Hallgrímur Elías Márusson klæðskeri

mbl.is  3. júlí 1998  - Minningargreinar

Hallgrímur Márusson fæddist á Minni-Reykjum í Fljótum í Skagafirði 6. nóvember 1913. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi 24. júní 1998.

Foreldrar hans voru Márus Símonarson, bóndi á Minni-Reykjum, og Sigurbjörg Jónasdóttir, húsmóðir.
Eftirlifandi eiginkona Hallgríms er Hermína Sigurbjörnsdóttir frá Ökrum í Fljótum.

Börn þeirra eru:

  • Steinar Hallgrímsson, f. 1937,
  • Dúa St. Hallgrímsdóttir, f. 1942,
  • Jónas Hallgrímasson, f. 1945,
  • Þráinn Hallgrímsson, f. 1948 og
  • Pálmar Hallgrímsson, f. 1953.
Hallgrímur Márusson - Ljósmynd Kristfinnur

Hallgrímur Márusson - Ljósmynd Kristfinnur

Útför Hallgríms verður gerð frá Kópavogkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

-------------------------------------------------------

mbl.is 3. júlí 1998 | 

Hallgrímur Márusson Mikil sómamaður, vinur og frændi er hér kvaddur, duglegur og heiðarlegur svo af bar. Fljótlega eftir að ég fór að muna eftir mér sem barn norður í Skagafirði kynntist ég Hallgrími. Árin liðu, kynnin urðu nánari sem leiddi til traustrar vináttu. Það sem vakti sérstaka athygli í fari Hallgríms var virðuleg og skemmtileg framkoma.

Aldrei var nein lognmolla í kringum hann, starfsorka í sál og líkama var með ólíkindum. Það sem öðrum óx í augum varð honum áskorun eða áhugavert viðfangsefni að glíma við, og helst að sigrast á. Það er hægt að segja með góðri samvisku að oft hafi hann farið með sigur af hólmi og geti unnt sér hvíldar, því settu marki í þessu lífi er náð.

Hallgrímur byrjaði búskap sinn á Siglufirði á sínum yngri árum ásamt eftirlifandi konu sinni Hermínu Sigurbjörnsdóttur.
Þar stofnuðu þau hlýlegt heimili og bjuggu til ársins 1956, en þá fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur og bjó þar í mörg ár, en síðar í Kópavogi.

Á öllum fyrrnefndum stöðum áttu þau afskaplega glæsilegt og snyrtilegt heimili og voru rómuð fyrir gestrisni og greiðasemi af öllum sem til þekktu. Margir höfðu orð á því að það væri sérstaklega ánægjulegt að heimsækja þau hjónin og þau væru í orðsins bestu merkingu "sannir höfðingjar heim að sækja". 

Hallgrímur og Hermína eignuðust fimm börn sem öll eru á lífi og eiga orðið marga afkomendur, sem allir hafa reynst traustir þjóðfélagsþegnar.
Greinilegt er að börn þeirra hafa erft marga góða kosti foreldra sinna, enda öll mjög vel menntuð því ekkert var til sparað í þeim efnum.

Hallgrímur átti mörg áhugamál sem væri hægt að skrifa margar blaðsíður um, en aðeins fátt verður nefnt hér, til dæmis ferðalög. Oft ferðuðumst við saman um Ísland og höfðum mjög gaman af þeim ferðalögum. Í þessum ferðum kom greinilega fram hvað Hallgrímur og Hermína vildu þjóð sinni og fósturjörð vel og báru mikla virðingu fyrir landi og þjóð. Þau voru í orðsins fyllstu merkingu sannir náttúruvinir sem margir hefðu haft gott af að taka sér til fyrirmyndar.

Hallgrímur hafði oft lent í erfiðum og löngum ferðalögum á lífsbrautinni, bæði gangandi, ríðandi og akandi. Það var bæði fróðlegt og skemmtilegt að hlusta á frásagnir hans af mörgum þeim ferðum, sérstaklega hestaferðum frá yngri árum, en þá átti hann mjög marga og vel þjálfaða hesta, sem voru eftirsóttir. Hallgrímur fór margar ferðir til útlanda. Fyrsta ferð hans á erlenda grundu mun hafa verið árið 1937 en þá stundaði hann nám í Danmörku sem hann lauk 1938.

Greinilegt var að Hallgrími líkaði betur að ferðast á Íslandi. Hann vildi sjá glæsilegt Ísland með vel menntuðum Íslendingum. Það var ánægjulegt að heyra hvað honum þótti vænt um framfarir og tækniþróun í íslensku menntakerfi, ásamt mörgum öðrum framförum í þjóðfélaginu.

Hallgrími þótti mjög gaman að spila á spil. Oft var gripið í spil bæði heima hjá honum og annars staðar, þegar tími vannst til. Hann var mjög fylginn sér og útsjónarsamur við spilaborðið, enda var hann yfirleitt í efstu sætum hjá þeim bridsfélögum sem hann spilaði með.

Ég kom síðast til Hallgríms hinn annan maí síðastliðinn. Ég sá að heilsu hans hafði hrakað mikið og lífið orðið honum erfitt, enda starfsdagarnir orðnir margir og afköstin mikil. Andlátsfregnin kom mér ekki á óvart. Eftir að við höfðum heilsast í síðasta sinn sagði hann við mig: "Það var gaman að sjá þig."

Er ég spurði hvernig honum liði svaraði hann fljótlega með ferskum, hreinum blæ: "Elli minn, þú sérð það, við skulum ekki tala um það, við skulum tala um eitthvað skemmtilegt." Stórbrotinn persónuleiki Hallgríms var enn virkur og þó hann vissi eflaust að hann ætti aðeins stutta dvöl eftir í þessu lífi, þá vildi hann hafa síðasta samtalið við mig skemmtilegt.

Þessar línur eiga að senda frá mér örlítinn þakklætisvott. Fyrir hönd fjölskyldu minnar kveð ég þig með virðingu, eftirsjá og þakklæti. Við sendum Hermínu og börnum þeirra og ástvinum öllum samúðarkveðjur.

Erlendur Björgvinsson.