Tengt Siglufirði
Mbl.is 2. maí 2012 | Minningargreinar
Jón Leósson fæddist þann 11. janúar 1935 á Siglufirði. Hann lést á Landspítala, Landakoti 22. apríl 2012.
Foreldrar hans voru Leó Jónsson, síldarmatsstjóri ríkisins, f. 17.11. 1904, d. 18.3. 1969 og Unnur Björnsdóttir húsmóðir, f. 1.11. 1904, d. 30.3. 1994. Jón var einbirni.
Hann kvæntist Iðunni Elíasdóttur saumakonu, f. 5.7. 1938, þann 1.11. 1957.
Foreldrar Iðunnar voru Elías Guðmundsson
skipstjóri, f. 1.12. 1904, d. 9.8. 1989 og Sigríður Viktoría Einarsdóttir húsmóðir, f. 18.8. 1902, d. 26.11. 1993.
Jón og Iðunn eignuðust þrjú börn:
Eiginkona Leós er Ragna Haraldsdóttir, f. 19.3.
1958.
Börn þeirra eru
Jón ólst upp á Siglufirði og lauk þar gagnfræðaprófi. Að því loknu fór hann 18 ára gamall til Keflavíkur og hóf störf í netagerð. Þaðan lá leiðin til Akraness þar sem hann lærði netagerð og varð netagerðarmeistari 1960. Jón og Iðunn hófu búskap á Akranesi en fluttust síðan til Grindavíkur 1961, þar sem þau bjuggu í 20 ár.
Í Grindavík starfaði Jón aðallega við netagerð ásamt því að vera ötull í íþróttastarfi og félagslífi Grindvíkinga. Árið 1981, eftir erfið veikindi Jóns, fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur. Þar hóf hann störf hjá Asiaco og starfaði þar og síðar hjá Ísfelli í ríflega 10 ár. Eftir það vann hann ýmis störf, eins og heilsan leyfði.
Jarðsungið verður frá Árbæjarkirkju í dag, 2. maí 2012 kl. 13.
(Þórunn Sigurðardóttir.)
Við biðjum góðan Guð að geyma þig elsku pabbi, tengdapabbi og afi. Við vitum að þér líður betur núna en það er alltaf erfitt að kveðja. Þökkum fyrir yndislega tíma og góðar minningar.
Elsku mamma og amma,guð gefi þér styrk í sorg þinni.
Viktor, Ingibjörg, og Jón Unnar.
--------------------------------------------------
Elskulegur tengdafaðir minn, Jón Leósson, lést á Landakotsspítala 22. apríl sl. Mig langar að minnast þessa góða manns í nokkrum orðum. Það eru orðin 37ár síðan ég hitti Jón fyrst er ég kom inn í fjölskylduna sem kærasta Leós. Mér var strax vel tekið og allar götur síðan hefur Jón staðið með okkur í öllu því er við og börnin okkar höfum tekið okkur fyrir hendur.
Hvernig maður var Jón. Því er fljótt svarað, hann var í senn töffari og algjör nagli. Hann var einstaklega hlýr og barngóður. Jón var frá Siglufirði og hann taldi sig Siglfirðing alla tíð þó hann hafi flutt burt um átján ára aldur er hann hóf nám í netagerð. Þau Iða bjuggu í 20 ár í Grindavík áður en þau fluttu til Reykjavíkur. Jón bar ávallt sterkar taugar til Grindavíkur og þar eiga þau trausta og góða vini.
Jón var góður íþróttamaður, hann þótti mjög efnilegur í knattspyrnu á sínum yngri árum og stundaði skíði meðan heilsan leyfði. Jón var hörkuduglegur og drífandi í öllu því er hann tók sér fyrir hendur. Hann var m.a. einn af stofnendum UMFG og var formaður þess fyrstu 5 árin. Þau Iða voru líka alltaf að gera eitthvað, þau ferðuðust, fóru í göngutúra, á skíði og dönsuðu. Heima við var hann einnig alltaf að.
Hann var þúsundþjalasmiður og gerði allt sem gera þurfti af verklegum framkvæmdum á heimilinu af mikilli vandvirkni. Þá horfði hann á hverja sprungu eða rispu en fátt þótti honum verra en fúsk. Þau Iða létu sig ekki muna um að breyta nokkrum íbúðum, hvort sem það var að brjóta niður veggi eða færa eldhúsið enda á milli.
Jón fékk hjartaáfall aðeins 43 ára gamall. Veikindi fyrir hjarta plöguðu hann ítrekað og fór hann nokkrum sinnum í aðgerðir vegna þess. Ávallt reif hann sig þó upp á ný, fullur af orku og bjartsýni. Það hafði þó mikil áhrif á líf hans er hann fékk heilablóðfall fyrir um 9 árum og hann missti málið. Hann átti erfitt með að sætta sig við það.
Oft áttum við von á endalokunum hjá honum vegna veikinda en af alkunnri þrjósku og ákveðni hélt hann sínu striki. Jón var skapmikill og hafði ákveðnar skoðanir og þeim var ekki svo auðveldlega breytt. Þegar fjölskyldan var að gantast með að hann væri sá allra þrjóskasti sagðist hann geta bent á einn þrjóskari og það var móðir hans, sú annars úrvalskona.
Helsta einkenni Jóns var hversu hlýr hann var og barngóður. Hann umfaðmaði okkur í bókstaflegum skilningi, það voru allir faðmaðir og kysstir á báðar kinnar. Hann lét væntumþykju sína í ljós og nutu barnabörnin ómetanlegrar hlýju afa síns. Eftir að hann missti málið var hann enn duglegri að halda utan um þau, halda í hendur þeirra eða klípa þau aðeins í stríðni. Hann fylgdist með hvað allir voru að gera og sýndi þeim mikinn áhuga. Eftir að Bjarki Leó, fyrsta barnabarnið, fæddist átti hann það til að koma við, bara til að kyssa litla manninn.
Nú þegar kemur að leiðarlokum langar mig að þakka honum fyrir samfylgdina. Ég tel það forréttindi að hafa fengið að kynnast Jóni Leóssyni. Hann var ómetanlegur bakhjarl í mínu lífi og minnar fjölskyldu.
Ragna Haraldsdóttir.
-----------------------------------------------------
Elsku besti afi minn. Ég sakna þín strax svo mikið og ég á alltaf eftir að sakna þín. Ég er svo þakklát fyrir að hafa kynnst þér og ánægð með hvað minningarnar okkar eru margar. Ég mun alltaf geyma minningarnar okkar saman, því þær eru mér mjög dýrmætar og svo er alltaf ánægjulegt að hugsa um þær.
Ég á eftir að sakna þess að koma heim til ykkar ömmu þar sem þú tókst alltaf svo vel á móti mér með knúsum og kossum, helst vildir þú ekki sleppa en gerðir það þó fyrir rest. Þú tókst öllum sem ég kom með í heimsókn til ykkar opnum örmum og heilsaðir og kvaddir þau bæði með knúsum og kossum. Ég verð alltaf stolt af þér, elsku afi, og ég vona að þú sért stoltur af því hvernig einstaklingur ég hef orðið.
Ég lofa þér því að ég og Simbi verðum dugleg að heimsækja ömmugullið okkar og hugsa vel um hana. Það er mikill söknuður að missa þig elsku afi en þú kvaddir sem mjög ríkur maður og áttir fallegt líf, þó það hafi verið svolítið erfitt á köflum. Ég kveð þig í bili, elsku afi, og ég veit þú bíður eftir mér með bros á vör og ég veit ég á eftir að fá helling af knúsum og kossum þegar minn tími kemur. Ég elska þig og sakna þín alltaf.
(Sig. Jónsson frá Presthólum.)
Þín afastelpa, Emma.
--------------------------------------------------------
Elsku afi, núna ertu farinn frá okkur. Ég mun alltaf minnast þín, þú varst alltaf svo hlýr og góður og ég man eftir því að hafa skriðið í fangið þitt þegar ég var í heimsókn hjá ykkur ömmu. Það var svo notalegt að kúra hjá þér og láta þig halda utan um mig. Í hvert skipti sem ég kom til ykkar leið mér alltaf svo vel því þú sýndir mér svo mikla hlýju, knúsaðir mig og kysstir í bak og fyrir. Ég fann hvað þér þótti vænt um mig. Svona maður varstu bara, tókst öllum vel og sýndir þeim mikla hlýju.
Þú hafðir svo gaman af Bjarka Leó. Fyrsta árið hans komst þú mjög reglulega í heimsókn svona rétt til að sjá hann, kyssa hann og strjúka honum um höfuðið því þú náðir ekki að tala við hann. Mér þótti óskaplega vænt um þetta. Svo fór heilsunni að hraka enn meira og þú hafðir ekki tök á að koma eins oft en þá reyndum við að koma meira til þín.
Ekki má gleyma að nefna hvað þú varst líka stríðinn. Ég mun alltaf muna eftir þeim óteljandi gamnislagsmálum sem við fórum í þegar ég var yngri. Þú kitlaðir mig oft mikið og ég reyndi af veikum mætti að kitla þig til baka en það gekk nú misvel, en var alveg ótrúlega skemmtilegt.
Mér finnst erfitt að hugsa til þess að ég sé nú að kveðja þig í hinsta sinn. Mér finnst þó gott til þess að hugsa að nú ertu kominn á betri stað þar sem þér líður vonandi betur.
Minning þín mun ávallt lifa í hjarta mínu.
Elísabet Eydís
Leósdóttir.
-----------------------------------------------------------
Það var fagur sumardagur, geislar sunnu sindruðu á lygnum haffleti hins fagra Faxaflóa. Mágur minn og vinur, Jón Leósson, kvaddi hinsta sinn. Sárþjáður laut hann loks í lægra haldi eftir langvinna og harða baráttu við hættulegan sjúkdóm. Sannur íslenskur baráttuvilji einkenndi Jón alla tíð, að gefast upp mótspyrnulaust var víðs fjarri hans eðli og lífssýn. Tækist ekki eitt reyndi Jón annað, æðrulaus með stríðsglampa í augum og glott á vör.
Jón var frámunalega góður drengur; harðduglegur, vinsæll, hjálpfús og örlátur. Fátt var það sem Jón hafði ekki reynt af fyrstu hendi um ævina. Netagerðarmaður og ráðgjafi var hann langa tíð. Hann rak veiðarfæraverslun, bóka- og ritfangaverslun, vöruflutninga; annaðist vinnubúðastjórn og margt annað sem ekki verður hér upptalið. Jón hafði brennandi áhuga á íslenskri náttúru, elskaði að ferðast um landið. Einnig átti hafið og sjómennskan stórt rými í hug hans og hjarta. Yngri sonur hans, Viktor, gerðist sjómaður og útgerðarmaður í Grindavík og hafði Jón yndi af að sækja Viktor heim og aðstoða hann sem hann gat.
Jón var mikill fjölskyldumaður, hafði yndi af börnum sínum og barnabörnum og sinnti þeim vel.
Margs er að minnast af samskiptum okkar Jóns og minningarnar allar sérlega ljúfar. Allt frá því að við Jón fyrst hittumst á Akranesi, fyrir nokkrum áratugum síðan, tókst með okkur mikil, traust og góð vinátta. Ekki spillti fyrir hinn mikli systkinakærleiki, er ríkti með okkur Iðunni, konu hans.
Jón var minnugur vel alveg fram á síðasta dag og oft gott að leita upplýsinga hjá honum um menn og málefni. Af öllum þeim heilsuvanda, er hann þjáði síðari árin, var honum hvað erfiðast að missa getuna til að tala og tjá sig. Eftir að síðasta áfallið, af mörgum, rændi hann málinu, hittumst við Jón lengi vel vikulega og reyndum að gera talæfingar. Var þetta sá tími að ég kynntist manninum Jóni hvað best. Áttum við saman góðar stundir og ræddum margt, þrátt fyrir tjáningavandann.
Ég læt þetta duga að sinni, kæri vinur, og bið þess innilega að ferð þín um heim eilífðarinnar verði þér ljúf. Elsku Iðunn systir, börn, barnabörn og makar, megi Guð létta ykkur sorgina við fráfall Jóns, drengsins góða.
Inger og Einar.