Guðni Friðriksson vélstjóri

Guðni Friðriksson fæddur 29. ágúst 1928 - Dínn 22. mars 1963 (druknaði)
Guðni var sonur Friðriks Stefánssonar í Bakka á Siglufirði

Þjóðviljinn - 23. mars 1963

Sá hryggilegi atburður varð um kl. hálf 7 í gærmorgun, að vélbátnum Erlingi IV. VE-45 hvolfdi skyndilega er hann var á leið í róður vestur í Eyrarbakkabugt og fórust tveir skipverjar. Hnútur mun hafa riðið aftantil á skipið með þeim afleiðingum að það lagðist flatur og tók í sig sjó. Svo brátt bar þetta að, að ekkert ráðrúm gafst til að kalla á hjálp og varð með naumindum náð til gúmíbjörgunarbátsins í tæka tíð.

Báturinn hafði ekki einu sinni blásið sig upp, er skipið sökk. Tveir skipverjar komust ekki í bátinn og fórust með skipi sínu: Samúel Ingvason háseti, 21 árs ókvæntur og barnlaus, hann átti heima að Hjarðarhaga 64 í Reykjarlvík. Guðni Friðriksson 1. vélstjóri, tæpra 35 ára að aldri, einnig ókvæntur og barnlaus.

Guðni Friðriksson - ókunnur ljósmyndari

Guðni Friðriksson - ókunnur ljósmyndari

Hann var til heimilis í Vestmannaeyjum að Herjólfsgötu 8. Mjög víðtæk leit var gerð a5 þeim félögum í gær frameftir degi, en hún varð árangurslaus. 16 skip röðuðu sér á leitarsvæðið með mílu millibili og Douglas flugvél Flugfélagsins, Glófaxi undir stjórn Karls Schiöths flugstjóra flaug þvert á leið þeirra í 500 feta hæð. Eitthvað brak mun hafa sést, en að öðru leyti varð leitin árangurslaus.

Vélbáturinn Halkíon frá Vestmannaeyjum bjargaði öðrum skipverjum, 8 að tölu er þeir höfðu verið búnir að velkjast í sjónum og í bátnum í hálfa klukkustund. Þeir voru mjög þrekaðir og mátti ekki miklu muna að þeir króknuðu, enda fáklæddir sumir. Einn var fluttur meðvitundarlítill á sjúkrahúsið í Eyjum er þangað kom. Veður var heldur slæmt en ekki ófært, enda voru bátarnir á leið í róður er slysið varð. Erlingur IV. var einn í hópi sex báta, sem smíðaðir voru í Svíþjóð árið 1946 eftir íslenskri teikningu.

Þeir hafa reynst illa, enda ekki nema tveir þeirra ofansjávar í dag. Borgarey fórst með allri áhöfn í Hornafjarðarál skömmu eftir að hún kom til landsins. Hamar hvolfdi og sökk í Faxaflóa í fyrrasumar, er hann var á leið til síldveiða fyrir Norðurlandi í besta veðri. Bergur VE fór á sömu leið undir Jökli í byrjun desember sl. Hann var þar að síldveiðum og var með nokkra dekkhleðslu.

Eftir eru nú aðeins Snæfugl á Reyðarfirði og Sigurfari á Patreksfirði. Sýnist full ástæða til að þeir verði nú þegar teknir úr umferð og hallaprófaðir og fái síðan ekki haffærnisskírteini fyrr en gengið hefur verið úr skugga um að ekki sé hætta á að þeim hvolfi í logninu. Mönnum hefur lengi verið ljóst að bátar þessir eru og voru viðsjárverðir gallagripir en ekkert mun hafa verið gert í málinu frá hendi yfirvalda. Sjópróf verða væntanlega í dag. Skipstjóri á Erlingi IV. var Ásberg Lárentíusson. Viðtal er við skipstjórann á Halkíon á öðrum stað í blaðinu. —

G. O.
---------------------------------------------------------------

Morgunblaðið - 23. mars 1963

í GÆRMORGUN sökk vélbáturinn Erlingur IV. frá Vestmannaeyjum er hann var á leið á veiðar vestur á Selvogsbanka. Báturinn var k o m inn u m 30 mílur vestur fyrir Vestmannaeyjar. Á bátnum var 10 manna áhöfn, 8 björguðust, en tveggja er saknað. Var þeirra leitað af 16 vélbátum, flugvélum og loks varðskipinu Ægi í gærdag, en án árangurs. Þeir sem fórust voru Samúel Ingvason, háseti og Guðni Friðriksson, 1. vélstjóri.

Í gær náði blaðið tali af Óskari Þórarinssyni stýrimanni og Eiði Marinóssyni II. vélstjóra og fékk frásögn þeirra af Slysinu. Frásögn Óskars er á þessa leið: 30 mílur NV af Vestmannaeyjum. Við fórum út á þriðja tímanum í nótt. Ég veit ekki nákvæmlega hvenær, því ég svaf í klefa þeim er ég hef með skipstjóranum undir brúnni. Ferðinni var heitið vestur á Selvogsbanka. Stórsjór var og 8—9 vindstig.

Við vorum með þorskanet og báturinn að sjálfsögðu tómur nema hvað ballest var í honum frá því á síldinni en þá voru auk steypunnar sem er í botninum, sett járnstykki undir hillurnar lestinni. Búið var að ræsa kokkinn og var hann farinn að laga morgun verðinn. Í brúnni voru skipstjórinn og Ásberg Lárenziusson og 1. vélstjóri en 2. vélstjóri svaf aftur í káetu. Hásetarnir 5 voru frammi í lúkar.. Klukkan mun hafa verið rúmlega 6 þegar brotsjór kom á bak borða aftan til á skipið og kastar því yfir á stjórnborða og sennilega hefir stjórnborðsgangurinn fyllst um leið og það valdið því að skipið rétti sig ekki við.

Við þetta vöknuðu allir, enda hentust menn fram úr kojunum. Allt skeði nú með slíkum hraða að erfitt er að gera sér grein fyrir atvikum í smáatriðum. Ég fór strax upp úr klefanum og upp í „bestikkið. Þá var skipið komið á hliðina og brúin hálf full af sjó og talstöðin á kaíi. Það var því ekki hægt að komast að henni til að senda út neyðarkall. Skipstjórinn og vélstjórinn voru að losa gúmmíbátinn og tókst fljótt að ná honum úr kassanum. Reyndur þeir að kippa í spottann til að báturinn blésist upp en það tókst ekki. Kasta sér í sjóinn. Þá var skipið að sökkva og var því  ekki um annað að gera en kasta sér í sjóinn með bátinn óuppblásinn.

Loks tókst að blása hann upp, en þá var mjög af skipstjóranum dregið og hann stórlega skorinn á hendi eftir snúruna og að drukknun kominn við aðfarirnar. Við komumst svo 8 í bátinn en Samúel og Guðni sáust ekki, nema hvað við urðum var við annan þeirra er ^við vorum að yfirgefa skipið. Ég held að allir hafi verið syndir þótt ég viti ekki um þá Samúel og Guðna. Nokkrir fáklæddir.

Sumir mannanna voru fáklæddir aðeins í þunnum nærfötum og varð því fljótt kalt einkum eftir að þeir voru komnir upp í gúmmíbátinn.  Ég get ekki sagt nákvæm lega hvað við vorum lengi að velkjast í sjónum en það leið alllöng stund þar til báturinn var upp blásinn. Við skutum upp flugeldum sem voru í bátnum og ég var með reykblys og veifaði því. Þetta varð til að vekja athygli Halkions á okkur þar sem hann sigldi nokkru á eftir okkur.

Við vorum svo í gúmmíbátnum í um 45 mínútur þar til Halkion kom að okkur. Það hefði ekki mátt tæpara standa því sumir voru þá orðnir svo kaldir. Einn hefði ekki lifa vosbúðina af ef við hefðum þurft að bíða hjálpar lengur. Allir á skipinu voru ungir menn. Þeir sýndu ró og kjark meðan beðið var eftir því að komast í gúmmíbátinn. Þó var ekki þægilegt að velkjast í sjónum í háum og kröppum öldunum, sem færðu okkur í kaf af og til.

Ég vil að síðustu biðja blaðið að koma innilegu þakklæti okkar til skipshafnarinnar á Halkion, sem tók okkur eins og best verður á kosið.

Vantar neyðarsendi.  Eiður Marinósson, II. vélstjóri segir svo frá: — Ég svaf aftur í káetu og var þar einn er hnúturinn kom á skipið. Ég vaknaði eiginlega ekki fyrr en ég var kominn fram á gólf og flaut þar í sjónum, sem fossaði inn í káetuna. Ég hafði lagt mig í öllum fötunum. Mér gekk vel að komast upp og þar voru fyrir skipstjóri og vélstjóri á brúnni og voru að eiga við bátinn. Það er óhætt að segja að þarna hefir gúmmíbáturinn bjargað okkur, því engum trébát hefði verið hægt að koma í sjó á þessum tíma.

Það voru bara vandræðin með snúruna. Við fórum þó rétt að öllu, enda fór svo að lokum að hún verkaði á gastækið, þótt illa gengi. Við fundum ekki mikið fyrir kuldanum meðan við vorum í sjónum en þegar við komum upp í gúmmíbátinn fórum við fljótt að finna til kuldans. Þarna vantaði okkur illa lítinn neyðarsendi. Ef ekki hefðu verið bátar jafn nálægt okkur hefðu einhverjir farið illa af vosbúðinni. Einn skipsfélaganna er á sjúkrahúsi. Ég vil endurtaka þakklæti okkar til skipshafnarinnar á Halkion fyrir hjálpina.

Nákvæm leit.
Strax og vitað var um slysið bauð Landhelgisgæslan aðstoð sína og var hún von bráðar þegin. Verið var þá að gera við bensinleka á landlhelgisvélinni og þar sem engan tíma mátti missa tók landhelgisgæslan flugvél á leigu hjá Flugfélagi Íslands og sendi áhöfn sína á henni til leitar. 16 bátum var raðað upp með 1½ mílu millibili og síðan flaug vélin fram og aftur yfir bátaröðina og stjórnaði leitinni Þannig voru leitaðar 6 mílur í vindátt frá þeim stað er báturinn fór niður og farið þrisvar yfir svæðið. í síðustu umferð var Ægir kominn á vettvang. Leitin bar þó, sem fyrr segir, engan árangur. Brak og annáð lauslegt úr bátnum var á reki á sjónum.

Skipstjórinn á Erlingi IV var svo þrekaður að ekki var hægt að ná tali af honum í gær. Hann var stórskaddaður á höndum, tognaður í baki og auk þess hætt kominn við baráttuna við að fá gúmmíbátinn blásinn upp. Egill Ragnarsson, háseti, sem fluttur var á sjúkrahúsið um hádegið í gær, er Halkion kom til hafnar með skipbrotsmennina, var á batavegi í gærkvöldi.  Erlingur IV var 80 brúttólestir að stærð, byggður úr eik í Svíþjóð 1946. Báturinn hét áður ísbjörn og hafði fyrir nokkrum árum verið keyptur frá Ísafirði. Hann var eign Sighvatar Bjarnasonar o. fl. í Vestmannaeyjum
--------------------------------------------------

Alþýðublaðið - 23. mars 1963

Vestmannaeyjum í gær.

BÁTNUM Erlingi 4. frá Vestmannaeyjum hvolfdi skyndilega um klukkan hálf sjö í morgun. Átta mönnum af áhöfn skipsins var bjargað, en tveir skipverjar, Samúel Ingvarsson úr Reykjavík og Guðni Friðriksson frá Haga í Vestmannaeyjum, fórust. Þegar var hafin víðtæk leit að þeim, sem sextán bátar, varðskipið Ægir og flugvél frá Landhelgisgæslunni tók þátt í, en þegar leitin bar engan árangur, var henni hætt um klukkan 3,30. Skipstjóri á Erlingi 4. er Ásberg Lárentíusson.

Eigandi bátsins er Sighvatur Bjarnason. Erlingur 4. var smíðaður í Svíþjóð árið 1947. Það var skipverjar á Halkíon ES frá Vestmannaeyjum, sem björguðu mönnunum af Erlingi 4. og í gær náði blaðið tali af Stefáni Stefánssyni, skipstjóra á Halkíon, en þótt hann sé ekki nema 33 ára að bjarga þrem skipshöfnum í að aldri hefur hann borið gæfa til hafsnauð. Stefán sagði svo frá, að er þeir Halkíonmenn voru á leið út í gærmorgun hafi þeir séð sem snöggvast ljósleiftur eins og frá vita úti fyrir í stefnu vestnorðvestur. —

Stefán lét þegar nálæga báta vita af þessu ljósi, sem brugðið hafði fyrir og spurðist fyrir um það, hvort nokkur bauja eða annað slíkt gæti verið á þessum slóðum. Svo var ekki og tók nú Halkíon stefnu í þá átt, þar sem ljósið sást. Stefnuna varð aftaka meir af ágiskun en nokkru öðru, því að ljósið sást ekki aftur. Stefán sagðist strax hafa gert sér grein fyrir, að þarna gætu verið menn í sjávarháska, en hélt, þegar ekkert sást, að þeir myndu komnir fram hjá. Halkíon sneri þá aftur, — en í því kölluðu aðrir bátar og sögðust hafa séð skotið upp rakettu rétt hjá Halkíon.

Gátu bátarnir sagt, í hvaða stefnu skyldi siglt og fundu Halkíonmenn gúmmíbátinn tæpar 30 mílur norðvestur af vestri frá Eyjum. Skipbrotsmennirnir voru mjög þrekaðir og það svo, að erfitt var að koma þeim upp úr gúmmíbátnum. Það gerðist með svo skjótri svipan að bátnum hvolfdi, að þeim hafði ekki gefist tími til að senda út neyðarkall, né heldur blása út gúmmíbátinn. Syntu þeir alllengi umhverfis böggulinn í sjónum, áður en þeim tókst að blása hann upp, en það varð með þeim hætti, að skipstjórinn náði taki á línunni, sem kippa þarf í, þegar gúmmíbáturinn er opnaður, en svo var hann lerkaður orðinn, að hann sökk með línuna.

Þá opnaðist báturinn, en hann varð að brjótast að nýju upp á yfirborðið og var þá mjög lerkaður orðinn, enda þungur, klæddur íslenskri úlpu. Aðrir skipverjar voru fremur illa klæddir og því orðnir máttvana af kulda, er Halkíon kom á vettvang. Þeir gátu ekki gert sér raunverulega grein fyrir því, hve lengi þeir hefðu verið á sundi í sjónum, áður en gúmmíbáturinn opnaðist, en töldu, að það hefði verið um hálft klukkustund.

Skipstjórinn var svo aðfram kominn, að skipverjar á Halkíon urðu að nudda hann í klukkustund til að koma í hann hita, eftir að hann var kominn um borð. Einn skipverja af Erlingi 4. var rænulítill, hafði drukkið svo mikinn sjó og var máttfarinnaf kulda.. Hann var lagður inn á sjúkrahús í Vestmannaeyjum. Stefán sagðist ekki hafa þorað að draga siglingu til lands, en lét nær stadda báta vita, að tveggja skipverja væri saknað.

Hófst leitin að þeim þá þegar og var auðvelt að leita þeirra og finna staðinn, þar sem báturinn sökk, því að mikil olíubrák hafði myndast á sjónum. Eins og fyrr segir bar leitin ekki árangur. Stefán Stefánsson hefur verið skipstjóri á þessum Halkíon í tvö ár, en áður var hann skipstjóri á gamla Halkíon frá 1957. Hann hefur áður bjargað skipverjum af bátunum Berg og Blátindi úr hafs nauð.
-------------------------------------------- 

Vísir - 23. mars 1963

LEITAÐ VAR FRAM Í MYRKUR Í GÆRKVELDI

Leitinni af skipverjunum tveim, Samúel Ingvasyni og Guðna Friðrikssyni, sem fóru i sjóinn með m.b. Erlingi IV frá Vestmannaeyjum í morgun, er nú hætt og mennirnir taldir af.
Sextán bátar frá Vestmannaeyjum leituðu á slysstaðnum í allan dag og þar til myrkur skall á í kvöld, en þá var leitinni hætt, enda gersamlega útilokað að mennirnir gætu verið ofansjávar. — Douglas vélin Glófaxi frá Flugfélagi Íslands sveimaði og lengi yfir slysstaðnum, en 'áhöfn hennar varð einskis vör frekar en leitarmennirnir á skipunum.

Báðir mennirnir sem fórust voru kornungir menn, eða um tvítugt. Annar þeirra, Samúel Ingvars son, réði sig á Erling IV í gær og var nú í sinum fyrsta róðri. Þegar báturinn fór á hliðina, var Samúel sofandi í koju sinni niðri í lúgarnum, en það sást síðast til hans, að hann hrökk úr kojunni og niður á gólf er skipið valt. Eftir það mun enginn hafa orðið hans var og það er talið fullvíst að hann hafi aldrei komist uppúr lúgarnum, og þar af leiðandi sokkið með skipinu.

Samúel var tilvonandi mágur Óskars Þórarinssonar, þess bátsverjans sem mest úthald sýndi og þrek við að bjarga sér, því hann hafði borist langt frá gúmmíbátnum og þurfti því að synda langa leið áður en hann komst að bátnum.

Um Guðna Friðriksson er það vitað, að hann var kominn í sjóinn og var þar á sundi við hlið félaga sinna, en mun hafa fatast sundið eða skort úthald og sokkið áður en björgunarbáturinn var blásinn upp. Hafði Guðni verið uppi í brú bátsins þegar óhappið vildi til.

Skipbrotsmennirnir komu til Vestmannaeyja kl. 11.40 árdegis í gær, allir furðu hressir  nema einn, sem var nærri drukknaður og var búinn. að missa meðvitund. Hann hafði sokkið, en línan af einskærri tilviljun flækst um fætur honum og fyrir bragðið tókst félögum hans að draga hann upp. Þá var hann rænulaus orðinn en þegar gerðar á honum lífgunartilraunir, sem báru árangur. Hann var strax fluttur í sjúkrahús eftir komuna til Vestmannaeyja - og síðdegis í dag var hann mjög tekinn að hressast.

Bátarnir, sem þátt tóku í leitinni í dag, áttu eftir að draga inn net sín, en byrjuðu á því strax þegar leitinni var hætt í kvöld, og þeir eru því ekki væntanlegir til hafnar fyrr en mjög seint.