Tengt Siglufirði
Mbl.is 29. september 2010 | Minningargreinar
Magnús Blöndal fæddist í Stykkishólmi hinn 29. júní 1918.
Hann lést á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Kumbaravogi á Stokkseyri 15. september 2010.
Foreldrar hans voru Magnús Benedikt Benediktsson Blöndal, hreppstjóri, oddviti, hafnarstjóri og settur sýslumaður, f. 19. nóvember 1856, d. 3. apríl 1920, og Guðný Björnsdóttir, f. 5. nóvember 1884, d. 31. júlí 1921.
Magnús ólst upp, eftir að foreldrar hans létust frá honum ungum, í Litlu-Gröf í Staðarhreppi í Skagafirði, hjá hjónunum Arngrími Sigurðssyni og Sigríði Benediktsdóttur.
Magnús var yngstur í sínum systkinahópi. Systkini hans voru
Magnús kvæntist 4. júlí 1942 Ingiríður Jónasdóttir,
f. 9. október 1920, frá Eiðstöðum í Blöndudal. Hún lést 8. mars 2005.
Börn þeirra eru:
Magnús var trésmíðameistari á Siglufirði, byggingafulltrúi hjá Bygginganefnd ríkisins og húsameistara ríkisins og síðar hjá framkvæmdadeild Innkaupastofnunar. Hann hafði fyrst og fremst eftirlit með skólabyggingum og sá um framkvæmdir við þær.
Útför Magnúsar fer fram frá Grensáskirkju í dag, 29. september 2010, og hefst athöfnin kl. 13.
Elsku pabbi. „Logar lífsins leika á hörpustrengi. Ljós hljóma þeirra lýsa okkar veg. Hver vegur myndbrot markar. Hvert myndbrot vekur hlýju og yl í hug og hjarta.
Nú er ljósið í lífi þínu hætt að loga, en það lýsir okkur áfram. Þú horfinn ert, en myndbrotin eru umvafin minningum, hlýlegum, innilegum og dásamlegum.“
Með þessum orðum kvaddi ég móður mína fyrir fimm árum og með þessum sömu orðum vil ég kveðja þig, elsku pabbi.
Þú og mamma voruð ljós lífs míns, lífsins ljós og lýstuð vegferð framtíðar minnar, vörðuðuð hvert fótspor mitt sem ég steig í lífinu. Handleiðslan var hlýleg, styrkjandi og örvandi.
Hvert minningabrot sem þú miðlaðir, hver saga sem þú sagðir vakti mann til umhugsunar. Þú varst svolítið fastur í fortíðinni, en sögur þínar og sagnir fengu mann til að velta fyrir sér lífsferli foreldra sinna.
Það var yndislegt þegar þú fluttir hingað í Hveragerði, að undirlagi Berglindar minnar, heitinnar, eftir að mamma dó. Það var yndislegt að hafa þig hér á heimilinu. Þú varst hjálpsamur, einlægur, yndislegur og sannur vinur Berglindar, barnanna minna og mín. Það voru yndisleg augnablik að sjá ykkur Berglindi sitja við eldhúsborðið, rökræða, tala yndislega saman og banka í borðið orðum ykkar til áherslu hlæjandi.
Þín fögru leiftur, þín fögru blik gáfu lífinu gildi. Þín fögru orð og meitluðu setningar sögðu margt. Sannleikann í lífi og orðum. Þín góðlátlega framkoma, hlýr og indæll, sem allt vildir fyrir alla gera. Það var ómetanlegt að eiga þig sem föður. Elskandi, umhyggjusaman, ástúðlegan, yndislegan og hjálpandi. Ávallt reiðubúinn að leggja hönd á plóg. Þú mokaðir hér snjó á vetrum og skrapaðir arfann á sumrin, þá 85 ára. Sagðist eiga arfann í garðinum og ég ætti að láta hann í friði.
Þú hefur verið heiðvirður maður gegnum lífshlaup þitt. Hélst utan um fjölskylduna, leiðbeindir á réttar brautir og studdir hvern fjölskyldumeðlim til dáða. Hvattir ávallt fjölskylduna til að standa saman.
Það var yndisleg saga þegar þú sagðir mér frá konunni í rauðu og hvítu blússunni sem þú hittir á dansleik í Iðnó 30. nóvember 1939. Þú þá ungur maður.
Stúlkan í rauð/hvítu blússunni var upptekin í dansi og þú sagðir að það hefði verið þráhyggja í þér vegna blússunnar, öllu heldur konunnar sem í henni var. Þig langaði að sjá hana, tala við hana og dansa við hana.
Hún lauk dansi sínum. Þú varst fljótur til, baðst stúlkuna í rauð/hvítu blússunni um dans.
Hún sagði: „Takk.“
Og þið dönsuðuð út ballið og út lífið.
Þú sagðir að hún væri af ætt dalafólks og að ætt hennar væri kannski svolítið órótt þegar strákur með sjóhatt væri farinn að horfa yfir frændgarðinn á litlu systur.
Strákurinn með sjóhattinn gat verið eins og vindurinn. Hann kom og fór. En þú komst og þú fórst aldrei. Leið þín og stúlkunnar í rauð/hvítu blússunni varðaði nær 65 ár.
Nú dansið þið mamma, stúlkan í rauðu og hvítu blússunni, á öðru dansgólfi í framtíð lífsins.
Sigurður.
------------------------------------------------------
Elsku langafi!
Alveg frá því að ég var lítill sagði ég alltaf „afi í kjallaranum“ þegar ég var að tala um þig.
Fyrir mér verður þú alltaf afi í kjallaranum í Stóragerði því þar áttum við svo góðar stundir saman.
Ég elska þig og á eftir að sakna þín mjög mikið.
Aron Pétur Magnússon.
--------------------------------------------------------
Elsku afi minn. Þú kvaddir þennan heim svo fljótt en þetta var það sem þú vildir. Ég er strax farin að sakna þín og mun alltaf gera það. Þú munt alltaf vera hérna hjá mér og þú munt ávallt vera í huga mér.
Elsku afi. Ég þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og takk fyrir þær ógleymanlegu stundir sem við áttum saman í skúrnum og í Stóragerði.
Mér finnst svo gaman að keyra þar framhjá á hverjum einasta degi á leið minni í skólann í Ármúlanum og þá vaknar fullt af skemmtilegum minningum um það sem við brölluðum saman þar ásamt ömmu Ingu. Það var svo gaman að geta átt svona margar stundir með þér þegar þú fluttir til okkar í skúrinn og það var svo gott að kíkja yfir til afa í smáheimsókn sem ég gerði svo mikið af og sé ekki eftir einni einustu heimsókn af því ég skemmti mér alltaf svo vel með þér og sérstaklega að skoða Séð og heyrt sem við gerðum mikið af.
Þegar þú fórst á Kumbaravog fækkaði heimsóknunum mínum til þín og ég var ekki nógu dugleg að heimsækja þig, en gerði það samt einstaka sinnum. Það var svo gott að vera í návist þinni og manni leið alltaf svo vel. Ég á eftir að sakna þess að heyra ekki í þér og geta ekki farið í heimsókn til afa.
Ég veit að þú hefur það gott þar sem þú ert núna og ég elska þig afi minn og hef alltaf gert og mun alltaf gera það.
Þín elskulega afastelpa Bjarndís Helga.
---------------------------------------------------------
Elsku afi minn. Mér þykir mjög erfitt að kveðja þig núna í síðasta skipti... Ég hef kvatt þig í hvert skipti sem ég hef verið stödd á Íslandi, því ég vissi aldrei hvort ég sæi þig aftur. Sá tími er kominn...
Ég hef hugsað mjög mikið til þín og minnist þeirra tíma sem við áttum saman. Meðal annars þeirra helga sem ég kom í heimsókn um morguninn og við spiluðum veiðimann og þegar þú skutlaðir mér heim komum við alltaf við í bakaríinu og keyptum Pepsi í gleri og rommkúlu sem ég fékk með mér heim.
Svo áttum við alveg hreint yndislega tíma saman á Rauðavatni, saman á skautum. Gleymi þeim tíma aldrei. Mér fannst svo æðislegt að eiga svona töff afa og var alveg heilluð af því hvað þú varst flinkur að skauta á þessum eldgömlu skautum.
Þú varst alltaf til staðar þegar maður þurfti á þér að halda og ég man hvað það var gaman að dúllast með þér. Sama hvort það var að smíða með þér fyrir norðan eða veiða og hreinsa fisk. Þú hefur kennt mér margt og margt af því eru hlutir sem ég á eftir að kenna mínum börnum og ég á eftir að segja þeim ótal margar sögur af heimsóknum mínum til þín og ömmu. Það eru minningar sem eru mér mjög kærar.
Ég mun sakna þín mikið, en ég veit að þér líður vel núna með ömmu.
Sólveig
Hrönn.
----------------------------------------------
Elsku afi. Ótal margar tilfinningar og minningar fljúga í gegnum hug minn og hjarta. Þakklæti yfir að þú fékkst friðinn, þú saknaðir ömmu og varst orðinn þreyttur. Söknuður og sorg yfir að missa þig, afa minn, vin minn.
Þið amma pössuðuð Aron fyrir mig þegar hann var lítill og ég að vinna, við gleymum því aldrei.
Þar eignuðust þið einstakar stundir, sköpuðuð margar minningar saman.
Þú varst stór hluti af okkar lífi og þrátt fyrir að við gætum sjaldan hitt þig tölum við strákarnir oft um þig. Ég og strákarnir eigum mismunandi minningar um þig en allar eru þær góðar og dýrmætar.
Uppátækjasemi þín var einstök.
Það er eflaust ekki til nokkur önnur manneskja sem hefur dottið í hug að saga bíl í sundur og búa til kerru úr afturhlutanum af gamla Saabinum sínum. Ég hef aldrei upplifað jafnmikla athygli og þegar við keyrðum í Blöndudalinn í einum og hálfum Saab fullum af plöntum.
Það er eflaust ekki til nokkur önnur manneskja sem finnst ekkert eðlilegra en að taka á móti manni í dyrunum með teip á auganu því augnlokið var eitthvað svo þungt.
Það er eflaust ekki til nokkur önnur manneskja eins og þú varst. Þú varst alltaf tilbúinn til aðstoðar með allt.
Þú varst mikill fjölskyldumaður og elskaðir að hafa okkur í kringum þig þó það væri bara ég, unglingurinn á sínum tíma, sem sofnaði í sófanum og fékk þá teppi yfir mig.
Samband okkar var alltaf sterkt en það styrktist enn meira þegar þú fluttir til pabba og Berglindar og við hittumst svona mikið þegar ég kom til Íslands.
Allar okkar umræður, öll okkar samvera, það sköpuðust nýjar og öðruvísi minningar.
Við vorum tveir fullorðnir einstaklingar, tveir vinir en á sama tíma afi og barnabarn.
Ég og Viktor geymum steinana sem við fengum frá þér, Aron geymir ykkar listaverk sem þið bjugguð til saman.
Elsku afi minn, ást mín og kærleikur mun fylgja þér alla tíð og tíma.
Söknuðurinn mun alltaf vera til staðar en ég brosi í gegnum tárin við að rifja upp tíma okkar saman.
Elísabet.
---------------------------------------------
Elsku afi minn. Það er ógurlega sárt að missa þig og ég sakna þín ógurlega og elska. Allt sem mig langar að segja við þig felst í þessu ljóði.
Afi minn, það er mjög leiðinlegt að missa þig á þessum tímum. Söknuðurinn er svo gífurlega mikill og allar þessar minningar sem við áttum saman hér í Hveragerði og í Stóragerði 38. Ég mun aldrei gleyma þeim tíma, þegar við fórum niður í smíðakompu. Þegar við löbbuðum saman í búðina að kaupa skyr, eða þegar við lékum okkur í dótakassanum hjá ykkur ömmu meðan þið hlustuðuð á fréttirnar. Ég mun aldrei gleyma þér og þú munt alltaf lifa í hjarta mínu og huga. Ég get voða lítið lýst hversu mikið ég sakna þín, en núna ertu kominn til ömmu og ég hlakka til að sjá ykkur aftur.
Ég elska þig afi minn. Indriði Hrannar.
--------------------------------------------------------
Í dag kveðjum við góðan vin okkar Magnús Blöndal. Langri og farsælli ævi hans er lokið. Magnús var hæglátur, nægjusamur og ljúfur maður sem var okkur systkinunum mjög kær. Magnús var eiginmaður Ingu föðursystur okkar og þau hjón voru alla tíð okkur náin. Magnús vildi alltaf allt fyrir okkur systkinin gera og eigum við margar góðar og ljúfar minningar um hann, bæði frá Siglufirði, þar sem fjölskyldur okkar bjuggu í sama húsi um árabil, og eins frá Reykjavík eftir að við systkinin komum suður til náms.
Þá vorum við alltaf aufúsugestir hjá Ingu og Magnúsi. Magnús og Inga frænka lögðu kapp á að halda stórfjölskyldunni saman og eiga þau m.a. heiðurinn af því að koma á þorrablóti í fjölskyldunni. Fyrstu 13 árin buðu þau til þorraveislu á heimili sínu í Stóragerði og nú tæpum 40 árum síðar eru þorrablótin algjörlega ómissandi þáttur í tilverunni.
Við systkinin eigum einnig ótal góðar og skemmtilegar minningar um Magnús við byggingu sumarhúss stórfjölskyldunnar í Blöndudalnum í A-Húnavatnssýslu. Þar eigum við í dag ómetanlega perlu, sem þau Magnús og Inga áttu stóran þátt í að varð að veruleika og þau og fjölskyldur þeirra lögðu mörg handtök í bæði við byggingu sumarhúss og eins í mikilli trjáræktun sem þau komu af stað. Að leiðarlokum viljum við systkinin þakka Magnúsi samfylgdina og trúum því að nú hafi hann hitt Ingu sína. Við sendum frændum okkar, Jónasi, Arnþóri, Sigurði og fjölskyldum þeirra, samúðarkveðjur.
Ólöf, Helga, Ásta Jóna, Kristín, Jónas og Inga Margrét.