Kristín Ruth Jónsdóttir

mbl.is - 7. maí 2012 | Minningargreinar 

Ruth Jónsdóttir fæddist á Siglufirði 28. maí 1937. Hún lést á heimili sínu 28. apríl 2012. Foreldrar hennar voru Jón Pálsson, f. 3. maí 1913 á Ytri-Hofdölum í Skagafirði, d. 12. febrúar 1986, og Sigríður Ingibjörg (Imma) Kristinsdóttir, f. 23. ágúst 1905 að Mýrarkoti, Höfðaströnd, Skagafirði, d. 16. júní 1973.

Hinn 21. september 1957 giftist Ruth Bergsveini Sigurðssyni. Hann fæddist 21. apríl 1936 á Ísafirði og lést 31. ágúst 2001. Foreldrar Bergsveins voru Sigurður Pétursson, f. á Vatnsleysu í Gullbringusýslu 20. desember 1904, d. 28. apríl 1986, og Björg Sigríður Bergsveinsdóttir, f. á Ísafirði 17. febrúar 1911, d. 2. maí 1958.

Bergsveinn ólst upp á Siglufirði hjá móðursystur sinni Ólínu Bergsveinsdóttur og manni hennar Sigurði Sveinssyni.
Börn Bergsveins og Ruthar eru:

Ruth Jónsdóttir

Ruth Jónsdóttir

1) Inga Jóna Bersveinsdóttir, f. 22. des. 1954 (kjördóttir Bergsveins), maki Steindór Guðmundsson, þeirra synir eru
  • Guðmundur Stefán og
  • Sigurður Páll,
    og barnabörnin eru tvö.

2) Guðrún Ólína Begssveinsdórrir, f. 5. ágúst 1957, maki Guðmundur Ragnar Ólafsson,
börn þeirra eru
  • Bergsveinn,
  • Steinunn Rut og
  • Ólafur Andrés,
    og barnabörnin eru þrjú.

3) Jón Bersveinsson, f. 8. des. 1960, maki Ásdís Árnadóttir,
þeirra börn eru
  • Sigurlaug,
  • Kristín Rut og
  • Árni Pétur
    og barnabörnin eru tvö.
4) Björg Bergsveinsdóttir, f. 12. maí 1962, maki Eggert Dagbjartsson
þeirra börn eru
,
  • Nína Ruth,
  • Baldur Þór og
  • Hrafnhildur Sif.
5) Bergsveinn Sigurður, f. 25. janúar 1968, maki Gígja Hrönn Eiðsdóttir,
dætur þeirra eru
  • Katrín Erla og
  • Björg.

Ruth ólst upp á Siglufirði og gekk í Gagnfræðaskóla Siglufjarðar. Árið 1956 flutti hún með Bergsveini, verðandi manni sínum, til Reykjavíkur þar sem hann stundaði nám í vélvirkjun. Um ári síðar fluttu þau til Hafnarfjarðar þar sem þau bjuggu og störfuðu til æviloka. Bergsveinn var lengst af yfirverkstjóri hjá Hafnarfjarðarbæ. Ruth vann við ýmis störf, m.a. við framreiðslustörf á veitingahúsinu Skiphóli, við endurhæfingarstörf á Sólvangi og við símvörslu hjá Hafnarfjarðarbæ.

Útför Ruthar fer fram frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag, 7. maí 2012, og hefst athöfnin klukkan 13.
--------------------------------------------------------

Ruth tengdamóðir mín var einkabarn foreldra sinna og ólst upp á Siglufirði, þar sem Jón faðir hennar vann lengst af við skipasmíði en einnig við ýmsa tilfallandi vinnu, stundum í öðrum landsfjórðungum. Imma móðir hennar vann við síldarsöltun á síldarárunum, en síðar m.a. við skúringar í skólum bæjarins.

Sautján ára gömul eignaðist Ruth dóttur, Ingu Jónu Jónsdóttur, sem ólst síðan upp hjá móðurömmu sinni og afa á Siglufirði. Fljótlega kynntist Ruth verðandi eiginmanni sínum, Bergsveini Sigurðssyni, sem fæddur var á Ísafirði 1936, en ólst upp á Siglufirði hjá móðursystur sinni. Þau Ruth og Bergsveinn fluttust síðan til Hafnarfjarðar og eignuðust þar fjögur börn.

Þegar ég kynntist tilvonandi tengdaforeldrum mínum árið 1975, bjuggu þau í svokölluðu „Viðlagasjóðshúsi“ við Heiðvang í Hafnarfirði. Þar bjó þá líka Jón faðir Ruthar og hafði innréttað sér litla íbúð í bílskúrnum. Það var honum mikils virði að búa þarna í nábýli við dóttur sína og tengdason síðustu æviárin. Þau tóku mér öll einstaklega vel og buðu mig velkominn í fjölskylduna á Heiðvangi, þar sem þau Ruth og Bergsveinn höfðu búið sér fallegt heimili.

Skólaganga Ruthar var ekki löng, en hún hafði alla tíð mikinn áhuga á handavinnu og mun hafa haft löngun til að verða handavinnukennari, sem aldrei varð þó úr. Á seinni árum nýtti hún sér vel að hún hafði meiri tíma en áður til að vinna ýmiss konar handavinnu, og ýmsir hlutir sem hún bjó til eru hreinustu listaverk, sem kostað hafa mikla vinnu. Þessa hluti gaf hún börnum, barnabörnum og nú síðast barnabarnabörnum, og þessir hlutir minna okkur öll á Ruth ömmu og langömmu.

Ruth og Bergsveinn voru mjög samrýmd hjón. Þau ferðuðust mikið um landið og dvöldu þá oft í orlofshúsum, m.a. voru Knappsstaðir í Stíflu í miklu uppáhaldi. Á tímabili ferðuðust þau líka mikið með tjaldvagn í eftirdragi. Svo voru þau mörg sumur á Flúðum, bæði um helgar og eins í sumarfríum.

Auk handavinnunnar hafði Ruth það sem mikið áhugamál að fylgjast með íþróttum og sérstaklega handbolta. Hún mátti helst ekki missa af landsleik í handbolta og svo þurfti hún sérstaklega að fylgjast með syni sínum og síðar dóttursyni í handboltanum, en þeir kepptu báðir fyrir FH. (Reyndar keppti annar líka fyrir Aftureldingu, en höfum það innan sviga).

Ruth taldi sig alltaf Siglfirðing, eins og flestallir sem þar hafa búið um lengri eða skemmri tíma, en hún var í raun ekki minni Hafnfirðingur, og hafði reyndar búið í Hafnarfirði meira en þrefalt lengur en á Siglufirði. Eftir að starfsferlinum lauk tók hún m.a. virkan þátt í starfsemi eldri borgara í Hafnarfirði, einkum því sem sneri að handavinnu.

Enginn átti von á því að Ruth myndi kveðja svona fyrirvaralaust, aðeins 74 ára gömul, en „tilvera okkar er undarlegt ferðalag“ eins og segir í ljóði Tómasar Guðmundssonar sem hún hafði dálæti á. Með þessum orðum kveð ég Ruth tengdamóður mína, blessuð sé minning hennar.

Steindór Guðmundsson.
--------------------------------------------------

Það eru næstum 30 ár frá því ég kynntist Ruth tengdamóður minni fyrst. Ruth var glæsileg kona, hugsaði vel um útlitið og var ávallt vel til fara. Hún hlakkaði til á hverju ári að skreppa til dóttur sinnar í Boston á haustin og notaði þá tækifærið og fékk sér huggulegan fatnað í leiðinni.

Hún var fædd og uppalin á Siglufirði og tengdist Siglufirði sterkum böndum. Þegar til stóð ferðalag norður talaði hún alltaf um að hún væri að fara heim sem gat stundum ruglað borgarbarnið mig til að byrja með, þar sem hún hafði búið í Hafnarfirði í áratugi.

Ruth var einbirni og var stolt af þeirri stóru fjölskyldu sem hún átti orðið. Hún var komin með fimm börn þegar hún var þrítug og barnabörnin eru nú 13 og langömmubörnin sjö. Hún hafði oft á orði hversu merkilegt þetta væri hvað hún einbirnið ætti orðið marga afkomendur og fannst hún að sjálfsögðu hafa staðið sig vel að koma þessum hópi í heiminn. Það gustaði oft af Ruth og hún sagði sína meiningu tæpitungulaust.

Ruth var mikil hannyrðakona. Hún saumaði mikið og prjónaði á barnabörnin hér áður fyrr, en síðustu árin var hún meira í bútasaumum og ýmsu föndri. Þau eru ófá rúmteppin sem prýða heimili afkomenda hennar og einnig ýmislegt annað handverk sem hún útbjó í gjafir. Hún byrjaði snemma árs að útbúa jólagjafir handa afkomendunum og síðan sýslaði hún við gjafirnar fram eftir árinu.

Við gerðum okkur ferð til Reykjavíkur fyrir nokkrum árum og fengum okkur sinn köttinn hvor sem voru bræður. Ruth var mikill kattavinur og var kötturinn hann Tumi henni mikill félagi og gaf henni mikið þessi síðustu ár. Hún kom oft í heimsókn til okkar og laumaði þá alltaf smá kattasælgæti að bróður hans.

Það var mikið áfall fyrir Ruth að missa eiginmann sinn Bergsvein allt of snemma, en hann lést árið 2001 eftir erfið veikindi. Hann hafði verið stoð hennar og stytta í lífinu og höfðu þau verið mjög samrýmd hjón. Þau ferðuðust mikið gegnum árin og síðustu árin sem hann lifði voru þau með kotið sitt á Flúðum. Hún kom okkur mörgum á óvart eftir fráfall hans þar sem hún tókst á við ýmsa erfiðleika og stóð sterk eftir.

Heilsa Ruthar hafði versnað í vetur en enginn átti þó von á því að hún kveddi okkur svona snögglega en hún varð bráðkvödd á heimili sínu. Elsku Ruth, nú ertu komin til Bergsveins þíns og þið eruð sameinuð á ný.

Hvíl í friði. Ásdís.
----------------------------------------------------

Kristín Ruth Jónsdóttir fæddist á Siglufirði 28. maí 1937. Hún lést á heimili sínu 28. apríl 2012.

Útför Ruthar fór fram frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði 7. maí 2012.

Elsku Ruth amma.

Mikið óskaplega þykir mér sárt að skrifa til þín lokaorðin, en um leið er svo gaman að rifja upp allar skemmtilegu minningarnar. Það sem kemur fyrst upp í hugann er að sjálfsögðu aðfangadagur. Við frændsystkinin höfðum komið til ykkar afa á aðfangadag frá því ég man eftir mér og skipst á pökkum. Afi taldi alltaf niður klukkustundir og mínútur í jólin, sem ég geri enn þann dag í dag, og þú varst alltaf búin að baka fjöldann allan af smákökusortum. Eftir að afi fór frá okkur komum við öll heim til þín í kökur, þá gátu jólin byrjað. Ég lofa þér því að heimsækja ykkur afa næstu jól, telja niður og færa ykkur smákökur.

Þú sagðir okkur alltaf vera líkar, enda áttum við margt sameiginlegt. Fyrir utan að eiga næstum því afmæli á sama degi eignuðumst við börn á sama degi, ég mitt elsta og þú þitt yngsta. Hann Róbert Hugi var svo heppinn að fá að kynnast langömmu sinni og eignast eftir þig fallega teppið sem hann heldur svo mikið upp á.

Ég náði ekki að segja þér frá því en oftar en ekki þegar við pabbi hans kíkjum á hann fyrir nóttina hefur hann hent sænginni sinni á gólfið og er búinn að ná í teppið og vefja sér á einhvern óskiljanlegan hátt inn í það. Ég tók einmitt mynd af því um daginn og hafði ætlað mér að gefa þér hana á afmælisdaginn þinn, ég veit það hefði glatt þig að sjá það. Hrafn, yngri sonur minn var svo heppinn að kynnast aðeins langömmu sinni, en þú varst alltaf svo stolt af stóru fjölskyldunni þinni, einbirnið sjálft með alla þessa afkomendur.

Elsku amma mín, loksins ertu komin til afa sem þú saknaðir svo mikið. Ég veit þið fylgist með og passið upp á stóru fjölskylduna ykkar frá himnum.

Mér þykir líka vænt um þig.

Þín Sigurlaug (Didda).
-------------------------------------------------------

Elsku amma.

Við söknum þín mjög mikið. Það er erfitt að hugsa til þess að þú sért farin en gott að vita að þú ert loksins komin til afa. Það eru margar minningar sem fara um huga okkar á þessari stundu, eins og þegar við vorum lítil og komum til Íslands, þá fórum við alltaf beint heim til ykkar afa í morgunmat en í seinni tíð varst þú alltaf sú fyrsta sem kom í heimsókn til okkar.

Þegar við heimsóttum þig og Tuma köttinn þinn áttir þú alltaf til kleinur og kókómjólk handa okkur. Þér fannst gaman að sýna okkur allt sem þú varst að gera í höndunum. Við höldum mikið upp á kósíteppin, skartgripina, rúmteppin, snyrtibuddurnar og prjónuðu sokkana þína. Öll þín listaverk munu varðveita minningu þína.

Við munum sakna þess að fá þig ekki í þína árlegu heimsókn til okkar í Cambridge, í kringum afmæli Hrafnhildar Sifjar á haustin. Okkur fannst gaman að fylgjast með þér þegar þú klæddir þig upp á eins og þú værir að fara að hitta drottninguna þegar matarboðið var jafnvel í eldhúsinu heima.

Jólin á Íslandi eru sérstakur tími fyrir okkur á Íslandi og við vissum að jólin væru að nálgast þegar við komum og okkar beið fullur dunkur af nýbökuðum jólasmákökum frá þér. Ein jólin komum við til þín og lærðum að baka jólasmákökurnar þínar. Við munum halda áfram að baka kökurnar þínar og halda þannig hefðinni á lofti. Það verður skrítið að halda jólin án þín og að hafa þig ekki hjá okkur.

Elsku amma, þrátt fyrir að þú hafir verið langt frá okkur sl. 17 ár hefur þú alltaf átt stað í hjarta okkar og hugsunum. Þannig verður það um ókomna tíð.

Nína Ruth, Baldur Þór og Hrafnhildur Sif.
----------------------------------------------------------

Elsku amma mín.

Mér finnst ég vera að kveðja þig allt of snemma, elsku nafna. Þú kallaðir mig aldrei annað en „nöfnu þína“ og á síðustu árum var ég farin að gera slíkt hið sama. Ég hafði alltaf svo gaman af þér, þú varst svo fyndin. Þú varst ákveðin, en líka svo hlý og góð. Hafðir unun af langömmubörnunum þínum og barnabörnum og hefur gefið okkur öllum dýrmætar gjafir, gjafir sem þú sast yfir svo mánuðum skipti og föndraðir. Vildir skilja eitthvað eftir þig, eins og þú sagðir mér svo oft. Þú hefur sko gert það.

En nú ertu komin á betri stað, í faðm afa. Hvíl í friði, amma mín.

Þín nafna, Kristín Rut.
------------------------------------------------

Mig langar til að kveðja Ruth, mágkonu mína, með nokkrum orðum. Mér brá í brún þegar ég frétti að Ruth væri dáin svona skyndilega og það kom öllum á óvart. Ég hafði hitt hana og spjallað við hana tveim dögum áður, en við bjuggum síðustu árin í sama húsi. Það var góður samgangur á milli okkar.

Leiðir okkar lágu fyrst saman þegar Bergsveinn bróðir kynnti hana fyrir fjölskyldunni sem kærustu sína fyrir rúmum 55 árum. Við urðum fljótlega góðar vinkonur og hún kenndi mér margt, sérstaklega í handavinnu af því að hún var alveg einstaklega vandvirk og listræn í öllu handverki. Við fjölskyldan eigum fjölda af handgerðum listaverkum eftir hana.

Ruth var glæsileg kona alla tíð. Þau Bergsveinn voru mjög samrýmd og það var gaman að koma í heimsókn til þeirra, sérstaklega í hjólhýsið sem þau áttu á Flúðum. Þar var þeirra unaðsreitur í fjölmörg ár. Það var mikil sorg fyrir fjölskylduna þegar Bergsveinn féll frá, langt um aldur fram fyrir 11 árum. Ruth syrgði hann og saknaði hans mjög mikið. Ruth var stolt af stóru fjölskyldunni sinni og fylgdist vel með börnum sínum, barnabörnum og nú síðast langömmubörnum. Hún sagði mér frá því að hún byrjaði oft í janúar að búa til jólagjafir handa öllum hópnum.

Ruth var alltaf mikill Siglfirðingur í sér og fannst gaman að koma þangað og heilsa upp á vini og kunningja. Hún tók líka þátt í því með okkur í stórfjölskyldunni að heiðra minningu afa og ömmu í Skarðsdalskoti í Siglufirði og öðrum viðburðum í hópi þessara skyldmenna.

Nú er komið að leiðarlokum. Við systurnar ég, Lillý og Nanna Björg þökkum Ruth hálfrar aldar samfylgd og vináttu.

Elsku Inga Jóna, Lína, Nonni, Björg, Beggi Siggi og fjölskyldur.

Innilegar samúðarkveðjur frá okkur systrum og fjölskyldum okkar.

Guð styrki ykkur í sorginni. 

Gunnhildur.
-----------------------------------------------------------------

Kveðja frá saumaklúbbnum Sunnu

Með nokkrum orðum langar okkur til að minnast vinkonu okkar sem kvaddi mjög skyndilega. Það eru komin meira en 50 ár frá því að við byrjuðum að hittast, fyrst vikulega og svo sjaldnar eftir því sem árin liðu. Alltaf hlökkuðum við til að fara í saumaklúbb og var mikið spjallað. Ruth var frábær hannyrðakona og féll aldrei verk úr hendi. Allt sem hún gerði var fallegt og vel gert. Æskudraumur hennar var að verða handavinnukennari.

Hún var mikill Siglfirðingur og stolt af sínum heimabæ og mikið var talað um æskustöðvarnar því við vorum fjórar þaðan. Þau Bergsveinn voru mjög náin og samtaka hjón og hún saknaði hans sárt en hann féll frá fyrir tólf árum. Hún trúði á endurfundi í öðru lífi.

  • Þú sofnað hefur síðsta blund
  • í sælli von um endurfund,
  • nú englar Drottins undurhljótt
  • þér yfir vaki – sofðu rótt.

(Aðalbjörg Magnúsdóttir)

Við þökkum henni samveruna öll árin og sendum börnum hennar og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Katrín, Magnea, Margrét, Lovísa og Sólborg.
-------------------------------------------------------------

HINSTA KVEÐJA
Elsku amma mín, ég mun muna eftir þér að eilífu og hugsa um skemmtilegu stundirnar sem við áttum saman. Takk fyrir allt, elsku amma, fyrir bara allt saman sem þú hefur gert fyrir mig. Ég mun geyma vel allar minningar okkar saman í hjartanu mínu og aldrei gleyma þeim.

Ég veit að þú hittir afa uppi á himni. Ég vil samt að þú vitir að þú eigir alltaf stað í hjarta mér, elsku amma mín, og ég mun alltaf hugsa til þín.
Ég elska þig.

Björg.