Konráð Kristinn Konráðsson

Mbl.is  6. nóvember 1999 | Minningargreinar | 182 orð

Konráð Konráðsson fæddist á Tjörnum í Sléttuhlíð 27. desember 1904. Hann lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 29. október síðastliðinn.
Foreldrar hans voru Anna Pétursdóttir, f. 12. desember 1866, d. 8. desember 1958, og Konráð Karl Kristinsson, f. 17. janúar 1854, d. 30. mars 1945.

Konráð var einn sex systkina sem komust til fullorðinsára. Konráð fluttist til Siglufjarðar um 1926 og giftist 31. desember 1935, Pálínu Önnu Ingimarsdóttur, f. 27. mars 1912, d. 30. nóvember 1998.

Konráð Konráðsson

Konráð Konráðsson

Þau eignuðust fimm börn,

  1. Óskar Jón Konráðsson, f. 6. ágúst 1935, maki hans er Stefanía Eyjólfsdóttir,
    börn þeirra:
  • Sonja Guðrún,
  • Erla Konný og
  • Óskar Páll,
    Óskar Jón á eina dóttur,
  • Jóhönnu Maríu, af fyrra sambandi. 
2) Kristinn Björn Konráðsson, f. 16. janúar 1940, maki hans er Kristín Þorgeirsdóttir.
Börn þeirra:
  • Anna, Pálína og
  • Margrét.

3) Sigurður, f. 2. júní 1943, maki hans er Dagbjört Jónsdóttir.
Börn þeirra:
  • Konráð Jón,
  • Auður og
  • Ásþór.

4) Margrét Anna, f. 21. september 1945.
5) Guðmundur Gísli, f. 19. desember 1953, d. 6. desember 1985.

Konráð bjó á Siglufirði til æviloka. Útför Konráðs fer fram frá Siglufjarðarkirkju 6. nóvember nk. og hefst athöfnin kl. 11.
----------------------------------------------------------------------

6. nóvember 1999 | Minningargrein

Konráð Kristinn Konráðsson

Elsku afi. Það er með eftirsjá, en þó mikilli ánægju og þakklæti sem ég kveð þig í dag. Þú varst áreiðanlegur og sterkur persónuleiki og markaðir djúp spor í mín uppeldisár. Ég bar ómælda virðingu fyrir þér og ömmu og ég vissi að það sem þú mæltir voru lög. Þó að ég hafi líklega ekki talist sérstaklega hlýðið barn datt mér ekki annað í hug en að hlýða þér í einu og öllu. Ég minnist þess þó aldrei að þú hafir hastað á mig.

Þær voru ófáar heimsóknirnar til þín niður á bryggju eða heim til ykkar ömmu sem urðu stór hluti af mínu daglega lífi langt fram eftir aldri. Ég naut þeirra sérstöku forréttinda að fá að fara með þér oft á sjóinn. Það var alltaf viss tilhlökkun og spenningur þegar við fórum saman út á fjörð að vitja um silungs- og kolanetin, það var alltaf eitthvað að hafa, því þú varst með eindæmum fiskinn.

Með þér fer stór hluti af því sérstaka og dugmikla samfélagi sem varð til við Hafnargötuna og Laugaveginn. Ég sem barn og síðan unglingur heillaðist af þessari sérstöku veröld sem sjórinn og skúrarnir á bryggjunni mótuðu. Ég heyrði snemma orðatiltækin "þeir vakna á bökkunum", "amma" með sérstakri áherslu, eða þá "það vildi ég bara að þeir dræp'ann" og fleiri ógleymanleg orðatiltæki sem þið létuð flakka á milli ykkar félaganna. Þú varst mikill handverksmaður og nýttir það vel við smíði á húsum og fjöldann allan af bátum sem voru stolt þitt.

Þær eru ófáar vísurnar, sem eftir þig liggja, sem við höldum hátt á lofti því þær minna okkur á þessa sérstöku tíma. Það er ekki hægt að minnast afa án þess að nefna hversu stríðinn hann var, þver og með ríkulegt skopskyn. Allir þessir persónutöfrar þínir blönduðust svo ógleymanlega saman. Þegar við skírðum strákana okkar Tandra Má og Darra Stein varstu ekki sáttur við þessi óvenjulegu nöfn.

Iðulega þegar ég kom til þín sagðir þú: "Konni minn, þau eru ekki vel góð nöfnin á drengjunum þínum." Þú leystir þetta á þinn sérstaka máta með því að kalla þá ætíð Má og Sakkarías. Það var ekki annað hægt en að láta sér þykja vænt um það þegar þú kallaðir á þá með þessum nöfnum, því það gerðir þú á þinn blíða máta og með sérstakan glampa í augum.

Þið voruð svo einstaklega heppin að eiga hvort annað, þú og amma, því hjónaband ykkar var einstakt og vinskapurinn á milli ykkar ógleymanlegur. Það er ekki hægt að tala um elsku afa án þess að nefna ömmu í sama orðinu, svo samstiga voruð þið.

Þótt oft hafi líklega verið þröngt í búinu á Hafnargötunni varð maður þess aldrei var því þú einsettir þér að alltaf skyldi vera til nóg að bíta og brenna. Þú lést okkur barnabörnin njóta þess ríkulega þegar þú aflaðir vel og leyfðir okkur ávallt að gleðjast með ykkur ömmu þegar þannig áraði.

Amma sagði alltaf að hún mundi fara á undan "gamlingjanum " eins og hún kallaði þig alltaf en að þú kæmir til hennar stuttu á eftir. Þannig fór það líka. Þið voruð bæði södd lífdaga. Búin að skila ykkar og sátt við að kveðja.

Elsku afi, nú ertu kominn til Guðmundar þíns og ömmu. Við kveðjum þig full þakklætis og biðjum góðan Guð að geyma þig.

Þinn Konráð Sigurðsson (Konni) 
-------------------------------------------------------------------

6. nóvember 1999 | Minningargreinar | 549 orð

Konráð Kristinn Konráðsson

Nú hefur Konni afi minn kvatt okkur og langar mig til að minnast hans. Afi á Sigló eins og ég kallaði hann hefði orðið 95 ára nú í desember. Á mínum bernskuárum dvaldi ég á sumrin hjá honum og ömmu á Hafnargötunni á Siglufirði og var það ánægjulegasti tími hvers sumars, enda var ávallt tekið vel á móti gestum er bar þar að garði. Afa og ömmu kom einstaklega vel saman og þau sýndu hvort öðru mikla væntumþykju og virðingu.

Sjómennskan var stór þáttur í lífi afa. Eins og sönnum sjómanni sæmir var hann árrisull og fór alltaf á fætur kl. 5 á morgnana og þótti þá nóg um þegar hann var í landi og mætti í morgunkaffið kl. 9 og sá að borgardrengurinn var enn sofandi. Hann átti þá til að toga sængina af mér og fá mig með þeim hætti á fætur.

Fátt var meira gaman en að fara með afa út á fjörð á aflafleyinu Óðni til að veiða á handfæri þorsk og ýsu eða vitja kola- eða silungsneta. Í minningunni er eins og alltaf hafi verið góð veiði og fengu margir í soðið af aflanum. En sjálfum fannst mér mun ánægjulegra að slægja eða veiða fisk heldur en að hafa hann í matinn.

Mörgum stundum vörðum við afi saman niðri í skúr eða á bryggjunni. Þar sem unnið var við netin og verkun fisks. Stundum vorum við komnir í bryggjusmíði og aðrar lagfæringar. Við þá vinnu áttum við margar góðar stundir í afslöppuðu umhverfi Siglufjarðar. Afi var afar duglegur og mjög handlaginn og hann smíðaði að mestu sjálfur hús fjölskyldunnar á Hafnargötunni þar sem stór hluti ættmenna hefur dvalið.

Auk þess smíðaði hann báta sína bæði Óðin og litlu julluna. Smám saman vék hans tilvera fyrir nýjum tímum og nú eru bátarnir og bryggjan við skúrinn horfin. Þótt afi tæki aldrei formlegt sumarfrí gaf hann sér alltaf tíma til að heimsækja fornar slóðir að Tjörnum. Var þá gjarnan reynt að fara til berja í leiðinni. Ógleymanlegar eru allar þær ánægjulegu samverustundir sem við afi áttum. Stutt var í góðlátlega stríðni hans og oft fékk ég að heyra nokkrar vel valdar vísur.

Afi var einstaklega hjálpsamur og barngóður. Hann fylgdist af áhuga og stolti með börnum sínum og öðrum niðjum, en í dag á hann fjölmörg barnabörn og barnabarnabörn. Öll eigum við eftir að sakna hans. Á nútímamælikvarða hefði afi ekki talist liðtækur í heimilisstörfunum enda gamla verkaskiptingin þar í öndvegi. Hann lét því ömmu um heimilið og eins og við hin kunni hann vel að meta bakstur hennar og matseld.

Ég held að afi hafi verið mjög ánægður með líf sitt. Mjög þungbært var þó honum að missa yngsta son þeirra ömmu, Guðmund, en Gummi lést eftir langvinn veikindi langt fyrir aldur fram. Ömmu, lífsförunaut sinn yfir nærri 65 ár, missti afi í nóvember fyrir tæpu ári. Síðustu árin voru þau bæði á Sjúkrahúsi Siglufjarðar og þakka ég starfsfólki sjúkrahússins fyrir sitt góða starf. Síðan amma fór hrakaði heilsu afa hratt, enda er þetta síðasta ár búið að vera honum erfitt.

Ég sendi öllum vinum og ættingjum hans Konna afa míns samúðaróskir mínar. Óska ég þess að nú hafi afi og amma sameinast á ný. Minninguna um afa og ömmu á Sigló mun ég alltaf varðveita.

Óskar Páll Óskarsson 
--------------------------------------------------------

6. nóvember 1999 | Minningargrein

Konráð Kristinn Konráðsson

Afi Konni hefur kvatt þennan heim saddur lífdaga og fer nú til móts vð ömmu Pöllu sem lést fyrir 11 mánuðum, og Guðmund son sinn sem lést langt um aldur fram. Þegar amma dó varð afi afskaplega einmana, lífsförunautur hans til svo margra ára hafði kvatt þennan heim og biðin eftir endurfundum varð styttri en nokkurn grunaði.

Afi Konni var svo ljúfur maður og góður. Á yngri árum kom maður oft við hjá honum í skúrnum niðri á bryggju til að næla sér í harðfisk og voru móttökurnar ætíð góðar. Í litla húsinu á Hafnargötunni bjuggu þau amma og afi allan sinn búskap og alltaf var gott að koma í heimsókn til þeirra, sitja hjá þeim og spjalla og svo hafði afi einstakt lag á ömmu þar sem hann spurði hana oft og mörgum sinnum hvort hún ætti ekki eitthvað að gefa okkur í gogginn.

Aldrei máttum við fara án þess að smakka eitthvert góðgæti. Hann afi Konni kenndi mér að borða skyr með mjög sérstökum hætti. Ég sé þetta ljóslifandi fyrir mér, afi situr við eldhúsborðið og sýnir hvernig á að bera sig að. Stíflugerð var hin mesta kúnst, einkum þegar minnka tók í skálinni. Þetta þótti mér dálítið skrýtið því fullorðna fólkið brýndi fyrir manni að maður mátti alls ekki leika sér með matinn. En afi gerði það nú samt.

Afi var hinn mesti hagyrðingur og liggja eftir hann fjölmargar vísur sem bera vott um hans miklu kímnigáfu. Ég þakka fyrir það í dag að pabbi minn tók sig til fyrir stuttu og bað afa um að lesa vísur sínar inn á segulband.

Margar góðar minningar á ég um hann afa og ég er þakklát fyrir að strákarnir mínir fengu að hitta hann og þeir munu ætíð minnast langafa Konna á Sigló.

Megi minning um ljúfan afa lifa.

Auður 
---------------------------------------------------------

Mbl.is  6. nóvember 1999 | Minningargrein

Konráð Kristinn Konráðsson

Í fáeinum orðum langar okkur systurnar að minnast ástkærs afa okkar. Afi var einstakur að öllu leyti, glaðvær og hjartahlýr. Ekki var hægt að hugsa sér betri afa.

Konni afi var á 95. aldursári og skilaði ævistarfi sínu með sóma. Hann kvaddi sína heittelskuðu eiginkonu, Pöllu-ömmu, fyrir 11 mánuðum og hefur nú fundið hana og Gumma son þeirra fyrir handan.

Afi og amma voru kærleiksrík hjón. Í gegnum lífið studdu þau hvort annað og styrktust við hverja raun. Það var yndislegt að horfa á þau saman og sjá hversu hamingjusöm og samheldin þau voru. Afi þurfti ekki annað en að segja "Palla mín..." þá vissi hún hvað hann vildi. Þeim varð fimm barna auðið og niðjar þeirra eru nú hátt á þriðja tug.

Við eigum okkar björtustu bernskuminningar frá heimsóknum okkar til ykkar Pöllu-ömmu á Sigló. Ávallt tóku þið á móti okkur opnum örmum. Við minnumst ótakmarkaðrar þolinmæði þinnar og glaðværðar.

Eftirminnilegt er hversu stoltur þú kynntir litlu stúlkunum þínum úr Reykjavík þitt ævistarf. Við eigum margar góðar minningar um veiðiferðir með afa á trillunni hans. Hann fór með okkur út á sjó, ýmist til að vitja um net, leggja þau eða að renna fyrir fisk. Hann kenndi okkur að trúa á okkur sjálfar. Við gætum þetta! Oft gengu tvær stoltar stúlkur við hönd afa heim á Hafnargötuna með afla veiðiferðarinnar.

Elsku Magga, aðrir ættingjar og vinir, við biðjum Guð að styðja okkur í að varðveita minninguna um afa og ömmu. Góða ferð, elsku afi. Guð blessi þig, Konni afi.

Sonja og Erla Konný