á þessu ári þó að þú hafir með þrjósku þinni og baráttuvilja komist upp úr ítrekuðum veikindum þínum og komst okkur öllum á óvart hvað þú náðir þér á strik, það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir þig að takast á við allt það mótlæti sem fylgdi heilsubresti þínum en alltaf varstu jafn jákvæð, kappsöm og ákveðin í því að komast heim í fallegu íbúðina þína sem þú varst svo ánægð með og okkur þótti mikil synd að þú skyldir ekki fá tækifæri til að njóta hennar lengur en raun varð.
Er við hugsum um þig sjáum við glæsilega, hnarreista og vel til hafða konu sem gengur ótrúlega rösklega þangað sem ferð hennar er heitið í það og það skiptið. Þú varst virkilega góð manneskja með hlýtt hjarta, trúuð með eindæmum og barst ætíð hag þinna nánustu fyrir brjósti sem lýsir sér best í því að ef einhver úr fjölskyldunni eða annar sem þú þekktir var á faraldsfæti þá baðstu sérstaklega fyrir viðkomandi og last ferðabænina upp úr litlu bænabókinni en það var bók sem þú skildir aldrei við þig.
Þær voru ófáar samverustundirnar sem við áttum með þér, þú varst viðstödd alla stóru atburðina í lífi okkar Úlfs og dætra okkar og komst fram við okkur eins og við værum þín eigin börn. Nú er tími jólanna framundan og það verður skrítið að hafa þig ekki á meðal okkar, en við trúum því að þú heiðrir okkur með nærveru þinni þó svo að hún verði öðruvísi en áður og fyrr.
Elsku Lilla, þú varst einstök manneskja og það var heiður fyrir okkur að fá að kynnast þér, litla fjölskyldan, Kristín, Úlfur og dætur, Hávegi 4, Siglufirði, þakkar þér innilega fyrir allar yndislegu og góðu samverustundirnar sem við áttum með þér og reynum að ylja okkur við minningarnar sem við eigum um þig þegar þú varst frísk og hraust og huggum okkur við að nú líði þér miklu betur á þeim stað þar sem þú ert núna. Við sjáum fallegu skæru stjörnuna þína á himninum, hún skín skært til okkar.
Kristín, Úlfur og dætur.
--------------------------------------------------
Elsku Lilla frænka, mig langar að þakka þér innilega fyrir hvað þú varst alltaf góð við mig og hvað þú fylgdist alltaf vel með hvernig mér gekk í náminu mínu og vinnunni. Þú átt ákveðinn stað í hjarta mínu.
(Kristján Stefánsson frá Gilhaga.)
Þín frænka, Ágústa Margrét Úlfsdóttir (Maggý).