Jón Hjálmarsson skósmiður

Mbl.is 10. júní 1989 | Minningargreinar

Minning: Jón Hjálmarsson. Fæddur 27. mars 1909 Dáinn 29. apríl 1989

Laugardaginn 29. apríl sl. andaðist á heimili sínu vinur minn og mágur Jón Hjálmarsson, skósmiður, Hverfisgötu 15, Siglufirði.
Andlát hans kom óvænt, a.m.k. okkur, sem ekki höfðum fylgst með heislufari hans þá að undanförnu, en þau hjónin höfðu dvalið í Reykjavík um tíma, en þar voru þau við fermingu sonardótturinnar, Sigríðar Erlu, um miðjan apríl.

Jón Hjálmarsson og Sigríður Albertsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Jón Hjálmarsson og Sigríður Albertsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Jón varð áttatíu ára þann 27. mars sl., honum þótti ævidagur að kveldi kominn og var sáttur við lífið og tilveruna. Þau voru komin heim í litla húsið sitt, þau höfðu verið viðstödd fermingu Sirrýar, sem var þeirra uppáhald og augasteinn, og notið samvista við fjölskyldu hennar og vinafólk.

Slæmt kvef og þyngsli fyrir brjósti höfðu angrað Jón síðustu dagana og að morgni laugardags þyngdi honum nokkuð og einkenni sjúkleika, sem í nokkur ár hafði búið með honum, gerðu nú vart viðsig. Hann færði sig því af svefnlofti og niður á hæðina og lagðist fyrir á dívan, eins hann oft hafði gert þegar líkt stóð á.

En nú dugðu hjartatöflurnar ekki til að lina takið, hann sofnaði í rósemd og friði og var liðinn um það bil sem læknirinn kom. Slíkrar brottfarar af þessum heimi hafði hann oft óskað sér, að fara fljótt og þjáningalaust.

Útför Jóns var gerð frá Siglufjarðarkirkju þ. 6. maí að viðstöddu fjölmenni. Sr. Stína Gísladóttir jarðsöng.

Jón Hjálmarsson var fæddur 27. mars árið 1909 að Stóra-Holti í Fljótum. Foreldrar hans voru Hjálmar Jónsson, bóndi þar og Sólveig Jónsdóttir, ráðskona hans. Hjá þeim var Jón til tveggja ára aldurs, en var þá komið í fóstur til Marsibil ar Sigurðardóttur og Sigurðar Jónssonar, sem gengu honum í foreldrastað.

Hjá þeim ólst hann upp. Bernskuárin á Siglufirði urðu honum oft umræðuefni, minningar úr barnaskóla voru honum ríkar í huga sem og minningar unglingsáranna í vaxandi bæjarlífi Siglufjarðar um og upp úr 1920. Eins og aðrir unglingar fór hann að vinna strax og getan leyfði. Hugurinn stóð þó fljótt til þess að læra eitthvað og skapa sér fastan grundvöll til framtíðar.

Þegar aldur og aðstæður leyfðu hóf Jón iðnnám, gerðist lærlingur í skósmíðaiðn hjá Guðlaugi Sigurðssyni, skósmíðameistara á Siglufirði. Og því námi lauk hann með sveinsprófi og burtfararprófi frá Iðnskóla Siglufjarðar. Nokkru síðar veiktist hann af berklum og varð næstu árin á eftir að dveljast á Kristnesi í Eyjafirði.

Dvölin á Kristnesi veitti Jóni sæmilega heilsubót, en afleiðingar berklaveikinnar fylgdu honum þó til æviloka.

Með tilliti til heilsunnar hóf Jón nám í húsasmíði, og var það von hans að útivinna myndi eiga betur við heilsufarið eins og því var komið. Ekki varð þó langt í því námi, heilsan þoldi ekki það álag, sem slíkri vinnu fylgdi. Og sneri hannþá aftur að skósmíði, flutti til Dalvíkur, stofnaði þar vinnustofu í félagi við tvo vini sína.

Störfuðu þeir þar í nokkur ár, en fluttu sig svo með vinnustofuna til Siglufjarðar og unnu þar saman í hart nær áratuug. Jón var svo síðast orðinn einn eftir, og starfaði við iðn sína allt til ársins 1982 að hann varðað hætta vegna heilsubrests.

Skömmu eftir að Jón flutti frá Dalvík til Siglufjarðar kynntist hann systur minni, Sigríði Albertsdóttur, og leiddu þau kynni til þess að þau gengu í hjónaband árið 1948 og stofnuðu heimili hér í bæ.
Þeim varð tveggja sona auðið,

Hjálmar Jónsson og
Magnús J'onsson, sem báðir eru efnis- og sæmdar menn.
Hjálmar varð búfræðingur frá Hólaskóla, síðar starfsmaður í álverinu í Straumsvík um langt árabil og seinna byggingaverkamaður hér í bæ.
Hann kvæntist Hólmfríði Hafberg
, þau eignuðust dóttur,
  • Sigríði Erlu, sem varð svo sem áður er sagt, yndi og augasteinn afa og ömmu. 

Hjálmar og Hólmfríður slitu hjónabandi fyrir nokkrum árum og flutti hann þá heim til foreldra sinna og hefur búið með þeim síðustuárin.

  • Magnús fetaði iðnbrautina, lauk námi í rafvirkjaiðn á Akureyri og hefur starfað þar að iðn sinni. Hann er ókvæntur.

Þau Jón og Sigríður hafa allan sinn búskap átt hlýlegt og vinalegt heimili. Lengst hafa þau búið í litla húsinu sínu á Hverfisgötu 15, þarhefur snyrtimennska og hirðusemi ráðið ríkjum utan dyra sem innanog voru þau mjög samhent í því sem öðru.

Jón Hjálmarsson var félagslyndur maður. Hann tók verulegan þáttí félagslífi bæjarins, og þá helst því, sem höfðaði til áhugamála hans. Hann var virkur í starfi Iðnaðarmannafélags Siglufjarðar meðan það var starfandi. Hann hafði róttækar skoðanir á þjóðmálum og starfaði í sósíalistasamtökum bæjarins. Hann var einn af stofnendum kvæðamanna- og hagyrðingafé lagsins Braga, sem starfaði allvel í nokkur ár. Og síðustu árin hefur Jón verið virkur félagi í Félagi eldri borgara og að auki tekið ríkulegan þátt, ásamt konu sinni, í tómstundastarfi eldra fólksins.

Jón var fróðleiksfús og las mikið fræðandi bækur, enda átti hann orðið gott bókasafn. Hann var með afbrigðum ljóðelskur maður, átti auðvelt með að læra ljóð utanað og hafði ótrúlega gott minni á ljóð og vísur til hins síðasta. Hann kunni feiknin öll af lausavísum og var minnugur á tilefni vísna. Hann var "hafsjór" af vísum, eins og kunn ingjarnir sögðu og hafði gaman af að fara með vísur og kveðskap. Eigin hagmælsku flíkaði hann lítt, en gat vel kastað fram stöku, ef svo bar undir.

Þegar ég lít til liðinna ára og sambands okkar systkinanna við mág okkar, Jón, þá verður efst í huga minningin um það hve elskulegt og traust samband hans varvið foreldra okkar, meðan bæði lifðu, og við föður okkar meðan hann lifði til hárrar elli. Jón varð strax sem eitt af systkinunum. Og þau okkar sem fjarri bjuggu, mátu hann ekki síður en við, sem höfðum nánari samneyti við þau hjónin. Hann var sem einn bróðirinn í systkinahópnum.

Hans er því sárt saknað nú, þegar hann er ekki lengur með á vegferð lífsins. En minningin um góðan og elskuríkan samferðamann og lífsförunaut, föður og afa, mun lifa og sefa söknuð og trega okkar, sem áfram höldum á lífsins göngu.

Blessuð sé minning Jóns Hjálmarssonar.

Einar M. Albertsson