Sigríður Halldóra Guðmundsdóttir

Mjölnir - 07. apríl 1982

Sigríður Guðmundsdóttir f. 18. ágúst 1900 — d. 8. janúar 1982

Sigríður Guðmundsdóttir lést í Sjúkrahúsi Siglufjarðar þann 8. janúar 1982 og var jarðsungin frá Siglufjarðarkirkju 15.janúar.
Hún var fædd á Fallandsstöðum í Hrútafirði 18. ágúst árið 1900.

Foreldrar hennar voru Guðbjörg Þórðardóttir og Guðmundur Björnsson, vélsmiður, bæði ættuð úr Strandasýslu. Þegar hún var á öðru ári flytjast þau til Akureyrar og búa þar til ársins 1913, er þau flytjast til Siglufjarðar, og upp frá því er aðsetur fjölskyldunnar þar.

Þau Guðmundur og Guðbjörg eignuðust 5 börn,

  • María,
  • Sigríður Halldóra
  • Hallgrímur (dó í bernsku,)
  • Sigurður
  • Þórður.
    Eru þau nú öll látin.
    Auk þess átti Guðmundur son,
  • Karl Bergmann, viðskiptafræðing í Reykjavík, og lifir hann einn barna Guðmundar.
Sigríður Guðmundsdóttir

Sigríður Guðmundsdóttir

Við árslok 1918 tóku þau Guðmundur og Guðbjörg í fóstur stúlkubarn,
Halla Jóhannsdóttir, f. 18. ág. 1918, og ólst hún upp hjá þeim til 11 ára aldurs, eða þar til Guðbjörg dó.

Eftir það ólst hún upp hjá Sigríði sem yngri systir.

Árið 1925, 17. desember, gengur Sigríður að eiga Óskar Tander Berg Elefsen, og hófu þau búskap á Akureyri, en 1926 flytjast þau til Siglufjarðar og setjast að í Gránugötu 20 og búa þar upp frá því. Óskar Berg, eins og hann var jafnan nefndur, var af norskum ættum, fæddur á eynni Senju við Norður-Noreg 25. apríl 1896.

Óskar Berg hafði numið vélfræði í Bolinderverksmiðjunum sænsku, en kom sem vélamaður á norsku skipi til Íslands 1921 og varð þá hér eftir, og fór ekki frá Íslandi eftir það. Hann hóf vélsmíðanám hjá Guðmundi Björnssyni, vélsmíðameistara, föður Sigríðar, lauk því 1925, og gengu þau í hjónaband,, eins og áður segir.

Hann var vélstjóri á sjó fyrsta hjúskaparárið, en síðan í landi í frystihúsum aðallega, og vann síðar við vélsmíði á eigin verkstæði og síðast hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. Hann var orðlagður hagleiks- og hugvitsmaður, og honum lék allt í höndum, vélar og áhöld. Þeim Sigríði og Óskari varð fjögurra barna auðið:

  • Eberg Elefsen,
  • Sigurður Elefsen,
  • Anetta Svanhildur Elefsen
  • Sverrir Jakob Elefsen.

Þau tvö síðasttöldu dóu í æsku.
Eins og fyrr er sagt kom Halla Jóhannsdóttir í fóstur til þeirra Óskars og Sigríðar og ólst þar upp til fullorðinsára.

Hún hóf síðar búskap með eiginmanni sínum Björn Tryggvason og var heimili þeirra að Gránugötu 20 meðan bæði lifðu.
Halla lést 18. maí 1975, en Björn dó allmörgum árum áður.

Sigríður lét sér ávallt mjög annt um Höllu og börn hennar, og voru þau henni sem systurbörn. Börn Höllu og Björns urðu 6, eitt dó nýfætt, einn sonur býr í Kópavogi, en hin 4 eru búsett á Siglufirði.
Barnabörnin eru nú orðin 16.

  • Eberg Elefsen, starfsmaður hjá Orkustofnun, kvæntist Ingu Magnúsdóttur úr Reykjavík. Eru þau búsett í Kópavogi og eiga 6 börn.

  • Sigurður Elefsen, verkstjóri á vélaverkstæði S.R. á Siglufirði, kvæntist Ingibjörgu Thorarensen frá Dalvík og eru þau búsett á Siglufirði og eiga 4 börn.

Barnabörn Sigríðar eru nú 10 talsins. Sigríður, Sigga Berg eða Stóa eins og börnin kölluðu hana, var fjarska hæglát og yfirlætislaus kona, en dugleg til allra verka. Hún var húsmóðir, og í heimili voru oftast talsvert fleiri en skráðir voru. Hún stundaði einnig algenga vinnu, sem til féll, fiskverkun, síldarsöltun o.fl. o.fl.

Hún tók virkan þátt í verkalýðshreyfingunni og starfaði í Verkakvennafélaginu Brynju og átti lengi sæti í trúnaðarmannaráði þess. Þau hjónin, Óskar og Sigríður, urðu snemma liðsmenn hins róttæka hluta verkalýðshreyfingarinnar og störfuðu bæði í pólitískum samtökum sósíalista, Kommúnistaflokknum og Sósíalistaflokknum. Heimili þeirra stóð ávallt opið þeim, sem vildu ræða áhugamálin á pólitíska vísu, og var viðbrugðið hvað Óskar var vel lesinn og orðheppinn, og hafði alltaf eitthvað til málanna að leggja.

Sigríður var miklum gáfum gædd, var bókhneigð og ljóðelsk, hún var kærleiksrík og umhyggjusöm, barnelsk og dýravinur. Það þarf því engan að undra þó að baki lægi einlæg trú. Hún trúði á kærleikann, vildi að hann gerði mennina betri hver í annars garð. Hún átti hugsjón, sem hún trúði að gæti fært mönnum jafnrétti og bræðralag, en til þess þyrfti baráttu og fræðslu. Hún trúði á guð, öllu æðri, og var þess fullviss, að þegar voru jarðlífi lyki, væri þó líf fyrir höndum á æðra og betra sviði.

Þótt margar vonir hafi brostið og óskir ekki ræst, þá óskum við þess, sem þekktum hana og virtum, að henni hafi orðið að von sinni og trú, að gista nú heim kærleika og bræðralags, því þar mun einnig frelsið og jafnréttið ríkja. Um leið og ég votta bræðrunum, og öðru skylduliði hennar, samúð mína, vil ég segja að minningin frá þeim góðu og gömlu dögum, þegar málin voru rædd í Gránugötu 20, yljar um hjartarætur. 1 þeim yl á húsmóðirin, sem nú er kvödd, stóran skerf.

Blessuð sé minning hennar;

Einar M. Albertsson.

Inga Magnúsdóttir og Eberg Elefsen, Ingibjörg Thorarensen og Sigurður Elefsen - Sigríður Guðmundsdóttir með Sverrir Elefsen (Sigurðar), og Ókar Berg Elefsen

Inga Magnúsdóttir og Eberg Elefsen, Ingibjörg Thorarensen og Sigurður Elefsen - Sigríður Guðmundsdóttir með Sverrir Elefsen (Sigurðar), og Ókar Berg Elefsen