Tengt Siglufirði
Mbl.is 12. október 2011 | Minningargreinar
Kolbrún Pálsdóttir (Hjaltason) fæddist á Siglufirði 10. apríl 1932. Hún lézt á sjúkrahúsi í Campbelltown, NSW, Ástralíu, 1. apríl 2011.
Móðir Kolbrúnar var Guðrún Sveinsdóttir f. 18.12. 1907, d. 18.9. 1964.
Dætur Guðrúnar:
Eftirlifandi eiginmaður Kolbrúnar er Einar Hjaltason f. 13.12. 1928.
Börn
Kolbrúnar og Einars eru:
Kolla ólst upp með systkinum sínum hjá fósturforeldrum móður sinnar á Siglufirði, Friðrikku Þorsteinsdóttur og Jóni Jónassyni, sem þau kölluðu ömmu og afa. Guðrúnu Sveinsdóttur, Hallgrímssonar frá Skeiði í Svarfaðardal, móður þeirra hafði verið komið nokkurra vikna gamalli í fóstur til þeirra í Haganesvík í Fljótum. Kolla og Einar bjuggu í Keflavík til 1969. Eftir það í Ástralíu.
Kolbrún móðursystir mín lézt 1. apríl sl. í Ástralíu. Dánarmein hennar hennar var krabbamein. Við ræddumst oft við í síma, síðast daginn áður en hún dó. Æðruleysi hennar og glaðværð var óbugað. Þau Einar bjuggu ung með sex börn sín í litlu húsi á Bergi í Keflavík. Þar var alltaf nóg pláss fyrir gesti að norðan.
Þótt Kolla byggi við kröpp kjör var hún gjafmild og rausnarleg. En væru gjafir hennar góðar var hún sjálf bezta gjöfin. Hún var falleg, skemmtileg, hláturmild og gáfuð, jafnt til munns og handa. Sennilega var hún líkust móður sinni, Guðrúnu Sveinsdóttur frá Siglufirði, af börnum hennar. Báðar höfðu mikla frásagnargáfu og gátu verið drepfyndnar.
Kolla var eins og amma dökk á brún og brá og fegurðin framandleg. Hún bar nafn með rentu. Samtímis var hún ljós sem alla gladdi. Allir leituðu til hennar. Hún var uppáhald. Fyrir fimmtán árum gerðist ég læknir aldraðra sómahjóna, Guðrúnar og Vals Skowronsky's, en einmitt hjá þeim hafði Kolla unnið á Keflavíkurflugvelli: „Kolla er fallegasta og bezta stúlka sem nokkru sinni vann hjá okkur.“
Haustið 1969 fluttu Kolla og Einar með ung börn sín til Ástralíu, en þá gengu miklar þrengingar yfir Ísland í kjölfar síldarhrunsins. Þar hafa þau átt heima síðan, börn þeirra og barnabörn. Kolla var sterk sem eik og hélt stórri fjölskyldunni saman í gleði og sorg. Allt í senn móðir og vinur. Hún var landi okkar til mikils sóma.
Brynja móðir mín og Lína móðursystir kveðja yndislega systur sína og þakka fyrir allt. Gunnar bróðir átti athvarf hjá Kollu í Keflavík þegar hann fjögurra ára gamall var sendur í Málleysingjaskólann í Reykjavík. Það var dýrmætt. Við ættingjar hér heima sendum Einari eftirlifandi eiginmanni Kollu, Siddý dóttur hennar í Reykjavík, og frændsystkinum okkar í Ástralíu innilegar samúðarkveðjur. Guð blessi minningu Kollu frænku.
Jóhann Tómasson.