Friðleifur Jóhannsson útgerðarmaður

Einherji - 1967

Þann 8. júlí var jarðsunginn frá Siglufjarðarkirkju elsti borgari Sigluf jarðar, Friðleifur Jóhannsson.
Hann var Dalvíkingur að ætt og uppruna. Fæddur að Háagerði við Dalvík 15. ágúst 1873 og því tæpra 94 ára er hann lést. Dáinn. 1. júlí 1967

Foreldrar Friðleifs voru:
Kristín Friðleifsdóttir og Jóhann Jónsson, búandi hjón að Háagerði og var Friðleifur elstur fjögurra systkina. Uni uppvöxt sinn, nám og störf í heimahúsum segir Friðleifur þetta í afmælisviðtali er ég átti við hann níræðan: „Það voru engir barnaskólar þá.

Ég var tvær vikur á Böggvisstöðum, hjá þeim Baldvin og Þóru, en þau höfðu heimiliskennara, er hét Ólafur Jónsson, en' hann kenndi víða í Svarfaðardal þá í heimilis kennslu.  Þetta var veturinn 1886. Þá var ég 13 ára. Það var öll mín skólaganga. Ég var fermdur 1888. Það var nefnt ísavor. Aðal atvinnan var að beita línu og róa á árabát og fást við heyskap á sumrin, og ef ég eignaðist aura, keypti ég bækur, sem ég lærði margt af."

Já, þannig var þá uppvöxtur og skólaganga þessa síunga „vormanns Íslands", sem á löngum starfsdegi ævi sinnar reyndist sjálfum sér og öðrum hagsýnn, fyrirhyggjusamur og stjórnsamur svo af bar, og sýndi í verki, að hann hafði meira lært í skóla lífsins en margir þeir, er lengi hafa setið á skólabekk, og kunni að hagnýta sér það, sjálfum sér og öðrum til gagns. Árið 1891 gerðist Friðleifur fyrirvinna hjá móður sinni, er faðir hans lést snögglega. Sá hann um heimilið í 8 ár.

Árið 1899 kvæntist Friðleifur Sigríði Stefánsdóttur frá Hofsárkoti, og tók þá við búi af móður sinni. Árið 1927 fluttu þau Sigríður og Friðleifur til Siglufjarðar ásamt börnum sínum og hér áttu þau heima síðan. Sigríður er látin fyrir nokkrum árum. Þau eignuðust 9 börn, og eru nú 5 þeirra á lífi. Starfsdagur Friðleifs varð bæði langur og farsæll og mörg voru þau störf, er hann lagði gjörva hönd að.

Útgerðarmaður var hann í 48 ár. Sparisjóðsstjóri í 25 ár og fiskimatsmaður í 36 ár. Auk fjölda annarra trúnaðarstarfa, er á hann hlóðust, því að Friðleifur var mikill og hagsýnn félagshyggjumaður, reiðubúinn að leggja hverju því framfaramáli lið, er studdi hag fjöldans og byggðarlagsins. Þannig var hann einlægur samvinnumaður, og sjálfur sagði hann við mig í viðtali: „Ég er fæddur samvinnumaður. Byrjaði að versla í Kaupfélagi Eyfirðinga 1906, og síðar var ég í stjórn K.F.S. um mörg ár. Það ættu allir að vera kaupfélagsmenn".

Friðleifur fylgdi Framsóknarflokknum að málum frá stofnun hans og var þar jafn ötull baráttumaður sem og að hvaða málefnum er hann lagði lið. Og nú er starfinu hér lokið. Friðleifur Jóhannsson lagstur til hvíldar eftir langan og mikinn starfsdag. Við sveitungar hans þökkum liðinn dag og vel unnin störf, samfylgd og leiðsögn. Svarfaðardalur, Dalvik og Siglufjörður kveðja einn sinn besta „vormann".

Blessuð sé minning hans.
Jóhann Þorvaldsson.
-------------------------------------------------

Einherji -20.12.1963  
Friðleifur Jóhannsson  --  f. 15-08-1873  d. 01-07-1967

Vormaður Íslands níræður

Tvær vikur í skóla — Fékk 10 kr. gullpening fyrir gemling — Útgerðarmaður í 48 ár — Sparisjóðsstjóri í 25 ár — Fiskimatsmaður í 36 ár — Fæddur samvinnumaður — Framsóknarmaður frá? ! Viðtal við Friðleif Jóhannsson níræðan

Er það ekki rétt, að þú sért orðinn níræður, Friðleifur? —

Jú, og fjórum mánuðum betur. Fæddur 15. ágúst 1873, að Háagerði við Dalvík. Foreldrar mínir voru Kristín Friðleifsdóttir og Jóhann Jónsson, búandi hjón þar. Háagerði var þá 600 að jarðamati og hafði faðir minn smábú og sexæring, sem róið var á vor og haust Ég var elstur laf 4 systkinum.

Hvað er það fyrsta, sem þú manst eftir þér ?

Þegar ég var 4 ára, fæddist foreldrum mínum dóttir, sem lifði aðeins fáar vikur. Útlit og lögun svartrar líkkistunnar stendur mér enn ljóslifandi fyrir hug skotssjónum, og þá einnig hin djúpa sorg foreldra minna.

Tvær vikur í skóla
Hvað getur þú sagt um skólagöngu þína í æsku? —

Það voru engir barnaskólar þá. Ég var tvær vikur í skóla á Böggvistöðum hjá þeim Baldvin og Þóru, afa þínum og ömmu, en þau höfðu heimiliskennara, er hét Ólafur Jónsson, en hann kenndi víðar í Svarfaðardal. Þetta var veturinn 1886. Þá var ég 13 ára. Það var öll mín skólaganga.

Hvenær og hvernig eignaðist þú þína fyrstu fjármuni? —

Ég gleymi aldrei þegar ég eignaðist fyrstu aurana. Ég var þá 5 eða 6 ára. Ég var sendur út að Hóli. Þar var þá smiður er Þorsteinn hét. Hann var að byggja baðstofuna á Hóli, en hún stóð um 50 ár. Ég hafði gaman að að horfa á Þorstein smíða, og hann fór að tala við mig. Síðan rétti hann mér spegilfagran 25- eyring, en þeir voru fyrst gefnir út 1874.

Ég er fæddur í spesíum og dölum. Það var gjaldmiðillinn þá, og ég held fram til 1873 eða 4. Þegar ég hljóp heim hélt ég um aurana í vasa mínum og var alltaf að líta á þá. Þegar ég kom á stóran hól fyrir ofan Hól, tók ég upp peninginn og fór að prófa hörku hans við steininn, en missti hann niður í sprungu og fann hann ekki aftur, og þar er hann líklega enn. Þegar ég kom í Hól næst, sagði Þorsteinn við mig: "Það er ekki til neins að gefa þér peninga, þú kannt ekki að passa þá. Svo gaf hann mér litla bók".

Fékk 10 kr. gullpening fyrir gemling
Hvað segir þú mér um störf þín í heimahúsum? —

Ég var fermdur 1888. Það var nefnt ísavor. Þá var svo mikill ís langt fram á vor, að Baldvin á Böggvistöðum, sem hafði farið á sjó, líklega selaskyttirí, austur fyrir Gjögra, komst ekki heim í 7 vikur, en varð að bíða í Flatey. Aðalvinnan var að beita línu og róa á árabát, og fást við heyskap á sumrin, og ef ég eignaðist aura, keypti ég bækur, sem ég lærði margt af.

Er það rétt, að þú hafir ætlað í stýrimannaskólann?

Já, það er rétt. En margt fer öðruvísi en ætlað er. Sumarið 1891 áikvað ég að hleypa heimdraganum og vinna mér inn farareyri í stýrimannaskólann. Ég bað um skiprúm á skipi á Akureyri. Formaðurinn hét Þorleifur, og þekkti ég hann vel. Um haustið fór faðir minn á sauðfjármarkað að Hofi, með kindur. Ég átti einn gemling, sem faðir minn seldi, og fékk ég 10 kr. gullpening fyrir gemlinginn.

Þegar faðir minn kom heim veiktist hann. Enginn læknir var nær en á Akureyri Þangað fórum við á sexæring og sóttum lækninn. Hann hét Þorgrímur, en gat ekkert gert. Ég var sendur til Ólafsfjarðar að sækja fé. Þegar ég kom aftur, var faðir minn að dauða kominn. Ég fór að rúmi hans og hann sagði við mig, og það voru hans síðustu orð: „Nú verður þú að sjá um mömmu þína og börnin." Síðan lést faðir minn eftir 6 daga legu. Jóhann bróðir minn var þá 12 ára, Kristín systir mín 4 ára, og ég 18 ára. Ég sagði upp skiprúminu hjá Þorleifi, og fór að búa með móður minni, og var hjá henni í átta ár.

Útgerðarmaður í 48 ár
Hvenær festir þú ráð þitt og fórst að búa sjálfur?

Árið 1899 tók ég við búi af móður minni. Ég á enn alla uppskriftina af úttekt búsins. Þá kvæntist ég Sigríði Stefánsdóttur, frá Hofsárkoti í Svarfaðardal. Við eignuðumst 9 börn, og eru 6 þeirra enn á lífi. Sigríður lést fyrir nokkrum árum.

Bjóstu alltaf að Háagerði? —

Nei, 1911 flutti ég að Lækjarbakka, aðallega vegna þess að það var nær sjónum. Ég vann alltaf við róðra og fiskmóttöku í mörg ár og síðar við fiskimat.

Varst þú ekki lengi sparisjóðsstjóri þeirra. Dalvíkinga?

Jú, ég tók við honum 1902 og var við það þar til ég flutti til Siglufjarðar 1927. Sparisjóðurinn var stofnaður 1885.

Þú fékkst lengi við útgerð? —

Já, í 48 ár. Fyrst með árabáta, til 1906, en þá komu mótorbátarnir. Við vorum 4 ungir Dalvíkingar sem keyptum á Akureyri lítinn trillubát með vél. Hann var 2 eða 3 tonn, og áttum ekki 5 aura til að borga með. Fengum víxil 1400 kr. Fórum fyrsta róðurinn 23. júní, og öfluðum 60 skippund yfir sumarið, og borguðum allt upp um haustið, og seldum bátinn.

Keyptum annan bát, Trausta, sem var 8 tonn, en seldum hann til Ólafsfjarðar 1914. 1915 höfðum við engan bát. Þriðja bátinn keyptum við 1916. Hann hét Erlingur, var um 12 eða 14 tonn. Áttum við hann til 1933, en þá fékk ég síðasta bátinn, sem líka hét Erlingur.

Hvernig stóð á því að þú fluttir til Siglufjarðar 1927? —

Við vorum þrír sem áttum bátinn saman og gerðum hann út. Nú var hinn farinn að búa fram í sveit, annar heilsuveill og vildi hætta, og ég einn eftir og vantaði formann á bátinn.
Anna, dóttir mín, var þá heitbundin ungum manni frá Siglufirði, Birni Björnssyni, skipstjóra, nú fiskimatsmanni.
Ég bað hann að taka við bátnum, og hann sagðist skyldi gera það, ef við flyttum til Sigluf jarðar og gerðum út þaðan. Þar væri mikið betri höfn. Svo við fluttum Björn tók við bátnum.

Þú varst líka fiskimatsmaður? —

Já, um 32 ára skeið frá 1916—1952, og er nú á eftirlaunum, sem eru kr. 900 á mánuði, en voru 300 kr. fyrst. 

Fæddur samvinnumaður
Þú hefur verið kaupfélagsmaður um langan aldur? —

Já, ég er fæddur samvinnumaður. Byrjaði að versla í Kaupfélagi Eyfirðinga 1906, og síðar var ég í stjórn KFS um all mörg ár. Það ættu allir að vera kaupfélagsmenn. -

Þú hefur tekið mikinn þátt í stjórnmálum og kosningum? —

Já, það hef ég gert. Það hljóta allir að gera, sem hafa áhuga í þjóðmálum. Ég var nú samt orðinn 30 ára, er ég kaus fyrst. Það var 1903. Síðustu kosningar, sem fram fóru þannig, að kjósandinn nefndi nöfn þeirra manna, er hann kysi. Þá var kosið á einum stað í allri Eyjafjarðarsýslu, á Akureyri. Þrír voru í kjöri, en tvo átti að kjósa. Þeir voru í kjöri: Klemenz Jónsson Hannes Hafstein og Stefán Stefánsson, frá Fagraskógi.

Allir fylgdu sömu stefnu, Heimsstjórnarmenn. Það voru Siglfirðingar og Dalvíkingar, sem réðu úrslitum, og komu Hannesi að.
Við fórum 17 inneftir frá Dalvík, og einir 16 komu frá Siglufirði. Þar á meðal séra Bjarni Þorsteinsson. Klemenz fékk 363 atkvæði, Hannes 213 og Stefán 191. Það er spurning, hvort Hannes hefði orðið ráðherra, ef hann hefði ekki komist á þing 1903.

Hvernig stóð á því, að þú gerðist Framsóknarmaður og hvenær var það? —

Ég veit ekki hvenær það var, en það kom af sjálfu sér: Mér líkaði best stefna hans og störf, og þá ennfremur stuðningur hans við samvinnuhreyfinguna og fl. umbótamál. Já, þar í sveit átti ég best heima. Þannig fórust honum orð þessum sporlétta og síunga heiðursmanni, og ef sjónin væri ekki að mestu farin myndi hann standa framar flestum fimmtugum í dagsins önn og framförum.

Bestu afmælisóskir fylgja honum, og þökk fyrir mörg og góð störf. —

J. Þ.  
(Jóhann Þorvaldsson)