Tengt Siglufirði
Mbl.is 18. febrúar 2006 | Minningargreinar
Snorri Dalmar fæddist á Akureyri 28. desember 1917. Hann lést á Droplaugarstöðum
2. febrúar síðastliðinn.
Foreldrar hans voru Páll Dalmar kaupmaður og Arnfinna Björnsdóttir kennari.
Eiginkona Snorra er Hildur Eiríksdóttir.
Börn þeirra hjóna eru
Snorri var starfsmaður Síldarverksmiðju ríkisins í um 30 ár. Hann flutti til Reykjavíkur 1972 og starfaði við Íþróttahús Garðabæjar til starfsloka.
Útför Snorra var gerð frá Fossvogskapellu 14. febrúar.
----------------------------------------------------------------
Elsku tengdapabbi.
Fyrir þrettán árum, þegar við Haukur sonur þinn kynntumst og hann kynnti mig fyrir ykkur hjónunum, tókuð þið tengdamamma svo fallega og hlýlega á móti mér eins og ég væri ykkar eigin dóttir og sögðuð mér að heimili ykkar væri mitt líka. Ég var svo lánsöm að eignast svona hlýja tengdaforeldra og yndislega í alla staði.
Og svo voru systkini mín boðin á heimilið eins og ykkar börn. Allar stundirnar er við áttum saman þar var svo gott að vera nálægt þér og ræða saman, tilsvörin hjá þér voru svo skemmtileg. Eins og þegar ég spurði þig hvað ég ætti að gera þegar Haukur yrði gamall svaraðir þú; elskan mín, hugsaðu bara vel um hann, og við hlógum.
Þegar ég spurði þig hvað ég ætti að gera ef hann fengi skalla svaraðir þú um hæl; láttu hann bara vera sköllóttan, það stóð aldrei á svari frá þér. Þú varst alltaf svo rólegur og blíður, núna seinni árin fórum við í sjómann og það var sama hvað ég reyndi, þú vannst mig alltaf. Eitt sinn fór Haukur með mig í keilu og við komum til þín á Droplaugarstaði áður og ég leitaði ráða hjá þér hvernig ég ætti að bera mig að.
Sagðir þú mér hvað ég ætti að gera til að fella allar keilurnar sem ég svo og gerði og Haukur horfði á mig og skildi þetta nú ekki alveg en það var okkar leyndarmál. Allar minningarnar um þig eru svo góðar og svo gagnkvæma væntumþykjan, það var líka þegar ég hoppaði upp í rúm til þín, þá sagðir þú; það er nóg pláss fyrir þig, og alltaf gátum við hlegið.
Elsku tengdapabbi minn, það eru forréttindi í lífinu að eignast svona tengdaforeldra eins og ykkur hjónin. Ég þakka þér fyrir alla hlýjuna í minn garð svo og til Gunnars og Bryndísar, systkina minna. Nú ertu laus við þjáningar og ert kominn á leiðarenda.
Elsku besti tengdapabbi í heimi, þökk sé þér fyrir allt. Nú hefur þú fengið blessun heilags föður okkar fyrir alla þá góðmennsku, hlýhug og virðingu sem þú sýndir mönnum og dýrum í þessu lífi.
Þín tengdadóttir,
Auður.
---------------------------------------
Hinsta kveðja
Snorri minn, það var gaman að kynnast þér. Þú varst alltaf svo hress og kátur. Gátum við talað saman um daginn og veginn.
Nú er þessi
góði maður farinn og vil ég votta aðstandendum samúð mína.
Þinn frændi, Stefán Konráðsson.