Hulda Sigurðardóttir

mbl.is 19. apríl 1990 | Minningargreinar 

Hulda Sigurðardóttir Keflavík ­ Minning Fædd 19. nóvember 1934 Dáin 8. apríl 1990

Hulda fæddist í Ólafsfirði 19. nóvember 1934, dóttir hjónanna Þórönnu Guðmundsdóttur og Sigurðar Sigurpálssonar, og var elst 5 systkina. Fjölskyldan fluttist til Siglufjarðar 1941 og suður til Keflavíkur 1954.

Þar kynntist Hulda eftirlifandi manni sínum, Guðbrandu Sörensson frá Keflavík. Þau giftu sig í september 1956 og varð 3ja barna auðið.
Elstur er

  • Sigurður Sören, kvæntur Elínu Pálsdóttur, og búa í Innri-Njarðvík.
    Næstur er
  • Jón sem býr nú í föðurhúsum.
    Yngst er
  • Vigdís og er hún gift Benedikt Hreinssyni. Þau búa í Kópavogi.

    Barnabörnin eru orðin 5.
Hulda Sigurðardóttir

Hulda Sigurðardóttir

Þegar mér barst fregnin um lát Huldu vinkonu minnar setti mig hljóða, ekki fyrir það, að það væri svo óvænt, því auðvitað grunaði mig að hverju stefndi, heldur voru það allir minningarnar sem hentust upp í huga minn, minningarnar um Huldu og Bubba frá því að við vorum ung, og allar götur síðan.

Muna þegar ég giftist Hreina mínum og Hulda giftist Bubba sínum, en á þeim árum voru Bubbi og Hreini í sama æskuvinahópnum. Muna þegar við fórum á böll í "Krossinum". Muna þegar börnin komu eitt og eitt og við vorum svo glöð. Muna þegar við áttum heima saman í Önnuhúsi. Muna hvað gott varð að eyða kvöldstund hjá Huldu og Bubba, því þá var glens og gaman.

Muna hvað Hulda og Bubbi hafa alla tíð verið okkur hjónunum trygg og góðir vinir. Muna hvað þau voru kát og glöð þegar við fórum saman í "Paradís", sumarhúsið okkar. Muna hvað Hulda var myndarleg húsmóðir og hvað hún var iðin við hannyrðir. Muna hana hörkutól í vinnu, þó smá væri. Muna hvað hún vildi öllum vel gera og gerði mörgum gott. Muna líka þegar Hulda átti erfiðar stundir og vera þá svo vanmáttug til hjálpar.

Þegar Hulda varð 50 ára bauð hún fjölskyldu sinni, vinnufélögum og vinafólki í kvöldkaffi. Það var rausnarlega veitt og gott að heimsækja þau hjón að venju, yndislegt kvöld í faðmi vina. Daginn eftir urðu mikil þáttaskil í lífi Huldu, þegar hún varð fyrir miklu slysi á heimili sínu, brenndist svo illa að hún varð að vera lengi á sjúkrahúsi og þurfti að ganga í gegnum miklar þolraunir. En að sjá þvílíkt þrek er meiriháttar.

En annað slys henti Huldu og var það á sjúkrahúsinu. Við, sem þekkjum þá sögu alla, undrumst hversu Hulda var seig og dugleg.

Hún var líka innilega þakklát öllum þeim sem réttu henni vinarhönd og veittu henni styrk. Oft talaði hún um, hve læknar og hjúkrunarfólk væri gott við sig. Nú hefur hún barist til enda þessa lífs, en hún var ekki ein, hún var svo heppin, að Bubbi var alltaf nálægur og reyndist henni vel. Síðustu vikurnar var Bubbi með Huldu sína heima, helsjúka, og gerði allt sem í hans valdi stóð, til þess að henni liði sem best, og síðast þegar við hjónin komum til þeirra og Bubbi var að hressa Huldu upp, með sinni einlægu glettni, sá maður þetta sérstaka bros á vörum Huldu, þegar hún gat ekki annað en brosað, og þá var Bubbi glaður.

Ég og fjölskylda mín þökkum Huldu samfylgdina hér á þessari jörð og biðjum Guð að geyma hana.

Bubbi, kæri vinur, Guð gefi þér og fjölskyldu þinni kraft og styrk, áfram sem hingað til.

Guðrún Ásta Björnsdóttir
--------------------------------------------------

mbl.is 24. apríl 1990 |

Hulda Sigurðardóttir Fædd 19. nóvember 1934 Dáin 8. apríl 1990 

Hulda Sigurðardóttir Fædd 19. nóvember 1934 Dáin 8. apríl 1990 Andlát góðvinar kemur alltaf á óvart, jafnvel þótt þeir hafi átt við vanheilsu að stíða um langa hríð og sjúkdómurinn banvænn. Við stöndum hljóð andspænis því óumbreytanlega sem ekkert fær hnikað, og söknum þess sem áður var.

Hún Hulda vinkona mín var fædd á Ólafsfirði en flutti með foreldrumsínum Þórönnu Guðmundsdóttur og Sigurði Sigurpálssyni til Siglufjarðar ung að árum. Við Hulda vorum sytkinadætur, en leiðir okkar lágu fyrst saman í Keflavík, en þangað fórum við í atvinnuleit á yngri árum. Með okkur tókst góð vinátta sem ekki hefur rofnað í öll þessi ár. Í Keflavík kynntist hún eftirlifandi eiginmanni sínum Guðbrandi Sör enssyni og eignaðist með honum þrjú börn, en þau eru Sigurður, Jón og Vigdís.

Við stofnuðum heimili á svipuðum tíma, og deildum með okkur íbúð um nokkurt skeið, þá var oft glatt á hjalla og aldrei bar nokkurn skugga þar á, og margar ánægjustundir áttum við með þeim hjónum í gegn um árin.

En leiðir skildu er ég flutti í annað byggðarlag og samfundir urðu færri, en eitt var þó ákveðið og það var að halda hvor annarri veislu einu sinni á ári, hvað sem á gengi og við það var staðið allt fram til hins síðasta. Hulda var einstaklega myndarleg húsmóðir og höfðingi heim að sækja, hún bjó sér og sínum fallegt heimili enda var oft gestkvæmt á heimili þeirra hjóna. Handavinnukona var hún mikil og eftir hana liggja mörg falleg verk, því alltaf var hún með eitthvað á prjónunum, eins og sagt er. Börnum sínum og barnabörnum hafði hún mikið yndi af og fannst gott að vita af þeim í nálægð og veitti fjölskyldan henni mikinn styrk í erfiðum veikindum.

Ég mun sakna góðrar vinkonu og vottum við hjónin Guðbrandi eiginmanni hennar og fjölskyldu þeirra okkar innilegustu samúð.

  • Far þú í friði
  • friður Guðs þig blessi,
  • hafðu þökk fyrir allt og allt.

V. Briem

Hrönn Albertsdóttir