Tengt Siglufirði
Mbl.is 13. janúar 1999 | Minningargreinar
Kristbjörg Reykdal, húsmóðir og verkakona, Bakkahlíð 39, áður til heimilis að Aðalstræti 10 (Berlín), Akureyri, fæddist á Akureyri 12. júní 1920.
Foreldrar hennar voru Trausti Reykdal, fiskmatsmaður á Akureyri, f. 7.8. 1888, d. 5.9. 1964, og Anna Tómasdóttir húsmóðir, f. 1.9. 1891, d. 10.7. 1970.
Systir Kristbjargar var Halldóra Reykdal, f. 5.11. 1916, d. 1998. Fósturbróðir Kristbjargar var Hallur Ólafsson, f. 3.10. 1931.
Kristbjörg giftist 23.9. 1942 Guðvarði Sigurberg Jónssyni
málarameistara, f. 23.11. 1916 á Bakka í Sléttuhlíð í Skagafirði, d. 22.12. 1996.
Börn þeirra eru:
Kristbjörg átti 23 barnabörn og 25 barnabarnabörn.
Útför Kristbjargar fór fram í kyrrþey.
-------------------------------------------------------------------
13. janúar 1999 | Minningargrein
Kristbjörg Reykdal Það er svo
skrítið að hugsa til þess, að hún amma sé horfin og að ég sjái hana aldrei aftur. Minningarnar flæða um höfuð mér. Hún amma mín var mér eins og móðir,
en samt eins og amma, já, hún var mér eins og tvær manneskjur í einni.
Frá því að ég man fyrst eftir mér, var amma alltaf til staðar. Hún bjó svo stutt frá
okkur og það var nánast alla daga, að ég fór til ömmu. Stundum fór ég líka í sendiferðir fyrir hana, þannig að samskiptin voru mjög mikil þarna á milli.
Aldrei kom tímabil hjá mér sem unglingi, að ég vildi ekki fara til ömmu.
Það var bara eitt sem mér þótti erfitt, en það var þegar ég gisti eitt
sinn hjá ömmu og afa, um kvöldið fór ég í bíó, eftir bíóið fór ég svo beina leið heim, ég gat ekki hugsað mér það að amma þyrfti
að vaka eftir mér langt fram á nótt.
Hún vakti nefnilega eftir manni og gat aldrei farið að sofa fyrr en allir væru komnir í hús. Þannig var hún amma, hugsaði alltaf
fyrst og fremst um aðra.
Þegar svo foreldrar mínir og systkin flytja til Danmerkur 1982 og koma ekki aftur heim fyrr en 1987 þá var hún amma mín mér sem móðir, ef eitthvað var að
gat ég alltaf leitað til hennar. Og fyrstu jólin mín og fjölskyldu minnar áttum við með ömmu og afa í Aðalstræti 10, síðan þegar fjölskyldan stækkaði voru þau
hjá okkur á aðfangadag, við eigum því mjög góðar minningar frá öllum þeim jólum sem við höfum átt saman.
Já, minningarnar um hana ömmu eru
góðar og ljúfar. Amma var nú hálfgerður prakkari í sér. Það er ýmislegt sem við og fleiri höfum brallað saman, bæði hérna, austur á fjörðum og
síðast en ekki síst í Danmörku. Þar var nú oft glatt á hjalla.
Ég á mikið eftir að sakna allra stundanna sem ég átti með ömmu minni og afa, sem lést
fyrir rúmum tveimur árum. Nú veit ég þó að hún amma hefur hitt hann afa og nú líður þeim báðum vel.
Harpa.