Kári Jónsson, sjómaður - netamaður

Mbl.is 5. maí 2017 | Minningargreinar

Kári Jónsson fæddist á Siglufirði 5. september 1938. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Siglufirði 22. apríl 2017.

Foreldrar hans voru hjónin Jón Friðrik Marinó Þórarinsson, f. á Siglufirði 2. maí 1905, d. 20. mars 1979, og Sigrún Ólafía Markúsdóttir, f. á Stuðlum í Reyðarfirði 27. október 1907, d. 2. október 1982.

Systkini og hálfsystkini Kára eru:

 • Bryndís Brynjólfsdóttir Áskelsson, f. 1925, d. 2002.
 • Sigurbjörg Jónsdóttir, f. 1928, d. 2001.
 • Þórarinn Ágúst Jónsson, f. 1930, d. 1996.
 • Sigurður Ágúst Jónsson, f. 1934, d. 2001.
 • Aðalbjörg Jónsdóttir, f. 1934, d. 2001.
 • Júlíus Júlíusson, f. 1942, búsettur í Hafnarfirði.
 • Hafliði Júlíusson, f. 1946, búsettur í Hafnarfirði.
 • Gylfi Júlíusson, f. 1950, d. 2002.
Kári Jónsson - Ljósmynd Krsitfinnur

Kári Jónsson - Ljósmynd Krsitfinnur

Kári gekk að eiga Kristínu Björgu Baldvinsdóttur 27. desember 1958 og eignuðust þau fimm börn og eru fjögur þeirra á lífi.
Þau eru:

 • Ólafur Haukur Kárason, f. 6. júní 1958, maki Ólína Þórey Guðjónsdóttir.
  Þau eiga tvö börn.

 • Drengur Kárason, f. andvana 2. mars 1959.

 • Jakob Örn Kárason, f. 27. september 1960, maki Elín Þ. Björnsdóttir.
  Þau eiga fimm börn.

 • Tómas Kárason, f. 4. október 1963, maki Dominique Porepp.
  Eiga þau tvö börn.
  Fyrir átti Tómas tvö börn með fyrrverandi sambýliskonu sinni, Guðbjörgu Gunnarsdóttur.

 • Baldvin Kárason, f. 7. nóvember 1967, maki hans er Gróa María Þórðardóttir,
  þau eiga tvö börn.

  Kristín Baldvinsdóttir, eiginkona Kára átti fyrir
 • Þorstein Haraldsson, f. 19. apríl 1952, maki Jóhanna Pálsdóttir og
  eiga þau tvö börn.

Þá ólst upp hjá Kára og Kristínu bróðurdóttir Kristínar, Ragna Hannesdóttir, f. 24. nóvember 1951, maki Kristján Elís Bjarnason. Eiga þau þrjú börn.

Barnabörn Kára eru 18 talsins og barnabarnabörn eru einnig 18.

Kári Jónsson bjó fyrstu ár ævi sinnar með foreldrum sínum í Lækjargötu 7 Siglufirði, eða þar til foreldrar hans skildu þegar hann var 7 ára gamall. Eftir það bjó hann hjá föður sínum og ættingjum í sama húsi þar til hann lauk barnaskóla.

Á uppvaxtarárum Kára var algengt að börn byrjuðu snemma að sjá fyrir sér. Kári var engin undantekning þar og hóf hann ungur, eða um 12 ára aldur, að vinna fyrir sér. Kári vann ýmsa verkamannavinnu, s.s. á síldarplönum, á Varnarsvæðinu við Keflavík, stundaði vertíðarveiðar á hinum ýmsum bátum við landið, var háseti á síðutogurum, vann við löndun og skipaþjónustu hjá Þormóði ramma hf. á Siglufirði. Síðustu 20 ár starfævinnar vann Kári við netagerð í hópi góðra félaga á netaverkstæðinu á Siglufirði.

Útför Kára fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 5. maí 2017, og hefst athöfnin kl. 14.
------------------------------------------------------

Elsku afi, mikið er ég þakklát fyrir samverustundirnar um páskana og síðasta faðmlagið. Ég á eftir að sakna þess að þú sért ekki heima hjá ömmu næst þegar ég kem í heimsókn.

 • Stundin líður, tíminn tekur,
 • toll af öllu hér,
 • sviplegt brotthvarf söknuð vekur
 • sorg í hjarta mér.

 • Þó veitir yl í veröld kaldri
 • vermir ætíð mig,
 • að hafa þó á unga aldri
 • eignast vin sem þig.

 • Þú varst ljós á villuvegi,
 • viti á minni leið,
 • þú varst skin á dökkum degi,
 • dagleið þín var greið.

 • Þú barst tryggð í traustri hendi,
 • tárin straukst af kinn.
 • Þér ég mínar þakkir sendi,
 • þú varst afi minn.

(Hákon Aðalsteinsson.)

Með sorg í hjarta kveð ég þig, elsku afi minn. Hvíldu í friði.

Þín,

Lýdía Kristín Jakobsdóttir.
----------------------------------------------------------------------

Elsku afi Kári.

Með nokkrum orðum langar mig til að minnast þín því þú varst mér svo mikilvægur. Orð fá því varla lýst hversu vænt mér þykir um þig og hversu mikið ég sakna þín. Ég er svo þakklát fyrir að hafa komið til Siglufjarðar um páskana, hafa fengið að knúsa þig í síðasta sinn og segja þér frá öllu sem um er að vera í lífinu hjá mér. Þú varst alltaf svo góður hlustandi og fyrir það er ég þér þakklát.

Ég á margar góðar minningar af Háveginum með þér og ömmu, en þar finnst mér þið alltaf eiga heima. Þú hugsaðir alltaf svo vel um mig og Steffý systur þegar mamma og pabbi voru ekki í bænum og bauðst okkur alltaf í mat. Það er margt sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa til þín og er erfitt að berjast við tárin þegar ég hugsa til þess að koma heim á Sigló og fá ekki knús frá afa. Mamma segir alltaf að ég sé lík þér og pabba að því leyti að ég hef svo gaman af því að fylgjast með fólki en það hafðir þú svo sannarlega líka.

Það er erfitt að hugsa til þess að það síðasta sem þú hvíslaðir að mér um páskana var að ég ætti að hringja í þig um leið og ég væri búin að ná prófunum og byrjuð að vinna. Sú símhringing mun því miður ekki eiga sér stað en í staðinn mun ég minnast þín með því að elda humarsúpu með mysu því það er ekkert sem minnir mig meira á þig en mysa. Elsku afi, takk fyrir samveruna, skilninginn, gleðina og umhyggjuna.

Þín, Þórdís.
----------------------------------------------------

Kári Jóns var ekki bara afi minn og langafi barnanna minna, hann var góðvinur minn. Maður áttar sig sjaldnast á því hversu mikið maður er mótaður af þeim sem fylgja manni í gegnum lífið. Líklega er „lítill“ Kári í okkur öllum, okkur afkomendunum. En hver var Kári? Kári Jóns var langt frá því að vera gallalaus. Hann glímdi við sína bresti, sennilega allt lífið, og miklu meira en hann nokkurn tíma lét uppi.

Hann var engu að síður þeirri náttúru gæddur að sjá alltaf hið jákvæða, vinur okkar allra sem tókum honum eins og hann var. Afi var öðru fremur afkvæmi þeirra aðstæðna sem hann ólst upp við og mótuðu hann fyrir lífstíð. Hann leið e.t.v. miklu meira fyrir það alla ævi að foreldar hans skildu þegar hann var barn. Miðað við þann tíðaranda sem ríki í þá daga, þá hefur hann líklega ekki átt sjö dagana sæla.

Skilnaðarbörn voru í þá daga afskipt á tímum þegar uppruni og félagslegt bakland skiptu öllu um örlög einstaklinganna. Hann sagði mér t.d. söguna af því þegar hann var sendur í kjölfar skilnaðar foreldranna austur á Reyðarfjörð til ættingja móður sinnar. Hjá þeim átti hann að vera um tíma, en í stað þess að fara eftir því sem fyrir hann var lagt þá réri hann yfir Reyðarfjörð á árabát, næst þegar strandferðskipið Esjan var í höfn á Reyðarfirði, og gerðist laumufarþegi um borð.

Um síðir komst auðvitað upp um hann, enda ekki alveg sjálfsagt að lítill gutti væri að ferðast einn síns liðs. Hann gaf því upp nafn pabba síns, „Nonna Gústa á Siglufirði“, sem haft var samband við og bað hann þess að afi fengi að vera um borð og hugsað væri um hann. Við því var orðið og endaði afi á Siglufirði þar sem hann bjó síðan á Lækjargötu 7 hjá pabba sínum og Sigríði ömmu sinni þar til hann lauk barnaskóla.

Eftir það tók lífsbaráttan við, síðutogarar, löndunarvinna, vinna á netaverkstæði og barátta þar til hann settist í helgan stein. Fullt hús af börnum en samt stóð hann alltaf í lappirnar og ekki upp á neinn kominn, þrátt fyrir allt sjálfs sín herra. Hann var frjáls til þess að vera eins og hann var, hann var búinn að leggja inn fyrir því.

Þetta er auðvitað lygasögu líkast, en samt þó dagsatt. En hver er boðskapurinn? Hann og lífsspekin á bak við söguna er sáraeinföld og best sögð með frásögn úr lifanda lífi. Við afi sátum einu sinni á Kaffi París og „góndum á fólk“, þeir sem í raun þekktu Kára Jóns vita hvað ég á við. Karlinn var nýbúinn að skella í sig einum, þá snéri hann sér að mér glottandi og sagði: „Mundu eitt, Gaui minn, hugsaðu bara vel um þig og þína, það gerir það enginn fyrir þig.“ Ef það er eitthvað sem lífið hefur kennt mér á minni tiltölulega stuttu ævi, þá er það að hver er sinnar gæfu smiður

Kári Jóns fæddist 1938 við takmörkuð gæði og möguleika, hann yfirgaf þennan heim 22. apríl 2017 og skilur eftir flottan hóp. Það er okkar að koma okkur áfram. Kári Jónsson hafði nefnilega metnað fyrir því að þeir sem á eftir honum kæmu yrðu betri en hann. Við skulum virða það og hafa sama metnað og dugnað. Takk fyrir mig, afi Kári.

Guðjón M. Ólafsson.
-------------------------------------------------

Í dag kveðjum við elsku Kára sem okkur þótti svo vænt um.

Minningarnar eru margar, svo ljúfar og góðar en fyrst og fremst skemmtilegar.

Kári var skemmtilegur maður, léttur í lund og sá spaugilegu hliðar tilverunnar.

Hann var duglegur og eftirsóttur til vinnu. Hann var mikill fjölskyldumaður og hélt fallegt heimili með Lóu sinni og sinnti öllum heimilisstörfum með henni.

Kári reyndist mér og fjölskyldu minni einstaklega vel og börnum mínum var hann sem besti afi. Fyrir það vil ég þakka. Við Kristján sendum Lóu, strákunum þeirra öllum og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Kára.

Ragna Hannesdóttir.
-------------------------------------------------------

Stórvinur minn, félagi og faðir minna bestu vina, Kári Jónsson á Siglufirði, er látinn. Kára kynntist ég ungur í gegnum störf og félagsstarfsemi.

Ég man frásögn föður míns, sem lengi var formaður Knattspyrnufélags Siglufjarðar, af Kára hinum eldsnögga knattspyrnumanni spilandi fyrir KS á malarvellinum í hjarta bæjarins. Kári var, eins og aðrir knattspyrnumenn síldarbæjarins, vinnandi alla daga og margar klukkustundir á hverjum sólarhring svo tími til æfinga var ekki mikill. Leikmenn sáu sjálfir um sínar æfingar og það gerði Kári oft og iðulega m.a. með því að hlaupa í stopulum frítímum upp í Hvanneyrarskál.

Kári hóf vinnu mjög ungur eins og tíðkaðist í þá daga, var lengi á sjó á togurum og bátum og vann á síldarplaninu hjá Henriksenbræðrum. Sögurnar sem Kári sagði mér frá þessum tímum vitnuðu um hvað lagt var á unga menn á þessum árum en slíkt tíðkast ekki í dag, kannski sem betur fer.

Seinna meir starfaði Kári í bryggjuliðinu og á Netaverkstæðinu og þegar ég hóf afskipti af stjórnmálum hvatti Kári mig oft til að koma í heimsókn á þessa vinnustaði og spjalla við karlana sem þar unnu. Honum fannst oft halla á umræðuna gagnvart okkur jafnaðarmönnum og vildi fá mig til að leiðrétta kúrsinn, ef svo má að orði komast. Þetta var dulbúið framlag hins hljóðláta jafnaðarmanns til mín sem stjórnmálamanns hvort heldur var í bæjarmálum eða landsmálum.

Hin síðari ár eftir að Kári hætti að vinna hittumst við oftast í Aðalbakaríinu sem einn sona hans rekur. Þá var oft rætt um reksturinn og framtíðaráformin hvað bakaríið varðaði og ég gleymi ekki hversu stoltur og ánægður hann var þegar Aðalbakaríið var opnað eftir endurbætur og mikla stækkun.
Kári fylgdist vel með öllu í Siglfirsku bæjarlífi og hafði frá mörgu að segja þegar við laumuðum okkur inn á kaffistofu bakarísins og tókum spjall saman um landsins gagn og nauðsynjar. Hann var öflugur og jákvæður maður með sterka réttlætiskennd og stórt jafnaðarmannshjarta.

Eins og við Siglfirðingar vitum mótuðu síldarárin alla Siglfirðinga en síldin var dyntótt og hvarf einn góðan veðurdag. Margir Siglfirðingar neyddust til að flytja burtu úr bænum en Kári og eftirlifandi eiginkona hans, Kristín B. Baldvinsdóttir, fóru þó hvergi og hafa búið alla sína tíð á Siglufirði. Kári er því lagður til hinstu hvílu í siglfirskri mold í dag – föstudaginn 5. maí.

 • Moldin er trygg við börnin sín,
 • sefar allan söknuð og harm
 • og svæfir þig við sinn móðurbarm.
 • Grasið hvíslar sitt ljúfasta ljóð
 • á leiðinu þínu. Moldin er hljóð
 • og hvíldin góð...

(Davíð Stefánsson.)

Ég þakka af heilum hug mínum trausta og góða vini fyrir allar okkar samverustundir og mikinn stuðning og hvatningu alla tíð. Við Oddný vottum Kristínu og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð. Þeirra er missirinn mestur.

Minningin lifir um góðan dreng og vin.

Kristján L. Möller.