Tengt Siglufirði
mbl.is 4. júlí 2015 | Minningargreinar
Jón Þorsteinsson fæddist 19. október 1915 í Gröf í Kirkjuhvammshreppi, V-Húnavatnssýslu. Hann lést 20. júní 2015 á hjúkrunarheimilinu Grund.
Foreldrar Jóns Pálma voru Þorsteinn Sigurður Jónsson, bóndi í Gröf, f. 4.1. 1874 í Mölshúsum, Bessastaðahreppi, d. 1.7. 1930, og Sigríður Hallný Pálmadóttir, húsfreyja í Gröf, f. 27.7. 1874 í Hraundal, Nauteyrarhreppi, d. 18.9. 1953.
Systkini Jóns Pálma voru:
Jón Pálmi kvæntist 30.12. 1950 Lovísu Bergþórsdóttur húsfreyju,
f. 7.9. 1921.
Foreldrar hennar voru Bergþór Vigfússon húsasmíðameistari, f. 28.2. 1883 í Valdakoti, Sandvíkurhreppi, d. 17.5. 1985, og eiginkona hans, Ólafía Guðrún
Einarsdóttir húsfreyja, f. 5.12. 1887 á Litla-Hálsi í Grafningi, d. 17.5. 1947.
Börn Jóns Pálma og Lovísu eru:
Jón Pálmi nam við Héraðsskólann á Reykjum 1933-35 og lauk kennaraprófi frá Kennaraskólanum 1937. Á sumrum vann hann við vegagerð. Jón Pálmi var kennari á Barðaströnd 1937-8, Hörðudalsskóla Dalasýslu 1938-9, Hofstaðaskóla Skagafirði 1939-40, Barnaskóla Siglufjarðar 1944-1951, Laugarnesskóla í Reykjavík 1951-2, Langholtsskóla í Reykjavík 1952-3 og Melaskóla frá 1953 til eftirlaunaaldurs.
Jón Pálmi stundaði trésmíðar í Reykjavík 1940-44 og síðar að sumarlagi og eftir að kennslustörfum lauk. Jón Pálmi og Lovísa bjuggu lengst af á Seltjarnarnesi. Jón Pálmi dvaldi í liðlega tvö ár á hjúkrunarheimilinu Grund þar sem hann naut umönnunar af fagmennsku og kærleika.
Útför Jóns Pálma var að hans ósk gerð í kyrrþey frá Fossvogskapellu hinn 2. júlí 2015.
Dag skal að kvöldi lofa.
Fyrir nær hundrað árum fæddist faðir minn í torfbænum Gröf í Kirkjuhvammshreppi. Búskapur var hefðbundinn og sjósókn bætti björg í bú. Lífið var gott og glaðværð ríkti þar sem Þorsteinn afi og Hrólfur föðurbróðir voru léttir í lund og ástríki var með systkinunum. Afi veiktist árið 1930 og var skorinn á kvið á stofuborðinu. Ef sjúkdómurinn var ekki lífshættulegur, þá var aðgerðin það og afi dó.
Heimskreppa var í algleymingi og fjölskyldan sundraðist. Faðir minn fór til dvalar hjá frænda sínum, séra Sigurði Norland í Hindisvík, og naut menntunar hans, mikils tungumálamanns og náttúruverndarsinna. Hrólfur studdi föður minn og kært var með þeim. Hrólfur fórst 1941, öllum harmdauði, þegar línuveiðaranum Pétursey var sökkt af þýskum kafbáti. Faðir minn var innritaður við bandarískan háskóla en komst ekki vestur um haf. Skipinu sem hann átti far með var sökkt.
Faðir minn var fremur dulur, líklega mótaður af lífsreynslu ungdómsáranna. Félagshyggja, jafnræði, náttúruvernd og friður stóðu huga hans nærri. Hann lærði esperanto og lagði sig eftir ítölsku og frönsku, sér til gagns við lestur bóka. Faðir minn var farandkennari í fjögur ár, en kenndi lengst í Melaskóla. Sagt er að hann hafi krafist fullkomins aga og haft metnað til þess að hver og einn nemandi næði sínu besta.
Faðir minn gekk mikið, hjólaði og synti daglega um árabil og kynnti sér jóga ítarlega. Hann kunni að meta góðan mat en hélt upp á hunang og hnetur, sem nú hafa verið tengd við góða heilsu og langlífi. Hann var lestrarhestur og naut góðrar tónlistar, safnaði frímerkjum og mynt af áhuga og með erlendum samskiptum varð það honum búbót. Bílpróf tók faðir á miðjum aldri. Fyrsti bíllinn var bjalla en síðar urðu þeir stærri og kraftmeiri.
Efri árin voru best. Foreldrar mínir eignuðust hundinn Ponna, þeim til mikillar gleði. Þau fóru oft á sömu slóðir, í dalinn við Esjuhlíðar og víkina sunnan Hafnarfjarðar. Eins og þau ættu þar land. Þau höfðu teppi, nesti, Ponna og stundum barnabörnin með og nutu náttúrunnar.
Stærsta fötlun föður míns var heyrnarskerðing sem ágerðist mjög síðustu árin og gerði samskipti erfið. Nokkur heyrn hélst á vinstra eyra. Síðustu tvö árin ágerðust hreyfihömlun og málstol en skilningur hélst.
Pabbi fékk ekki fullkomin spil á hendi fremur en flestir af hans kynslóð en hann spilaði vel úr þeim. Snjallasta útspil pabba var án efa að krækja í móður mína. Pabbi kenndi mér vinnu- og ráðdeildarsemi og að standa á eigin fótum. Hann tók veikindum og fötlun undir það síðasta af æðruleysi og með bros á vör. Hann var þá þakklátur fyrir allan stuðning en einnig hefur hann getað glaðst yfir lífi sínu.
Banalegan var stutt og þjáningalaus. Sólarhring fyrir andlátið tók hann við einni könnu af vatni. Ég setti heyrnartæki í vinstra eyra hans og mitt og píanókonsert Mozarts no. 21 hljómaði. Það færðist bros yfir andlitið og hann sofnaði. Ég læt hugann reika um líf hans og okkar. Tárin sem ég felli eru fyllt gleði og þakklæti.
Pálmi V. Jónsson.
--------------------------------------------------
Elsku pabbi minn. Það var falleg stundin þegar þú kvaddir þetta líf. Þú hélst fast í litla hönd mömmu eins og þú hafðir svo oft gert í gegnum lífið. Daginn fyrir andlátið voru 65 ár frá því að þið sátuð á litlum rauðum plusssófa í Þingholtunum og dróguð hring á fingur. Mamma og pabbi stofnuðu heimili og börnin urðu tvö. Lífsbaráttan snerist um að hlúa að litlu fjölskyldunni og það var gert af alúð.
Efnin voru ekki mikil og alltaf var farið vel með. Mér er minnisstætt atvik úr bernskunni þar sem ég hafði séð fallega hvíta kápu í búðarglugga sem mig langaði óskaplega til að eignast og sagði frá því heima. Pabbi brá sér frá, setti peninga í lófann minn og sagði: „Viltu ekki bara bregða þér í bæinn og kaupa kápuna sem þig langar svona mikið í.“ Mér fannst ég eiga besta pabba í heimi. Margar fleiri eru minningarnar um traustan og góðan föður. Hann gerði kröfur til sjálfs sín og það voru ósögð lög á heimilinu að við börnin gerðum okkar besta í lífinu, bærum virðingu fyrir sjálfum okkur og öðrum og værum foreldrum okkar og heimili til sóma.
Pabbi var náttúruunnandi, gekk mikið, hjólaði og synti reglulega. Ponni litli hundurinn þeirra mömmu sem þau áttu í tæp 17 ár naut góðs af því. Margir voru göngutúrarnir og hægt var að stilla klukku eftir þeim félögum. Pabbi naut góðs af hollum lífsstíl og mataræði. Hann vantaði aðeins fjóra mánuði í 100 árin. Samt var pabbi einnig mikill matmaður og naut þess að fá sér pönnukökur og góða tertusneið ef tilefni var til. Síðustu tvö æviárin naut pabbi þjónustu yndislegs starfsfólks Grundar og eru öllu því góða fólki færðar kærar þakkir fyrir umhyggju sem það sýndi pabba og fjölskyldunni.
Pabbi og mamma höfðu mjög gaman af að ferðast þó að þau væru endranær heimakær. Pabbi hafði einnig ferðast mikið sem ungur maður þegar ferðalög til erlendra landa voru ekki eins algeng og nú. Naut hann þess mjög og rifjaði oft upp minningar frá þessum ferðalögum. Ein ferð til London varð að vendipunkti í lífi pabba.
Þá kynntist hann mömmu. Varð það heillasporið hans stóra. Lífsstarfið varð barnakennsla, lengst af við Melaskólann í Reykjavík en hugur hans stefndi til frekara náms í Bandaríkjunum í sálfræði en síðari heimsstyrjöldin kom í veg fyrir að sá draumur hans rættist. Nú er pabbi lagður af stað í sína hinstu för og komið að kveðjustund. Vil ég þakka þér, elsku pabbi minn, fyrir það veganesti sem þú gafst mér og fyrir hlýju höndina þína sem leiddi litla stúlku fyrstu sporin út í lífið og fyrir fallega brosið þitt. Tárin mín eru perlurnar þínar, elsku pabbi.
Þín dóttir, Jóna Karen.
-----------------------------------------------
Ég kynntist Jóni tengdaföður mínum þegar hann hafði lokið ævistarfi sínu sem kennari lengst af í Melaskólanum. Kynni okkar þróuðust fljótlega í vináttu sem ekki brást þrátt fyrir að við værum um margt ólíkir. Jón missti föður sinn ungur, þurfti að sjá fyrir sér og kom sér til mennta. Þetta setti mark sitt á Jón. Hann fór vel með, var nægjusamur, gat verið örlátur, en vildi alltaf geta staðið við sitt. Þannig vildi hann tryggja framtíð þeirra Lovísu og barna sinna.
Við ræddum of sjaldan um hans fyrra lífshlaup, en smáinnsýn fékk ég í líf vegagerðarmannsins á Holtavörðuheiði, ferðalög og frímerkjasöfnun. Seinna komst ég að því að hann hefði átt vísa skólavist í Columbia-háskólanum í New York en heimsstyrjöld hindraði það. Útþráin var mikil og strax í stríðslok fékk hann far með óeinangraðri herflugvél í eftirminnilegri flugferð til Noregs en þá tók við langt ferðalag með lestum niður til Ítalíu og síðan heim um Danmörku eftir dvöl þar.
Árið 1949 fór hann í afdrifaríka för til Englands á heimsþing esperanto í London. Í Oxfordstræti var hann kynntur fyrir ungri konu, Lovísu Bergþórsdóttur, sem einnig sótti ráðstefnuna eins og hann. Þau endurnýjuðu kynnin er heim var komið og kvöddust ekki fyrr en á fögrum júnídegi 65 árum síðar að viðstöddum börnum, tengdabörnum og barnabörnum.
Allan þann tíma sem ég þekkti Jón var hann mjög passasamur á alla hreyfingu, fór í gönguferðir, á hjóli og stundaði sund langt fram á tíræðisaldur. Eftir að við komum heim frá Noregi fyrir aldarfjórðungi var algengt að hann liti við í Frostaskjólinu í morgunkaffi en alltaf stutta stund í einu – hafði þá farið með Ponna í gönguferð og hjólað út í Nauthólsvík og var oft á leið á bókasafnið. Einstakt vináttusamband hundsins Ponna og Jóns er ógleymanlegt þeim sem því kynntust og myndin er enn afar sterk, þrátt fyrir að tæpir tveir áratugir séu frá því að Ponni kvaddi.
Jón var með afbrigðum heimakær maður þann tíma sem ég þekkti hann og þar fannst mér að fötlun vegna vaxandi heyrnartaps hafi ráðið miklu og háð honum í öllu félagslífi og samskiptum.
Gjarnan þegar ég kom á Tjarnarstíginn sat hann í stólnum sínum í stofunni með nýjustu bókina frá bókasafninu og klassíska tónlist í eyrum. Heyrnartapið gerði honum sífellt erfiðara fyrir en hann gat alltaf lesið.
Þrátt fyrir þessa fötlun og að mörgu leyti lokuðu veröld sem hann fann fyrir á seinni árunum var Jón mjög jákvæður maður og mjög þakklátur fyrir allt sem fyrir hann var gert. Eftir að ljóst var að hann gæti ekki lengur verið heima á Tjarnarstíg fyrir rúmum tveimur árum og hann flutti á sjúkradeild á Grund tók hann sköpum sínum af æðruleysi og þar kvaddi hann. Á kveðjustund er mér efst í huga sú umhyggja og áhugi, sem þau Jón og Lovísa hafa alltaf sýnt öllu sem snertir okkur Karen og börnin okkar.
Guð blessi minningu Jóns Pálma Þorsteinssonar.
Ólafur Kjartansson.
----------------------------------------------
(Jóhannes úr Kötlum)
Það er undarleg tilfinning sem grípur mann að vera í fjarlægu landi þegar elsku afi minn veikist og tekur sín síðustu andartök. Mikið vildi ég óska þess að hafa getað verið hjá honum eins og hann hefur verið með mér á öllum stærstu stundum í mínu lífi. Minningarnar streyma fram ásamt gleði og þakklæti fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman, gönguferðir upp í „lautina okkar“ í Esjunni með ömmu Lollu og Ponna, ís- og frímerkjabíltúra og kennslustundir í skák þar sem einnig var rætt um allt milli himins og jarðar.
Afi var hörkuduglegur en hæglátur maður sem naut þess að lesa, hlusta á klassíska tónlist, synda og fara í göngu- og hjólaferðir. Ég veit ekki hversu marga morgna ég vaknaði og fann afa í morgunkaffi í eldhúsinu hjá mömmu. Hann var þá búinn að fara í sund og hjóla Reykjavík á enda – og ég enn í náttfötunum.
Fjölskyldan okkar er ekki stór en samheldin er hún. Traustið sem ríkir á milli okkar er arfleifð ykkar ömmu Lollu sem innrættuð okkur hin góðu gildi um fjölskyldu, vináttu og vinnusemi. Ég kveð þig, elsku afi minn, með innilegu þakklæti fyrir þær stundir sem við áttum saman. Ég sé þig í anda í stólnum þínum á Tjarnarstígnum, með bók í hendi og vinkandi mér bless með bros á vör. Hvíl í friði elsku afi minn.
Þitt barnabarn, Lovísa Ólafsdóttir
--------------------------------------------------
Jón Þorsteinsson kennari á Siglufirði - Barnaskóla -Siglufjarðar 1944-1951 -Ljósmynd Kristfinnur