Kristfinnur Guðjónsson ljósmyndari.

Neðan ritaðan samtíning, hafa tekið saman:  Steingrímur Kristinsson og, Guðný Róbertsdóttir

Kristfinnur Guðjónsson ljósmyndari.  

Fyrst er ég (sk) vissi af ljósmyndaranum Kristfinni Guðjónssyni, var er móðir mín fór með okkur systkinin, Jonnu og Huldu á ljósmyndastofu hans við Eyrargötu. Þá var ég 11-12 ára (minnir mig)

Síðar fékk ég (sk) að vita að Kristfinnur væri frændi minn, (skoa mynd, ættartré frá Íslendingabók; neðst á síðunni)

Einhvern tíma síðar fór ég á myndastofuna til hans til myndatöku, ásamt nokkrum vinum, þá sennilega um 16 ára +/-

Ég hafði allt frá 10-11 ára aldri tekið myndir í litlu mæli á kassamyndavélina sem mamma átti og lét framkalla hjá Kristfinni. Það var svo fyrst er áhugi minn vegna ljósmyndtöku vaknaði fyrir alvöru var árið 1959
En þá fór ég að spyrja þá á Siglufirði, sem mest voru áberandi á þeim tíma, með myndavélar á maganum og myndatökurtökur við ýmis tækifæri.

Mig vantaði upplýsingar um hvernig ég ætti að bera mig að við framköllun, ég vildi gera slíkt sjálfur.
Þar kom ég að háum vegg þagnarinnar, engu líkara en sá leyndardómur væri hreint og ógnvekjandi leyndarmál, enginn hafði áhuga á að gefa mér leiðbeiningar.

Kristfinnur Guðjónsson ljósmyndari. s.m.

Kristfinnur Guðjónsson ljósmyndari. s.m.

Þá fór ég til Kristfinns. Hann tók mér opnum örmum og svaraði öllum spurningum mínum, þó með einu skilyrði í upphafi. Hann gaf mér ma. einnig  efni til framköllunar í byrjun ferilsins.

Hann sagði mér að ákveðnir einstaklingar (í hópi áðurnefndra „ljósmyndara“) væru að taka ljósmyndir fyrir fólk, í samkeppni við sig. Slíkt væri ólöglegt, þar sem ljósmyndun fyrir gjald væri ólöglegt (undanþegið þó fréttaljósmyndir)
Og þessir menn væru að gera hann sem löggildan ljósmyndara erfitt fyrir vegna minnkandi tekna, af þeirra völdum.

Skilyrðið var; að ég færi ekki út í það að taka ljósmyndir „fyrir fólk úti í bæ“

Þessu var auðlofað og stóð ég við það, þar til hann sjálfur sagði mér sér væri sama þó ég færi að taka myndir fyrir fólk, þegar hann lokaði ljósmyndastofu sinni og hætti starfsemi árið 1961.

Þá leysti hann mig frá loforðinu, en minnti mig þó á að ef einhver annar löggildur ljósmyndari tæki til starfa á Siglufirði, þá yrði ég að taka tillit til þess aðila.

Ekki skorti eftirsókn, þegar ég byrjaði að taka við beiðnum, sem ég hafði áður hafnað, passamyndum, fjölskyldumyndum og fleira og hafði góðar tekjur af, þrátt fyrr að taka ekki nema um 50 % minna fyrir en hinir áhugaljósmyndararnir höfðu gert, var mér sagt.

Ég man aldrei eftir Kristfinni öðruvísi en brosmildum og ljúfum manni og allir sem um hann töluðu í mín eyru voru mér að mestu sammála.

Eitt sinn, eftir að ég heimsótti Kristfinn, þá var hann kominn á Sjúkrahús Siglufjarðar, spurði ég hann hvað hann ætlaði að gera við ljósmyndasafnið sitt, það er glerplötur og filmur.

Hann hafði á því augnabliki ekki hugleitt það. Ég spurði hann í framhaldi hvort hann væri til í að selja mér það, þar sem ég var á þeim tíma kominn á fullt með að safna öllum gömlum ljósmyndum sem ég komst yfir.

Áður en hann svaraði, hugsaði hann sig um 2-3 mínútur, án þess að segja neitt á meðan.
En sagði svo, að áður en hann gæti svarað spurningu minni, þá yrði hann að vita hvort sonur hans Örlygur, sem þá var í Myndlistaskólanum í Reykjavík, hefði áhuga á því að hagnýta sér safnið. Það þótti mér eðlilegt og talið barst að öðru.

Það var svo árið 1974 er Kristfinnur var látinn, að kona hans Jóna Stefánsdóttir og sonur, Örlygur boðuðu mig á sinn fund á heimili þeirra við Eyrargötu 11. Þar fékk ég að vita að Kristfinnur hefði bent á mig hvað plötu og filmusafnið varðaði.
Og spurt var hvað ég gæti hugsað mér að borga fyrir filmusafnið. Þau væru að kaupa íbúð í Reykjavík og vantaði viðbót til útborgunar.

Ég hugsaði mig um smá stund og gaf upp ákveðna verðhugmynd, sem ég taldi að yrði mögulega sanngjörn. Þau fóru afsíðis og komu svo til baka með gagntilboð sem var tvöfalt hærra en ég hafði nefnt.
Ég átti þessa upphæð tiltæka og gekk að gagntilboðinu og safnið var mitt.

Eitthvað á þessa leið gekk þetta til og eftir á hyggja var það alls ekki ósanngjarnt hvað mig varðaði, þar sem safnið í dag í eigu og vel varðveitt hjá Síldarminjasafnsinu á Siglufirði, er ómetanlegt.
---------------------------------------------------------------------

Hluti af eftirfarandi er fengið ögn stytt, úr bókinni Ljósmyndarar á Íslandi: Inga Lára Baldvinsdóttir 2001. (Guðný)

Æviágrip:

Kristfinnur Guðjónsson var fæddur á Ási á Þelamörk, Glæsibæjarhreppi, Eyjafirði, 27. nóv. 1896 d. á Siglufirði 19. mars 1974.

Faðir: Guðjón Einar Manassesson, bóndi á Ási, í Fornhaga og á Ytri-Reistará, Arnarneshr., Eyjafirði, síðar afgreiðslumaður og blaðasali á Akureyri, f. 3. okt. 1864, d. 12. sept. 1941. Foreldrar: Manasses Manassesson, bóndi á Ási, Arnarneshr., Eyjaf. og kona hans Guðrún Guðjónsdóttir húsfreyja.

Móðir: Rósa Kristjánsdóttir húsfreyja, f. 21. jan. 1865, d. 15. mars 1955. For: Kristján Kristjánsson, bóndi á Hamri, Arnarneshreppi. Eyjafirði og kona hans Guðfinna Jónsdóttir húsfreyja.

Nám:  Kristfinnur lærði ljósmyndun á ljósmyndstofu Jóns og Vigfúsar á Akureyri upp úr 1930. Sveinsbréf 1946. Meistarabréf 1949.

Störf: Kristfinnur var bóndi á Kúskerpi í Blönduhlíð, Akrahreppi Skagafirði 1920-1921.
Í húsmennsku á Fossi á Skaga, Skefilsstaðahreppi. Skagafirði 1921-1922.
Barnakennari á Akureyri, Rak eigin skóla.
Ljósmyndari á ljósmyndastofu Jóns og Vigfúsar í mörg ár frá um 1930-1944.
Rak síðar útibú frá ljósmyndastofu Jóns og Vigfúsar á Siglufirði sumrin 1934-1944, en hafði vetursetu á Akureyri.

Kristfinnur var duglegur að auglýsa þjónustu sína allt frá upphafi og átti einnig margar fréttamyndir í blöðum, samber í Morgunblaðinu, Tímanum og fleiri blöðum og tímaritum. og auðvitað Siglufjarðarblöðunum: Skoðið hérna

Kristfinnur setti á fót eigin ljósmyndastofu; Ljósmyndastofu Siglufjarðar 1944 og rak hana til 1961. Stundaði eftir það almenna verkamannavinnu.

Plötu- og filmusafn: Safnið var selt Steingrími Kristinssyni á Siglufirði árið 1974.-
Plötu og filmusafn Kristfinns, ásamt safni Steingríms, þá í eigu fyrirtækisins SKSigló ehf. sem var í eigu Rauðku hf. 60% (Róbert Guðfinnsson) og Steingríms 40% gáfu Síldarminjasafninu allt Ljósmyndasafn Siglufjarðar ásamt meðfylgjandi, árið 2016.

Maki Kristfinns; : 2. nóv. 1918
Kristín Gísladóttir, iðnverkakona á Akureyri, f. 30. nóv 1892, d. 12. sept. 1975. Þau skildu. For.: Gísli Jónasson, bóndi á Þorljótsstöðum í Vesturdal, Skagafirði og f.k.h. Pálína Davíðsdóttir húsfreyja.

Börn þeirra: 1. Steindór Valberg, rafvirkjameistari á Akureyri f. 19. júní 1921, 2. Pálína Rósa, f. 4. nóv. 1923 húsfreyja í Englandi. 3. Sigurbjörg húsfreyja í Reykjavík f. 8. jan. 1926.

Maki II: 21. des. 1949
Jóna Guðbjörg Stefánsdóttir, húsfreyja og verkakona á Siglufirði, síðar á Akureyri og Reykjavík, f. 23. maí 1927. For.: Stefán Aðalsteinsson, bóndi á Sigríðarstöðum og í Sigríðarstaðakoti í Fljótum, Haganeshreppi., Skagafirði, síðar verkamaður á Siglufirði, og k.h. Kristín Margrét Jósefsdóttir húsfreyja.

Sonur þeirra: Örlygur, f. 21. mars 1949, kennari, myndlistarmaður og safnstjóri á Siglufirði.

--------------------------------------------------------------------

Neisti - 13. júní 1974

Kristfinnur Guðjónsson Fæddur 27. nóv. 1896 Dáinn 19. mars 1974

Kristfinnur Guðjónsson var kominn á efri ár er við fyrst kynntumst. Ég get sagt með sanni, að ég hefði gjarnan viljað að það hefði verið fyrr að þessi kynni hófust. Síðan hefur Kristfinnur verið í huga mér sem einn af þeim meiri persónuleikum er ég hef átt samleið með. Hann var rólegur og prúður í allri umgengni, og það sem hann sagði var ígrundað vel. Ég leit á hann sem spakan mann, sem alltaf var að boða eitthvað nýtt og gott.

Hið góða og mannbætandi var honum ávallt efst í huga, en samt gat hann borið við léttri og gamansamri kímni. Kristfinnur var fjöllesinn maður og sem aðeins las það besta, sem hægt var að ná í á hverjum tíma og því til vitnis má nefna þær fjölmörgu góðu bækur, sem alltaf voru á borðinu við sjúkrarúm hans.

Aldrei heyrðist Kristfinnur segja styggðaryrði til nokkurs manns, og því var honum gott til vina og menn virtu hann og dáðu og þeir mest, sem best þekktu hann. Síðustu fimm árin dvaldist Kristfinnur að mestu leyti á Sjúkrahúsi Sigluf jarðar. Ég heimsótti Kristfinn oft að sjúkrarúmi hans og fór aftur glaðari og betri en ég kom.

Þá var líka hægt að kynnast af hve mikilli alúð og hlýhug konan hans Jóna Stefánsdóttir hlynnti að honum. Þetta eru aðeins fá minningarorð um mætan mann. En minninguna um hann mun ég ávallt geyma. Ég þakka þér kynnin, Kristfinnur. Eiginkonu Kristfinns Guðjónssonar, syni og fósturdóttur  æri ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Jóh. G. Möller
--------------------------------------------------------------

Norðurland - 27. apríl 1979   - timarit.is - 

Novu deilan á Akureyri árið 1933 – Þar minnst á Kristfinn Guðjónsson

Steingrímur Eggertsson sýslumaður: Gamlar minningar úr stéttabaráttunni á Akureyri.

Skemmtileg frásögn að mestu um  Novu deiluna á Akureyri árið 1933, þar sem bardagahugur var í mönnum, og meir að segja Siglfirðingar (kommar) gerðu sér ferð til Akureyrar til að taka þátt í að hindra uppskipun úr flutningaskipinu Nova. Hér með eru nokkrar merkar heimildir sem tengdar ljósmyndaranum okkar Kristfinni Guðjónssyni, og „týndum“ ljósmyndum hans.

Myndir sem sennilega eru á meðal hans fyrstu, sem og birtar opinberlega, ÁN ÞESS AÐ NAFN HANS VÆRI GETIÐ, eins og því miður oft gerist enn, að frásagnir af sögulegum atburðum er birtar opinberlega með miklum stæl og heimildaflóði, en gleyma svo nafni þess sem gerði viðkomandi skrif enn merkilegri. Það  er nafni ljósmyndarans. Hér fyrir neðan frá ofannefndri grein er tilvitnun Steingríms Eggertssonar sýslumanns á Akureyri:

Ljósmyndarinn fundinn.

Það er svo skrítið, að einn af þeim snauðustu í rauðliðahópnum átti þá myndavél, vafalítið sú eina í þeirri sveit. Hann klifraði upp á stýrishús á einu skipinu í dokkinni og náði nokkrum myndum af átökunum, myndum sem sýna mjög vel ástandið á þeim augnablikum, þegar hann smellti af. Hann var heilsuveill, fyrrverandi berklasjúklingur, og hefði ekki verið fær um að fara í slaginn, þar sem mátti búast við öllu mögulegu.

En mér finnst hans hlutur ekki minnstur, því myndir eru alltaf bestu heimildir, sem hægt er að fá. En Jón Rafnsson, vinur minn, og heimildarmanneskja hans hér, láta ógert að segja frá hver tók myndirnar, þó sýnist mér yfirleitt alltaf í blöðum og bókum, að greint sé frá myndasmiðnum, en þarna er því sleppt.

Það var Kristfinnur Guðjónsson, sem tók þær myndir, sem til eru, af þessum átökum, og hans hlutur er góður og stór. Ég sé og þekki mörg andlitin á myndunum, andlit, sem nú eru horfin yfir móðuna miklu, flest öll í kirkjugarðinn á Akureyri……………………………………. 

Nefndar myndir eru hér fyri neðan <-> "slideshow" og ættartré.........

Ættartré frá Íslendingabók