Tengt Siglufirði
Morgunblaðið - 21. júní 1988 Minning
Helga Jónsdóttir Fædd 16. október 1895 Dáin 11. júní 1988 - 92ja ára
Löng leið var að baki og þreytumerkin augljós. Miklu dagsverki var skilað og kraftarnir þrotnir. Við þessar aðstæður var
hvíldarinnar beðið. Hún fékkst 11. júní sl.
Þann dag lést á Hrafnistu í Reykjavík amma mín, Helga Sigurlína Jónsdóttir.
Helga fæddist
á Akureyri 16. október 1895.
Foreldrar hennar voru hjónin Jón Jónsson, verslunarmaður, og Jóhanna Gísladóttir, bæði Skagfirskar ættar.
Systkini Helgu voru
Helga lifði systkini sín öll.
Helga fluttist til Siglufjarðar skömmu eftir 1920 og bjó þar í rúma hálfa öld.
Þar kynntist hún Skafta Stefánssyni, sem jafnan var kenndur við Nöf.
Þau
giftust árið 1924. Helga og Skafti eignuðust fimm börn.
Það elsta,
Á Siglufirði bjuggu Helga og Skafti flest sín hjúskaparár. Þar reis heimili þeirra, Nöfin, í flæðarmálinu nokkuð sunnan við Eyrina. Út frá húsinu gengu bryggjurnar fram ísjó og þar iðaði allt af lífi á síldarárunum þegar Skafti var einn umsvifamesti síldarsaltandinn á Siglufirði. Sjálfsagt hafa árin á Nöfinni ekki alltaf verið Helgu auðveld. Starf bóndans tengdist sjósókn og síldarverkun.
Í tæpa tvo áratugi sá Skafti um póst— og mjólkurflutninga sjóleiðis milli Siglufjarðar og Skagafjarðarbyggða. Þessu fylgdu miklar fjarvistir frá heimilinu og óvissa fyrir þá sem heima sátu þegar veður urðu válynd á þessari hættulegu siglingaleið. Varð fjölskyldan t.d. einu sinni fyrir því að bátur Skafta var talinn hafa farist og áhöfnin með. Sem betur fór reyndist þetta ekki rétt, báturinn hafði orðið vélarvana og fannst á þriðja degi.
Ævistarf Skafta og Helgu var mikið tengt síldinni. Á Nöfinni var rekin ein stærsta síldarsöltunarstöðin á Siglufirði, allt til þess tíma er síldin hvarf fyrir Norðurlandi í byrjun sjöunda áratugarins. Var þá oft gestkvæmt og mannmargt á Nöfinni og mikið sem á Helgu mæddi. Meðal annars fékk hún á vorin sendan strák að sunnan, sem hún hafði til sumardvalar ellefu ár í röð, fyrsta sumarið bara fjögurra ára gamlan.
Strákurinn var sá sem þessar línur skrifar. Þessi ellefu sumur kynntist ég hjartastórri konu, sem með umburðarlyndi og þolinmæði reyndi að gera mann úr þessum dreng. Hún gaf sér alltaf nægan tíma til þess að hlusta á spurningar mínar og gefa sín svör. Hún var mjög trúrækin og innrætti mér sterka barnatrú. Er ég oft minntur á það af móður minni, að fyrsta haustið sem ég kom suður frá Siglufirði, þá fjögurra ára gamall, spurði hún mig hvort ég ætlaði aftur til Siglufjarðar næsta vor.
Svarið var: „Já, ef Guð lofar mér að lifa." Þennan fyrirvara höfðu Skafti og Helga á öllum sínum fyrirætlunum. Eftir að síldin hvarf varð rólegt yfir Siglufirði og tómlegt um að litast á Nöfinni. Ég og konan mín fundum þó að gestrisnin var óbreytt á Nöfinni sumarið 1970, þegar við komum þangað síðast, þótt flest annað hafi verið breytt.
Vonbrigðin á Siglufirði hljóta að hafa verið mikil og vart hefur það verið sársaukalaust fyrir fullorðin hjón að horfa á eignir sínar grotna niður og verða verðlausar og geta ekkert við því gert. Að því kom að húsráðendur á Nöfinni fluttu. Árið 1973 fengu þau litla fbúð í raðhúsi hjá Dvalarheimili aldraðra sjómanna í Reykjavík. Þar áttu þau saman nokkur friðsæl ár í nálægð við sína afkomendur, sem allir hafa sest að á Reykjavíkursvæðinu.
Skafti lést árið 1979 og flutti Helga þá í herbergi á Hrafnistu, þar sem hún bjó til hins síðasta.
Á þeim stað kynntust börnin mín langömmu
sinni og fundu sömu hjartahlýjuna og ég naut á Siglufirði forðum.
Fyrir hana þökkum við nú öll. Gestur Jónsson
------------------------------------------------------------
Kveðja Þann 11. júní sl. lést á Hrafnistu í Reykjavík ömmusystir mín, Helga Jónsdóttir, eftir langa og erfiða sjúkdómslegu. Helga var fædd og uppalin í Gilinu á Akureyri. Foreldrar hennar voru Jón Jónsson, utanbúðarmaður hjá Höpfner-versluninni og kona hans, Jóhanna Gísladóttir.
Helga kom fyrst til Siglufjarðar sem ung stúlka en þar átti hún eftir að eyða mestum hluta farsællar ævi í faðmi hárra fjalla.
6. mars 1924 giftist Helga Skafta Stefánssyni frá Nöf við Hofsós en hann lést í júlí 1979. Skafti var útgerðarmaður og síldarsaltandi á Siglufirði og kannast flestir Siglfirðingar við þau hjón sem Helgu og Skafta á Nöf. Þó að lífið væri oft erfitt og efnahagsleg afkoma háð veðri, sjósókn og aflabrögðum var ömmusystir mín gæfumaður.
Hún átti góðan lífsförunaut og miklu barnaláni
að fagna.
Börn þeirra er upp komust eru
Barnabörnin eru níu og barnabarnabörnin tíu.
Helga var gáfuð kona, bókhneigð og mjög víðlesin. Hún var ljóðelsk og kunni urmul ljóða. Saknaði hún þess nú síðari ár að geta ekki stytt sér
stundirnar með lestri. Þau hjón sóttu kirkju sína vel enda bæði trúuð. Heyra mátti á tali þeirra að þau þekktu æðri mátt og trúðu að annað
líf tæki við af þessu. Skafti var einnig fróður maður og hafði góða frásagnargáfu. Man ég að við systkinin sátum stundum og hlustuðum á sögur hans, með
ró sinni og sefandi röddu náði hann athygli okkar fjörkálfanna vel.
Sérstaklega er okkur það minnisstætt hvernig hann lygndi aftur augunum þegar hann talaði þannig að okkur þótti sem hann svæfi þó að vel vakandi væri. Ég minnist þess að gott þótti okkur að koma á Nöfina til Helgu ömmusystur. Hún átti jafnan einhver sætindi í skápnum sem hún gaukaði að okkur og til að renna góðgætinu niður fengum við vallas eða appelsín. Gestrisni var henni í blóð borin og hélt hún henni alla tíð og tók ætíð á móti okkur með sínu fallega brosi. Þó að Helga gæti stundum verið snögg í tilsvörum var hún hjartahlý. Það fundum við krakkarnir og það laðaði að.
Hún mátti helst ekkert aumt sjá og vildi gera öllum vel. Helga notaði íslenska upphlutinn mikið við hátíðleg tækifæri og fannst mér hún alveg afskaplega fín í honum enda bar hún hann vel. Þau settu svip á bæinn Helga og Skafti á Nöf. Ingibjörg systir Helgu var amma mín. Hún dó árið áður en ég fæddist, kynntist ég henni því ekki. Sem barn heyrði ég talað um ömmu mína og að þær systur hefðu verið samrýndar. Reyndi ég oft að ímyndað mér hvernig amma hefði verið út frá kynnum mínum af Helgu og stundum ímyndaði ég mér að Helga væri amma mín, þar sem ég átti enga ömmu.
Síðustu árin sem Helga og Skafti bjuggu á Siglufirði voru þau stundum hjá okkur á jólunum. Það þótti okkur ákaflega gaman því þau voru eins konar afi og amma. Fannst mér ég eiga pínulítið í þeim og saknaði þeirra eftir að þau fluttu suður og Nöfin varð tóm. Helga ömmusystir, en það var hún alltaf kölluð af okkur systkinunum, dvaldi síðustu árin á Hrafnistu í Reykjavík.
Þegar ég heimsótti hana þangað spurði hún alltaf frétta frá Siglufirði enda var fjörðurinn og fólkið sem þar býr jafnan ofarlega í huga hennar. Systrabörn Helgu, Hanna og Hinrik ásamt fjölskyldum, þakka henni ljúfar endurminningar, hlýhug og ánægjulegar samverustundir. Ástvinum hennar öllum sendum við innilegar samúðarkveðjur. Megi Helga ömmusystir mín hvíla í friði. Ingibjörg Helga fæddist á Akureyri.
Foreldrar hennar voru Jóhanna Gísladóttir og Jón Jónsson utanbúðarmaður hjá Höefnerverslun. Börn þeirra hjóna voru fjögur; Gunnlaugur Tryggvi, bóksali, Ingibjörg, gift Andrési Hafliðasyni forstjóra á Siglufirði, Helga, sem hér er minnst, og Alfreð, lagermaður, giftur Báru Sigurjónsdóttur. Guðrún Jónsdóttir, sem bjó að Stór-Hamri í Öngulstaðahreppi í Eyjafirði, var hálfsystir þeirra.
Helga sleit barnsskónum á Akureyri í faðmi foreldra og systkina. Skólagangan var barnaskólinn. Um 1920 fór Helga til Siglufjarðar í
vist til Ingibjargar systur sinnar. Þann 6. mars 1924 giftist hún móðurbróður mínum, Skafta Stefánssyni útgerðarmanni. Þeim varð fimm barna auðið. Fjögur þroskuðust
í faðmi þeirra en lítil stúlka, Dýrleif, á himnum.
Börnin sem lifa eru:
Barnabörnin eru níu og barnabarnabörnin tíu. Heimili Helgu og Skafta stóð að Nöf alla tíð, þar til þau fluttu búferlum til Reykjavíkur 1969. Heimili þeirra þar var í Jökulgrunni 12 til 1979, þá flutti Helga á Hrafnistu í Reykjavík. Helga var skarpgreind, fögur, hlý kona með bjargfasta trúarvissu og höfðaði ávallt til hins góða í manninum. Ósérhlífni og dugnaður einkenndu öll hennar störf. Lífsbraut hennar mótaðist af því umhverfi sem hún bjó við.
Útgerðarmaðurinn Skafti helgaði hafinu og auðlindum þess sína starfskrafta. Sólargeislinn Helga lagði hönd sína í hans og saman leiddust þau þar til ævigöngu hans lauk 27. júlí 1979. Bros hennar var blítt og hlýtt. Börnum sínum reyndist hún frábær móðir, sem taldi auð sinn mestan í þeirra gæfu. I Helgu eignuðust margir aðra móður, umhyggja hennar og alúð verður vart með betra orði lýst. Hún var ein þeirra sem kallaður er þögli meirihlutinn.
Mikla hæfíleika hafði hún til að ganga menntaveginn og bókin reyndist alla tíð hennar vinur. Hlutverki sínu sem útvegsbóndakona að Nöf skilaði hún með slíkri prýði sem sá einn getur er gengst undir lögmál lífsins og hlýðir kalli hjarta síns. Siglufjörður var rammi þeirrar myndar sem geymdist í hug hennar og hjarta. Og þegar ferðum þangað sleppti bætti hún sér lífið og tilveruna með endurminningunum.
Helga var alla tíð umvafin kærleika barna sinna og fjölskyldna þeirra. Sérhver nýr fjölskyldmeðlimur var dýrmæt Guðsgjöf í hennar augum. Kynni mín af Helgu hafa gert mig ríkari af jjví sem mölur og ryð fá ei grandað. Eg fór ávallt ríkari af hennar fundi, því hún gaf meira en hún þáði. Helga bar virðingu fyrir sérhverju verki stóru og smáu.
Hún var stolt af þjóð sinni og bar þjóðbúninginn meðan kraftar leyfðu. Æviganga þessarar mikilhæfu konu er á enda. Helga Jónsdóttir fór hávaðalaust gegnum lífið en skildi engu að síður eftir sig djúp spor í hjörtum samferðamanna sinna. Blessuð sé minning hennar.
Sigríður Jóhannsdóttir