Þorleifur Bessason

Siglfirðingur - 01.12.1964

Þorleifur Bessason

  • Um héraðsbrest ei getur
  • þó hrökkvi sprek í tvennt,
  • er hríðarbylur geisar,
  • það liggur gleymt og fennt.

Þessar ljóðlínur Skáldsins frá Sandi, komu mér í hug, er ég spurði andlát vinar míns, Þorleifs Bessasonar, sem lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar, aðfaranótt 7. nóv. 1964, á 81. aldursári. —

Um héraðsbrest verður tæplega að ræða, þótt vinnulúið og vegmótt gamalmenni kveðji þennan heim að dagsverki loknu, en hitt mun hinsvegar ekki reynast sannmæli, að yfir spor Þorleifs Bessasonar fenni í hugum þeirra, sem kynntust honum best. Þeir munu vissulega muna hann, hollustu hans og trygglyndi, og geyma minningu hans til hinsta dags.

Þorleifur Bessason var fæddur á Siglufirði, 18. júlí 1884, sonur hjónanna Bessa Þorleifssonar, skipstjóra, og Ingibjargar Stefánsdóttur.
Ólst hann upp með foreldrum sínum, ýmist á Siglufirði eða í Héðinsfirði, í hópi allmargra systkina.

Þorleifur Bessason - Myndin fylgdi greininni, ókunnur ljósmyndari

Þorleifur Bessason - Myndin fylgdi greininni, ókunnur ljósmyndari

Lítt mun Þorleifi hafa verið haldið til mennta í æsku sinni, en þeim mun fastar til vinnu, og gerðist hann ungur sjómaður. Var hann um langt skeið á hákarlaskipum, ýmist með föður sínum eða öðrum, og mun hann ekki hafa lagt niður þá atvinnu fyrr en hákarlaveiðum fyrir Norðurlandi var hætt.

Kunni Þorleifur frá mörgu fróðlegu að segja má sjómannsárum sínum og var þá oft skemmtilegt að hlýða á frásagnir hans af svaðilförum á hákarlaveiðum og vinnuháttum á þeim skipum, sem þær veiðar stunduðu um síðustu aldamót og á fyrstu áratugum. þessarar aldar. Með sjámannsstarfinu stundaði Þorleifur alla algenga vinnu, sem til féll. Þótti hann jafnan trúr og samviskusamur starfsmaður, og varð vel ágengt um vinnuöflun, enda hafði hann ætíð hug á að sjá sér og sínum farboða með vinnuhanda sinna.

Eftir að síldarverksmiðjur risu við Siglufjörð starfaði Þorleifur heitinn við þær um langt skeið, fyrst við einkaverksmiðjur, sem hér voru reistar, en síðan við Síldarverksmiðjur ríkisins um áratuga skeið, eða allt þar til kraftar hans til erfiðisvinnu voru þrotnir. Síðari ár ævi sinnar stundaði fann léttari vinnu, hélt sig mikið úti við, gaf sig á tal við kunningja sína á förnum vegi og ræddi við þá um menn og málefni.

Þekktu  hann allir Siglfirðingar, sem til þroska eru komnir og að góðu einu, enda gerði hann á einskis manns hlut, a.m.k. ekki viljandi. — Jafnan þótti Þorleifur heitinn sérstæður nokkuð í tali og háttum. Höfðu margir gaman af að eiga við hann orðastað, bæði í gamni og alvöru. Blandaðist þá stundum, og þá sérstaklega á fyrri árum, kerskni inn í samtalið og töldu margir sig geta knésett hann í viðræðum, að óreyndu.

En það mun vera álit allra, sem til þekktu, að álitamál væri, hvort gull yrði sótt í greipar honum, ef svo bar undir. Svaraði hann spaugi og kerskni jöfnum orðum og eru sum tilsvör hans, fyrr og síðar, fræg um Siglufjörð. —

Þorleifi kynntist ég fyrir 24-25 árum, er við störfuðum báðir í Síldarverksmiðjum ríkisins. Gekk í fyrstu á ýmsu í sambúð okkar. Féll ég þá stundum í þá freistni að ræða við hann hégómamál í hálfkæringi og gera honum smábrellur. Voru jafnvel stundum hendur látnar skipta, ef svo bar undir og mál lukust ekki með öðrum hætti.

Fljótlega urðum við þó góðkunningjar, og síðar eignaðist ég og mínir fulla vináttu hans og trúnað allan. Hélst svo, uns yfir lauk. Þorleifur var í eðli sínu maður hrekklaus og óáleitinn, traustur og áreiðanlegur í viðskiptum alla tíð. Um hann ríkti á efri árum hans kyrrð og friður, og töldu flestir samborgarar hans sér rétt og skylt að sýna honum hlýhug og velvilja.

Fylltist hann barnslegri gleði, er honum fannst til sín gert vel, og þakklæti hans var innilegt og fölskvalaust. Þorleifur var kvæntur Hólmfríði Jónsdóttur, stjórn samri og góðri konu, sem reyndist honum stoð og styrkur í lífi hans og störfum, meðan hennar naut við.

Þau hjón eignuðust ekki börn, en ólu upp systurson Þorleifs, Þorleifur Hólm, búsettan hér, og gengu honum í foreldrastað. Hólmfríður andaðist árið 1946, og þótti Þorleifi sem hann hefði þá mikið misst, sem vonlegt var. Árin líða og allt er í heiminum hverfult.

Þorleifur Bessason er horfinn til feðra sinna. Hann sést ekki framar á götum Siglufjarðar með síðskegg sitt og göngustaf. Hann fór jafn hljóðlega og hann kom. Að honum hlóðust ekki trúnaðarstörf, né virðingarstöður, sem hann sóttist heldur ekki eftir, og lífið mun ganga sinn vana gang, þótt hann sé nú horfinn sjónum samferðarmanna sinna. Hann lætur heldur ekki eftir sig auð fjár, en átti samt og varðveitti sjóði, gulli dýrmætari. —

Að honum mun mörgum finnast sjónarsviptir, og sakna munu þeir hans, sem þekktu hann best. Svo er um okkur öll við Hvanneyrarbraut 27. Fyrirbænir hans og blessunaróskir í garð minn og minna munu ekki 'gleymast, en ylja okkur um hjartarætur, þegar við minnumst þessa hollvinar okkar og tryggðatrölls. Far þú svo vel, gamli félagi og vinur.

Við biðjum þér blessunar Guðs í nýjum heimi, og þökkum þér fyrir allt og allt.

Einar Ingimundarson.