Tengt Siglufirði
Neisti 23 desember 1985
Guðmundur Gísli Konráðsson var fæddur 19. desember árið 1953 á Siglufirði.
Hann var á sínu þrítugasta og öðru
aldursári er hann lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar þann 6. desember 1985 eftir langa og erfiða sjúkdómslegu.
Guðmundur var sonur hjónanna Pálínu Ingimarsdóttur og Konráðs Konráðssonar smiðs, en þau hjónin hafa allan sinn æfidag búið og starfað á Siglufirði. Þau eignuðust fimm börn, en Guðmundur var yngstur þeirra.
Elsti bróðirinn er
Við bekkjarsystkini Guðmundar minnumst hans vegna mikillar lífsgleði og glaðlyndis sem oft smitaði út frá sér til okkar hinna. Hann átti gott með að samlagast hinum stóra hóp okkar.
Eins og títt er um hér á Siglufirði þá kynntist Guðmundur allri algengri vinnu bæði fiskvinnslu og öðru sem til féll fyrir okkur unglinga á þessum tíma sem við vorum að alast upp, og oft kryddaði hann tilveruna með ýmsu glensi og gamni sem ljúft er að rifja upp í minningu hans. 32 ár í lifi okkar er ekki langur tími, eftir að lögbundinni skólagöngu lauk um 16 ára aldurinn fóru ýmsir félagar okkar í frekara nám.
Guðmundur hóf nám í Iðnskólanum, og starfaði sem lærlingur hjá Byggingarfélaginu Bút h.f. Þar vitum við að hann var á sinni óskabraut því smiður var hann mikill, og við minnumst hans í smíðatímum sem strákar, þar sem allt lék í höndunum á honum, og oft rétti hann okkur hinum hjálparhönd við verkefni okkar. Guðmundur var ekki aðeins verklaginn í höndunum, heldur átti hann sérstaklega auðvelt með allan lærdóm, oft svo af bar.
En honum auðnaðist ekki að ljúka sínu smíðanámi, því áður en því lauk veiktist hann af sjúkdómi sínum. Það vakti eftirtekt hve æðruleysi hans var mikið, og hve kjarkurinn var mikill, og lífsgleðin skyldi vera svo mikil, allt til þess síðasta, þó eflaust hafi honum verið nokkuð ljóst hvert stefndi fyrir mörgum árum. Lífsgöngu hans er lokið, hún varð ekki löng.
En við vitum að stundum getur ein stund, eitt augnablik sagt meir, skilið eftir minningar sem um langt skeið geta yljað um hjartarætur. Þannig minningar skildi Guðmundur eftir á meðal þeirra er lifa. Minningar sem tengjast lífsgleði hans og bjartsýni, gleði og umhyggju. Hann hefir nú haldið inn á þá braut sem allt myrkur flýr vegna þess skæra ljóss sem lýsir upp alla skugga. Þangað fylgja bekkjarbróður okkar bæn og blessun um betra og fegurra líf — eilíft líf, þar sem ekki eru lengur tár og sorg.
Við vottum ættingjum Guðmundar okkar dýpstu samúð og geymum minningu um góðan dreng.
F.h. bekkjarsystkina fædd 1953 Kristján L. Möller