Jófríður Vigfúsdóttir

Mbl.is 11. apríl 2015 | Minningargreinar 

Jófríður Margrét Vigfúsdóttir fæddist á Tjörnum í Sléttuhlíð, Skagafirði 28. október 1929 en ólst upp á Siglufirði til fullorðinsára hjá móður sinni. Hún lést á Skógarbrekku, hjúkrunardeild Sjúkrahússins á Húsavík, 29. mars 2015.

Foreldrar hennar voru Sigríður Guðný Jósepsdóttir, f. 11. ágúst 1895, og Vigfús Þorsteinsson, f. 15. janúar 1877.

Hún átti eina systur sammæðra,

  • Önnu Huldu Símonardóttur,
    og fjögur systkini samfeðra,
  • Steindór Stefán,
  • Sigurbjörgu,
  • Gest og
  • Aðalbjörgu.
Jófríður Vigfúsdóttir - Ljósmynd Krsitfinnur

Jófríður Vigfúsdóttir - Ljósmynd Krsitfinnur

Jófríður giftist 18. ágúst 1956 Jón Ólafsson, f. 1. janúar 1925, Fjöllum í Kelduhverfi og þar bjuggu þau alla tíð meðan heilsa og þrek leyfði. Jón lést 23. desember 2014.

Börnin eru fimm.

  • Sigurjón Matthíasson, f. 9. október 1951, átti Jófríður áður,
    en saman áttu þau Jón
  • Önnu Láru, f. 3. janúar 1957,
  • Bryndísi Öldu, f. 14. júlí 1959,
  • Ólaf, f. 9. júní 1961, og
  • Rósu Ragnheiði, f. 1. apríl 1964.
    Sigrún Sif, dóttir Rósu, ólst upp á Fjöllum til 12 ára aldurs.

    Ömmubörnin eru 15 og langömmubörnin 17.

Útförin fór fram frá Garðskirkju í Kelduhverfi 4. apríl 2015.
------------------------------------------------------------------

Elsku fallega, hlýja amma mín.

Ég heyri í fréttatilkynningum á rás 1 í útvarpinu. Ég er nývöknuð um hádegisbil og silast niður stigann. Það brakar mismunandi í hverju þrepi. Ég stend í forstofunni á Fjöllum 1 og lít inn í eldhús. Þú stendur yfir pottunum. Það er lambakjöt í hádegismat og grautur í eftirmat. Ég næ í bollann minn og næ mér í ískalt vatn úr krananum og sest við hliðina á Sigrúnu Sif. Á móti mér situr afi Jón. Hann er svo einbeittur að hlusta á útvarpið að ég má helst ekki trufla hann. Það eru allir búnir að vera úti að gera eitthvað en læt að sjálfsögðu bíða eftir mér til hádegis þar til ég er tilbúin að takast á við daginn.

Svona hefst týpískur dagur í sveitinni. Ég var í sveitinni hjá þér og afa frá því ég man eftir mér. Ég byrjaði að taka flug sjálf norður um sex ára aldur. Það var alltaf nóg að gera og nóg af fólki í sveitinni. Óli frændi og fjölskylda, Rósa frænka og fjölskylda, Anna Lára og Alda og fjölskyldur í næsta nágrenni. Þetta var fjölskyldan mín fyrir norðan og ég var svo stolt af því að fá að vera smánorðlensk.

Ég og Sigrún vorum alltaf eitthvað að brasa og Hjalti frændi var ekki langt undan. Það var svo mikil kyrrð og ró inn í húsinu hjá þér, amma mín. Þú varst alltaf að dekra við okkur. Þú bakaðir og söngst á meðan með útvarpinu. Ég held að ég hafi aldrei séð þig í slæmu skapi. Þú varst svo mikil fyrirmynd því þú komst fram við alla af mikilli virðingu.

Það sem þú hugsaðir líka vel um fallega garðinn þinn. Lækurinn sem rann meðfram girðingunni í kringum garðinn. Hvert einasta litla tré sem stóð við lækinn og myndaði hálfgerð göng hringinn í kring. Á heitum sólardegi fyrir norðan var eins og ég væri í kaffi hjá drottningunni í Danaveldi þegar ég sat í kaffi í fallegasta garðinum hjá þér, amma mín. Í æskuminningunni var hann draumi líkastur.

Við sátum oft inni og lásum bækur. Ég neitaði víst að læra að lesa sem barn og höfðu skólayfirvöld áhyggjur af mér. Ég fór eitt sumarið til þín og þú kenndir mér að lesa með þinni þolinmæði. Ég last heila bók á dag eftir það. Uppáhaldsbókin mín í hillunum þínum var Anna frá Suðurey. Það var nóg að lesa í húsinu. Ég man eftir því að við Sigrún stálumst út um miðjan dag á náttfötunum á skíði á túninu.

Þér fannst það bara fyndið. Einn daginn fann Sigrún gamalt þvottabretti niðri og við ákváðum að hætta að þvo þvottinn okkar í þvottavél og byrjuðum að þvo hann í höndunum. Það var í eina skiptið sem ég man eftir því að þér var ekki skemmt. Minningarnar eru endalausar og þær eru þær bestu úr minni barnæsku. Ég sakna þín svo mikið, besta, góða amma mín. Núna er ég bara, litla Fríða, eftir.

Stóra Fríða er búin að kveðja. Ég er mjög glöð að hafa komist heim frá Sviss til þess að geta kvatt þig í síðasta skipti. Ég er viss um að afi er glaður að fá þig til sín og að þið séuð núna saman hönd í hönd eins og þið voruð alltaf alla tíð. Ég veit að pabbi hefði viljað skrifa nokkur orð til þín en hann ætlar að spila tónlist í staðinn fyrir þig. Guð blessi þig, amma mín.

Þín litla Fríða.
--------------------------------------------------

Elsku amma.

Ég sé þig fyrir mér í eldhúsinu á Fjöllum. Það er sumar og við erum að baka kanilsnúða. Ég laumast af og til og smakka deigið sem er svo gott á bragðið. Allt í einu hækkar þú í útvarpinu og við dönsum saman fram í forstofu og til baka og förum svo að skellihlæja. Þegar snúðarnir eru tilbúnir fæ ég kaffi í bolla til að dýfa snúðnum ofan í, því þú segir að þannig séu þeir miklu betri.

Ég á margar svona minningar um þig, elsku amma, enda var ég heppin að búa hjá ykkur afa á Fjöllum fyrstu árin. Þar var alltaf nóg að gera og þú hugsaðir vel um heimilið. Þú passaðir svo sannarlega upp á að enginn færi svangur frá borðum enda var alltaf tví- eða þrírétta máltíð á boðstólum og fermingarhlaðborð í kaffitímanum. Þú gerðir besta rúgbrauð í heimi og bjóst til grasaöl sem engum hefur tekist að gera eins og vel og þú gerðir. Stundum gleymdust nokkrar flöskur af grasaölinu og þegar þær fundust var komið smá „fútt“ í það eins og þú kallaðir og þá var það nú ekki fyrir börn að drekka.

Ég fór oft með þér í gönguferðir að safna brúðbergi og öðrum jurtum svo þú gætir fengið þér te og oftar en ekki fengu nokkrir fallegir steinar að koma heim með okkur. Þér fannst gaman að hugsa um blómin þín sem fylltu alla glugga í húsinu og svo varstu með fallegt blómahorn úti í litla garðinum. Seinna kom svo stóri garðurinn bak við hús þar sem þú hugaðir að öspunum, hvönninni og litlu tjörninni þinni. Við fórum oft í berjamó saman á haustin og þú þurftir stundum að bera mig á bakinu yfir ána til að komast á uppáhaldsberjastaðina þína í fjallinu. Þær ferðir voru oft skrautlegar og mikið hlegið.

Mikið er ég þakklát fyrir að hafa alist upp hjá ykkur afa í sveitasælunni. Ég var eins og eitt af ykkar börnum og leið alltaf mjög vel hjá ykkur. Þegar heilsunni fór að hraka fluttuð þið afi til Húsavíkur og það var alltaf notalegt að heimsækja ykkur í Skógarbrekku. En núna ert þú komin aftur í sveitina, elsku amma, og ég veit að afi hefur tekið fagnandi á móti þér.

Takk fyrir allt

Þín, Sigrún Sif.
--------------------------------------------------------

Elskulega trygga, góða vinkona. Við höfum átt svo margt saman að minnast. Bernsku- og unglingsárin okkar á Siglufirði þar sem við tengdumst órjúfanlegum vináttuböndum. Fórum saman á skíði, í bíó, göngutúra og könnunarferðir í Hvanneyrarskál til að njóta útsýnisins en allra mest nutum við þess að vera saman og njóta vináttunnar sem ríkti á milli okkar.

Ég fór ung að aldri til Reykjavíkur, þú komst þangað um tíma og við nutum lífsins saman. Helst af öllu vildi ég hafa þig hjá mér en örlögin tóku í taumana, eins og svo oft vill verða.

Þú fórst í vist í Kelduhverfi og þar kynnist þú þínum góða lífsförunaut og heillaðist af bæði honum og hans fallega stað, Fjöllum. Jón laumaði því að mér einhverju sinni, löngu seinna, að það hefði verið ást við fyrstu sýn þegar hann sá þig og það skildi ég vel, eins bráðfalleg að utan sem innan og þú varst.

Saman hafið þið svo alið upp og eignast mannvænleg börn og efnilega afkomendur sem hefur verið ómetanlegt að fá að fylgjast með í gegnum tíðina. Við skrifuðumst á alla tíð enda lítt treystandi á símann þegar hann loksins kom, allir á línunni – svo leyndarmálin voru send bréfleiðis.

Við stóðum líka alltaf saman þegar á reyndi, þótt vík væri á milli vina. Það kom mér því ekki á óvart að þú skyldir verða svona dýrmæt í augum dóttur minnar, sem þú reyndist svo vel. Fyrir það er ég þér ævinlega þakklát.

Fyrir þá sem ekki þekktu þig vel virkaðir þú oft frekar lokuð og lést aldrei mikið yfir sjálfri þér, en hafðir í raun svo einstætt innsæi í mannlegan þátt tilverunnar og því miðlaðir þú gjarnan til mín. Ég var hins vegar sú sem tók öllum opnum örmum svo að þegar við nýttum saman okkar sterku hliðar vegnaði okkur vel saman. Vógum alltaf hvor aðra upp.

Þó svo að sjúkdómur minnisleysisins hafi þjakað þig síðustu árin og við haft minna samband en ella hélt ég að það breytti engu um tilfinningar mínar en ákvað að hringja í þig fyrir stuttu. Bara það að heyra röddina þína, auk þess að geta rifjað upp nokkrar gamlar minningar frá Sigló, er mér í dag svo dýrmætt, eins og þú varst mér ætíð. Alltaf hef ég haft fallegu myndina af þér hjá mér og horfi á hana nú, þegar ég kveð þig með djúpum söknuði, mín kæra yndislega vinkona. Læt Steina minn um lokaorðin sem mér finnst lýsa lífi okkar svo vel í hnotskurn:

  • Menn kætast er þeir kynnast
  • og kröfur saman tvinnast
  • saman sigrar vinnast
  • svo ræktar hver sinn garð.

  • Er höfuðhárin þynnast
  • oft hugir aftur spinnast
  • og merkilegt að minnast
  • hve margt var gott sem varð.

(ÞE)

Ykkur afkomendum sendi ég hugheilar samúðarkveðjur og vona að þið getið yljað ykkur vð urmul góðra minninga um þessa mætu konu.

Alda Jónsdóttir – vinkona.
----------------------------------------------------------

Ég kveiki á kerti í vorrökkrinu, sit hér hljóð og hugsa til allra stóru stólpanna í lífi mínu en þar hefur orðið skammt stórra högga á milli. Þeirra á meðal eru Fríða mín og Jón sem hafa verið svo nátengd lífi mínu alla tíð að ég sá þau nánast sem eina sál, í blíðu sem stríðu.

Hugurinn reikar til baka og ótal góðar minningar fljóta fram eins og litli bæjarlækurinn á Fjöllum. Trygg og einlæg vinátta móður minnar og Fríðu varð til þess að mér var boðið að upplifa sveitalífið í faðmi þessara góðu hjóna og fjölskyldu. Mér var strax tekið sem einni af fjölskyldunni, um það vitna bréfin sem ég skrifaði á þessum árum, full af jákvæðni, nýjungagirni og alltaf sól í heiði.

Fríða sagði mér seinna að hún hefði aldrei áður upplifað jafn lystarlaust og matvant barn sem henni var falið að bera ábyrgð á. Þetta varð henni eiginlega eilífðaráhyggjuefni því að þegar ég flutti aftur í sveitina fallegu fór ég aldrei tómhent frá Fjöllum. Alltaf leyst út með gómsætum matargjöfum, heimatilbúnum af Fríðu eins og rúgbrauði, kæfu, kjöti, kökum og fjallagrasaölinu hennar góða svo eitthvað sé nefnt.

Þegar ég lít svo í baksýnisspegilinn vex aðdáun mín á Fríðu enn frekar. Oft á tíðum var lífið ekki dans á rósum en aldrei heyrði ég hana kvarta, miklu heldur þakka og það vekur mér aukna aðdáun á þessari góðu konu með sitt jafnaðargeð.

Við vorum alltaf í góðu sambandi og vinátta okkar óx og dýpkaði með árunum. Ég hætti að vera bara matvanda barnið sem hún tók að sér, heldur varð góð vinkona og á milli okkar ríkti traust og við nutum samverustundanna sem gáfust.

Eitt eftirminnilegt haust fór ég í göngur fyrir Fjöll og að þeim loknum settist ég að spjalli við Fríðu í eldhúsinu. Svo vitum við ekki fyrri til en allt húsið hristist til og eldavélin stökk út á gólf. Við sátum stjarfar í stutta stund en svo fórum við báðar að skellihlæja. Þarna var jarðskjálfti á ferð en Fríðu tókst alltaf að sjá jákvæðu hliðarnar á tilverunni og tók hlutunum ætíð með jafnaðargeði, sem smitaði frá sér.

Elli kerling heimsótti hana með minnisleysi í farteskinu en allan þann tíma hefur fjölskyldan staðið sem klettur við hlið hennar og veitt henni jafnt styrk sem öryggi.

Hennar jákvæðni og milda skap sem hún hélt allt til hinstu stundar er okkur öllum hollt að hugleiða og gott til eftirbreytni. Þannig vil ég minnast hennar og þakka um leið ómældar ánægjustundir og einlæga vináttu í gegnum áratugina.

  • Þegar einhver fellur frá
  • fyllist hjartað tómi
  • en margur síðan mikið á
  • í minninganna hljómi.

  • Á meðan hjörtun mild og góð
  • minning örmum vefur
  • þá fær að hljóma lífsins ljóð
  • og lag sem tilgang hefur.

  • Ef minning geymir ást og yl
  • hún yfir sorgum gnæfir
  • því alltaf verða tónar til
  • sem tíminn ekki svæfir.

(KH)

Einlægar samúðarkveðjur til ykkar allra. Megi minningin um góðar stundir lifa í hjörtum ykkar.

Helga Þorsteins og fjölskylda. 

Jón Ólafsson Fjöllum Kelduhverfi

Mbl.is - 3. janúar 2015 | Minningargreinar 

Jón Ólafsson fæddist á Fjöllum í Kelduhverfi 1. janúar 1925. Hann lést á Skógarbrekku, hjúkrunardeild Sjúkrahússins á Húsavík, 23. desember 2014.

Foreldrar hans voru Friðný Sigurbjörg Sigurjónsdóttir, f. 31. ágúst 1898, húsmóðir, og Ólafur Jónsson, f. 21. nóvember 1881, bóndi á Fjöllum. Jón var fjórði í röð sex systkina. Þau eru Héðinn, f. 14. janúar 1918, óskírður, f. 17. júní 1919, Ragnheiður, f. 23. ágúst 1920, Jóhanna, f. 4. febrúar 1927, og Anna Guðný, f. 5. desember 1930. Jóhanna lifir ein systkini sín.

Jón kvæntist 18. ágúst 1956 Jófríði Margréti Vigfúsdóttur, f. 28. október 1929, frá Siglufirði.

Börnin eru fimm. Sigurjón Matthíasson (sonur Jófríðar Margrétar), f. 9. október 1951, Anna Lára, f. 3. janúar 1957, Bryndís Alda, f. 14. júlí 1959, Ólafur f. 9. júní 1961, Rósa Ragnheiður f. 1. apríl 1964. Sigrún Sif, dóttir Rósu, ólst upp á Fjöllum til 12 ára aldurs. Afabörnin eru 15 og langafabörnin eru 17.

Jón Ólafsson - ókunnur ljósmyndari

Jón Ólafsson - ókunnur ljósmyndari

Jón átti alla tíð heima á Fjöllum og var þar bóndi meðan heilsa og þrek leyfði.

Útförin fer fram frá Garðskirkju í Kelduhverfi í dag, 3. janúar 2015, og hefst athöfnin kl. 14.

Fjallabóndi og fóstri minn er fallinn frá. Þegar fregnin barst kom hún mér á óvart. Trúlega vegna þess að fjarlægðin gerir Fjöllin blá og mennina meiri. Átti að vera einn af þessum eilífðarmönnum, þó næstum kominn á hundraðasta aldursárið, sem þykir nú ansi góð ending af vinnulúnum bónda af hans kynslóð að vera.

Okkar leiðir lágu fyrst saman þegar ég var lítil stúlka, þar sem móðir mín og Fríða voru æskuvinkonur. Okkur boðið í Fjöll og til eru skemmtilegar myndir fá þeim tíma. Þegar tognaði úr mér, komin á skólaaldur, var mér boðið að dvelja á Fjöllum í einhverjar vikur í nokkur sumur. Þar fékk ég að upplifa sveitalífið sem borgarungi og þar reyndust þau Fjallahjón mér, þessum dekurheimalningi, hinir bestu fósturforeldrar. Þótt ég byggi við mikið ástríki heima þá held ég að það hafi blundað í mér svolítil sveitakona sem fékk að blómstra undir ástfóstri þeirra hjóna, sem ég kann svo vel að meta enn í dag.

Mætti með mína linmæltu reykvísku, var fljót að skipta í gúmmískó, gefa hænunum, læra að herða fisk, smala, rétta nagla í fjárhúsunum og veiða lontur í bæjarlæknum, ásamt ýmsu fleiru. Sigurjón kominn með unglingaveikina og tónlistin honum í blóð borin, svo hann steig fótstigið orgelið af innlifun á kvöldin og vel æfður barnakórinn söng Bítlalög eins og:“ She loves you ye, ye, ye“.

Við Anna Lára á kafi í dýrum og útiverkum, Alda besta aðstoð mömmu sinnar við bakstur og matargerð, svo að til væru margar sortir af bakkelsi ef gesti bæri að garði. Óli og Rósa bara pínukríli sem nutu þess fyrst að drullumalla en dugðu svo í snatt og snúninga síðar. Já, þetta var góður tími og alltaf sól í heiði. Lærdómur um lífið og tilveruna og að bjarga sér.

Árin liðu og við vorum í góðu sambandi. Áttum sjaldan leið hjá en eitt árið komum við óvænt og Fríða skutlaði laxi í ofninn en eitthvað var hún að malla í pottunum? Laxinn næstum tilbúinn, þegar Geiri þorði að spyrja: „Ertu nokkuð að sjóða lappir?“ Já, lítið varð um laxinn en Fríðu leist bara vel á sveitalubbann minn. Þau voru samt jafnundrandi og ég, þegar við fluttum í sveitina fögru og báru þvílíka umhyggju fyrir okkur að við vorum leyst út með matargjöfum í hverri heimsókn. Ég get aldrei fulllaunað þeim hjónum þá góðu reynslu sem þau gáfu mér og til þess var heldur aldrei ætlast heldur einungis þakkað.

Jón unni landinu sínu, vaktaði það vel, hugði að áttum, veðri og vindum, hélt dagbók um veðurfar og fleira fróðlegt, sem án efa inniheldur sögulegar upplýsingar. Á Fjöllum vildi hann vera. En veturnir urðu sífellt erfiðari og þau Fríða fluttu á Hvamm, sem hefur verið þeim skjól síðustu árin.

Já, það að er fagurt á Fjöllum, sama í hvaða átt þú horfir. Í fórum mínum á ég fallega mynd, þar sem ég sé Jón bónda fyrir mér á hraðferð um Vesturtúnið á sínum flotta Ferguson. Sú mynd yljar mér um hjartarætur og þar er hann í essinu sínu. Einlægar samúðarkveðjur til ykkar allra.

Helga, Ásgeir, Alda, Þorsteinn og fjölskylda.

Elsku afi minn. Ég sé þig fyrir mér í appelsínugulum fjárhúsagalla, með bláa lambhúshettu og með baggaband í vasanum. Þú ert með prik í hendinni og veður skaflana á milli húsanna. Það er hríðarbylur og þú segir mér að ganga fyrir aftan þig svo þú getir skýlt mér fyrir veðrinu. Við förum í fjárhúsin og ég brynni á meðan þú tekur til baggana. Við gefum kindunum sem þér þykir svo vænt um og flýtum okkur heim. Heima er amma tilbúin með matinn og við fáum okkur svo hræring með súru slátri í eftirmat.

Þú hallar þér aftur í sætinu þínu og lokar augunum til að heyra betur veðurspána sem er í útvarpinu. Ég passa mig á því að hafa ekki hátt á meðan. Síðan leggur þú þig eftir matinn. Ég á óteljandi svona minningar um okkur, afi minn. Ég vildi alltaf vera að skottast eitthvað með þér og þú leyfðir mér alltaf að fylgja þér hvert sem var. Vorin voru skemmtilegur tími í sveitinni. Þú kenndir mér að taka á móti lömbum, sendir mig upp í Stallfjall að sækja fýlsegg og svo fórum við alltaf í bíltúr suður í Sökkuna að athuga með girðinguna því hún þurfti að vera í lagi áður en kindurnar færu á fjall.

Í þeim ferðum hlustuðum við á Gylfa Ægis í Lödunni þinni og þú kenndir mér öll örnefnin í heiðinni. Á sumrin snerist allt um að koma böggunum þurrum inn í hlöðu og oft var mikið kapphlaup við rigninguna, en þú slakaðir ekki á fyrr en hvert einasta strá var komið inn. Ég man eitt sumarið þegar ég, þú og Óli fórum á sjó á Gamla Gul. Við veiddum þangað til það var varla pláss fyrir okkur í bátnum og þú sagðir að ég væri til happa í þessari ferð. Þetta var þín síðasta sjóferð og þú skemmtir þér svo vel.

Einnig man ég eftir því þegar þú lést mig síga í reipi ofan í sprungu bara til að ná í uppáhaldssmalaprikið þitt sem þú hafðir misst ofan í um veturinn. Á haustin gerðum við fjárhúsin klár fyrir kindurnar. Það þurfti allt að vera tilbúið áður en við færum í göngur. Okkar verk í göngunum var að standa fyrir í gilinu og oft vorum við orðin vel berjablá og búin að tína helling af fjallagrösum þegar gangnamenn komu til byggða. Það urðu alltaf fagnaðarfundir í réttunum þegar kindurnar þínar komu heim.

Ég var ekki gömul þegar þú kenndir mér að keyra gömlu dráttarvélina og mér fannst svo gaman þegar ég fékk að keyra ykkur ömmu suður í heiðina að sækja sprek í reykkofann. Mikið finnst mér ég vera heppin að hafa alist upp á heimili ykkar ömmu á Fjöllum. Ég var alltaf eins og eitt af börnunum ykkar og leið svo vel hjá ykkur. Eftir að við mamma fluttum til Húsavíkur fór ég eins oft og hægt var til ykkar því mér leið hvergi jafn vel og í sveitinni hjá ykkur.

Ég er þakklát fyrir öll símtölin okkar síðustu ár, þú fylgdist vel með mér og minni fjölskyldu. Okkar síðasta símtal snerist um hvað við ætluðum að hafa gaman á 90 ára afmæli þínu sem var á næsta leiti. Því miður varð ekkert úr því. Elsku afi minn, núna ertu kominn aftur í fallegu sveitina þína og það hefur laglega verið stór kindahópurinn sem tók á móti þér.

Takk fyrir allt. Þín, Sigrún Sif.

Jófríður Margrét Vigfúsdóttir - ókunnur ljósmyndari