Kjartan Kjartansson

mbl.is   26. október 1993 | Minningargrein

Kjartan Kjartansson Kveðja og minning frá skólasystkinum árgangi 1934 frá Siglufirði.

Í dag, þriðjudaginn 26. október 1993, verður Kjartan Kjartansson frá Siglufirði jarðsunginn frá Garðakirkju.

Hann lést á heimili sínu í Garðabæ aðfaranótt 17. október. Kjartan fæddist á Siglufirði 28. mars 1934 sonur hjónanna Rósa G Halldórsdóttir frá Bjarnargili í Fljótum, f. 15. janúar 1894, d. 6. janúar 1984, og Kjartans Stefánssonar frá Móskógum í Fljótum, f. 25. desember 1891, d. 30. apríl 1934.

Eldri bróðir Kjartans var

  • Friðrik Kjartansson, búsettur á Akureyri, lést 1988, og starfaði þar lengi sem leigubifreiðastjóri.

  • Hálfsystir Kjartans er Stella Clara (Thorarensen), sem búsett hefur verið í Kanada frá 1969.
Kjartan Kjartansson

Kjartan Kjartansson

Kjartan lauk venjulegu skólanámi á Siglufirði, s.s. barna- og gagnfræðaskóla, eftir það fór hann í Verslunarskólann í Reykjavík og lauk þaðan verslunarprófi. Hann var stuttan tíma til sjós, vann eitt ár í Noregi en meginhluta starfsævinnar vann hann við verslunarstörf og frá 1965 við fjölskyldufyrirtæki sitt Kj. Kjartansson, sem sérhæft hefur sig í innflutningi og sölu á efnum og tækjum til tannlækna.

Eins og að ofan greinir var Kjartan rétt mánaðargamall er faðir hans lést. Það varð því hlutskipti Rósu einnar að ala upp synina tvo og síðan dótturina. Það gerði hún með miklum dugnaði og elju og vann myrkranna á milli við verslunarstörf, fyrst í söluturni og síðan stýrði hún mjólkurbúð staðarins í mörg ár. Kjartan var viðkvæmur er hann minntist móður sinnar og þess afreks hennar að halda heimili fyrir sig og börnin öll þessi ár.

Upp úr 1960 kynntist hann konu sinni, Hallfríði Guðnadóttur, f. 11. desember 1936 á Rútstöðum í Gaulverjabæ. Hallfríður ólst að mestu upp á Selfossi. Þau hófu búskap 1962 og eignuðust þrjú börn, en fyrir átti Hallfríður son sem Kjartan gekk í föðurstað.

Fyrir um 15 árum hittust nokkur bekkjarsystkini og endurnýjuðu gömlu skólakynnin að norðan. Eftir þetta varð ekki aftur snúið, því að þessi löngu liðna 10­12 ára samvera í skóla og leik hafði mótað okkur þannig að við fundum að við áttum svo ótalmargt sameiginlegt. Þar var ákveðið að hittast a.m.k. árlega, hvað við höfum gert, og stundum miklu oftar. Þá þegar varð Kjartan foringi í hópnum, því að engin stefna var tekin nema í samráði við hann og hans ágætu konu, sem féll inn í hópinn eins og ein af skólasystrunum.

Fríða og Kjartan urðu nokkurs konar samnefnarar hópsins og heimili þeirra stóð ætíð opið til funda og veisluhalda og þar var höfðinglega veitt. Fyrir þetta vill þessi samstillti hópur bekkjarfélaga og maka þeirra færa þér, Fríða, bestu og innilegustu þakkir fyrir þinn þátt í ánægju og gleðistundunum.

Kjartan var mikill Siglfirðingur og mikill vinur vina sinna. Hann var fyrir einnig þungur og illbifanlegur ef honum sýndist önnur leið betri en sú sem farin var.

Laugardaginn 9. október var hið árlega síldarball Siglfirðingafélagsins haldið í Félagsheimili Seltjarnarness. Þar voru þau Fríða og Kjartan og höfðu ekki hitt kunningjahópinn lengi, þar var mikið heilsað og kvatt, en engum gat dottið í hug að þetta væri síðasta kveðja Kjartans til svo margra, því að hann taldi sig vera allan að hressast vegna veikinda sem hann hafði átt við að stríða síðustu misseri.

Ágætu vinir og félagar, Hallfríður, Viðar, Halldór Sævar, Eygló Björk og Kjartan Haukur.
Okkar dýpsta samúð vegna hins skyndilega fráfalls Kjartans.

Við skólafélagar varðveitum um hann góðar og skemmtilegar minningar.

Bekkjarsystkin frá Siglufirði.