Ása Jónasdóttir

Morgunblaðið - 21. febrúar 1998 

Ása Jónasdóttir fæddist á Húsavík 21. janúar 1916.
Hún lést á Sjúkrahúsinu á Siglufirði 11. febrúar 1988.

Foreldrar Ásu voru Sigríður Sigtryggsdóttir, f. 25. maí 1882, d. 5. febrúar 1957, og Jónas Pétursson, f. 18. mars 1884, d. 23. október 1956.

  • Ása Jónsdóttir, ólst upp með systrum sínum
  • Kristín Jónsdóttir, f. 23. júlí 1908, d. 1. desember 1981, og
  • Sveinbjörg Jónsdóttir, f. 29. október 1911, d. júlí 1971, og
    fósturbróðurnum
  • Hreinn Helgason, f. 9. apríl 1926.  

Hinn 13. maí 1943 giftist Ása: Halldór Jón Þorleifsson, f. 12. mars 1908, á Staðarhóli í Siglufirði, og bjuggu þau alla sína hjúskapartíð á Siglufirði.

Halldór  lést 24. ágúst 1980.

Asa og Halldór Þorleifsson, eignuðust saman sjö börn en fyrir átti
Halldór soninn

Ása Jónasdóttir - ókunnur ljósmyndari

Ása Jónasdóttir - ókunnur ljósmyndari

  • Gestur Halldórsson, f. 1. júlí 1937, með Arnýju Friðriksdóttur.

Börn þeirra Ásu og Halldórs eru:

  • 1) Þorvaldur Halldórsson, f. 29. október 1944.
  • 2) Sigríður Halldórsdóttir, f. 15. nóvember 1945.
  • 3) Valgerður Halldórsdóttir, f. 6. mars 1947.
  • 4) Leifur Halldórsson, f. 8. nóvember 1948.
  • 5) Jónas Halldórsson, f. 10. ágúst 1950.
  • 6) Þorleifur Halldórsson, f. 22. nóvember 1953.
  • 7) Pétur Halldórsson, f. 1. ágúst 1956.

Barnabörn og barnabarnabörn eru orðin 35. Ása starfaði sem húsmóðir og verkakona. Útför Ásu verður gerð frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Amma var baráttukona. Öll hennar ævi ber þess merki því hún glímdi við margs konar erfiðleika og sigraði oftast. Um sextán ára aldur veiktist hún af berklum og var um tíma ekki hugað líf en hún bauð dauðanum birginn og sigraði í þeirri orrustu, honum tókst ekki að leggja hana að velli fyrr en hún hafði náð 82 ára aldri. Amma og afi eignuðust sjö börn sem öll komust til manns. Um sextugt veiktist afi og varð óvinnufær eftir það.

Þá fór amma að vinna fullan vinnudag í fiskverkun, auk þess að halda heimili. Eftir að afi dó og öll börnin voru farin að heiman fór amma að sinna sínum hugðarefnum. Hún gerðist virk í félagslífi eldri borgara á Siglufirði og var það til dauðadags, hún var snillingur í allri handavinnu og fengum við afkomendurnir svo sannarlega að njóta þess, hún söng líka með kór aldraðra og átti margar stundir í þeim góða hópi.

Ég á margar góðar minningar um ömmu mína, þegar ég var yngri dvaldist ég stundum hjá henni hluta úr sumri. Einu sinni gengum við saman upp í Hvanneyrarskál og gæddum okkur þar á kóki og prins póló, öðru sinni sigldum við út á Siglunes í skemmtilegum félagskap. Þegar ég brautskráðist frá Menntaskólanum á Akureyri tók amma þátt í gleðinni og dansaði með okkur fram á nótt. En minnisstæðastar eru þó stundirnar þar sem við sátum saman við eldhúsborðið og sögðum frá því sem á daga okkar hafði drifið, hún hafði lifað svo margt og kunni frá mörgu að segja og alltaf gaf hún sér tíma til að hlusta.

Hennar síðustu jólum varði hún með okkur hér í Reykjavík og fyrir það verð ég ævinlega þakklát, við kynntumst á alveg nýjan hátt og hún var ekki lengur eingöngu amma mín heldur líka afar kær vinkona. Ömmu lá samt ósköpin öll á að komast aftur til Siglufjarðar því hún var að flytja í nýja íbúð. Þar bjó hún í um það bil þrjár vikur og var alsæl með nýja heimilið, og sína vini og fjölskyldu allt um kring.

En nú er hún amma mín dáin, þessi einstaklega hógværa og góða kona er nú sjálfsagt að föndra eða syngja hinumegin, eða kannski bara að segja honum afa frá uppátækjum afkomendanna fjörutíu og tveggja. Ég veit að hún dó sátt við lífið, það veitir mér styrk þótt ég sakni hennar mikið. Þakklæti er mér ofarlega í huga, þakklæti fyrir að hafa átt hana að í rúm tuttugu og þrjú ár og fyrir allt sem hún kenndi mér.

  • Margs er að minnast,
  • margt er hér að þakka.
  • Guði sé lof fyrir liðna tíð.
  • Margs er að minnast,
  • margs er að sakna.
  • Guð þerri tregatárin stríð.
  • Hvíldu í friði. 

(V.Briem.)   Árný Leifsdóttir.
-------------------------------------------------

Elsku Ása mín! Þegar ég hugsa til liðinna daga, samfylgdarinnar við þig, er mér þakklæti og söknuður efst í huga. Ég átti því láni að fagna að tengjast þér, Halldóri og fjölskyldu ykkar, þegar við Þorvaldur hófum búskap fyrir bráðum 25 árum. Mér eru ógleymanleg okkar fyrstu kynni, hvað þið tókuð mér vel, þegar ég kom með Þorvaldi til Siglufjarðar. Þá hafði Halldór misst heilsuna, en lét samt engan bilbug á sér finna og þú varst fyrirvinna heimilisins.

Ég fékk að kynnast ykkur sem erfiðisvinnufólki, sem hafði alið upp sjö börn við þröngan kost, í litla húsinu við Kirkjustíginn. Það var notalegt að sitja í eldhúsinu með þér og spjalla fram á nætur, og svo gustaði stundum um fjölskylduna, þegar farið var að ræða um pólitík og lífsins gagn og nauðsynjar. Þá fannst mér það svo dýrmætur kostur að hver og einn fékk að hafa sína skoðun og hún var virt, síðan féll allt í ljúfa löð eins og ekkert hefði í skorist. Arin liðu og við nutum samvista.

Það var okkur dýrmætt þegar þið Halldór komuð í sumarfrí til okkar til Eyja og síðan eftir að hann lést, þá dvaldir þú oft hjá okkur part úr vetri. Þú varst svo dugleg að ferðast og lést ekki stórhríðar vetrarins aftra þér. Ég get aldrei fullþakkað þér hvernig þú brást við í veikindum mínum. Þú varst mér eins og móðir og varst gjarnan búin að hringja áður en við létum vita að ég þyrfti að leggjast inn á spítala. Þú fannst það á þér að eitthvað væri að, og þá komstu til þess að létta undir með okkur í erfiðleikunum.

Við áttum líka dýrmætar stundir þegar þú komst í bæinn, þér féll aldrei verk úr hendi og varðst að fá að aðstoða við heimilisstörfin. Það var oft okkar fyrsta verk að fara í bæinn, þú naust þess að fara í handavinnubúðir og kaupa handavinnu. Síðan var gjarnan farið á bókasafnið og sóttar nokkrar bækur og þá undir þú sæl við þitt. Eftir að fór að hægjast um hjá þér fóru listrænir hæfileikar þínir að blómstra og ber heimili okkar Þorvaldar og annarra í fjölskyldunni þess merki. Myndir og leirmunir og alls konar handavinna prýðir heimilin okkar.

Þú varst mikill tónlistarunnandi og naust þess stolt að hlusta á son þinn syngja og finna hæfileika þína koma fram í honum, og núna síðustu árin naust þú þess í ríkum mæli, að syngja með kór aldraðra á Siglufirði Elsku Ása mín, þú fórst ekki varhluta af erfiðleikum lífsins, unglingsárunum eyddir þú á Kristneshæli og barðist við dauðann. Seinna áttir þú oft við heilsuleysi að stríða en lést það ekki aftra þér frá að njóta lífsins. Ég trúi því að í gegnum erfiðleikana hafir þú lært að meta hvað er dýrmætast í lífinu.

Þú miðlaðir því til okkar og barnanna okkar. Það var að una glaður við sitt, og þegar þú dvaldir hjá okkur fylgdi þér friður og ró og svo mikið æðruleysi. Ánægja í einfaldleikanum. Það var dýrmætt veganesti og lærdómur fyrir okkur og unga fólkið okkar. Við trúum því að þú hvílir nú í faðmi Jesú Krists frelsara þíns og hirðis, og að þú munir búa í húsi hans um eilífð. Kærar kveðjur frá okkur Þorvaldi, Þorra, Ásu Láru, Leifi, Heiðrúnu, Viktori og Palla og fjölskyldum þeirra allra.

Með þökk fyrir allt. Margrét Scheving.