Jón Þorkelsson skipstjóri

Morgunblaðið - 21. mars 1978

Jón Þorkelsson skipstjóri.  Fæddur 10. mars 1896. Dáinn 11. mars 1978

Hvernig sem á því stendur, hefur íslenski stofninn tekið fjörkipp um og fyrir síðustu aldamót, slíkur var og er hugur og lífsþróttur margra þeirra, sem þá fæddust.
Eitt ljósasta dæmið, sem ég þekki, er tengdafaðir minn, sem lést á Hrafnistu 11. mars s.l.

Jón fæddist norður í Fljótum 10. mars 1896, en fluttist barn að aldri með foreldrum sínum, Þorkeli Sigurðssyni og Önnu Sigríði Jónsdóttur, á nýbýlið Landamót, austan fjarðar í Siglufirði, í nágrenni við norsku síldarbræðsluna, sem seinna sópaðist á sjó út í snjóflóði.

Þarna ólst Jón upp í stórum systkingahópi og öll urðu þau að taka til hendi, strax og þau gátu, við að draga björg í bú. Skólagangan var ekki löng, enda þurftu börnin að ganga fyrir fjarðarbotninn í skólann á Siglufirði. Anna hélt þó bókum og lestri að börnum sínum, glæddi og örvaði löngun þeirra til náms eftir föngum, líkt og margar mæður gerðu og gera enn.

Árangurinn varð sá, að Landamóta-systkinin urðu mannkostafólk, þótt sjórinn og hinn hvíti dauði tækju sinn toll. Þetta er ekkert einstök saga, svona var líf íslenska almúgafólksins á þessum tíma, litlar frístundir, fá færi á námi, vinna og aftur vinna. Halda mætti, að upp úr þessum jarðvegi gætu ekki sprottið annað en jarðlægar seigkræklur, en svo var þó alls ekki og fáa veit ég afsanna það betur en Jón.

Jón Þorkelsson - Ljósmynd Kristfinnur

Jón Þorkelsson - Ljósmynd Kristfinnur

Honum tókst að varðveita safaríka kímnigáfu og létta lund, hvað sem á dundi. Félagi var hann ágætur, hafði yndi af sögum og ljóðum, sagði sjálfur fágæta vel frá og varð allt að efni. Smávægilegustu hversdagsatburðir urðu kostulegir í meðförum hans. Hann var því kunningjasæll, enda hafði hann einstakt lag á að umgangast ólíkustu manngerðir þannig, að öllum var jafn vel til hans.

Aldrei heyrði ég hann hallmæla nokkrum manni, heldur fann hann góða kosti jafnvel þar sem aðrir eygðu enga. Þegar verst lét, þagði hann og þá var það svart. Jón hafði afar ríka ævintýraþrá og setti hvenær sem færi gafst ofurlítinn ævintýrablæ á tilveruna. Þessi þrá rak hann ungan af stað út í heim í byrjun fyrra stríðs. Stundaði hann aðallega sjómennsku í Noregi og kom ekki til Íslands aftur fyrr en hann hafði fengið sig fullsaddan af heimatrúboðsmönnum þar.

Þá kom hann góðu heilli heim og tók til við að miðla af lífsgleði sinni til samferðamanna hér heima. Fór hann þá í Stýrimannaskólann og lauk þaðan prófi vorið 1922. Rúmum fjórum árum síðar, í desember 1926, kvæntist hann eftirlifandi konu sinni, Sigurlaugu Davíðsdóttur frá Hvammstanga. Bjuggu þau í Siglufirði í 31 ár, en eftir það í Reykjavík. Þau eignuðust fimm dætur, barnabörnin eru fjórtán og barnabarnabörnin þrjú.

Frá því að Jón lauk skipstjóraprófi og fram undir 1940, var hann ýmist við veiðar eða vinnslu á fiski, en þá gerðist hann starfsmaður Síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði. Þar varð hann verkstjóri 1942 og starfaði þar í rúm 20 ár. Margan veturinn fór hann, eins og fleiri góðir Siglfirðingar, suður á vertíð, en seinni árin vann hann jafnframt hjá Síldarmati ríkisins. Eftir 1963 var hann eingöngu hjá Síldarmatinu og starfaði þar að mati og stjórn og kenndi nýjum  matsmönnum, meðan heilsan entist eða þar til hann var fullra 78 ára.

Þegar ég kynntist Jóni var hann kominn á sextugsaldur og kannski voru mestu ærslin af honum farin. Sögurnar af skemmtilegum uppátækjum hans voru óteljandi, en mér kom hann fyrir sjónir sem greindur og vandaður karl, sem gekk með alúð að því, sem hann var að gera hverju sinni, bæði í starfi og leik. Hann var lagnastur manna, sem ég hefi kynnst, að halda góðum anda í kringum sig.

Viðbrögð hans við fýlu og drunga voru næstum ósjálfráð. Hann var óðara farinn að segja frá einhverju broslegu, næmur á þau ráð, er dugðu til þess að létta lund. Þetta glaðværðartrúboð tók oft tíma og aldrei varð hann ríkur af þeirri iðju, en gullkistu gleðinnar þraut aldrei og úr henni jós hann ómælt til annarra. Það var hans auður. Víst er að Jón er farinn og ég veit að margir sakna hans, en oft sagði Jón, að ekki ætti að víla orðinn hlut, heldur horfa fram og reyna sitt besta til þess að bæta lífið og gera það umfram allt skemmtilegra.

Þess vegna þakka ég ánægjuríka samfylgd og á kveðjustundinni er ég þess fullviss, að gott eiga þeir, sem fengið hafa hann í sinn hóp til þess að hýrga tilveruna hinum megin. Þorsteinn Egilsson. Hann vær fæddur að Húnsstöðum í Stíflu í Fljótum í Skagafjarðarsýslu. Foreldrar hans voru hjónin Anna Sigríðar Jónsdóttir bónda í Móskógum Jónssonar og Þorkell Sigurðssonar bóndi og síðar verkamaður í Siglufirði. Var Jón sá fjórði í röð ellefu systkina og má nærri geta, að oft hafi verið þrengra í búi hjá svona stórri fjölskyldu í harðbýli sveit heldur en foreldrar höfðu óskað sér.

En með dugnaði og ósérplægni foreldra þroskuðust börn þeirra eðlilega og döfnuðu vel. Fljótabændur stunduðu sjósókn jafnhliða búskapnum til búdrýginda og til þess að létta framfærsluna og voru viðurkenndir og eftirsóttir sjómenn, og meðal þeirra var Þorkell bóndi á Húnsstöðum. Kom því öll umsýsla bús og barna meira á herðar húsfreyju þann tíma, sem bóndi var á sjónum, en hún reis undir þessu með reisn og dugnaði eins og svo margar stallsystur hennar á undanförnum öldum.

Fjörmikill og frískur barnahópur þarf athafnasvæði og þörf til að fást við meira en leiki þegar vaxið er úr grasi, enda voru systkinin öll snemma til gagns við bú foreldra sinna strax og aldur leyfði. Fregnir bárust vestur yfir Siglufjarðarskarð með sjómönnum, er þeir komu heim að lokinni vertíð sem og með öðrum hætti, að Siglufjörður væri „uppgangspláss".

Síld væri farin að veiðast þar úti fyrir og höfðu Norðmenn komið með „lykilinn" að síldarmiðunum um og upp úr aldamótunum og valið Siglufjörð sem aðalathafnastað og mun þar einkum hafa ráðið úrslitum nálægð staðarins við síldarmiðin, hin landfræðilegaIega Siglufjarðar og hin sjálfgerða ágæta höfn og einnig það, að forráðamenn staðarins voru alls ódeigir við að veita þessum nýju gestum nauðsynlega aðstöðu og athafnasvæði í iandi.

Þeir sáu sem var, að hér opnuðust nýir atvinnumöguleikar, tækifæri til framkvæmda og ýmissa gagnlegra athafna samfara þessu bárust þeim upp í hendur, er ekki höfðu áður boðist þessu norðlæga byggðarlagi. Þetta var upphafið að hinu snögga vaxtarskeiði Siglufjarðar. Norðmenn voru aðalatvinnurekendurnir, einkum árið 1904-1908, og frá þeim kom aðalfjármagnið.

Íbúatala Siglufjarðar óx ört á þessum og næstu árum, svo sem sjá má af því að um aldamótin var íbúatala Hvanneyrarhrepps, eins og byggðarlagið hét þá, 408 sálir en 15 árum seinna voru íbúarnir orðnir 961. Hljóp því snöggur vaxtarkippur í þessa fámennu og afskekktu fjarðarbyggð og breytti henni úr fátæku hreppsfélagi í þróttmikið vaxandi kauptún, sem laðaði til sín nýja íbúa. Hjónin á Húnsstöðum flytja sig búferlum til Siglufjarðar þar sem þau eygja nýja möguleika til bættra lífskjara fyrir sig og sinn stóra barnahóp og er þetta skeður er Jón 9 ára að aldri.

Ekki er mér kunnugt hvar þau hjón bjuggu með sína stóru fjölskyldu fyrstu árin, sem þau dvöldu í Siglufirði, en 1912 reisir Þorkell timburhús á Skútuskriðu suðaustan fjarðarins og nefndi Landamót. Var fjölskyldan síðan kennd við Landamót. Öll tók fjölskyldan þátt í vexti og þróun Siglufjarðar á þessum árum og lagði sinn skerf af mörkum í athafnasömu sumarstarfi og gagnsamri iðju að vetri til undirbúnings áframhaldandi þróun staðarins og þroska sjálfs sín. í byrjun fyrri heimsstyrjaldar hleypti Jón heimdraganum og sigldi til Noregs, eins og siður var margra ungra manna norðanlands í þann tíð.

Dvaldi hann þar við sjómennsku, síldveiðar og fiski, um árabil og hafði mikil not og gagn af þessari dvöl meðal Norðmanna og vitnaði oft til þeirra góðu minninga, sem hann átti þaðan og þann þroska og lærdóm sem hann aflaði sér með dvöl sinni þar. Eftir heimkomuna frá Noregi aflaði Jón sér skipstjórnarréttinda árið 1922 og stundaði síðan sjómennsku, skipstjórn og útgerð ásamt með bræðrum sínum til ársins 1942, en þá gerðist hann verkstjóri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins.

Því starfi gegndi hann óslitið til haustsins 1956 er hann flutti til Reykjavíkur og átti þar heimili æ síðan. Verkstjórastarfi gegndi hann þó áfram hjá Síldvarverksmiðjum ríkisins yfir síldveiðitímann á árunum 1957 til 1962, en hóf á sama tíma störf hjá Síldarmati ríkisins um haust og vetur við i síldarmat og kenndi einnig meðferð síldar og síldarmat á vegum Síldarútvegsnefndar á námskeiðum, sem nefndin gekkst fyrir. Var hann vel fær í þessum störfum og var oft settur síldarmatsstjóri í forföllum þáverandi síldarmatsstjóra, og oft staðgengill hans í erilsömu og vanþakklátu starfi og vandmeðförnu.

Jón kvæntist árið 1926 Sigurlaugu Davíðsdóttur frá Hvammstanga og reistu þau bú í Siglufirði. Sigurlaug, sem er hin mesta myndar- og gerðarkona, lifir mann sinn. Þau hjón eignuðust fimm dætur, sem allar eru uppkomnar og hafa stofnað sín eigin heimili. Jón andaðist eftir nokkurra daga legu á sjúkradeild Hrafnistu, þar sem hann naut hinnar bestu aðhlynningar svo og á þeim öðrum stöðum, sem hann varð að dvelja á eftir þungt sjúkdómsáfall, er hrjáði hann nokkur síðustu árin.

Samstarfsmenn mínir um árabil hjá Síldarverksmiðjum ríkisins eru nú margir horfnir sjónum og við aðra strjálast fundir og fyrnast því hin gömlu kynni, en gleymast ei. Einn þeirra ágætu manna, verkstjórinn á löndunarbryggjunni, Jón frá Landamótum er nú hniginn í valinn og er útför hans gerð í dag, 21. mars. Með honum er hniginn einn af hinum mörgu í Siglufirði, sem lögðu hönd á plóginn á fyrstu árum staðarins, meðan hann var að eflast og þróast úr fátæku hreppsfélagi í vaxandi kauptún og síðan áframhaldandi undirstöðu byggingu framtíðar hans.

Jón var meðalmaður á hæð, sívalur, kvikur í spori og fjaðurmögnuð hver hreyfing. Snar í  snúningum og glíminn vel og var fimur á allri ferð sinni og léttstígur. Lundin létt og kát og glaðlegur var hann í allri umgengni og kurteis. Dökkur var hann yfirlitum, en gránaði hin síðari árin, sem ég var honum samtíða nyrðra. Augun hvöss og fjörleg. Viðræðugóður var hann og f lágu málefni mjög ljós fyrir honum. Kryddaði hann oft skoðanir sínar með dæmum af reynslu sinni bæði utanlands og innan.

Glöggur var hann á menn og málefni og gerði sér engan mannamun. Græskulaus fyndni hans meiddi engan og hin létta lund hans glæddi oft gráan hversdagsleikann nýju lífi og bjartara. Áhugi í starfi og drenglund hans gerðu hann að góðum samstarfsmanni, sem ætíð var reiðubúinn að' leysa viðfangsefni líðandi stundar og finna viðhlítandi lausn. Jón var vinur vina sinna og munu margir hafa sannreynt að þar áttu þeir hauk í horni. Áhugi Jóns í umræðum um menn og málefni var mikill og kunni hann vel að haga orðum í sókn og vörn og kryddaði oft álit sitt og skoðanir léttri kímni og gamanyrðum, sem urpu nýju ljósi á umræðuefnið."

Aldrei var hann hrjúfur í orðum, enda manna ljúfastur í lund og . umgengnisgóður. En hann tók upp vörn í máli ef honum fannst ómaklega að gert og enda maður skapfastur og ákveðinn í skoðunum og lét ekki hlut sinn, er hann vissi sig og trúði, að hann færi með rétt mál. Jón var dagfarsprúður drengskaparmaður og var góður að honum nauturinn. Að leiðarlokum þakka ég honum samfylgdina, samstarfið og kynninguna, sem varð að vináttu. Gamanmál á vörum, hýrt viðmót í allri umgengni, falslaust samstarf og glettni í svörum öll árin, sem við áttum saman um ævina. Fjölskyldu hans sendi ég kveðjur samúðar og hluttekningar og bið þess að minningar um mætan, góðviljaðan drengskapar mann ylji þeim og veiti þeim styrk á ófarinni ævibraut.

Baldur Eiríksson