Ingibjörg Margrét Sigfúsdóttir

Morgunblaðið - 26. nóvember 1978

Ingibjörg Sigfúsdóttir Fædd 27. nóvember 1903. Dáin 5. ágúst 1978.

Við vorum vinir í 40 ár. — Og með hverju árinu mat ég hana meira. Ég vona að hún hafi gert sér það ljóst. Ég hafði ætlað mér að skrifa um hana smágrein þegar þrír aldarfjórðungar væru liðnir frá fæðingu hennar. Á morgun er afmælisdagurinn en hún er horfin út fyrir þröngt skynsvið dauðlegra manna.

I sumar, sem leið, hvarf hún á brott frá okkur, jafnróleg og æðrulaus og hún hefði þurft að bregða sér bæjarleið. Hún efaðist ekkert andartak um hverjir biðu handan ár og henni var ekkert að vanbúnaði. Mér fannst stundum að hún hlakkaði til fararinnar. Allt var tilbúið, frá öllu gengið hér á jörð en að mörgu að hverfa í nýjum heimkynnum. — Þannig, hygg ég, sé gott að deyja. Það hlýtur að vera erfitt að taka við heimili sem enn er í sárum eftir sviplegt andlát góðrar húsmóður. —

Ingibjörg Sigfúsdóttir og maður hennar Árni Jóhannsson - Ljósmynd Krsitfinnur

Ingibjörg Sigfúsdóttir og maður hennar Árni Jóhannsson - Ljósmynd Krsitfinnur

Á þeirri örðugu tíð þegar ég ungur að árum, einbirni og mömmudrengur, tregaði næmri tilfinningu barnsins skjól mitt og skjöld tók hún við forsjá heimilis okkar. — Hún reyndi aldrei að vinna trúnað minn með áhlaupi. Ekkert var fjær skaplyndi hennar en offors. Hún skildi, held ég, harm minn og háttvísi hennar og kærleiksrík mannþekking leiddi i hana þá leyndardómsfullu vegi sem tengja menn böndum trúnaðar, trausts og gagnkvæmrar virðingar. —

Síðar varð hún amma barnanna minna, gaf þeim það sem þau hefðu annars farið algjörlega á mis við: umhyggju og ást ömmunnar. Heimili hennar og föður míns hét á máli þeirra ungra „ömmuhús". Segir það meira en mörg orð um hug þeirra til einu ömmunnar sem þau höfðu kynni af. — Og mér býður í grun að ein síðasta gjöfin, sem hún gaf, hafi verið litlir skór til nýfædds langömmubarns, gjöf sem litla stúlkan var í þegar hún var skírð fyrir fáum vikum.

Ingibjörg Margrét Sigfúsdóttir var fædd 27. nóvember 1903.
Foreldrar hennar voru hjónin Jónína Jósafatsdóttir, Guðmundssonar, bónda í Krossanesi, og Sigfús bóndi Hansson.

Þau hjón bjuggu í Gröf á Höfðaströnd frá 1921 til 1941 en það ár lést Jónína og fékk Sigfús þá jörðina í hendur syni sínum og tengdasyni. — Um Jónínu segir náinn kunningi þeirra, Björn Sigtryggsson, bóndi í Framnesi: „Hugró hennar var óvenju mikil og þó vantaði hvorki skap né skerpu.

Hún var höfðingi heim að sækja og ekki smátæk í neinu. Hjónin voru í ýmsu lík og í öllu samhent." Líklegt þykir mér að Ingibjörg hafi sótt margt til móður sinnar. Hún var rausnarleg og gjafmild. Hún vann löngum að saumum og verðlagði þá oftast vinnu sína eftir efnum og ástæðum viðskiptavinanna. „Það verður enginn fátækur af að gefa," sagði hún eitt sinn við dóttur sína.

Hún var gædd einstökum hæfileikum til að skilja þá sem við örðugleika áttu að etja og gerði sér ljósan sannleik hins fornkveðna að „sorg etur hjarta ef þú segja né náir einhverjum allan hug." — Hún hafði lag á að hlusta og fá fólk til að tala og athugasemdir hennar voru smyrsl á sár en ýfðu aldrei undir. Unglingur dvaldist Ingibjörg að Ilólum í Hjaltadal hjá frú Guðrúnu Hannesdóttur og Páli skólastjóra Zóphóníassyni. Var upp frá því kært með henni og þeim hjónum, börnum þeirra og síðar tengdabörnum.

Hún nam í unglingaskóla í Hofsósi og var síðan um skeið við nám í hússtjórnarfræðum í Reykjavík.

Skömmu fyrir 1930 giftist Ingibjörg Sveini Jónssyni. Samvistir þeirra voru skammar.
Þau eignuðust tvo syni,

  • Sigfús Agnar Sveinsson, skipstjóra á Sauðárkróki, sem kvæntur er Helenu Magnúsdóttur, og
  • Sverri Sveionsson rafveitustjóra á Siglufirði, en kona hans er Auður Björnsdóttir.

Síðar nokkru, þegar yngri sonurinn, Sverrir, var 5 ára, kom Ingibjörg sem ráðskona á heimili föður míns, Árni Jóhannsson, og giftist honum skömmu seinna.
Þeim varð tveggja barna auðið,

  • Gunnar Árnason og
  • Anna Sigríður. —

Gunnar er nú lektor við Kennaraháskóla Íslands. Hann er kvæntur Kristínu Andrésdóttur kennara. Anna Sigríður er kennari í Reykjavík, gift Birni Helgasyni byggingafræðingi. Ég hygg að þeim hafi tekist með nokkuð óvenjulegum hætti að bræða upp úr brotnum heimilum sínum heilsteypt hús sem þegar varð hlýtt athvarf börnum þeirra og vinum. — Það heimili stóð í tæpa fjóra áratugi.

Þar var gott að koma og gaman að vera. Þar varð samkomustaður margra kynslóða. Vinir okkar eldri drengjanna og síðar yngri barnanna, Gunnars og Önnu, voru jafnan aufúsugestir. Ekkert var eðlilegra og sjálfsagðara. Og þá naut Ingibjörg sín vel þegar milli tíu og tuttugu manns sátu til borðs hjá henni. —

Hún kunni vel mannfagnaði og átti jafnauðvelt með að blanda geði við jafnaldra sína og þá sem voru mörgum áratugum yngri. — Kannski minnist ég hennar þó best þegar við sátum í næði og röbbuðum saman um líf og dauða. Hún unni lífinu en óttaðist þó síður en svo dauðann. Mannþekking hennar var með ólíkindum. —

Hún mat mannkosti mikils en fyrirlitning hennar á meinfýsi og óráðvendni var djúp og einlæg. Svipfar fólks, sem hún leit í fyrsta sinni, sagði henni margt um artir þess og eðli. Man ég bæði gömul og ný dæmi þess að sá næmleiki á persónugerð fólks brást henni ekki. Þá var ekki síður gaman að ræða við hana um dauðann.

Ég drap áður á með hverri hugró hún beið þeirra umskipta sem við nefnum andlát. Það örlaði ekki á kvíða, miklu fremur eftirvæntingu. — Hún trúði orðum Krists og átti í vændum líf í ljósi hans. Upprisan var henni staðfesting dýrmætra vona. — Þar að auki var hún draumspakari en flest fólk sem ég hef haft kynni af. Staðfestu draumarnir margt sem henni var ljúft að trúa. —

Í 40 ár vorum við vinir. Hún fylgdist með mér ungum, hvatti mig til dáða og drengskapar, náms og starfa. — Frá æskuárum til hinstu stundar gat ég rætt við hana hugmyndir mínar og vandamál. Hún varð tengdamóðir konu minnar og amma barnanna. Gagnkvæm ástúð ríkti milli þeirra allra. Bænirnar hennar fylgdu okkur hvar sem við fórum. Bænir okkar fylgja henni ásamt hjartans þökkum fyrir líf hennar og störf, fyrir ástúð hennar og umhyggju, fyrir hvað hún var okkur öllum.

Ólafur Haukur Árnason.