Tengt Siglufirði
mbl.is 12. febrúar 2016 | Minningargreinar
Hallfríður Pétursdóttir handiðnakennari fæddist 26. mars 1929 á Siglufirði. Hún lést 1. febrúar 2016.
Foreldrar hennar voru Pétur Björnsson, f. 25. október 1897, d. 11. maí 1978, og kona hans, Þóra Jónsdóttir, f. 20. október 1902, d. 20. desember 1987.
Systkini Hallfríðar eru
Hallfríður giftist 3. október 1953 Stefáni Sigurði Friðrikssyni, fyrrverandi lögregluvarðstjóra, f. 18. nóvember 1923 í Nesi í Fljótum. Stefán lést 4. apríl 2001.
Börn Stefáns og Hallfríðar eru:
Barnabörnin eru tíu og barnabarnabörnin átta.
Útför Hallfríðar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 12. febrúar 2016, klukkan 13. Jarðsett verður í Gufuneskirkjugarði.
Amma mín. Það sem ég mun sakna þín, elsku amma mín. Þú varst alltaf til staðar þegar ég þurfti á þér að halda. Ég minnist þess alltaf hvað það var gott að vera hjá þér þegar ég kom til Íslands í heimsókn er ég var yngri. Alltaf sama góða skapið sama þó svo að eitthvað amaði að. Oft þegar ég kom í heimsókn til þín skelltum við okkur út í sjoppu og fengum okkur eitt stykki „burger“.
Alltaf sagðir þú það sama: „Ekki segja mömmu þinni að ég sé að borða þetta.“ Mér fannst alltaf svo gaman að borða borgara og horfa á Leiðarljós með þér, það voru eiginlega svona okkar stundir saman. Skil nú samt ekki ennþá af hverju þú heillaðist svona af þessum þáttum. Þú kenndir mér margt og mikið í gegnum tíðina, hjálpaðir mér að læra að lesa, kenndir mér að spila ólsen-ólsen og margt fleira. Við áttum margar góðar stundir saman sem ég mun aldrei gleyma. Vildi líka þakka þér fyrir að gefa mér bestu mömmu í heimi.
Takk fyrir að vera besta amma í heimi. Ég er svo þakklátur að hafa átt þig sem ömmu mína. Þú munt alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mínu.
Þinn ömmustrákur, Sindri Mar.
---------------------------------------------------
Elskuleg systir mín og vinkona er látin eftir langvarandi og erfið veikindi. Það er ekki langt síðan hún hvíslaði að mér, þá sárkvalin og langt leidd: „Það er svo langt að bíða.“ Ég skildi hana vel, hún þráði að fá að sofna og fá hvíld frá þjáningum.
Hún var elst af okkur fjórum systkinum, þremur telpum og langþráðum dreng. Litli bróðir okkar lést á síðasta ári og bæði áttu þau systkinin við langvinn veikindi að stríða. Í gegnum alla erfiðleika þeirra skein hlýjan og ástúðin og viljinn til að gera gott og hjálpa öðrum.
Ég á systur minni mjög margt að þakka, einkum þá hjálp sem hún og maður hennar veittu mér ásamt foreldrum mínum þegar ég fékk tækifæri til að stunda nám erlendis og þurfti að yfirgefa ungan son minn. Lítill bær eins og Siglufjörður bauð ekki upp á mikla menntunar- eða starfsmöguleika.
Fjölskylda systur minnar óx og börnin urðu fjögur en veikindi hennar voru erfið. Skemmd í baki og gigt hrjáðu hana. Foreldrar okkar fluttu suður og Hallfríður og hennar fjölskylda fylgdu nokkrum árum síðar. Náin tengsl voru milli fjölskyldna okkar. Þegar faðir minn lést árið 1978, flutti móðir mín í sama hús og þau Hallfríður og Stefán og kom það að mestu leyti í hlut hennar að hlúa að móður okkar þar til hún dó árið 1987.
Stefán Fririksson, maður Hallfríðar, lést árið 2001. Hún sat þá eftir í stórri íbúð, öll börnin flogin úr hreiðrinu. Sjálf var ég að komast á eftirlaunaaldur og ræddum við möguleikann á að búa í nágrenni hvor við aðra. Okkur tókst að finna tvær íbúðir í fjölbýlishúsi í Grafarvogi og þar áttum við heima næstu árin eða þar til hún var ekki lengur fær um að búa ein þrátt fyrir nokkra þjónustu og aðstoð frá Reykjavíkurborg og fjölskyldu.
Hún lá nokkrar legur á sjúkrahúsum áður en rými fékkst á hjúkrunardeild öldrunarheimilis. Hún varð fljótlega ófær til gangs og varð að notast við hjólastól. Hún var ósátt við að yfirgefa fallegt heimili sitt en annað virtist ekki í boði. Við söknuðum líka hvor annarrar og notalegra samvista en systir mín var hugrökk kona, í mínum augum hetja, sem ákvað að taka hlutskipti sínu með yfirvegaðri ró og henni hélt hún fram í andlátið.
Heitasta ósk systur minnar var sú að börnum hennar liði vel og þeim og afkomendum þeirra vegnaði vel um alla framtíð. Það sýndi hennar miklu ást og umhyggju til þeirra allra.
Ég votta börnum hennar og öðrum afkomendum samúð mína og óska þeim allrar blessunar.
Kristín.
--------------------------------------------------
Hún Hallfríður, móðursystir mín, er fallin frá. Ein yndislegasta manneskjan sem tengst hefur mínum lífsferli. Stóð vaktina þegar ég fæddist á Siglufirði meðan Stefán maður hennar eldaði kjötsúpu til að næra viðstadda. Æskuminningarnar eru hlaðnar af ferðum til þeirra á Siglufjörð og ávallt bjart í kringum þau heiðurshjón og frændsystkini mín.
Ævintýrin voru endalaus, sinna kindum, stunda heyskap með orfi og hrífu, bryggjuveiðar og berjatínsla uppi í fjöllum. Hlátur, gleði og gaman. Ekki var verra þegar þau fluttu í Árbæinn, leiðin þangað var alltaf ljúf og stutt og eftir að Þóra amma flutti í sömu blokk var tilefnið enn meira.
Hallfríður lærði í Húsmæðraskólanum á Akureyri og útskrifaðist síðan sem handavinnukennari frá Kennaraskóla Íslands. Hún var afar listræn og lék öll handavinna í höndum hennar og mátti sjá ýmis handverk hennar skreyta heimili hennar og annarra í fjölskyldunni. Sem dæmi um áhuga hennar og kjark aflaði hún sér aftur bílprófs svo hún gæti stundað áhugamál sín þar á meðal postulínsmálun.
Því miður glímdi Hallfríður lengi við veikindi, en hún talaði þau niður og harkaði af sér og dró fram sitt kaffi og bakkelsi og hélt sínum háttum eftir fremsta megni, að fylgjast með og leggja gott til allra í fjölskyldunni. Ég vildi óska öllum fjölskyldum að eiga svona yndislega frænku sem umvafði mann hlýju og elsku hvað sem á gekk. Þegar hún kvaddi þennan heim segja þau frændsystkini mín að bros hafi leikið um andlitið. Ég þykist vita að hún hafi verið fegin að þessari vegferð var lokið og nú tæki Stefán á móti henni til að ganga með henni inn í sólsetrið. Frændsystkinum mínum, fjölskyldum þeirra og afkomendum sendum við Dýrfinna okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Þórir Björn.
------------------------------------------
Elsku Hallfríður mín. Mikið sem ég er þakklát fyrir að hafa kynnst þér fyrir um fjórum árum. Alltaf var svo gott að koma til þín upp á Eir, setjast í setustofuna hjá þér og hitta alla fjölskylduna þína í kaffi og kökum, ómetanlegar stundir sem við öll munum geyma vel í minningunni. Þú varst alltaf eins og drottning til fara, sama þótt veikindi væru að stríða þér. Þegar ég hrósaði þér fannst þér það nú bara bull og vitleysa og vildir miklu frekar hrósa öðrum.
En svona varst þú, elsku Hallfríður, alltaf að hrósa öðrum og sýna okkur hvað þér þótti ótrúlega vænt um alla. Takk óendanlega fyrir að taka mig inn í fjölskylduna eins og eitt af barnabörnunum þínu þegar ég kynntist Sindra, ömmusyni þínum. Það sem ég er þakklát fyrir að hafa setið hjá þér þegar þú kvaddir þennan heim og fengið að eyða síðustu klukkustundunum í lífi þínu með þér og kvatt þig vel og innilega, ég mun geyma þessa stund vel í hjarta mínu.
Elsku Hallfríður mín, það sem ég mun sakna þín mikið, en eftir standa minningarnar sem ég ætla að halda fast í, alltaf eins og drottning með bros á vör og heilan helling af fallegu hrósi til okkar.
Takk fyrir allt saman.
Þín Guðbjörg (Gugga).