Jón Gunnlaugsson rafvirki

Siglfirðingur - 18. apríl 1961

Jón Gunnlaugsson rafvirki, f 7. febr. 1894 - d. 28. marz 1961

Enn hefur einn mætur borgari Siglufjarðarbæjar og ágætur samferðamaður kvatt hópinn og flutzt yfir til ókunna landsins, en það er Jón Gunnlaugsson, rafvirki, sem lézt í sjúkrahúsinu Sólvangi í Hafnarfirði, þ. 28. marz 1961.

Hafði hann kennt nokkurs lasleika hin síðustu ár, án þess að leita læknis, eins og gengur. En sl. vor ágerðust vanheilindi hans og fór hann þá til Reykjavíkur í rannsókn og leit að læknishjálp. Sjúkdómur hans var þá kominn á það stig, að um varanlegan bata var ekki að ræða, heldur hitt að hið mikla kall væri á næsta leiti. Eftir alllanga legu þar syðra kom kveðjustundin.

Jón var fæddur að Máná í Úlfsdölum 7. febr. 1894. Foreldrar hans voru Þóra Helgadóttir og Gunnlaugur Þorfinnsson. Gunnlaugur var af Grafarættinni, sonar-sonur Þorfinns Jónssonar, frá Gröf á Höfðaströnd, bónda Hóli, Siglufirði. Er fjöldi manns hér í bæ kominn út af Þorfinni, m.a. Þrasastaðabræður, Hlíðarfjölskyldan, Kristján Ásgrímsson og fjölskylda, Aðalbjörn og fjölskylda, svo eitthvað sé nefnt.

Jón Gunnlaugsson - Ljósmynd Krsitfinnur

Jón Gunnlaugsson - Ljósmynd Krsitfinnur

Fyrir og um síðustu aldamót var allmikið um fólksflutninga héðan til Ameríku. Laust eftir aldamótin brá Gunnlaugur, faðir Jóns, búi og fór til Ameríku með Jón, son sinn, ásamt öðru fólki. Þar dvöldu þeir feðgar um 5 ára skeið, en komu þá hingað aftur og settust að hér í bæ. Jón mun þá hafa verið 16 ára gamall.

Faðir hans tók að sér yfirumsjón á lagningu vatnsleiðslukerfis í bænum og var mörg ár við þann starfa. Nokkur fyrstu árin var Jón með föður sínum við það starf. Þegar rafmagnsstöðin var byggð við Hvanneyrará og bærinn rafvæddur, réðist Jón til starfa þar, og var umsjónarmaður stöðvarinnar fram til ársins 1927.

Snérist hugur hans þá eins og margra annarra til síldveiðanna. Hann var þá bryggjuformaður fyrir Helga kaupm. Hafliðason í eitt ár og annað árið vann hann á bryggjum, en þriðja árið tóku þeir feðgar bryggju og söltunaráhöld áleigu og söltuðu síld sumarið 1929. Þegar svo að S.R. 30 var byggð réðist Jón þangað sem rafvirki og vann síðan upp frá því hjá S.R., meðan heilsa og kraftar leyfðu, eða um 30 ára skeið.

Árið 1919 gekk Jón að eiga heitmey sína Sigurjónu Einarsdóttur, sérlega myndarlega og ágæta konu. Þau eignuðust tvö börn,

  • Anna Jónsdóttir, búsetta í Kópavogi og
  • Gunnlaugur Jónsson, rafvirkji, búsettur á Siglufirði.  

Jón þótti ágætur starfsmaður, verklaginn og hugkvænn í sínum störfum. Auk rafvirkjastarfsins gerði hann töluvert að því að leggjamiðstöðvakerfi í íbúðarhús og þótti takast vel. Jón var jafnlyndur, prúður og viðfeldinn í viðmóti og samvinnuþýður. Mátti segja, að hann væri hvers manns hugljúfi. Hann var frábitin öllum erjum og deilum og vildi frið við allt og alla. Hann var góðgjarn maður, greiðvikinn og hjálpsamur.

Jón var vel gefinn, glöggur og athugull. Það bar ekki mikið á honum i opinberum málum. Eigi að síður fylgdist hann vel með, myndaði sér skoðanir í aðsteðjandi vandamálum bæjar og þjóðarheildar og var enginn hringlandi í þeim efnum. Hann hafði gaman af, í vinahópi, að ræða málin og brjóta þau til mergjar, en lengra fór hann ekki.

Ég kynntist Jóni ekkert fyrr en ég kom hingað í bæinn og gerðist heimamaður. Vildi svo til, að kynning okkar hófst mjög fljótlega. Var hann mér ímynd hins góða og hrekklausa drengskaparmanns. Ég var þess strax var, að þarna var óvenju trygglyndur maður á ferð, og gafst mér oft tækifæri til að sjá hve vinátta hans var einlæg. Söknuður og harmur er kveðinn að eftirlifandi konu og börnum og tengdabörnum.

Og hin myndarlegu sonarbörn hans hér, munu í bili sakna afa síns, hann var svo mikill vinur þeirra. En hin ágæta kona hans, sem fór með honum suður til að leita honum lækninga, hvarf aldrei frá sjúkrabeði hans og fylgdist því vel með líðan hans, hefur verið orðin fullviss um, að hverju stefndi, hugað það mál í ró og næði, talið þessi úrslit skiljanleg, jafnvel ákjósanlegust og sætti sig við það.

Á hljóðum, kyrrlátum síðkvöldum leita til okkar ljúfar minningar um góðan dreng og ágætan ferðafélaga. Ánægjulegasta hugðarefnið er að kveðja góðvininn með hlýjum huga, þökk fyrir geðfellda kynningu og óska honum góðrar ferðar og heimkomu á ókunna landinu. — 

Blessuð sé minning hans. Páll Erlendsson.