Hartmann Jónsson bifreiðastjóri - (Manni)

26. júlí 2016 | Minningargreinar

Hartmann Jónsson (Manni) fæddist á Siglufirði 1. nóvember 1933. Hann lést á Siglufirði 15. júlí 2016.

Foreldrar Hartmanns voru Jón Daníelsson, f. 6.8. 1901, d. 31.8. 1991, og Ástríður Jónsdóttir, f. 26.2. 1915, d. 2.6. 1962.
Systur Jóns Dan voru fjórar. Þær

  • Ásta sem er búsett í Ameríku,
  • Björk sem býr í Danmörk og
  • Rúna og
  • Eva, látnar.

Eiginkona Hartmanns var Sveinbjörg Helgadóttir, f. 30.1. 1931, d. 22.9. 1995.
Börn Hartmanns og Sveinbjargar eru:

  • Áslaug Hartmannsdóttir, f. 1958, gift Ingvari Stefánssyni.
  • Hrafnhildur Hartmannsdóttir, f. 1960, gift Þorkeli Svarfdal Hilmarssyni.
  • Ástríður Hartmannsdóttir, f. 1962, gift Ingólfi Jóni Magnússyni.
  • Daníel Rafn Hartmannsson, f. 1966.
Hartmann Jónsson - ókunnur ljósmyndari

Hartmann Jónsson - ókunnur ljósmyndari

Hartmann bjó í Kópavogi, fyrst á Mánabrautinni og svo í Hamraborginni. Hann starfaði lengst af hjá Vegagerð ríkisins.

Útför Hartmanns fer fram frá Digraneskirkju í dag, 26. júlí 2016, og hefst athöfnin klukkan 13.
-------------------------------------------------------

Hann tengdafaðir minn, Hartmann Jónsson, fór sínar eigin leiðir í lífinu. Hann var mjög fastur á sínu, það þýddi nú lítið að þrasa við hann, maður laut alltaf í lægra haldi þar, hann hafði alltaf sínar skoðanir á hlutunum.

Hann var mjög hjálpsamur og ef mann vantaði eitthvað þá var hann fljótur að redda því.

Eitt sinn er ég hafði orð á því að ég þyrfti að skipta út borðinu í húsbílnum sagði hann: „Ég skal athuga það.“ Það þýddi að hann var farinn á fullt að leita að því og það liðu ekki margar klukkustundir uns hann kom með borðið og sagði að hann hefði fundið það hjá vini sínum og ég gæti fengið það fyrir sanngjarnan aur.

Hann átti fjölmarga vini sem hann var daglegur gestur hjá og voru greiðviknir eins og hann.

Hann fylgdist vel með öllum í kringum sig, spurðist alltaf fyrir um barnabörnin og vildi vita hvað væri í vændum.

Hann var bílstjóri af lífi og sál og átti vegina út af fyrir sig. Hans daglegi rúntur var um höfnina í Kópavogi og Hafnarfirði.

Ferðalög voru hans yndi, en seinni árin fór hann þó aðallega innanlands á húsbílnum sínum að veiða í Þórisvatni eða Straumfirði og reglulega til Siglufjarðar þar sem hans heimaslóðir voru og þar var hann einmitt staddur er hann lést.

Tengdamóðir mín, Sveinbjörg Helgadóttir, lést 22. september 1995.

Hvíl í friði.

Þorkell Svarfdal Hilmarsson.
 
------------------------------------------------------

mbl.is 6. ágúst 2016 | Minningargrein

Hartmann Jónsson (Manni) fæddist 1. nóvember 1933. Hann lést 15. júlí 2016. Útför Hartmanns fór fram 26. júlí 2016.

Hartmann Jónsson, tengdafaðir minn, er látinn. Ég ætla að minnast hans með nokkrum orðum. Fyrstu árin bjó Hartmann á Siglufirði en fluttist seinna til höfuðborgarinnar. Hann settist að í Kópavogi með Sveinbjörgu og ólu þau börnin sín upp á Mánabraut 15. Stærstan hluta starfsævinnar var Hartmann bílstjóri hjá Vegagerðinni. Eitthvað var hann þó á sjó á sínum yngri árum.

Hjá Vegagerðinni vann hann við ýmis störf. Starfsins vegna fór hann um allt landið og kynntist mörgu fólki á ferðum sínum. Alltaf var hann með hugann við að ferðast og skoða landið sitt. Hartmann var mikill veiðimaður, bæði til sjós og lands. Hann fór oft til veiða á ferðalögum sínum. Einnig var hann með um tíma trillu í Kópavogshöfn og stundaði sjósókn þaðan þegar tækifæri gafst.

Alltaf var hann einhvers staðar á ferðinni og kom víða við. Hann var stundvís á öll mannamót sem hann mætti á en stoppaði stutt við. Hann var sjálfbjarga og brallaði margt. Hann reisti íbúðarhús á Mánabraut 15, sumarhús á Þingvöllum, smíðaði húsbíla, setti t.d. upp fiskþurrkun í garðinum á Mánabrautinni og ýmislegt annað ótalið tók hann sér fyrir hendur. Hartmann var barngóður og hafði gaman af ungviðinu.

Hann fylgdist með barnabörnum og barnabarnabörnum í fjarlægð, vildi vita allt um þeirra hagi og spurði oft frétta af þeim þegar hann var í heimsókn. Ég vil þakka Hartmanni fyrir þann tíma sem leiðir okkar lágu saman og kveð hann með virðingu og söknuði. Hinsta kveðja,

Ingvar Stefánsson.
--------------------------------------------------------------

Hartmann, vinur minn, er dáinn. Hartmann var mikill ökuþór og var alltaf á ferðinni. Íbúar Mánabrautar í Kópavogi gátu treyst á vökul augu hans ef eitthvað var úr lagi í götunni. Hann hringdi til dæmis í mig eitt sinn til Kanaríeyja og sagði mér að húsið væri allt upp ljómað. Ég sagði honum að barnabörnin mín væru í heimsókn og þau kynnu bara að kveikja ljós en ekki slökkva þau.

Hartmann var tíður gestur. Stundum kom hann með nýveiddan fisk af trillunni sinni sem ég eldaði handa okkur. Hartmann var hress náungi. Ég sakna hans. Ég vil með þessum orðum minnast Hartmanns og votta fjölskyldu hans samúð mína.

Sigurgeir Jónasson.

Hartmann Jónsson, fermingar mynd - Hann var á Siglufirði kallaður: Manni prakk