Guðmundur Sigurðsson bóndi

Siglfirðingur - 12. febrúar 1965

Guðmundur Sigurðsson, fyrrverandi bóndi á Efri Höfn Siglufirðir 

Hann lézt í sjúkrahúsi Akureyrar, 3. janúar 1965, eftir alllanga sjúkrahúsvist, tæplega. 86 ára. Fæddur var hann í Flatey á Breiðafirði.

Foreldrar hans voru Sigurður Jónsson, bóndi og útgerðarmaður, og Hólmfríður Andrésdóttir.

Lítt er mér kunn ætt þeirra hjóna, nema að Hólmfríður var systir hinna þjóðkunnu hagyrðinga, Ólínu og Herdísar Andrésdætra. Guðmundur ólst upp á heimili foreldra sinna og vandist venjulegum störfum til sjávar og lands. Um tvítugt kvaddi hann foreldra og annað ættfólk, og lagði leið sína norður í land.

Var hann einn vetur í fyrri bekk Gagnfræðaskólans á Akureyri er var þá nýfluttur frá Möðruvöllum til Akureyrar. Dvaldi hann nokkur ár á Akureyri og vann þar að ýmsum störfum.

Árið 1908 kemur Guðmundur til Siglufjarðar og var hér búsettur til dauðadags. Árið 1912 giftist hann Guðfinnu, dóttur Páls Kröyer, bónda og , skipasmiðs, í Efri-Höfn.

Guðmundur Sigurðsson - smiður, bóndi - Ljósmynd Kristfinnur

Guðmundur Sigurðsson - smiður, bóndi - Ljósmynd Kristfinnur

Árið 1913 hóf hann búskap í Höfn og býr nokkur ár þar ásamt Páli, tengdaföður sínum. En eftir lát Páls tók hann alla jörðina. Guðfinna var stórbrotin og dugmikil húsfreyja og stjórnaði vel öllum störfum, bæði innan- og utanhúss. Virtist búskapurinn ganga vel- Guðmundur var einnig dugmikill verkmaður. Þau höfðu á tímabili allmargar kýr ,og seldu bæjarbúum mjólk.

Byggðu þau lítið hús yzt í horninu milli Suðurgötu og Hafnargötu. Þar var mjólkin seld. Guðmundur og Guðfinna eignuðust 5 dætur, sem komust á þroskaaldur. Voru þær dætur allar mjög mannvænlegar, en þær voru:

  • Anna, fluttist til Reykjavíkur og andaðist þar fyrir nokkrum árum, ógift.
  • Rakel, fór til Danmerkur, gift og búsett þar.
  • Hólmfríður, dó 1943.
  • Sigrún, gift, búsett í Rvík.
  • Pálína, gift og búsett í Efri-Höfn, hér í bæ.

Árið 1935 vildi það óhapp til, að íbúðarhúsið í Höfn brann til kaldrakola, og allt innibú lítið eða ekkert vátryggt. Þá sýndu hjónin í Höfn dugnaðinn og kjarkinn, sem í þeim bjó. Þau hófu þegar undirbúning undir byggingu steinhúss, og eftir tiltölulega stuttan tíma var myndarlegt steinhús komið upp á grunni gamla hússins. Þótti þetta á þeim tíma mikið afrek.

Árið 1943 varð Hafnarheimilið fyrir því áfalli, að íhúsfreyja og Hólmfríður, dóttir þeirra, sýktust af berklaveiki og dóu með stuttu millibili. Þarna var stórt og óbætanlegt skarð höggvið í fjölskylduhópinn. Eftir það rak Guðmundur búið um skeið, með aðstoð dætra sinna, en fljótlega hurfu þær frá æskustöðvunum, og stofnuðu sín eigin heimili eins og gengur.

Gekk þá búið ört saman, og var Guðmundur um nokkurt skeið einbúi, þar til hann fór til Pálínu, dóttur sinnar, fyrst að Skeiðsfossi og síðar heim að Höfn, þegar Pálína og maður hennar fluttust þangað Guðmundur var á yngri árum glæsilegur maður og félagslyndur. Hann tók þátt í leikstörfum, hann var sönghneigður, og söng fyrstu árin í karlakórnum Vísi.

Einnig studdi hann mjög kirkjusönginn og söng í kirkjunni, þar til hann flutti að Skeiðsfossi. Hann var mikill trúmaður, sérstaklega á síðustu árum, og lét sig aldrei vanta í kirkju. Nú er Guðmundur allur. Hann var saddur orðinn lífdaga.
Allir, sem höfðu náin kynni af Guðmundi, hafa ljúfar endurminningar. Blessuð sé minning hans.

P.E.