Hrönn Jónsdóttir (Nanna)

 Mbl.is 26. maí 2005 | Minningargreinar 

Hrönn Jónsdóttir (Nanna) fæddist á Siglufirði 4. janúar 1918. Hún lést á Landakotsspítala 18. maí síðastliðinn.

Foreldrar hennar voru Helga Jóhannesardóttir, húsmóðir, f. 29.5. 1890, d. 24.11. 1971, og Jón Gíslason, bátsformaður, f. 23.1. 1889, d. 8.5. 1973.

Systkini Hrannar eru:

 • RagnheiðurJónasóttir, f. 5.12. 1919, d. 21.11. 1998,
 • Dórothea Anna Jónsdótir, f. 4.7. 1922, d. 8.10. 1986,
 • Snorri J'onsson, f. 2.3. 1925,
 • Jóhannes Jónsson f. 26.2. 1926, d. 15.7. 1987,
 • Unnur Jónsdóttir, f. 30.8. 1929,
 • Petra Jónsdóttir, f. 25.3. 1931, og
 • Vilborg Jónsdóttir, f. 2.8. 1932.

Hinn 15. febrúar 1941 giftist Hrönn Þóri Konráðssyni bakarameistara frá Ísafirði, f. 10.7. 1916, d. 20.3. 1995. Foreldrar hans voru Þorbjörg Sveinbjarnardóttir, húsmóðir, f. 24.7. 1891, d. 24.11. 1958, og Konráð Jensson, sjómaður, f. 12.11. 1889, d. 11.4. 1964.

Hrönn Jónsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Hrönn Jónsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Börn Hrannar og Þóris eru:

1) Fylkir, tæknifræðingur, f. 8.10. 1941, maki Bärbel Valtýsdóttir, f. 31.5. 1945.
Barn þeirra:
 • Jens, f. 1968, maki Guðrún Geirsdóttir. Þau skildu.
Börn þeirra:
 • Haukur, f. 1996, og
 • Dagbjört, f. 2001.

2) Helga, bókari, f. 10.10. 1943, maki Þorgeir Guðmundsson, f. 29.6. 1944. Þau skildu.
Börn þeirra:
 • Þröstur, f. 1966, maki Sigrún Pálmarsdóttir,
  barn þeirra:
 • Nói, f. 2004,
  barn Þrastar:
 • Tara Sif (Friggjardóttir), f. 1986,
  barn Sigrúnar:
 • Sigurvin Andri Sigurðsson, f. 1988.
 • Úlfar, f. 1972, maki Ásdís Valsdóttir,
  barn þeirra:
 • Ragna Sif, f. 2004. Þóra Hrönn, f. 1978, maki Guðmundur Kristinn Erlendsson, barn Þóru:
 • Arnór Ýmir Aðalsteinsson, f. 1996.

3) Jens, augnlæknir, f. 15.11. 1946, maki Hrafnhildur Óskarsdóttir, f. 19.11. 1946.
Börn þeirra:
 • Hilmar, f. 1966, maki Valgerður Unnarsdóttir,
  börn þeirra:
 • Dagur Örn, f. 1996, og
 • Unnar Hrafn, f. 2001.
 • Helga, f. 1972, maki Pétur Rúnar Pétursson,
  barn þeirra:
 • Jón Alex, f. 1999.

4) Jón, leikmyndateiknari, f. 19.10. 1948, maki Ragnheiður Steindórsdóttir, f. 26.6. 1952.
Börn þeirra:
 • Steindór Grétar, f. 1985, og
 • Margrét Dórothea, f. 1990.

5) Konráð, fiskifræðingur, f. 20.3. 1952, maki Margrét Auðunsdóttir, f. 20.6. 1952.
Börn þeirra:
 • Fífa, f. 1974, maki Pétur Þór Sigurðsson,
  börn þeirra:
 • Hlynur Þór, f. 1996, og
 • Máni, f. 2004. Hrönn, f. 1980, og
 • Svavar, f. 1988.

6) Vörður, leiktjaldamálari, f. 12.6. 1958, maki Margrét Benedikz, f. 22.10. 1959. Þau skildu.
Börn þeirra:
 • Sebastían, f. 1984, og
 • Leifur Alexander, f. 1993.

7) Þorbjörg, danskennari, f. 25.9. 1959, maki Ólafur Ragnar Pálsson, f. 10.10. 1954.
Börn þeirra:
 • Páll Ragnar, f. 1986, og
 • Emil, f. 1992.
  Fyrri maki Þorbjargar Sæmundur Ólason, f. 23.10. 1959,
  barn þeirra:
 • Þórir, f. 1980.

Hrönn var fyrst og fremst móðir og húsmóðir á meðan börnin voru ung. Seinna vann hún lengst af í Blóðbankanum og á Landspítalanum við Hringbraut.

Hrönn verður jarðsungin frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

 • Kæra móðir, sárlega þín er saknað.
 • Sanngirni, ástar og visku sem í þér bjó.
 • Þótt ótal hughrif geti í veikindum vaknað.
 • Víst eru hér - það var önnur kona sem dó.

Jens.
------------------------------------------------------

Það var fyrir rúmlega 40 árum að ég sá Nönnu í fyrsta sinn, konuna sem síðar átti eftir að verða tengdamóðir mín. Ég kom í heimsókn til næstelsta sonarins á Hlíðarveginn í Kópavogi þar sem hún var, ásamt fleira heimilisfólki, að taka upp úr kössum og ganga frá í skápa. Fjölskyldan var sem sagt að flytja inn og í þetta skipti frá Sauðárkróki. Það bar á góma í þessari fyrstu heimsókn minni að þetta væri líklega í tuttugasta og fimmta skiptið sem hún og Þórir eiginmaður hennar flyttu búferlum.

Þau voru um margt ólík, hjónin Nanna og Þórir. Hann var mikill athafna- og selskapsmaður sem alltaf var tilbúinn að prófa eitthvað nýtt. Auk þess að vera bakarameistari og vinna við þá iðju var hann um skeið hótelstjóri í Vestmannaeyjum og lengi verkstjóri á síldarplönum víða um land. En síldin, þetta ólíkindatól, æddi landshorna á milli eins og alþjóð veit og fjölskyldan fylgdi á eftir.

Nanna var aftur á móti fremur hlédræg og heimakær. Hún hefði sjálfsagt helst viljað ala allan sinn aldur á Siglufirði þar sem hún var fædd og uppalin. En hlutskipti hennar varð sem sagt að flytjast búferlum oftar en almennt gerist og oftar en ekki milli landshluta. Það má nærri geta að lífið hefur á stundum verið henni erfitt, ekki síst eftir að börnunum fjölgaði. En hún virtist taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti, ekki beinlínis ánægð, hver hefði verið það, en hlutirnir skyldu ganga upp og gerðu það.

Svo var henni fyrir að þakka. Hún var kjölfestan í lífi barna sinna, um þau snerist allt hennar líf. Hún var ábyrgðarfullur uppalandi sem alltaf var til staðar og tilbúinn til aðstoðar. Ég get ekki ímyndað mér það sem Nanna hefði ekki lagt á sig fyrir börnin sín hefði hún talið það þeim til framdráttar á annað borð.

Þetta var konan sem ég kynntist fyrir um 40 árum síðan. Þreytt á flutningum og brotnum og týndum húsmunum en þakklát fyrir að börnunum virtist ekki hafa orðið meint af flakkinu. Hún var tilbúin að takast enn einu sinni á við að byggja upp nýtt heimili á nýjum stað. Og þarna var hún, þegar á fyrsta degi, meira að segja neydd til að kynnast nýrri manneskju sem ofan á allt annað gerði ákveðna atlögu að fjölskyldu hennar. Hvað um það, í allri óreiðunni, sem óhjákvæmilega fylgir flutningum, var drifið í að dúka borð og mér boðið upp á kaffi og meðlæti.

Síðan þá hef ég átt margar ánægjustundir við matborðið hjá henni tengdamóður minni og tengdapabba á meðan hans naut við. Sunnudagskaffið varð fljótt að fastri venju þar sem systkinin söfnuðust saman og smám saman bættust fleiri makar og barnabörn í hópinn. Þarna spunnust undantekningalítið fjörugar umræður þar sem börnin voru ekki síður þátttakendur en hinir fullorðnu.

Og hvað skyldi svo standa upp úr þegar litið er yfir samveru okkar í þessi fjörutíu ár? Mér kemur fyrst í hug einlæg umhyggja hennar fyrir barnabörnunum. Hún fylgdist grannt með daglegri líðan þeirra meðan þau voru lítil og barnasjúkdómarnir helltust yfir hver af öðrum. Hún fylgdist nánast fram á síðasta dag af áhuga með framförum þeirra í leik og starfi, áhugamálunum öllum og vonbrigðum þegar svo bar undir.

Börn stór og smá voru alltaf í öndvegi hjá Nönnu. Fyrir þau útbjó hún síðdegiskaffið á sunnudögum með stafla af pönnukökum, rjúkandi súkkulaðið á jólanóttina og haug af jólapökkum kringum gamla jólatréð.

Nanna var bráðgreind kona, ótrúlega minnug og sagði vel frá. Það var gaman að hlusta á hana þegar hún rifjaði upp minningar frá æskuárunum, ekki síst af jólahaldi í litla húsinu við Suðurgötuna á Siglufirði. Hún var líka hörkudugleg og þrjósk svo um munaði. Það var ekki síst þessum eiginleikum hennar að þakka að henni tókst það sem hún hafði alltaf ætlað sér, að búa á sínu eigin heimili þar til yfir lyki. Hún endaði reyndar ævina á Líknardeild Landakotsspítala eftir skamma legu en vissi lítið af sér þann tíma. Hún var örþreytt og löngu tilbúin til brottfarar.
Blessuð sé minning þessarar fallegu óeigingjörnu konu.

Hrafnhildur.
---------------------------------------------

 • Hver ævivoð skal unnin
 • úr ótal fjörva-þráðum,
 • af dyggðum, syndum, dáðum
 • og djúpri gleði og sorg;
 • öll reist að spökum ráðum
 • er reynslu vorrar borg.

( Jakob Thorarensen.)

Hún kvaddi okkur á sólríkum vordegi, hún tengdamóðir mín, heiðurskonan Hrönn Jónsdóttir. Hún hafði lifað langa og viðburðaríka ævi, unnið hörðum höndum, komið sjö börnum til manns, hafði glaðst og þjáðst, elskað, misst og saknað. Hún var reiðubúin að fara til Guðs.

Nanna og Þórir tóku mér opnum örmum, þegar Nonni kom með mig í Kötlufellið í fyrsta sinn, veturinn 1976, og með hlýju brosi og ríkri kímnigáfu batt Nanna mig strax sterkum vináttuböndum. Hún var skilningsrík og hjálpsöm tengdamóðir, stórkostleg amma og falleg fyrirmynd. Hún kallaði fjölskylduna til samverustunda af minnsta tilefni og lét sér ekkert óviðkomandi, sem varðaði heill og velferð okkar allra.

Allt þetta viljum við nú þakka og miklu meira en það. Ég flyt henni líka kæra kveðju og þakklæti frá foreldrum mínum, sem þau Þórir sýndu alltaf mikla vináttu og ræktarsemi.

Nanna var afar félagslynd og naut sín vel í mannfagnaði og því var eins og hún ætti erfitt með að kveðja veisluborð lífsins, þó veikindin hefðu leikið hana grátt undir það síðasta. En þegar hún var umkringd börnum sínum og tengdabörnum á þessum fallega sólskinsmorgni, sleppti hún takinu mjúklega. Það snerti mig djúpt að sjá ástvinina kveðja hana, svo ósköp blíðlega og finna alla þá virðingu og þökk, sem streymdi til hennar.

 • Þú varst líknin, móðir mín,
 • og mildin þín
 • studdi mig fyrsta fetið.

Þetta segir Örn Arnarson, í ljóði sínu, Þá var ég ungur. Hrönn Jónsdóttir var slík móðir, studdi, skildi, greiddi úr gátum, svæfði, þekkti og vermdi og ég er þess fullviss, að börnin hennar taka öll undir með skáldinu:

 • Er syrtir af nótt, til sængur er mál að
 • ganga - sæt mun hvíldin eftir vegferð stranga
 • þá vildi ég, móðir mín,
 • að mildin þín
 • svæfði mig svefninum langa.
 • Elsku Nanna, ég þakka fyrir mig og mína.

Ragnheiður Steindórsdóttir.
--------------------------------------------------------

Tengdamóðir mín, Hrönn Jónsdóttir (Nanna), verðugur fulltrúi kynslóðar sem nú er óðum að hverfa, er látin. Hún var móðirin, tengdamóðirin, amman, sem alltaf var til staðar fyrir fjölskylduna.

Hún var sjö barna móðir og var vakin og sofin yfir velferð þeirra. Bjuggu þau hjón fyrstu búskaparár sín aðallega á Siglufirði, þar sem börnin fæddust hvert af öðru. Fluttu þaðan þegar atvinnuástand versnaði og voru síðast búsett í Reykjavík.

Eftir að barnauppeldi lauk voru þau dugleg við að fara í ferðir til útlanda og heimsóttu okkur m.a. þegar við bjuggum um tíma í Noregi og áttu þar með okkur góða tíma. Einnig fórum við saman í ferðalög og er sérlega minnisstæð ferð sem ég og Svavar sonur minn fórum með þeim út í Flatey á Breiðafirði að sækja Hrönn nöfnu hennar sem þar var í sveit. Bar þá ferð oft á góma síðar.

Á tímabili áttu þau hjónin griðastað í sumarbústað á Flúðum og var oft glatt á hjalla hjá ömmu- og afabörnunum í heita pottinum meðan foreldrarnir nutu góðra veitinga sem hún var ávallt þekkt fyrir.

Fyrir tíu árum lést tengdafaðir minn Þórir og var það henni mikill missir. Þrátt fyrir það lét hún ekki bugast enda var seiglan hennar aðalsmerki.

Kaffisopi, heimabakaðar kökur, notalegt spjall, einhver í fjölskyldunni að líta inn. Skipst á fréttum úr daglega lífinu og haldið heim á leið og allir notalega endurnærðir á sál og líkama, þannig verður heimsóknum til hennar best lýst.

Siglufjörður var alltaf heima í hennar huga og þegar hann bar á góma náði hún sér virkilega á flug í frásögnum af sér og sínum enda var hún mjög glaðsinna og gamansöm að eðlisfari. Oft áttum við tengdamamma saman góðar stundir við spaug og spjall og náðum við oft vel saman.

Á aðfangadagskvöld var siður að öll fjölskyldan kom saman til að drekka jólasúkkulaði með kökum og þrátt fyrir mikið át fyrr um kvöldið tróðu allir sig út meðan skipst var á jólapökkum og verður þeirra stunda ávallt minnst með söknuði.

Þar sem heimilið hafði alltaf verið henni hjartfólgnast vildi hún ekki fara á elli- eða hjúkrunarheimili og þrátt fyrir að heilsan væri þrotin varð henni að þeirri ósk sinni umvafin hjálp barnanna sinna sem hafa tekið í veganesti þá umhyggjusemi sem þau hafa alist upp við.

Nanna tilheyrði þeirri kynslóð kvenna sem helgaði sig velferð fjölskyldunnar, en samt sem áður voru henni kvenréttindi ofarlega í huga. Hún var hetja hversdagsins sem með atorku sinni gerði meira til að stuðla að velferð þjóðfélagsins en margur nútímamaður gerir. Slíkum konum fer fækkandi og stóra spurningin er hvort okkur hinum sem eftir lifum tekst að höndla tilveruna með svipuðum árangri og halda á einhvern hátt uppi merki þeirra.

Á kveðjustund er mér efst í huga virðing og þökk og kveð ég hana með þeim sömu orðum og voru þau síðustu sem hún sagði við mig í sínu lífi, skömmu áður en hún hvarf á vit forfeðra sinna: "Góða nótt."

Margrét Auðunsdóttir.
-----------------------------------------------------

Mér fannst svo gott að heimsækja ömmu Nönnu. Hún var alltaf í góðu skapi og átti alltaf eitthvað gott til að gefa okkur krökkunum. Þó að barnabörnunum og barnabarnabörnunum hafi fjölgað sífellt með árunum, gaf amma sér tíma til að fylgjast með hverju og einu okkar, tala við okkur og hlæja með okkur. Aldrei lét hún sig vanta í veislur og ég man ekki eftir einni einustu jólahátíð, sem endaði ekki í huggulegheitum í stofunni hjá ömmu, með heitu súkkulaði og kökum.

Síðustu vikurnar, þegar hún lá á Landakoti, fann ég hvað mér fannst ennþá gott að geta heimsótt hana. Það skipti mig máli að geta hlaupið yfir götuna í frímínútum og setið hjá henni í smá stund, haldið í höndina á henni og spjallað dálítið við hana. Þótt þetta væru ekki langar heimsóknir, leið mér vel. Þetta var erfið barátta undir lokin en hún fékk allan þann stuðning og ást, sem hún átti inni hjá fjölskyldunni, og skildi við þennan heim í sátt.

Elsku amma, ég mun minnast þín sem góðrar, hlýrrar og elskandi konu, sem mér þótti svo innilega vænt um.
Hvíldu í friði.

Margrét Dórothea.
------------------------------------------------

Hjá ömmu Nönnu hitti maður aldrei illa á. Í hvert sinn sem maður kíkti til hennar í Krummahólana var manni tekið með sömu gestrisni og góðvild. Þó að hún ætti stóra fjölskyldu leið mér alltaf eins og ég væri heiðursgestur og hún vildi allt fyrir mig gera. Það getur ekki verið auðvelt starf að eiga svona mörg barnabörn og barnabarnabörn, en amma átti næga umhyggju og ást handa okkur öllum. Hennar verður sárt saknað úr fjölskylduboðunum, þar sem hún lék á als oddi, leit stolt yfir fjölskylduna sína, eins og smiður yfir sköpunarverk sitt, og fylgdist með yngstu börnunum leika sér.

 • Hér við skiljumst
 • og hittast munum
 • á feginsdegi fira.
 • Drottinn minn
 • gefi dauðum ró
 • og hinum líkn er lifa.

(Úr Sólarljóðum.)

Bless, elsku amma, góða ferð og takk fyrir allt.

Steindór Grétar.
------------------------------------------------------

Elsku amma. Þú varst alltaf svo skemmtileg og áttir skemmtilegt dót. Ég hitti þig fyrst fyrir níu árum. Þú áttir afmæli einum degi á eftir mér. Ég var ekki búin að hitta þig lengi, lengi. Ég sakna þín svo mikið. Ég vona að þú hafir það sem best uppi hjá Guði og ég elska þig 100% mikið.

Þinn Dagur.
---------------------------------------------

Ef þú leitar inn í sorg þína muntu finna hroka þinn gagnvart mótlætinu, verða lítill í miklum sársauka og síðan auðugur af ró og auðmýkt.

En ef þú leitar út úr sorg þinni, áður en hún hefur náð að blómstra, muntu fara á mis við eymd þína, verða fátækur af þögn og kvalinn af öryggi.

(Vésteinn Lúðvíksson.)

Takk fyrir allt, amma mín. Bið að heilsa afa.

Þórir.
----------------------------------------------------

Það er svo skrítið að kveðja einhvern sem alltaf hefur verið til. Einhvern sem skilyrðislaust hefur gefið umhyggju og kærleik alla mína tíð. Davíð Stefánsson skrifar í Gullna hliðinu, að það sé löng leið frá Íslandi til himnaríkis. Ég held að fyrir þig verði það bara stuttur spölur.

Takk fyrir að fylgja mér svona lengi, elsku amma.

Páll Ragnar.
----------------------------------------------------

Langamma Hrönn var alltaf í góðu skapi. Hún var sú fyrsta sem gaf mér Cocoa puffs og hún var svo góð við mig að leyfa mér alltaf að fá smákökur þegar ég kom í heimsókn.

Langamma. Þetta er uppáhaldsbænin mín, handa þér:

 • Leiddu mína litlu hendi,
 • ljúfi Faðir, þér ég sendi
 • bæn frá mínu brjósti sjáðu,
 • blíði Jesú, að mér gáðu.

(Ásmundur Eir.)

Amen.

Mér þykir svo rosalega vænt um þig, langamma mín.

Hlynur Þór Pétursson.
-------------------------------------------------------

Ég horfi á fallegu plöntuna sem þú gafst mér í innflutningsgjöf blómstra stórum ferskjulituðum blómum þegar komið er að kveðjustund, elsku amma mín.

Hrönn amma var mjög félagslynd og jákvæð og í bernskuminningum mínum varð ekki þverfótað fyrir börnum og fullorðnum heima hjá henni og Þóri afa. Þannig virtist henni líða best, umvafin stóru fjölskyldunni sinni og hún hafði ótrúlega þolinmæði gagnvart börnum sem hlupu í eltingaleik um stofuna. Amma var alltaf til í slaginn, hvort sem henni var boðið í leikhús, veislu eða bara grjónagraut og sjónvarpsgláp. Amma var skemmtilegur ferðafélagi og mér er minnisstætt hversu mikið var hlegið og spjallað þegar hún fékk far með okkur hjónakornunum til Siglufjarðar.

Amma var stálminnug og sá um að dreifa upplýsingum milli ættarmeðlima, þar sem upplýsingar um prófatarnir unglinganna, nýjustu framfarir smábarnanna og hvert allir ætluðu í fríinu virtust geymast í aðskildum hirslum í heilanum og teknar út eftir þörfum. Hún var líka sérlega góð í því að gefa gjafir sem hentuðu okkar aldri og áhugamálum. Ég á eftir að sakna notalegu stundanna þar sem ég hringaði mig í hægindastól, tók upp símtólið og talaði við ömmu í minnst hálftíma og oft miklu lengur. Þá sá ég alltaf fyrir mér hvernig augu hennar tindruðu við það að segja frá uppátækjum barnabarnanna og langömmubarnanna.

Það sem stendur upp úr þegar ég hugsa um ömmu er jákvæðni, dugnaður, bjartsýni og æðruleysi. Hún kunni líka að gleðja litla munna og lítil hjörtu og ég trúi því að hlátrasköll Mána litla (16 mánaða) fylgi henni áleiðis, því hún vissi nákvæmlega hvernig átti að koma hlátrinum af stað og svo hlógu þau og hlógu saman.

Guð blessi þig, amma mín, ég veit að við komum öll til með að sakna þín mikið.

Fífa Konráðsdóttir.
----------------------------------------------------

Það eru góðar minningar sem Hrönn Jónsdóttir frænka okkar skilur eftir sig. Hrönn eða Nanna eins og hún var alltaf kölluð var í huga okkar systkinabarnanna höfuð fjölskyldunnar frá Suðurgötu 37 á Siglufirði. Hún skipaði þann sess fyrst og fremst fyrir það hvernig hún var auk þess sem hún var elst systkina foreldra okkar.

Nanna lét okkur finna að hún lét sig varða velferð okkar og hversdagsleg viðfangsefni. Heimili hennar og Þóris var okkur alltaf opið og þangað sóttum við. Það var stíll og elegans yfir hlutunum hjá Nönnu og Þóri þar sem bæði stórir og ekki síður smáir fengu höfðinglegar móttökur og eftirtekt gestgjafanna sem létu mann skilja að maður væri nokkurs virði og að heimsóknin skipti máli. Veitingarnar var vel í lagt.

Það leiddi af sjálfu sér að á heimili þar sem eru sjö börn voru mikil umsvif. Þau umsvif drógu enn frekar að, því þar var alltaf eitthvað að gerast og fjölskyldunni fylgdi alltaf líf og fjör. Nanna var miðpunktur þessa skemmtilega andrúmslofts. Hún hafði einstaka frásagnarhæfileika og sérstakt lag að glæða frásögn af atburðum hversdagsins lífi og skemmtilegheitum.

Spaugið var alltaf á hennar kostnað. Ef þörf var fyrir að segja frá hlut annarra í atburðinum gætti Nanna þess að viðkomandi gat verið nokkuð stoltur af því að fá að fljóta með í frásögninni.

Nanna frænka mun ávallt skipa stóran sess í minningunni.

Börnum og fjölskyldum þeirra vottum við dýpstu samúð okkar.

Systkinabörn. 
------------------------------------------------------------
Látin er amma okkar, Hrönn Jónsdóttir, fyrsta Hrönnin á Íslandi. Hún var mikil fjölskyldukona og tókst henni að sinna og halda saman allri stórfjölskyldunni þrátt fyrir að eiga sjö börn sem eiga öll sín eigin börn og mörg komin með barnabörn. Hún tók alltaf hlýlega á móti manni og lét fólkinu í kringum sig líða vel með góða skapinu sínu og sögunum.

Hún ákvað nefnilega strax í barnæsku að hún skyldi ekki verða önug í ellinni og það stóð hún við. Við munum minnast hennar sérstaklega á sólarkaffidögum og seint á aðfangadagskvöld. Mikill hluti tilhlökkunarinnar fyrir jólin var eftirvænting eftir jólaboðinu í ömmuhúsi og heita súkkulaðinu.

Hrönn og Svavar.