Anna Sigmundsdóttir "Lambanes"

Mbl.is 11. september 1999 | Minningargreinar

Anna Sigmundsdóttir fæddist í Árbakka á Hofsósi 25. júní 1913. Hún lést 4. september síðastliðinn.
Foreldrar hennar voru Sigurrós Guðmundsdóttir og Sigmundur Sigmundsson.

Sex ára fluttist Anna til móðurbróður síns, Þórðar Guðmundssonar, og konu hans, Magneu Þorláksdóttur. Anna var lærð ljósmóðir.

Fyrri sambýlismaður Önnu var Jón Kristjánsson frá Lambanesi í Fljótum, rafstöðvarstjóri á Siglufirði, f. 21. apríl 1890, d. 27. júní 1969.
Börn þeirra eru:

Anna Sigmundsdóttir og maður hennar Jón Kristjánsson

Anna Sigmundsdóttir og maður hennar Jón Kristjánsson

1) Páll, f. 25.10. 1940, d. 1.11. 1940.
2) Erling Þór, framkvæmdastjóri Tækni-Stáls í Garðabæ, f. 11.6. 1945, maki Sólrún Magnúsdóttir, starfsmaður á skrifstofu Lyfju í Rvík.
Synir þeirra eru
  • Magnús vélfræðingur;
  • Jón Ómar vélaverkfræðingur;
  • Hilmar rennismiður;
  • Ingvar, í flugnámi.

3) Edda Magnea, f. 25.9. 1949, maki Gísli Kjartansson, lögfræðingur og sparisjóðsstjóri í Borgarnesi.
Börn þeirra eru
  • Skorri stjórnmálafræðinemi og
  • Anna, nemi á félagsfræðibraut. 

Seinni sambýlismaður Önnu var Guðmundur Bernharðsson, bóndi og barnakennari frá Ingjaldssandi, f. 10.11. 1899, d. í nóvember 1989.

Útför Önnu fer fram frá Borgarneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.
------------------------------------------------------

Mbl.is 11. september 1999 | Minningargrein

Anna Sigmundsdóttir Elsku amma mín er dáin. Í fyrstu fannst mér þetta ekki geta átt sér stað, hálfum sólarhring áður en þú kvaddir okkur kom ég í heimsókn til þín á sjúkrahúsið. Ég bjóst alls ekki við því að það yrði mín síðasta heimsókn því mín seinustu orð til þín voru þau að þú fengir örugglega að fara heim af sjúkrahúsinu fljótlega ­ en raunin varð önnur. En nú þegar ég er búin að átta mig betur á staðreyndinni, veit ég að þetta var þér fyrir bestu að fá að sofna svefninum langa.

Ég átti bara þessa einu ömmu og mér þótti óskaplega vænt um hana, annað var ekki hægt, hún var svo hress og kát. Hún var næstum því alltaf hjá mér á jólunum og sat við hliðina á mér, núna mun matarborðið á jólunum vera tómlegt án þín. Þú sast þarna glerfín með gulleyrnalokka og í rósóttum kjól með hárið uppstrílað og fínt, já hárið varð að vera flott, ef hárið var ekki flott þá máttu jólin bara bíða.

Amma var líka skemmtileg og hress kona, hló mikið og gerði að gamni sínu. Öllum leið vel hjá henni og uppáhaldið hennar var að gleðja aðra, með gjöfum og nammi. Nammikrukkan fræga tæmdist sjaldan. Skemmtilegast af öllu fannst henni að fara í bíltúra, mamma var mjög dugleg að bjóða þér út á rúntinn og kaupa handa þér ís og skoða Borgarnes.

Í hvert skipti sem þið keyrðuð fram hjá gulu húsi furðaði hún sig á því hvers vegna fólk málaði húsin sín gul, eins og það er ljótur litur, fannst henni. Já, hún amma hafði sínar skoðanir og var ekkert að leyna þeim fyrir neinum. Svona var akkúrat amma mín sem ég kveð nú með örfáum orðum og söknuði. Ég bið guð að passa þig.

Þín nafna, Anna.
-----------------------------------

11. september 1999 | Minningargrein

Anna Sigmundsdóttir Nú haustar að. Við sjáum þess merki víða í náttúrunni. Blóm fölna og önnur eru þegar fallin til jarðar. Það fylgir því viss söknuður og eftirsjá en um leið minnumst við þess yndis og ánægju sem nærveran við þau veitti okkur. Sum blóm koma ekki upp að vori, þau hafa skilað sínu en hafa jafnframt lagt í jörðu fræ sem lifa áfram og eiga eftir að bera ávöxt. Þannig er einnig lífið, vinir hverfa á braut en minningarnar lifa, ekki síst ef að þeim er hlúð.

Við eigum margar og góðar minningar um Önnu Sigmundsdóttur sem nú er kvödd í hinsta sinn. Við kynntumst henni fyrir rúmum tuttugu árum þegar leiðir hennar og Guðmundar, föður míns, lágu saman. Þau höfðu þá bæði misst maka sína fyrir u.þ.b. tíu árum. Sambúð þeirra stóð allt til haustsins 1989 er faðir minn lést.

Er ég hugsa til Önnu er mér ljóst að hún var ekkert fyrir það að láta hrósa sér eða gera mikið úr sér á nokkurn hátt. Þessi kveðjuorð mín eru því fyrst og fremst þakkarorð fyrir svo margt sem hún gaf mér og mínu fólki. Hún naut þess að gefa gjafir, öll börn í fjölskyldu föður míns fengu jólapakka frá þeim Önnu og þeim sið hélt hún áfram þótt hann félli frá.

Það var einstaklega gaman að fylgjast með jólaundirbúningi hennar, allir pakkar skreyttir, engum gleymt. Oft mun hún hafa gengið nærri fjárhag sínum og ýtt eigin þörfum til hliðar. En hún gaf okkur líka aðrar góðar gjafir, hlýju, vináttu og tryggð til hinstu stundar.

Anna var í raun fagurkeri sem alltaf hafði heimili sitt snyrtilegt og prýtt. Hún naut þess að hafa fallega hluti í kringum sig og gestrisin var hún og höfðingi heim að sækja alla tíð. Faðir minn og hún voru líka mjög samtaka á þessu sviði. Hann vildi svo gjarnan hlúa að heimili þeirra og gerði allt sem hann gat til að henni gæti liðið þar sem best. Það ber að þakka þau ár sem þau áttu saman og ekki var annað hægt en að dást að þeirri umhyggju og virðingu sem þau veittu hvort öðru.

Oft koma fram efasemdir hjá aðstandendum þegar eldra fólk finnur nýjan lífsförunaut en ég held að við, sem yngri erum, ættum að virða meira tilfinningar og þroska þeirra sem komnir eru á efri ár og frekar gleðjast yfir góðum árum sem slík sambönd oft gefa. Þau voru bæði studd af sínu fólki og það styrkti samband þeirra og varð þeim til ánægju. Fjölskylda Önnu, börn hennar, tengdabörn og barnabörn tóku föður mínum sérlega vel og gat hann þess oft með gleði.

Oft var gaman að spjalla við Önnu enda var hún glettin og gamansöm og naut þess að hafa líf og fjör í kringum sig. Oftar en ekki dró hún fram "skynditertu" það var hennar yndi að veita gestum sínum vel. Stundum sagði hún okkur frá æskuárum sínum á Ísafirði og eðlilega var Siglufjörður og lífið þar henni ofarlega í huga. Hún hefur áreiðanlega verið hjálpsöm og vinnufús og ekki kunnað að hlífa sér á nokkurn hátt.

Eitt var það í fari Önnu sem við tókum strax eftir að var henni hjartans mál. Það var nærgætin og hlýleg framkoma hennar við öll börn. Hún ræddi við þau, leitaði eftir þörfum þeirra og áhugamálum, virti þau. Þannig nutu synir okkar umhyggju hennar og athygli frá fyrstu kynnum.

Við kveðjum Önnu Sigmundsdóttur með virðingu og þökk. Hlýjar samúðarkveðjur sendum við til barna hennar, Erlings, og Eddu, og til fjölskyldna þeirra.

Þóra Alberta og fjölskylda.
--------------------------------------------------

Anna Sigmundsdóttir, Hátúni 10, Reykjavík, varð sjötíu og fimm ára 3. September 1988
Anna fæddist á Hofsósi, dóttir Sigmundar Sigmundssonar, f. 3.9.1885, d. 15.3.1958, bónda og verkamanns þar, Sigmundar Símonarsonar bónda á Bjarnarstöðum, Unadal, og Helgu Bjarnadóttur frá Mannskaðahóli.

Móðir Önnu var Sigurrós Guðmundsdóttir, f. 8.6. 1886, d. 10.5. 1877, dóttir Guðmunds Þórðarsonar, bónda á Torfhóli, Óslandshlið og Háagerði, Höfðaströnd, síðast Hofsósi, og Jóhönnu Marenar Jóhannsdóttur frá Mýrarkoti.

Anna var upp fóstruð hjá móðurbróður sínum, Þórði, trésmið á Ísafirði, og Magneu Þorláksdóttur.

Anna tók ljósmæðrapróf haustið 1939 en réð sig aldrei í fast starf sem ljósmóðir. Þó tók hún á móti börnum á Siglufirði þar sem hún var lengst af búsett.

Anna giftist Jóni Kristjánssyni, f. 21.4.1890, d. 27.6. 1969, bónda á Minna-Grindli, síðar bónda á Lambanesi, Fljótum og svo rafstöðvarstjóri á Siglufirði. Sonur Kristjáns Jónssonar, og Sigurlaugar Sæmundsdóttur frá Haganesi.

Börn Önnu og Jóns:

  • Páll, lést á fyrsta ári;

  • Erling Þór Jónsson, f. 11.6.1945, vélvirkjameistari, Siglufirði, kvæntur Sólrúnu Magnúsdóttur frá Siglufirði;

  • Edda Magnea, f. 25.9. 1949, gift Gísla Kjartanssyni lögfræðingi. 

Sambýlismaður Önnu Sigmundsdóttir er Guðmundur Bernharðsson rithöfundur frá Ástúni, Ingjaldssandi.

Anna dvelst um þessar mundir á heilsuhæli Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði.