Guðleif Jóhannesdóttir Drake

mbl.is 21 maí 2006

Guðleif Jóhannesdóttir Drake frá Siglufirði fæddist á Hofsósi í Skagafjarðarsýslu 7. nóvember 1922. Hún lést á heimili sínu í Grimsby í Englandi af völdum hjartaáfalls 19. apríl 2006.

Guðleif bjó í Vestmannaeyjum 1930 en sem unglingur á Siglufirði, dóttir barnmörgu hjónanna Sigríðar Guðmundsdóttir, f. 31.12. 1882, d. 18.3. 1965 og Jóhanns Kristinsonar 25.11. 1883, sem var stór rauðhærður maður kallaður Jói rauði – hann lést á Siglufirði 18.12. 1969.

Foreldrar hans voru, Kristinn Davíðsson Jóhannesson, f. 1838, d. á Siglufirði 1882, og seinni kona hans Helga Baldvinsdóttir, f. 1853, þau bjuggu á Miðhóli í Sléttuhlíð.

Foreldrar Helgu voru Baldvin, f. í Gröf á Höfðaströnd 1822, Gunnlaugssonar bónda og fræðimanns á Skuggabjörgum, Jónssonar og konu hans Sigurbjörgu Jónsdóttur frá Höfn í Siglufirði, f. 1829.
Helga var víða vinnukona í Árskógarhreppi eftir að Kristinn lést og varð hún að láta Jóhann í fóstur.

Ef þú átt, sendu mér

Ef þú átt, sendu mér

Guðleif giftist á Hvanneyri 9 mars 1942 Henry Albert Drake múrara frá Pecham í London, og flutti með honum til Englands þar sem hún bjó um árabil þar til þau skildu.

Guðleif kom heim til Íslands með börnin og hóf störf á síldarplaninu.
Þau eignuðust þrjú börn, þau eru:

 • 1) Georg Drake, f. á Siglufirði 15.4. 1942, búsettur í Kópavogi.
  Börn hans eru,
 • A) Hellen Linda Drake, f. 1960. Dætur hennar eru;
 • a) Kristjana Ósk Birgisdóttir, f. 1977, búsett í Kaupmannahöfn,

 • börn hennar eru
 • Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir, f. 1997 og
 • Hreggviður Loki Þorsteinsson, f. 2005, og
 • b) Eyrún Ösp Birgisdóttir, f. 1981.
 • B) Unnur Millý, f. í London 1961.
 • Börn hennar eru
 • a) Inga Birna Dungal, f. 1980, búsett í Reykjavík,
 • sonur hennar
 • Hektor Pétur Atlason, f. 2005,
 • b) Óðinn Freyr Valgeirsson, f. 1987 og
 • c) Rebekka Millýardóttir, f. 1994.
 • C) Oddný Inga, f. 1963, búsett í Garðabæ.
 • Dætur hennar eru
 • Helga Sjöfn Fortescue, f. 1984, d. 2000 og
 • Sigríður María Fortescue, f. 1988.
 • D) Ólafur Jón, f. 1966, búsettur í Reykjavík.
 • Börn hans eru
 • Elva Björk, f. 1992,
 • Bjarni Kristinn, f. 1988 og
 • Gunnar, f. 1999.
 • E) Jóhanna Guðleif, f. 1977 búsett í Kaupmannahöfn.
 • F) Ögmundur Þór, f. 1980.
 • 2) Carol Ann Robertson, f. 25.5. 1946, búsett í Woking í Englandi.
 • Börn hennar eru A) Jilian, f. 1965, hún á tvö börn,
 • Luce og Amy,
 • B) Jeffrey, f. 1968 og C) Terry, f. 1973.
 • 3) Vivienn Evelyn Burkett, f. 5.7.1947, búsett í Bandaríkjunum. Börn hennar eru a) Judy, b) Kennie sem á tvö börn og
 • c) Brandon.
Guðleif giftist Gísli Anton Þorsteinsson, f. 12.9.1930, d. 2.9.1966 og bjuggu þau á Siglufirði. Dóttir þeirra er
Hafdís Eyland, f. 5. 3. 1958, búsett á Siglufirði.
Börn hennar eru
 • Guðleif Ósk Árnadóttir, f. 1978,
 • Haraldur Gísli Árnason, f. 1983 og
 • Hafdís Ósk, f. 1992.

Kjörsonur Guðleifar er Sverrir Eyland Gíslason, f. 8.2.1963.

Guðleif giftist Henry Albert Drake á ný 1980 og bjuggu þau í Grimsby. Útför Guðleifar var gerð í Grimsby 26. apríl.
----------------------------------------------------

Guðleif Jóhannesdóttir

 • Ein hreyfing, eitt orð, – og á örskotsstund
 • örlaga vorra grunn vér leggjum
 • á óvæntum, hverfulum farandfund,
 • við flim og kerskni, hjá hlustandi veggjum.
 • Hvað vitum vér menn? Eitt vermandi ljóð,
 • ein veig ber vort líf undir tæmdum dreggjum.
 • Hvað vill sá sem ræður?–

(Einar Benediktsson.)

Amma mín sem mér hefur alltaf þótt fjarlæg og dularfull er dáin. Allt frá því ég var stelpa og heyrði fyrstu sögurnar af henni og enska afanum mínum var ég full af forvitnum spurningum sem mörgum varð aldrei svarað og ég mun aldrei fá svör við.

Guðleif amma var fædd í Skagafjarðarsýslu og bjó sem stelpa á Siglufirði með pabba sínum Jóa rauða í stórum systkinahópi. Í stríðinu kynntist hún enska afanum mínum Henry Albert Drake frá Camberwell North, Pecham, í London, en hann var hermaður á vegum breska hersins á Siglufirði og ástin blómstraði.

Þau giftust 9. mars 1942 á Hvanneyri og fluttu til Englands með Georg pabba minn fárra mánaða. Þetta hefur efalaust verið erfiður tími svona á stríðstímum en ábyggilega mjög spennandi og margt fyrir ömmu mína að læra í útlöndum. Margar sögurnar af ættingjunum í Englandi voru framandi og lærdómsríkar eins og um að tengdamamma hennar Florence Mabel hefði verið gyðingur með ættarnafnið Golding en hafði frá því hún giftist Henry William Drake í fyrri heimsstyrjöldinni ekki notað meyjarnafn sitt aftur og kom það sér vel fyrir hana í seinni heimsstyrjöldinni.

Vegna óttans við að nafnið Golding kæmi upp um hana – var ættarnafninu og uppruna hennar sem gyðings haldið vandlega leyndum. Hún var alltaf ávörpuð af öllum Mrs Drake og Florence aðeins notað af fáum nákomnum. Þótt amma og afi ættu pabba minn og tvær dætur skildu þau 1958 og kom amma þá heim frá Englandi með dætur sínar með sér og pabba minn 17 ára gamlan til að byrja nýtt líf.

Fljótlega eftir að þau komu til Íslands kynntist mamma mín þessum myndarlega enskumælandi strák og þau eignuðust mig. Við fluttum svo til London þar sem systir mín fæddist ári seinna. Við bjuggum þar öll í lítilli íbúð hjá afa en á meðan var amma á Siglufirði þar sem hún byrjaði nýtt líf með mann og börn og virtist allt vera í blóma. Við aftur á móti ílengdumst ekki í London en fluttum heim til Reykjavíkur og hitti ég ömmu þá.

Eftir að mamma og pabbi skildu þegar mamma var ófrísk að þriðju systur minni, varð minna um að við hittumst því hún bjó á Siglufirði og fljótt var sambandið algerlega rofið. Ég vissi samt af henni og hugsaði um að hitta hana einn daginn þegar ég væri eldri. En hverjum hefði dottið í hug að hún kúventi lífi sínu eina ferðina enn.

Örlögin urðu þau að amma hitti afa aftur og ástin var enn heit og giftust þau aftur 1980.
Þau bjuggu í Grimsby í litlu fallegu húsi, voru orðin mjög trúuð og undu glöð við sitt. Amma var undrandi að heyra í mér í síma fyrir tveim árum en ég hitti hana aldrei.

Ég þakka henni fyrir að hafa elskað enska afa minn og átt með honum pabba minn, því án þeirra væri ég ekki til. Ég hringdi í afa daginn fyrir jarðarförina og mæltist okkur svo til að ég mundi koma til hans í heimsókn í sumar og þá mun ég fara að gröf dularfullu ömmunnar sem ég aldrei þekkti.

Hellen Linda Drake.