Hreinn Sumarliðason, kaupmaður

Mbl.is 3. maí 2019 | Minningargreinar

Hreinn Sumarliðason, kaupmaður og fv. formaður Félags matvörukaupmanna, Erluhólum 5, Rvk, fæddist á Siglufirði 24. nóvember 1930. Hann lést 16. apríl 2019 í Brákarhlíð, Borgarnesi.

Hreinn var sonur Sumarliða Guðmundssonar skósmiðs á Siglufirði, f. 22.4. 1889, d. 1.5. 1983, og Sigurlínu Guðrúnar Níelsdóttur, f. 2.2. 1891, d. 28.1. 1963.

 • Bræður Hreins voru Kári, f. 16.6. 1916, d. 20.3. 1990, og
 • Arthúr Níels, f. 18.7. 1920, d. 5.1. 2014.

Hreinn „Dúddi“ kvæntist 30.6. 1951 Ósk Pálínu Önnu „Dídí Þorsteins“ Hallgrímsdóttur, f. 18.6. 1931, d. 1.10. 1990, húsmóður og kaupmanni. Anna var dóttir Hallgríms Georgs Björnssonar, f. 26.10. 1908, d. 2.12. 1992, og Herdísar Lárusdóttur, f. 14.12. 1910, d. 23.4. 1980.

Hreinn og Anna eignuðust þrjár dætur:

Hreinn Sumarliðason - ókunnur ljósmyndari

Hreinn Sumarliðason - ókunnur ljósmyndari

1) Sigurlína, f. 25.12. 1951, börn hennar eru Hreinn Pálsson giftur Isabel Piffarer, þau eiga eitt barn og von á öðru;
 • Anna Jóna Reynisdóttir, í sambúð með Kasper Vedel.

2) Ágústa, f. 22.10. 1957, gift Sigurði Ómari Sigurðssyni,
börn þeirra eru:
Sandra Ósk, gift Skafta Rúnari Þorsteinssyni,
þau eiga þrjú börn;
 • Íris Ann, gift Lucasi Keller, þau eiga tvo drengi; tvíburarnir
 • Marinó, giftur Auði Ýri Elísabetardóttur,
  þau eiga tvö börn, og
 • Hlynur, trúlofaður Kelsey Howell.

3) Jóna Magga, f. 7.5. 1961, hennar maður er Elvar Ólafsson,
börn hennar eru 
 • Andri Hrafn Agnarsson, giftur Söru Petru Guðmundsdóttur,
  þau eiga eina dóttur, og
 • Thelma Karen Jónsdóttir.

Síðustu ár var Hreinn í samvistum með Sigrúnu Clausen.

Hreinn ólst upp í hringiðu síldaráranna. Hann lauk gagnfræðaprófi frá gagnfræðaskóla Siglufjarðar 1947, stundaði síðar nám við Námsflokka Reykjavíkur, Málaskólann Mími, hjá H.B. Nielssen co, Iðnaðarmálastofnun Íslands, Torquays International Englandi auk þess sem hann sótti ýmis námskeið samhliða vinnu.

Að loknum grunnskóla hélt hann til Reykjavíkur þar sem hann var verslunarstjóri í tíu ár í Kiddabúð. Hreinn og Anna stofnuðu Kjörbúð Laugaráss, Laugarásvegi 1, 1959, síðar í Norðurbrún 2, og starfræktu í 25 ár. Hann stundaði fasteignarekstur og var erindreki Kaupmannasamtaka Íslands 1985-97.

Hreinn var kjörinn í stjórn Félags matvörukaupmanna 1964, var varaformaður félagsins frá 1967 og formaður þess 1974-77. Hann sat í fyrstu stjórn Stofnlánasjóðs matvörukaupmanna frá 1968, sat í framkvæmdastjórn Kaupmannasamtaka Íslands 1973-76, auk þess sem hann sat í varabankaráði Verslunarbanka Íslands hf. 1973-89 og í fulltrúaráði Kaupmannasamtaka Íslands 1978-85, hann hefur einnig gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum í þeirra þágu.

Hann sat í stjórnum Matkaups hf., Búrfells hf. og Fasteignavers hf. Hreinn var sæmdur gullmerki Kaupmannasamtaka Íslands 1984, auk þess að vera sæmdur merkjum Norges Kolonial og Landhandel Förbund 1982, Sveriges Köbmann Forbund 1984 og Detalj Handelens Centralforbund 1988.

Útför Hreins fer fram frá Áskirkju í dag, 3. maí 2019, klukkan 13.

 • Við kveðjum ástkæran föður okkar.
 • Umhyggju og ástúð þína
 • okkur veittir hverja stund.
 • Ætíð gastu öðrum gefið
 • yl frá þinni hlýju lund.
 • Gáfur prýddu fagurt hjarta,
 • gleðin bjó í hreinni sál.
 • Í orði og verki að vera sannur
 • var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibj. Sig.)

Við viljum koma á framfæri hjartfólgnu þakklæti til starfsfólks og stjórnar Brákarhlíðar Borgarnesi fyrir að taka pabba að sér og hugsa um hann eins og um fjölskyldumeðlim væri að ræða, enda Brákarhlíð ein stór fjölskylda.

Hreinsdætur, Sigurlína (Sirrý), Ágústa (Gústa) og Jóna Magga.
-------------------------------------------------------------------------

Leiðir okkar Hreins mágs míns lágu fyrst saman þegar ég var fimm ára og hann tvítugur. Þá fluttu hann og systir mín Anna suður til Reykjavíkur frá Siglufirði, þá nýgift hjón, og dvöldu á heimili okkar í Hafnarfirði um tíma. Strax varð mjög gott samband og vinátta með okkur Hreini sem hefur varað alla tíð síðan.

Hreinn var mjög áreiðanlegur maður, vel skipulagður og traustur. Segja má að hann hafi alla tíð verið mín fyrirmynd. Margar voru ferðir mínar til hans í Kiddabúð og síðar í Laugarásinn eftir að þau hjónin stofnuðu sína eigin verslun þar, Kjörbúðina Laugarás. Einnig var ég og síðar hún Didda konan mín tíðir gestir á heimilum þeirra á Rauðalæknum, Erluhólum og líka í sumarbústaðnum í Grímsnesi.

Til þeirra var gott að koma og alltaf hægt að sækja góð ráð sem ávalt reyndust vel. Þau Hreinn og Anna höfðu mikla ánægju af því að ferðast og gátu látið þann draum sinn rætast þegar umhægðist í verslunarrekstrinum. Meðal annars fóru þau í þriggja mánaða heimsreisu þar sem þau stoppuðu á ýmsum stöðum í heiminum og upplifðu menningu innfæddra. Ekki hafði maður lengi setið með Hreini þegar spurningin kom.

Hafið þið eitthvað verið að ferðast nýlega? Sú spurning kom að sjálfsögðu þegar við hjónin heimsóttum hann í síðasta skiptið í Brákarhlíð nokkrum dögum áður en hann lést. Ofarlega í huga okkar hjónanna er mjög ánægjuleg vikudvöl sem við hjónin áttum með Hreini og Önnu í London í nóvember 1988. Anna lést í október 1990.

Síðar hóf Hreinn sambúð með Sigrúnu Clausen í Erluhólunum. Þangað var gott að koma og ræða málin yfir kaffibolla í eldhúsinu. Árið 1998 vildi svo skemmtilega til að við Didda áttum með þeim Hreini og Sigrúnu viku dvöl í San Francisco sem við nutum saman í skemmtilegri hópferð.

Blessuð sé minning Hreins.

Þorvaldur Stefán Hallgrímsson, Svanhildur Leifsdóttir.
---------------------------------------------------------------------

Elsku afi minn.

Takk fyrir allar þær stundir sem við áttum saman. Ég hugsa til baka þegar ég var yngri. Mamma í vinnuferð erlendis og ég fékk að vera í pössun hjá afa í Erluhólunum. Það voru frábærar stundir. Þú kenndir mér margt.

Ein saga kemur strax upp í huga minn. Ég hef verið um 10 ára gamall og var hjá þér í pössun í nokkra daga. Á þessum tíma safnaði ég körfuboltamyndum og fannst mjög gaman að hlaupa út í sjoppu og kaupa mér nýjar myndir. Í einni skúffunni í eldhúsinu hjá þér var poki fullur af klinki. Ég man eftir að hafa stolist í hann og náð mér í of marga gullitaða peninga til að kaupa mér körfuboltamyndir, ég hugsaði með mér að þú myndir nú ekkert fatta það.

Nokkru síðar þegar ég var í heimsókn hjá þér með mömmu og við vorum að kveðjast í anddyrinu sagðirðu við mig að þú vildir gefa mér svolítið. Þú labbaðir inn í eldhús náðir í pokann með klinkinu og réttir mér hann og sagðir. Þú mátt eiga þennan poka, Andri minn. Ég man svo vel að ég skammaðist mín mikið og þarna lærði ég mikla lexíu.

Stundirnar sem við fjölskyldan áttum öll í sumarbústaðnum á sumrin á jólunum í Erluhólum eru stundir sem ég varðveiti alla ævi, elsku afi minn.

Ég mun aldrei geta keyrt fram hjá Erluhólunum án þess að horfa niður í botnlangann á húsið sem er mér svo kært. Í þessari götu á ég svo margar góðar minningar og ég er mjög leiður yfir því að vita að ég mun aldrei heimsækja þig aftur þangað.

Jólin í Erluhólum voru einstök. Öll stórfjölskyldan saman komin til að halda jól og alltaf sömu hefðirnar, einn pakki fyrir mat og svo biðin endalausa þegar borðhald var búið og uppvask tók við áður en þú settist í þitt sæti þar sem þú last á pakkana með okkur krakkana öll í kringum þig.

Svo var það þegar ég keypti mér krossarann eða torfærumótorhjólið sem mig minnir að þú hafir kallað það. Ég fékk að geyma það inni í bílskúrnum hjá þér sem var auðvitað alltaf svo hreinn og fínn og allt í röð og reglu. Þarna mætti ég eftir að hafa leikið mér á því drullugur upp fyrir haus og hjólið allt í mold, það passaði ekki alveg við hreina og fína bílskúrinn en þetta fannst þér svo meira en sjálfsagt og færðir til hluti í bílskúrnum svo það væri nú örugglega fínt aðgengi fyrir mig að því. Ég gæti talið upp endalausar sögur, afi minn.

Elsku afi minn, þú varst algjörlega einstakur maður. Þú hefur verið mér fyrirmynd allt mitt líf og ég er þakklátur fyrir að hafa átt allar þessar stundir með þér.

Knúsaðu ömmu frá mér.

Þinn Andri Hrafn.
--------------------------------------------------

Vinur okkar hjóna og félagi, Hreinn Sumarliðason, er látinn. Andlátsfregn hans kom okkur hjónum í raun ekki á óvart, þar sem hann hafði átt við veikindi að stríða síðustu árin. Það er margs að minnast í gegnum árin. Málefni Kaupmannasamtaka Íslands voru Hreini hugleikin, enda vann hann að margs konar málefnum innan þeirra. Eitt vil ég þó nefna sérstaklega, en það var stofnun kaupmannaklúbbsins sem við kölluðum innan hópsins lávarðadeildina, sem hann átti stóran þátt í að yrði að veruleika.

Hann sat í stjórn klúbbsins frá stofnun hans á meðan heilsan leyfði. Auk þess að eiga Hrein sem starfsfélaga innan KÍ vorum við þess utan vinir og félagar ásamt eiginkonum okkar. Við hjónin ferðuðumst mikið saman, bæði utan- sem innanlands. Má þar nefna ánægjulegar samverustundir í sumarhúsi þeirra í Grímsnesinu. Þar var oft glatt á hjalla.

Anna og Hreinn voru okkar bestu vinir. Eftir lát Önnu, en hún lést árið 1990 langt fyrir aldur fram, hélst sá vinskapur okkar Hreins áfram með tilkomu vinkonu hans, Sigrúnar Clausen, og teljum við að það hafi verið hans gæfa að eiga samleið með henni seinustu árin.

Við hjónin kveðjum góðan vin til margra ára og sendum dætrum hans, þeim Sigurlínu, Ágústu og Jónu Möggu, auk Sigrúnar Clausen og annarra ástvina okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning vinar okkar, Hreins Sumarliðasonar.

Gunnar og Jóna (Ninna).
------------------------------------------------------------------

Kveðja frá Kaupmannasamtökum Íslands

Við andlát Hreins Sumarliðasonar fyrrv. kaupmanns er margs að minnast. Þegar Hreinn kemur til Reykjavíkur frá Siglufirði, ungur maður, bar svo við að Kristján Jónsson kaupmann í Kiddabúð vantaði starfsmann. Hreinn var meðal margra sem sóttu um og var ráðinn. Löngu síðar sagði Kristján Hreini að hann hefði ráðið hann vegna þess að hann hafi verið sá eini af þeim sem sóttu um sem hefði verið í vel burstuðum skóm, þetta lýsir Hreini vel, enda mikið snyrtimenni alla tíð. Hreinn varð svo verslunarstjóri í Kiddabúð í Garðastræti 17 til ársins 1959, en það ár opnaði hann verslun á Laugarásvegi 1 ásamt vini sínum Sigþóri Sigþórssyni, sem líka var verslunarstjóri í annarri Kiddabúð. Síðar keypti Hreinn hlut Sigþórs.

Árið 1968 sótti Hreinn um lóð undir verslunarhús á Norðurbrún 2 og opnaði þar síðan verslun sem hann rak í mörg ár, eða til ársins 1985, að hann seldi reksturinn og réðst til starfa hjá Kaupmannasamtökum Íslands (KÍ) og starfaði þar næstu 12 árin, eða til ársins 1997. Vinnuheitið hjá KÍ var erindreki. Það fólst m.a. í því að sjá um og miðla upplýsingum til kaupmanna og félaga innan KÍ, m.a. úti á landi. Hann ferðaðist um allt land og sat fundi og aðstoðaði við fundahöld. Þar var Hreinn á heimavelli, en hann var mikill félagsmálamaður og oft víða fenginn til að stjórna fundum.

Hreinn sat í stjórn Félags matvörukaupmanna 1964-1968, formaður þess 1973-1978 og í framkvæmdastjórn KÍ á sama tíma. Hreinn stjórnaði aðalfundum KÍ í fjölmörg ár. Matvörukaupmenn stofnuðu með sér sjóð, Stofnlánasjóð matvörukaupmanna, og greiddu í þennan sjóð, mánaðarlega, tiltekna fjárhæð, sem eins konar stofnframlag. Tilgangur sjóðsins var m.a. sá, að þar gætu kaupmenn sótt um lán t.d. til tækjakaupa eða byggingar húsnæðis fyrir verslanir sínar. Hreinn var kjörinn í fyrstu stjórn sjóðsins. Þessi sjóður sameinaðist svo síðar öðrum slíkum sjóði innan vébanda KÍ – Almennum stofnlánasjóði Kaupmannasamtaka Íslands, ASKÍ, og var Hreinn kjörinn fyrsti formaður hans.

Hreinn var kjörinn til setu í bankaráði Verslunarbanka Íslands frá 1973-1989 eða í 16 ár.

Árum saman var mikið og gott samband og samvinna ýmiss konar við Kaupmannasamtök hinna Norðurlandanna og var Hreinn sæmdur gullmerkjum þess finnska, norska og sænska, jafnframt sem hann var gullmerkjahafi KÍ.

Fyrir allmörgum árum stofnuðu nokkrir gamlir kaupmenn, þá flestallir hættir kaupmennsku, með sér klúbb – Lávarðadeildina. Þar var Hreinn auðvitað kjörinn til stjórnarsetu. Starfsemin gengur út á það að koma saman mánaðarlega og fá sér kaffisopa, afar einfalt og gott. Fundirnir eru nú orðnir tæplega 200. Á þessum fundum er mikið rætt um verslun, oft eins og hún var í gamla daga. Margir hafa nú kvatt okkur og sjáum við nú hinir á eftir enn einum traustum og góðum félaga.

Ég vil hér í lokin, fyrir hönd KÍ sem og fyrir hönd okkar í „Lávarðadeildinni“, senda aðstandendum Hreins innilegar samúðarkveðjur.

Ólafur Steinar Björnsson.