Tengt Siglufirði
Mbl.is 28. mars 1991 | Minningargreinar | 957 orð
Halldór Pétursson Minning Fæddur 21. janúar 1926 Dáinn 22. mars 1991
Við, börn hins látna, viljum minnast föður okkar, Halldórs Péturssonar, í nokkrum orðum.
Hann var sonur hjónanna Bjargar Andrésdóttur og Péturs
Halldórssonar, sem fórst af slysförum í Englandi þegar faðir okkar var á þriðja ári.
Amma okkar giftist síðar Guðjóni Jónssyni og fluttust þau til Siglufjarðar þar sem Guðjón fékk starfsem verkstjóri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins.
Eftir að amma og faðir okkar fluttust til Siglufjarðar vænkaðist hagur þeirra og lífsbaráttan var þeim léttari en verið hafði.
Faðir okkar gekk í Gagnfræðaskólann sem þá var staðsettur á kirkjuloftinu og vissum við að hugur
hans stóð til frekari mennta en ekki varð af því þó hann hefði alla burði til þess.
Líklega hafa erfið æskuár, föðurmissir og sjúkdómar í æsku
haft áhrif þar á.
Sem ungur maður á Siglufirði stundaði hann þá vinnu sem til féll en síðar fór hann til sjós, fyrst á dagróðrarbáta og svo sem háseti og bátsmaður á nýsköpunartogurunum, Hafliða og Elliða, sem Siglufjarðarbær átti og rak.
Faðir okkar þótti hörku sjómaður og hlífði sér lítið við sjómannsstörfin sem oft voru erfið á þessum árum. Hann þótti úrræðagóður og fljótur að leysa þann vanda sem oft kemur upp til sjós og lék flest sem við kom sjómennsku í höndunum á honum. Hann þótti fastur fyrir og ákveðinn en gat auk þess verið mjög skemmtilegur og glettinn maður.
Árið
1950 hófu foreldrar okkar sambúð sem varði meðan hann lifði.
Móðir okkar heitir Sigríður Júlíusdóttir. Þau eignuðust sex börn sem öll eru á lífi.
En þau eru:
Barnabörnin eru orðin 18 og barnabarnabörnin 2.
Við minnumst þess, systkinin, þegar við biðum með móður okkar á öldubrjótnum sem þá var kallaður, eftir að Elliði kæmi inn og var það stundum löng bið, en um síðir sá móta fyrir togaranum út við Siglunes og var þá tilhlökkunin mikil hjá okkur krökkunum, sérstaklega þegar hann var að koma úr siglingu. Við fengum þá leikföng sem ekki voru algeng hér á landi og útlenskt sælgæti.
Enn eina minningu af mörgum eigum við um sjómennsku föður okkar, þegar við biðum við gluggann heima á Hverfisgötu með móður okkar, eftir að pabbi kæmi heim úr dagróðri. Um síðir sáum við hann koma upp götuna í gráum stakk með fisk í soðið í hendinni og var þá ekki laust viðað barnslegt stolt kæmi upp í hugann og gleði við að sjá föður sinn.
Um 1958 hætti faðir okkar til sjós og fór að vinna hjá Birgi Runólfssyni sem þá sá um vöruflutninga landleiðina til Siglufjarðar. Á þeim tíma var viss festa komin á í lífi foreldra okkar eftir erfið ár sem fylgdu sjómennsku föður okkar en barnauppeldið hafði hvílt að mestu á herðum móður okkar. Þau höfðu keypt sér íbúð á Laugaveginum, sem var þeirra fyrsta íbúð en höfðu fram að þeim tíma leigt og minntumst við gleði og tilhlökkunar að flytja í nýja íbúð.
Faðir okkar vann ekki lengi hjá Birgi Runólfssyni en ákvað að láta smíða fyrir sig trillu, sem hann nefndi Draupnir og gerði út um tíma. En atvinnuleysi og fiskileysi á Siglufirði á þessum tíma var þess valdandi að hann þurfti að selja bátinn.
Haustið 1963 fluttu foreldrar okkar frá Siglufirði til Hafnarfjarðar þar sem þau keyptu sér lítið hús. Faðir okkar hóf þá störf hjá Sænsk-íslenska frystihúsinu þar sem hann sá um uppsetningu á netum og trollum fyrir báta frystihússins, en hann var mjög fær maður, bæði í gerð neta og trolla, þó ekki hefði hann neina sérstaka menntun til þess nema reynslu sína af sjómennsku.
Gæfan og framtíðin virtist á þessum árum blasa við foreldrum okkar en fljótt skipast veður í lofti. Þegar faðir okkar var um fertugt, varð hann fyrir því áfalli að fá heilablæðingu. Hann var sendur til Kaupmannahafnar þar sem gerð var aðgerð á honum sem lánaðist. En ekki varð hann sami maður eftir það og náði sér aldrei að fullu aftur.
Haustið 1975 fluttu foreldrar okkar frá Hafnarfirði til Keflavíkur þar sem þau hafa átt heima síðan og vann faðir okkar við skrifstofustörf hjá bænum meðan heilsan entist.
Síðustu mánuðina sem hann lifði vissum við að þjáningar hans voru miklar en hann talaði samt ekki mikið um þær.
Faðir okkar hneigðist æ meira hin síðari ár til andlegra og trúarlegra málefna og vissu um líf eftir dauðann og er það nokkuð víst að sú trú hefur styrkt hann og gefið honum þann frið sem flestir menn þrá þegar þeir skynja að stundin nálgist.
Öllum mönnum er gefinn einhver gáfa eða hæfileiki og fer það eftir hverjum og einum og umhverfisskilyrðum hvernig menn þroska og hlúa að þeim hæfileika. Faðir okkar hafði eina slíka gáfu, en það varað mála. Hann var það sem sumir kalla frístundamálari og hafði undanfarin 30 ár málað þegar tími gafst til. Hann bjó yfir miklum hæfileikum á þessu sviði og hefði e.t.v. náð langt ef skólagöngu hefði notið við en hún varð ekki hlutskipti hans.
Við, börn hins látna, biðjum Guð, sem faðir okkar trúði svo sterkt á hin síðari ár, að styrkja hann á hinu nýja tilverustigi sem hann var sannfærður um að biði hans. Móður okkar, Sigríði Júlíusdóttur, sem alla tíð var honum tryggur lífsförunautur, vinur og styrk stoð í veikindum hans, biðjum við Guð að blessa. Við erum með henni í hjarta okkar.
(Úr Sálmunum)
Blessuð sé minning föður okkar.
Börn hins látna.