Margrét E. Björnsdóttir

Mbl.is 1. september 2017 | Minningargrein

Margrét Björnsdóttir fæddist á Siglufirði 16. apríl 1933. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar 22. ágúst 2017.

Foreldrar Margrétar voru hjónin Björn Olsen Björnsson, verkamaður á Siglufirði, f. 11. september 1903, d. 29. maí 1976, og kona hans Konkordía Ingimarsdóttir húsmóðir, f. 14. júní 1905, d. 6. ágúst 1987.

Systkini Margrétar:

Margrét giftist 16.11. 1973 eiginmaður hennae var Hjörtur Karlsson loftskeytamaður á Siglufjarðarradíó, f. 13.4. 1926 á Siglufirði.
Foreldrar hans voru hjónin Karl Sturlaugsson húsasmíðameistari, f. 27.4. 1886, d. 8.2. 1948, og Herdís Hjartardóttir, f. 15.8. 1894, d. 26.12. 1987.

Margrét Björnsdóttir, með son sinn Sveinn Hjartarson - Ljósmynd Hjörtur Karlsson

Margrét Björnsdóttir, með son sinn Sveinn Hjartarson - Ljósmynd Hjörtur Karlsson

Börn Margrétar og Hjartar eru:

  • Íris Gunnarsdóttir, f. 7.1. 1965, og
  • Sveinn Hjartarson, f. 18.7. 1972.

Margrét var fædd og uppalin á Siglufirði og bjó þar allt sitt líf. Hún var gagnfræðingur frá Gagnfræðaskóla Siglufjarðar 1949 og stundaði nám við Húsmæðraskólann í Reykjavík 1959-60. Margrét var „ein af stelpunum á Stöðinni“ og hóf störf hjá Pósti og síma árið 1956. Hún starfaði sem talsímavörður til ársins 1987, er hún hóf störf á pósthúsinu á Siglufirði.

Hún lét af störfum árið 1999 og hafði þá starfað hjá Pósti og síma í yfir 40 ár. Margrét var virk í félags- og sjálfboðaliðastörfum á Siglufirði. Hún gekk í Kvenfélag Siglufjarðar ung að árum og gegndi fjölda embætta og var í stjórnum margra félaga á Siglufirði í tugi ára.

Útför Margrétar fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 1. september 2017, og hefst athöfnin klukkan 17.

Jæja, mín kæra. Nú er þetta búið og leiðir okkar skilja um tíma, en við munum hittast á betri stað. Við höfum átt margar góðar stundir öll þessi ár. Þú varst iðin við að bjóða mér á Hangikjötsfundina hjá Kvenfélaginu Von. Þar nutum við okkar. Við fórum líka tvisvar í bíó í Bláa húsinu. Eftir seinna bíóið var Björn Jörundur með tónleika í Rauða húsinu og við þangað.

Drengurinn ætlaði aldrei að byrja og þegar hann kom til okkar báðum við hann að fara nú að syngja og hann gerði það, en þegar við fórum þá segir hann yfir alla: Jæja, nú eru gömlu konurnar að fara heim. Gréta, við vorum að springa úr hlátri þegar Íris kom og sótti okkur. Svona var oft gaman hjá okkur og á ég margar góðar minningar.

Síðast þegar farið var í Stykkishólm þá vorum við saman í herbergi. Þá var nú mikið spjallað og hlegið. Gréta mín. Ég man allt sem við ræddum á sjúkrahúsinu og mun ég gera allt sem ég get. Gréta mín, ég veit að það verður tekið vel á móti þér. Ég bið góðan Guð að varðveita börnin þín og hjálpa þeim í gegnum lífið.

Þín frænka, Steinfríður Ólafsdóttir.